27.10.1961
Sameinað þing: 10. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (2972)

48. mál, mótmæli gegn risasprengju Sovétríkjanna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ekki fæ ég nú almennilega skilið það, hvers vegna jafnmikill stillingarmaður og hv. 5. þm. Vesturl. kemst í ofsa og æsing yfir því, að hann er um það spurður, hvort hann gæti ekki hugsað sér þá breytingu á hans tillögu, að hún lýsti allsherjarafstöðu Alþingis gegn öllum kjarnorkusprengjum og sprengingum, hvar sem þær væru gerðar. Þetta orkar á hann eins og kjarnorkusprengja og hann splundrast bara. Það er alveg ástæðulaust. Það er fyllilega frambærilegt, að menn séu um það spurðir, sem eru miklir áhugamenn um það að binda endi á ógnþrungnar kjarnorkusprengingar Sovétríkjanna, hvort þeir gætu ekki hugsað sér að standa að viðbótartillögu um það, að jafnframt því, sem kjarnorkusprengingar Sovétríkjanna væru skýrum orðum fordæmdar, væri það einnig tekið fram, að Alþingi Íslendinga hefði sömu afstöðu gegn hvers konar sprengingum sama eðlis.

Hv. frsm., 2. flm. till., segir, að það sé alveg vandalaust fyrir menn að samþykkja þessa till. óbreytta. Það er nú litið lýðræði í því. Menn eiga rétt á því að gera grein fyrir sínum skoðunum og túlka blæbrigði þeirra í tillöguformi, og það höfum við Alþb.- menn ákveðið að gera. Við höfum báðir, hv. 4. þm. Austf. og ég, í dag gert grein fyrir okkar afstöðu og boðað, að við mundum flytja brtt. við þá till., sem hér er til umr., en fallast á hana að meginstofni. Í henni eru, eins og ég sagði í dag, þrjú efnisatriði, en við mundum óska að bæta tveimur efnisatriðum við, svo að afstaða Alþingis væri ekki með því brennimarki, að við værum að fylkja okkur í hóp annarrar fylkingar kjarnorkuveldanna, heldur værum að taka allsherjarafstöðu gegn öllum tilraunum með kjarnorkusprengjur. Þessi brtt.. sem er flutt af hv. 4. þm. Austf. og mér, er á þá leið, að upphaf till. orðist aftur að orðunum „að hætta nú þegar,“ — þingmenn hafa till. fyrir framan sig, — að upphafsorð till. aftur að orðunum „að hætta nú þegar“ verði svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að mótmæla eindregið öllum kjarnorkusprengingum, þar með talið sprengingu Sovétríkjanna á risakjarnorkusprengju, og skorar á kjarnorkuveldin“ — og síðan till. óbreytt út.

Þá leggjum við enn fremur til, og verður það b-liður okkar till., að aftan við till. bætist: „Alþingi lýsir enn fremur yfir því, að það muni aldrei leyfa staðsetningu neins konar kjarnorkuvopna á Íslandi né að slíkum vopnum verði nokkurn tíma beitt frá stöðvum hér á landi:

Þriðji liður tillögu okkar er um fyrirsögnina, að hún verði á þessa leið: „Till. til þál. um mótmæli gegn kjarnorkusprengingum Sovétríkjanna og annarra kjarnorkuvelda:

Ef það mót von minni stendur upp á stjórnarflokkana að samþykkja þessar viðbætur og breytingar á tillögunni, þá er hér um að ræða einhverja agenta aðra en fyrir heimskommúnismann.