07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3023)

61. mál, námskeið til tæknifræðimenntunar

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Tæknimenntaðir menn eru flestir annaðhvort verkfræðingar eða tæknifræðingar. Verkfræðingar ljúka menntaskóla, stúdentsprófi, og ganga undir langt nám í háskólum. Tæknifræðingar ljúka iðnnámi með iðnskólum, en fara að því loknu í sérstaka tækniskóla og ljúka þar tæknifræðinámi, venjulega á 3—4 árum. Verkfræðingar hafa yfirleitt nokkru meiri menntun, og verkefni þeirra eru frekar skapandi eðlis. Þeir undirbúa og teikna ný mannvirki. Tæknifræðingar hafa oft þau verkefni að stjórna framkvæmd eða framleiðslu.

Talið er, að þjóðfélag, sem stendur á svipuðu tæknistigi og Íslendingar, þurfi að hafa tvo tæknifræðinga á móti hverjum verkfræðingi. Hér á landi eru nú um 300 starfandi verkfræðingar, mun vera nokkuð yfir 300 manns í Verkfræðingafélaginu. Hins vegar er sagt, að hér séu innan við 100 tæknifræðingar. Ef við ættum að fylgja því hlutfalli, sem virðist talið nauðsynlegt, að hafa tvo tæknifræðinga fyrir hvern verkfræðing, ættu Íslendingar að hafa í dag 600—700 tæknifræðinga. Af þessu verður ljóst, að hér skortir mjög á, að þjóðin hafi fullnægjandi kost starfsmanna á mikilvægu sviði. Verkfræðingafélag Íslands hefur gengið svo langt í grg. til allshn., sem prentuð er sem fskj. á þskj. 346, að fullyrða, að frá stríðslokum hafi Íslendingar dregizt svo mjög og með vaxandi hraða aftur úr nágrannaþjóðum á sviði verkmenningar, að í mjög alvarlegt óefni virðist komið.

Hér er fram komin frá hv. 10. þm. Reykv. till., sem er einungis um það, að ríkisvaldið gangist fyrir námskeiðum til að aðstoða þá iðnaðarmenn, sem vilja sækja sér tæknifræðimenntun til annarra landa. Þá menntun er ekki hægt að fá hér á landi. Reynsla hefur sýnt, að marga iðnaðarmenn, sem fýsir að afla sér þessarar menntunar annars staðar, skortir ýmislegt, t.d. hvað málakunnáttu snertir og önnur grundvallaratriði, til að ná inntökuprófum. Þessir menn hafa því tapað hálfu og heilu ári við að búa sig undir inntökupróf í tæknifræðiskóla í nágrannalöndunum. Hugmynd flm. er sú að spara þeim þennan tíma með námskeiðum hér heima og fá þannig fram á slíkum námskeiðum, hvort þeir menn, sem hafa áhuga á þessu námi, hafa raunverulega getu til að leggja það fyrir sig.

Allshn. hefur rætt ýtarlega um þetta mál, fengið greinargerðir og umsagnir frá fjórum aðilum og fengið stjórn Tæknifræðingafélags Íslands á sinn fund til að ræða málið. Nefndin hefur orðið sammála um að útvíkka till. verulega og setja inn í hana áskorun Alþingis á ríkisstj. um að láta athuga, á hvern hátt heppilegast verði að koma fyrir hérlendis tæknifræðikennslu fyrir iðnaðarmenn, og kanna í því tilefni, hvort unnt sé að annast þessa kennslu með sérstökum deildum við Vélskóla Íslands eða Iðnskólann í Reykjavík. Til viðbótar vill n. hafa það efnisatriði, sem er í upphaflegu till., að þar til unnt verði að veita slíka fræðslu hér á landi, stuðli ríkisstj. að undirbúningsnámskeiðum fyrir þá, er hafa í huga að komast á tæknifræðiskóla erlendis. Stofnun skóla eða deilda við eldri skóla til að veita tæknifræðslu er talin vera allmikið fyrirtæki, sem þurfi að undirbúast vel. Hins vegar er augljóst af þeim upplýsingum, sem ég hef hér gefið, og af nánari upplýsingum, sem finna má í fskj. með nál., að hér er um mjög þýðingarmikið vandamál að ræða. Íslendingar geta með engu móti komizt hjá að fjölga tæknifræðingum, sem í þessu landi starfa, verulega á næstu árum, ef hagnýting tækni og verkmenning á ekki að dragast lengra aftur úr en orðið er.

Fram er komin brtt. um að bæta inn í tillgr., að viðkomandi ráðstafanir varðandi námskeið verði gerðar í samráði við Tæknifræðingafélag Íslands. Meiri hl. nefndarinnar hefur talið svo sjálfsagðan hlut, að ríkisstj, hefði samstarf við þetta félag og aðra aðila, sem hlut kynnu að eiga að máli, að við höfum talið óþarft að taka það sérstaklega fram. Allshn, mælir því með, að till. verði samþykkt með því orðalagi og þeirri verulegu efnisaukningu, sem fram kemur á þskj. 346