06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

94. mál, átta stunda vinnudagur verkafólks

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt þremur þm. Alþb. till. til þál. þess efnis, að Alþingi kjósi 6 manna mþn. til þess að athuga, á hvern hátt verði með mestum árangri unnið að því að koma á átta stunda vinnudegi verkafólks. Skal nefndin, ef kosin verður, framkvæma athugun á lengd vinnutíma verkafólks, eins og hann er nú, og á áhrifum hans á heilsufar, vinnuþrek og afköst og á hag atvinnurekstrar og gera tillögur á grundvelli þessara athugana: Í fyrsta lagi um lögfestingu 8 stunda vinnudags í þeim starfsgreinum, sem fært þykir, í öðru lagi um almennar breytingar á gildandi lagaákvæðum um hvíldartíma verkafólks og í þriðja lagi leiðbeinandi tillögur um hugsanlegar breytingar á vinnutilhögun og rekstrarfyrirkomulagi, sem líklegar þættu og æskilegar sem samningsgrundvöllur milli stéttarfélaga og atvinnurekenda um styttingu vinnudags án skerðingar á heildarlaunum.

Með þessari till. er gripið á margþættu máli, sem sjálfsagt geta verið skiptar skoðanir um í ýmsum atriðum. En þó hygg ég, að allir ættu að geta orðið sammála um það, að hóflegur vinnudagur sé æskilegur, a.m.k. ef finnanlegar eru leiðir til þess að koma honum á, án þess að þjóðfélagið í heild biði efnahagslegan skaða af eða án þess að atvinnurekstur lamist að nokkru og án þess að laun þau, sem verkafólk ber úr býtum, þurfi að skerðast. í öðru lagi ættu allir að geta orðið sammála um það, að nokkrar skyldur hvíli á löggjafarvaldinu í því efni að tryggja þeim, sem selja vinnu sína, visst lágmark hvíldar og hindra ofþjökun þeirra, enda hafa þær skyldur fyrir löngu verið viðurkenndar í raun, svo sem með vökulögunum, lögum um lágmarkshvíldartíma verkamanna og með orlofslöggjöfinni, og fleira mætti þar raunar tilgreina.

till., sem hér er flutt, byggist fyrst og fremst á þessum tveim mikilsverðu málsatriðum. Það er skoðun okkar flm., að brýn nauðsyn sé á því orðin að athuga svo vel sem verða má, hvort sá langi vinnudagur, sem íslenzkt verkafólk býr nú almennt við, sé ekki a.m.k. oft og tíðum skaðlegur bæði atvinnulífinu og þjóðfélaginu í heild í efnahagslegu tilliti, jafnframt því sem hann að sjálfsögðu bæði skerðir og skemmir möguleika mikils hluta þjóðarinnar til menningarlegra lifnaðarhátta. Ef þær athuganir, sem till. okkar gerir ráð fyrir, leiddu til slíkrar sameiginlegrar niðurstöðu, virðist einsætt, að löggjafarvaldinu beri að fjalla um þessi mál, og kæmi þá hvort tveggja til greina: bein afskipti í formi lagasetningar og einnig aðstoð við hagsmunasamtök verkafólks og atvinnurekenda við að leysa þann vanda, sem um er að ræða.

Í till. okkar er miðað við það sem takmark að koma á 8 stunda vinnudegi verkafólks, og verður ekki sagt, að það mark sé hærra en efni standa til, þegar litið er til samanburðar við aðrar þjóðir. Það mun sannast mála, að 8 stunda vinnudagur er nú viðurkenndur í öllum menningarlöndum sem hámark hins hæfilega, og víða er almennur vinnudagur mun styttri og þá sérstaklega í hinum þróaðri iðnaðarlöndum, bæði í austri og vestri. Verkalýðshreyfing allra landa stefnir nú að því með baráttu sinni og telur það eitt af sínum höfuðverkefnum að fá vinnudag styttan enn meira, og mjög víða t.d. í VesturEvrópu er 40—44 stunda vinnuvika orðin að dagskrár- og baráttumáli vinnustéttanna, þar sem hún hefur ekki þegar komizt á. Í sósíalísku löndunum er markvisst stefnt að styttingu vinnudags og þjóðhagsáætlanir byggðar á öruggri þróun í þá átt. En meðan vaxandi tækni og þar af leiðandi vaxandi framleiðslugeta hefur eflt verkalýðshreyfingu viðast um heim til þess að gera 8 stundir að staðreynd og sækja fram til nýrra markmiða í þeim efnum, hefur farið svo, að hér á landi hefur siður en svo horft til réttrar áttar nú síðustu áratugina og þó sjaldan verr en nú. 8 stunda vinnudagur er að vísu viðurkenndur í orði, þannig að almennir kjarasamningar stéttarfélaga eru miðaðir við hann og í einstöku starfsgreinum jafnvel við styttri vinnudag. En þetta er aðeins í orði, a.m.k. þegar eftirspurn er svo mikil eftir vinnuafli, að ekki er um verulegt atvinnuleysi að ræða.

Allt bendir til þess, m.a. skattaframtöl, að á síðustu árum sé meðalvinnutími verkamanna, iðnlærðra sem óiðnlærðra, um eða yfir 10 eða 11 stundir á dag að meðaltali. Og þegar þess er svo gætt, að allvíða er ekki um mikla yfirvinnu að ræða og jafnvel árstíðabundið atvinnuleysi sums staðar, þá sést glöggt, að hjá mjög mörgum er vinnudagurinn svo langur, að ekkert hóf er á og að ekki er sambærilegt við vinnuhætti meðal neinna annarra menningarþjóða. Fyrir verkafólkið, sem býr við þennan langa vinnudag, verða afleiðingar hans margvíslegar og allar til tjóns að mínu viti, — og til slíks tjóns, sem verður ekki bætt með neinum öðrum hætti en með því að skara fyrir rætur meinsins. Að sjálfsögðu eru það tekjurnar af yfirvinnunni, sem freista verkamanna til þess að láta undan ásókn atvinnurekenda eftir vinnuafli þeirra á eðlilegum hvíldartíma, og fyrir mörgum er þó látlaus yfirvinna hrein nauðung, sem menn verða að sæta, ef þeir eiga að halda atvinnu sinni. Allir verða að fylgjast með, hvað sem líður aldri, heilsu og líkamsþreki. Hinn fjárhagslegi hagnaður fyrir verkafólkið er þó vafalaust að langmestu leyti blekking, ef allt er tekið með í reikninginn, og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi er auðsætt, að mikil yfirvinna, sem atvinnurekendur greiða hærra verð fyrir en aðra vinnu, rýrir möguleika þeirra til þess að greiða lífvænleg laun fyrir hóflegan vinnutíma og skapar þannig aukna tregðu atvinnurekenda til þess að mæta kröfum. í þá átt. Afköst fara að sjálfsögðu minnkandi miðað við vinnutímaeiningu við lengri vinnudag, og það verkar enn sem hvatning til þess að halda launum niðri. Miklu algengara er það áreiðanlega en menn almennt gera sér grein fyrir, að menn bíði varanlegt heilsutjón og stytti starfsævi sína stórkostlega með því að ganga fram af sér við vinnu. Einnig þar er því um hreint fjárhagsatriði að ræða, þótt ekki séu tekin til greina þau mannlegu verðmæti, sem fara forgörðum. Það er naumast tilviljun, að meðalaldur dagvinnumanna mun vera styttri en flestra annarra starfsstétta.

En mikilvægari en allt það, sem beint verður til fjár metið, er þó sú staðreynd, að þeir, sem búa við óhóflega langan vinnudag, neyðast til þess að afsala sér eðlilegri og nauðsynlegri þátttöku í menningar- og félagslífi, jafnvel að verulegu leyti eðlilegu fjölskyldulífi. Þeir verða að gefa stritinu einu allt starfsþrek sitt og nær allan sinn tíma, sem þeir þarfnast ekki til svefns, og er þó oft og iðulega einnig á þann tíma gengið, jafnvel mánuðum og árum saman. Þess eru jafnvel dæmi, að börn innan fermingaraldurs eru látin vinna meiri hluta sólarhringsins við erfiðisvinnu samfellt í heilar vertíðir, og má þá nærri fara um þá tillitssemi, sem synd er þeim, sem fullþroska eru, varðandi vinnutímann.

Ég held, að tæpast geti teikið vafi á, að óhæfilega langur vinnudagur sé mönnum jafnháskalegur bæði andlega og líkamlega, vil ég segja, sem hæfileg vinna er hverjum manni uppspretta hreysti og hamingju, ef rétt er á haldið. 11–16 stunda vinnudagur var e.t.v. ill nauðsyn, meðan við urðum að sveitast blóðinu við að erja landið og afla sjávarfanga með litlu fullkomnari tækjum en forfeður okkar höfðu notazt við aftur í aldir, en hann ætti að vera jafnfráleitur á okkar dögum og framleiðslutæki þeirra tíma.

Það kann að vera skoðun einhverra, að efnaleg afkoma þjóðarinnar í heild sé enn mjög háð því, að okkar verkafólk vinni lengri tíma á degi hverjum en starfsbræður þess í öðrum löndum, og ekki verður fyrir það synjað, að í sérstökum tilvikum, svo sem miklum aflahrotum, geti mikil verðmæti verið í húfi, ef ekki er lögð nótt við dag við að bjarga sjávarafla frá skemmdum. En þetta haggar ekki þeirri vissu, að sé langvarandi ofreynsla lögð á menn, lætur vinnuþrekið á sjá. Áhugi og starfsgleði slævist og afköst minnka stórkostlega. Það eru því meira en sterkar líkur fyrir því, að sjaldnast svari heildarafköst og verðmætasköpun til lengdar vinnutímans og reynist jafnvel í heild minni en við hæfilegan vinnudag, þrátt fyrir þær fórnir í mannlegum verðmætum, sem færðar eru, og þær renni því ekki neinum stoðum undir bætta afkomu.

Eins og við flm. vikjum nánar að í grg. með þáltill. okkar, berast því böndin að þeirri niðurstöðu, að hinn langi vinnudagur íslenzks verkafólks sé í raun réttri ekki hagkvæmur atvinnulífi okkar, þegar á allt er litið, og þá ekki heldur þjóðfélaginu í heild sinni og enn sízt verkafólkinu sjálfu. Það virðist því fullkomlega ómaksins vert að kanna það til þeirrar hlítar, sem unnt er, hvort þessir aðilar allir geta ekki fundið sameiginlegan grundvöll til þess að vinna á að úrbótum á því ástandi, sem nú ríkir í þessum efnum og ég tel að sé til stórrar vansæmdar fyrir þjóðina alla, en tillaga okkar gengur einmitt í þá átt. Það getur tæpast verið tilviljum einskær, að t.d. þær þjóðir, sem búa við líkust atvinnuskilyrði og við, ekki síður en aðrar, hafa fyrir löngu bætt sína vinnumenningu í miklu ríkara mæli en við, þótt þær hafi ekki yfirleitt yfir meiri tækni að ráða, og að þar hefur mótazt jafnt hjá atvinnurekendum sem verkafólki fordæming á þeirri lausn til að nýta framleiðslutækin að lengja almennan vinnudag, hvort sem um er að ræða í bráð eða lengd. Við hljótum einnig á næstu tímum að leita til þess annarra og hagkvæmari leiða, ef við kjósum ekki að verða til frambúðar að eins konar heimsviðundri að þessu leyti. Þar hljóta fyrst og fremst að koma til greina baat skipulag vinnubragða og atvinnurekstrar yfirleitt, bæði rekstrarfyrirkomulag og skipulögð nýting þess vinnuafls, sem við höfum yfir að ráða. Því fer að vísu fjarri, að við flm. þessarar till. teljum, að kosning slíkrar nefadar til að framkvæma þær athuganir, sem till. okkar gerir ráð fyrir, og til þess að gera till. til úrbóta, sé einhver allsherjarlausn á því vandamáli, sem hér er um að ræða. En hitt er von okkar, að hún geti orðið til verulegs gagns og stuðlað að því, að hagsmunasamtök verkafólks og atvinnurekenda verði færari eftir en áður til að ná samkomulagi um raunhæfar aðgerðir í þá átt að skapa hér á landi vinnumenningu, sem verði sambærileg við það, sem gerist með öðrum menningarþjóðum.

Ég læt svo að lokum í ljós þá von, að þessi till. hljóti stuðning bæði atvinnurekenda og samtaka verkafólks, ef eftir áliti þeirra yrði leitað, og hljóti skjóta og góða afgreiðslu hér á hv. Alþingi. Ég vil leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.