27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2971)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég skal aðeins gera örstutta athugasemd.

Hv. 4. þm. Austf. (LJós) ber það á mig, að ég fari með rangt mál um það, hvernig umræddum sprengingum lauk. Ég hef notað matartímann til að fletta því upp, og er rétt hjá honum, að það vora viðræður og gagnkvæmar yfirlýsingar allt vorið og sumarið 1958 milli Bulganins, Eisenhowers og annarra, en Bandaríkjamenn sprengdu síðustu sprengju sína í október. 29. okt. byrjaði í Genf fundur beggja aðila um þessi mál, 1. nóv. og 3. nóv. sprengdu Rússar stórar vetnissprengjur. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þetta er rétt, flett upp eftir prentuðum heimildum, svo að það fer ekki milli mála. (Gripið fram í: Það er ekki allt satt, sem er á prenti.) Ætli það sé ekki á prenti, sem hv. 4. þm. Austf. hefur fundið þetta eða hringdi hann upp í Túngötu til að spyrja um það?

Ég vil aðeins segja þetta að lokum: Úr því að form. þingflokks Alþb. er búinn að lýsa svo afdráttarlaust yfir, að hann sé á móti kjarnorkusprengingum eins og þeim, sem Rússar hafa gert undanfarið, vill hann þá gefa okkur yfirlýsingu um, að hann muni í kvöld senda skeyti til fulltrúa Sósfl. á flokksþingi kommúnista í Moskvu og skýra þeim frá þeirri afstöðu, sem formaðurinn hefur tekið hér á Alþ.? Vill hann sem form. þingflokks Alþb. fela þessum fulltrúum sínum að lýsa yfir við 22. þing rússneska kommúnistaflokksins í Moskvu, hver þessi afstaða sé? Megum við sjá á þennan einfalda hátt, hvort honum er alvara eða ekki? Vill hann fela þeim að lýsa yfir þessari afstöðu? Þar mundi reyna á, hvort honum er alvara eða ekki.

Ég fæ ekki skilið hin löngu ræðuhöld hv. þm., því að mest af því, sem hann hefur sagt, felst í þeirri till., sem við höfum flutt, stendur skýrt í seinni hluta hennar, að við mótmælum og heimtum, að öll ríki geri samkomulag um að hætta öllum kjarnorkusprengingum. Það er ekki hægt á sterkari hátt að heimta, að öll ríki hætti sprengingum. Og það gildir um alla jafnt. En jafnskjótt og hv. þm. lýsir yfir, að hann vilji samþykkja fyrsta hlutann, ef honum sé breytt, þá kemur þetta: En er nokkur nauðsyn, það voru hans orð, að nefna Sovétríkin? Auðvitað vil ég gera það, en er nokkur nauðsyn? (Gripið fram í.) Hann kemur alltaf að því aftur og aftur, að hann er að reyna að fara í kringum málið, að fá formbreytingar, svo að svipurinn á þessu verði annar. En tilefnið til fyrri hlutans liggur fyrir, eins og er margyfirlýst. Það tilefni er slíkt, að þingmenn geta ekki gengið fram hjá því. Seinni hlutinn er hin almenna yfirlýsing um okkar stefnu, sem gildir um allar þjóðir jafnt. Það, sem hv. þm. er að flytja, eru ekkert nema útúrsnúningar. Ef hann hefur þá stefnu, sem hann segist hafa, er enginn vandi fyrir hann að greiða till. atkv. eins og hún er og vera ekki með neina vafninga.