22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

61. mál, námskeið til tæknifræðimenntunar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tel till. þessa fjalla um mjög athyglisvert mál og vil hvetja til þess, að nefnd veiti henni sérstaka athygli og afgreiði hana á þessu þingi.

Í þessu sambandi vil ég láta þess getið, að menntmrn. hefur undanfarið, eins og raunar kom fram hjá hv. flm. till., haft tæknimenntunarmálin til sérstakrar athugunar. Það er mjög eindregin skoðun mín, að eitt brýnasta verkefni, sem fyrir hendi sé nú í íslenzkum menntamálum, sé að gera stórt og myndarlegt átak til þess að bæta tæknimenntun þjóðarinnar. Mjög mikið skortir á, að til sé í landinu nægur fjöldi tæknifræðinga eða iðnfræðinga, nægur fjöldi manna, sem hafi þá tæknimenntun, sem almennt er látin í té í tækniskólum erlendis. Þær athuganir, sem gerðar hafa verið á þessu máli á vegum menntmrn., leiða í ljós, að í hópi þeirra manna, sem um þessi mál mega teljast sérfróðir, eru uppi aðallega tvennar mjög ólíkar skoðanir á því, hvernig bezt sé að taka á þessum vanda, hvernig bezt sé að ráða bót á skortinum á tæknimenntuðum mönnum. Annars vegar er sú skoðun, að koma eigi hér sem fyrst upp íslenzkum tækniskóla, sem miði starf sitt við það fyrst og fremst að mennta menn í þeim tæknigreinum, sem sérstök þörf sé fyrir hér á land, og miða þá fræðsluna fyrst og fremst við íslenzka staðhætti, þarfir íslenzkra fyrirtækja. Hins vegar er sú skoðun, að bæði stofnkostnaður og rekstrarkostnaður slíks skóla sé, ef hann eigi að vera fullkominn, eins og hann þarf að vera, svo mikill, að engin tök séu á því fyrir Íslendinga, eins og sakir standa, að ráða við það fjárhagslegs. Það, sem því eigi að gera, sé að stuðla að því að skipuleggja það beinlínis, að ungir Íslendingar geti átt kost á því að sækja erlenda tækniskóla, en hafa hér undirbúningsnámskeið, eins konar undirbúningsskóla eða forskóla, til þess að tryggja það, að nemendurnir komist inn á erlendu skólana og geti lokið þaðan námi á hæfilegum tíma. Um þessi tvö ólíku sjónarmið hafa þegar farið fram aliviðtækar umr., en um niðurstöðu er ekki enn að ræða. Þó vona ég og tel raunar, að ekki megi dragast mjög lengi úr þessu, að ákvörðun verði tekin um það, hvaða meginstefnu verði fylgt í þessu máli, því að það hefur að sjálfsögðu grundvallarþýðingu fyrir málið í framtíðinni, hvaða meginstefna verður tekin, hvort við stefnum að því að koma upp íslenzkum tækniskóla eða hvort við ætlum okkur að fylgja hinni stefnunni, að láta mennta tæknifræðinga okkar enn um sinn erlendis. Ef það verður ofan á, þá er augljóst mál, eins og þessi tillaga fjallar um, að koma verður á fót hér einhvers konar undirbúningsnámi, einhvers konar undirbúningsnámskeiðum, til þess að gera þeim ungu mönnum, sem í slíkt nám vilja fara, auðveldara að gera það og tryggja betri árangur af námi þeirra en raun hefur orðið á undanfarið.

Í þessu sambandi vil ég enn fremur geta þess, að undanfarið hefur farið fram athugun eða endurskoðun á starfi Vélskóla Íslands, sem gegnir í þessu sambandi allmikilvægu hlutverki, og held ég, að óhætt sé að segja, að ríkisstj. muni nú fyrir þetta þing leggja fram frv. um breytingu á starfstilhögun vélskólans, þannig að opnuð verði leið inn í vélskólann úr verknámsdeildum gagnfræðaskólanna, og að þeir menn, sem kjósa að fara þá leið í vélfræðinámið, öðlist jafnframt skilyrði eða rétt til þess að taka sveinspróf og hljóta iðnréttindi. Ef frv. um þetta yrði samþykkt, má segja, að mjög mikil aukning yrði á starfsemi vélskólans, og í henni fælist þá mikilvægt átak til þess að bæta úr þeim mikla skorti, sem hefur verið hér undanfarið og er enn á vélstjórum.

Ég vil einnig láta þess getið, að lög og reglur um iðnskólann, um iðnfræðsluna, eru nú í endurskoðun, og er hér í raun og veru líka um þátt í sama máli að ræða. Enn fremur stendur til að gefa meisturum kost á auknu sérnámi, og má segja, að þar stefni einnig í sömu átt.

Ég tel rétt að láta þessa getið til þess að undirstrika það, að ég tel hér vera hreyft mjög mikilvægu máli, og vil endurtaka þau tilmæli mín til hv. nefndar, sem fær það til meðferðar, að hún veiti því verðuga athygli.