15.12.1961
Sameinað þing: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (2996)

117. mál, frestun á fundum Alþingis

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í ræðu þeirri, sem hæstv. fjmrh. flutti áðan, sagði hann, að 3. umr. um frv. til fjárlaga fyrir 1962 ætti að geta farið fram hér í Sþ. næsta mánudag. Ég vil vekja athygli á í þessu sambandi, að þm. hafa enn ekki fengið fjárlagafrv. eins og það er nú eftir 2. umr., en ég tel ekki fært að hefja 3. umr. um frv., án þess að þm. hafi átt þess kost að sjá, hvernig frv. er eftir 2. umr., og þeim hafi gefizt nokkur tími til þess að athuga það og til þess, ef þeim sýnist svo, að gera brtt., en þær er ekki hægt að gera nema hafa frv. í þeirri mynd, sem það er eftir 2. umr. Ég vildi því spyrja í tilefni af þessum orðum ráðherrans, hvort þess væri von, að frv. yrði útbýtt nú í dag eða á morgun, á laugardag, ef haldinn yrði fundur til þess, en síðar má það ekki vera, að við fáum frv., til þess að hægt sé að hafa 3. umr. um það á mánudag.