18.12.1961
Sameinað þing: 30. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (3014)

94. mál, átta stunda vinnudagur verkafólks

Frsm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til athugunar þáltill. um ráðstafanir til að koma á átta stunda vinnudegi verkafólks. Nefndin ræddi till. á tveimur fundum og er sammála um að mæla með samþykkt hennar með lítils háttar orðalagsbreytingum. Meiri hl. n. taldi ekki ástæðu til að vísa till. til umsagnar aðila utanþings, þar sem þeirri nefnd, sem kosin yrði, ef till. verður samþykkt, og tæki við málinu, er samkvæmt henni beinlínis falið að kalla sér til ráðuneytis þá aðila. sem lagt var til í allshn.þáltill. fengju til umsagnar.

Brtt. allshn. um orðalag þáltill. felast í því, að lagt er til, að fyrsta setning tillögugreinarinnar orðist svo:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til að rannsaka, á hvern hátt verði með mestum árangri komið á átta stunda vinnudegi meðal verkafólks, — í stað þess, sem í till. hljóðar þannig: „Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd til að rannsaka, á hvern hátt verði með mestum árangri unnið að því að koma á átta stunda vinnudegi meðal verkafólks:

Hér er því lagt til, að nokkru fastar verði að orði kveðið.

Þá hefur það orðið að samkomulagi í nefndinni, að í stað setningar, sem í till, hljóðar þannig: „Skal nefndin á grundvelli þessara athugana gera tillögur um lögfestingu átta stunda vinnudags sem hámarksvinnutíma í þeim atvinnugreinum, sem fært þykir, og endurskoða gildandi lagaákvæði um lágmarkshvíldartíma verkafólks,“ komi: „Nefndin skal enn fremur gera tillögur um, hvernig löggjafinn geti stuðlað að ákvörðun um eðlilegan hámarksvinnutíma.“

Varðandi orðalag í brtt. nefndarinnar, þar sem getið er um eðlilegan hámarksvinnutíma, er þess að geta, að bæði í fyrirsögn þáltill. og í upphafi tillgr. er hámarksvinnutími verkafólks miðaður við átta stunda vinnudag.

Að öðru leyti en því, sem hér hefur verið rakið, auk breytinga á orðaröð, sem af því leiðir, leggur nefndin til, að till. verði samþ. óbreytt.

Svo ánægjulega hefur farið, að um mál þetta, þ.e.a.s. till, um, að skipuð verði sérstök nefnd til að rannsaka, á hvern hátt verði með beztum árangri komið á átta stunda vinnudegi meðal verkafólks án skerðingar heildarlauna, hefur orðið svo mikill samhugur þm. úr andstæðum flokkum, að fátítt er. Áhugi er fyrir því, að málinu verði hraðað og þáltill. afgr. fyrir þinghlé, svo að nefndin verði sem fyrst skipuð.

Tel ég fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að rekja efni till. eða ástæðurnar, sem eru til flutnings hennar, enda var það ýtarlega gert við 1. umr. Nú er mjög tekið að liða að þinghléi. Mun ég því ekki stuðla að því að vekja umr. um málið, en leyfi mér aðeins að lokum að bera fram þá ósk, að árangur af störfum þeirrar nefndar, sem kosin verður, ef tillagan hlýtur samþykki, megi verða sem mestur verkafólki og þjóðinni allri til hagsbóta og að störf nefndarinnar megi markast af sama samkomulagsvilja og samstarfsvilja, sem einkennt hefur meðferð þessa máls á hv. Alþingi.