14.12.1961
Neðri deild: 36. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Í umr. um þetta mál hér áður lagði ég á það áherzlu, að aðalatriði málsins væri það, að þannig yrði um hnútana búið varðandi uppbyggingu þessa verðlagsráðs, að verulegar líkur væru til þess, að þeir aðilar, sem hér eiga mestan hlut að máli, sættu sig við uppbyggingu verðlagsráðsins, að þeir vildu, þegar til framkvæmdanna kæmi, hlíta úrskurði ráðsins eða þeim samningum, sem þar kynnu að takast. En ég tel, að á þetta skorti mjög tilfinnanlega, eins og frv. er. Ég tel ekki miklar líkur til þess, að þeir, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, hinir raunverulegu fiskseljendur í landinu, geti sætt sig við það í framkvæmdinni að hafa uppbyggingu verðlagsráðsins eins og frv. gerir ráð fyrir.

Nú hefur meiri hl. sjútvn. deildarinnar lagt hér fram eina breytingu, sem miðar í þá átt að fækka fulltrúum Landssambands ísl. útvegsmanna í hópi fisksöluaðila úr 4 í 3 og gera þá fulltrúa fiskseljenda í ráðinu 6, í staðinn fyrir að áður hafði verið gert ráð fyrir 7, og á sama hátt er svo gert ráð fyrir því, að fulltrúum fiskkaupenda verði fækkað um einn frá því, sem lagt hafði verið til í frv. Þetta atriði skiptir að mínum dómi sáralitlu máli. Ég hafði bent á það og fleiri hér, að það væri að vísu rétt, að það væri óeðlilegt og ósanngjarnt, að í hópi fisksöluaðila, þar sem eru útvegsmenn og sjómenn, skyldi vera mismunur á milli þessara tveggja aðila, þannig að annar væri látinn hafa 4 fulltrúa, en hinn 3, því að allt benti til þess, að þeir ættu að hafa jafnmarga fulltrúa þar. Nú hefur verið gengið til móts við þetta. En þetta er ekkert grundvallaratriði í þessu máli, vegna þess að það, sem skiptir máli, er, að annars vegar við samningsborðið eru fiskseljendur og hins vegar fiskkaupendur, og hvort fulltrúar fiskseljenda eru 7 og fiskkaupenda 7 eða þeir eru 6 og 6, það skiptir út af fyrir sig ekki höfuðmáli. Það, sem skiptir grundvallarmáli í þessum efnum, er það, að hinir raunverulegu fiskseljendur í landinu fáist til þess að viðurkenna það, að þessir fulltrúar, sem fram eiga að koma fyrir þá, hvort heldur þeir eru 6 eða 7, séu raunverulega fulltrúar þeirra, með þeirra hagsmuni, gæti þeirra réttar, en komi ekki þarna inn sem fulltrúar fiskseljenda, jafnvel þó að þeir séu í raun og sannleika miklu meiri fiskkaupendur.

Það er þetta, sem skiptir aðalmáli. Því er það, að brtt. sú, sem meiri hl. sjútvn. flytur nú, þó að hún sé heldur til bóta, af því að það var ástæðulaust að mismuna í þessum hópi á milli útgerðarmanna og sjómanna, þá er það eftir sem áður, að þar er ekki gripið á því, sem er aðalatriði málsins. En nú er ráð fyrir því gert, miðað við þessar nýju tillögur, að fulltrúar fiskseljenda í þessu ráði verði 6, 3 frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og 3 frá samtökum sjómanna. En hins vegar er búið að fella þá till. hér við 2. umr. málsins, að skilyrði séu sett um það, að fulltrúarnir, sem koma frá Landssambandi ísl. útvegsmanna sem fulltrúar fiskseljenda, hafi ekki beina hagsmuni sem fiskkaupendur. Það á enn að standa opið, að fulltrúarnir, sem koma frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og eiga að koma fram sem fulltrúar fiskseljenda, geti verið frystihúsaeigendur. Á meðan þetta er svona, tel ég afskaplega litlar líkur til þess, að hinir raunverulegu fiskseljendur í landinu, t.d. sjómenn, fáist í framkvæmd til þess að lúta ákvörðun þessa verðlagsráðs.

Til frekari skýringar á því, hvað þetta mál er í raun og veru alvarlegt, vil ég greina frá því, að nú nýlega er afstaðinn aðalfundur Landssambands ísl. útvegsmanna. Þar var um það rætt, hvort aðalfundurinn ætti ekki að tilnefna sjálfur þessa fulltrúa, sem Landssambandið á væntanlega að fá að tilnefna í þetta verðlagsráð. Þar kom alveg greinilega upp eins og áður sjónarmið fiskkaupendanna, frystihúsaeigendanna í Landssambandinu, og þeir fengu tillögu um það fellda, en því hins vegar vísað til stjórnar Landssambandsins, að hún skyldi tilnefna þessa aðila. 9 manna stjórn Landssambandsins, ásamt verðlagsráði þar innan samtakanna, á að tilnefna þá fulltrúa, sem í verðlagsráðið eiga að koma. En hvernig er svo stjórn Landssambandsins skipuð? Það er nýbúið að kjósa hana. Það eru 9 fulltrúar. Það fer ekkert á milli mála þar, að þessir 9 menn í stjórn Landssambandsins eru frystihúsaeigendur eða landsþekktir fiskkaupendur í stórum stíl, allir með tölu. Það er því gengið frá því nú þegar þannig, að það eru frystihúsaeigendur í landinu eða stórkaupendur að fiski, t.d. síldarkaupendur, stærstu saltararnir í landinu, það eru þeir, sem fyrir fyrsta verðlagstímabilið eiga að tilnefna 3 — eftir nýju tillögunum — fulltrúa fiskseljenda. Nú er auðvitað hægt að segja, að það sé ekki alveg vitað enn þá, að þeir muni tilnefna beina frystihúsaeigendur, þessir menn, sem eru frystihúsaeigendur, þeir geta auðvitað tilnefnt einhverja aðra. En eftir sem áður stendur það þó alveg óhagganlegt, að það eru fiskkaupendurnir, sem eiga að velja mennina þarna megin við samningaborðið líka.

Þegar svona er búið um hnútana, hef ég fyrir mitt leyti enga trú á því, að það vandamál leysist, sem hér átti að reyna að leysa. Sjómenn hafa alveg opna þá leið eftir sem áður að segja: Við teljum, að þessi verðlagning sé óeðlileg og óréttlát, og við tökum bara upp deiluna á hinum kantinum. Við segjum upp okkar hlutaskiptakjörum og getum farið í stöðvun út af því. M.ö.o.: stöðvunin getur blasað við eftir sem áður, vegna þess að illa og óréttlátlega var búið um hnútana í sambandi við afgreiðslu málsins hér frá Alþingi. Það var rangt að ákveða það ekki, eins og lagt var til við 2. umr. málsins, að fulltrúar fiskseljenda allir, einnig fulltrúarnir frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, í verðlagsráði skuli tvímælalaust hafa hagsmuni fiskseljenda og ekki hafa leyfi til þess að vera í ráðinu sem fulltrúar seljenda, séu þeir einnig fiskkaupendur. En það virðist nú vera búið að slá þessari skipan fastri, og það verður að vera svo, með þeim afleiðingum, sem af því kunna að verða.

En það eru fleiri atriði í þessu máli, sem eru þess eðlis, að það er hætt við því, að frv. eða lögin nái ekki tilgangi sínum, að þeir aðilar, sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta, samþykki ekki þann grundvöll, sem lagður er. Eins og ég hef bent á áður, og ég skal ekki fara út í langar umr. um það nú, því að ég sé enga ástæðu til þess að lengja umr., úr því sem komið er, um málið, — ég hafði áður bent á það, að yfirnefndin, sem búast má við að verði hinn raunverulegi aðili, sem ákveði fiskverðið, er tilnefnd eða kosin af þessum fulltrúum í sjálfu verðlagsráðinu, fulltrúum fiskseljenda, sem svona eru tilkomnir eins og ég hef getið um, og af fulltrúum fiskkaupenda. En það er mjög mikil hætta á því, að þar sem í yfirnefndinni á aðeins að vera einn fulltrúi sjómanna og hann mundi þá koma annaðhvort sem fulltrúi Alþýðusambands Íslands eða Farmannasambandsins eða Sjómannasambandsins, að svo kunni að fara, að í þessari yfirnefnd verði mjög stór hluti sjómannasamtakanna í landinu án þess að eiga þar nokkurn fulltrúa frá sinni hálfu, vegna þess að það er engin trygging fyrir því, að í yfirnefndinni verði fulltrúinn frá Alþýðusambandi Íslands, sem spennir yfir öll sjómannasamtökin í landinu. Það er engin trygging fyrir því. Það er í rauninni alveg eins líklegt, að svo kunni að fara, að í yfirnefndinni verði fulltrúinn frá Sjómannasambandinu, sem er aðeins fyrir takmarkaðan hluta sjómannasamtakanna í landinu, eða frá Farmannasambandinu, sem vitanlega er ekki fulltrúi fyrir nema lítinn hluta af þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli.

Ég hef því lagt fram brtt., sem að vísu er ekki búið að útbýta, en mun verða útbýtt hér bráðlega. Ég hef lagt fram brtt. í þá átt, að það verði ákveðið alveg skýrum orðum, að fulltrúi sjómanna í yfirnefndinni verði fulltrúi Alþýðusambandsins í verðlagsráði. Það gefur þó auknar líkur til þess, að sjómannasamtökin í landinu almennt geti viðurkennt þá samninga, sem fram fara í yfirnefndinni, sem sína samninga. Ég tel, að ef slík brtt. yrði samþykkt, þá yrði það allverulega til bóta. Þá stendur auðvitað áfram það atriði, sem hætt er við að aðilarnir sætti sig ekki við, en það er úrskurðaraðilinn, það er oddamaðurinn í yfirnefndinni, sem mjög má búast við því að fái þarna úrskurðarvald og hann kunni því í mjög mörgum tilfellum að ákveða það verð, sem gilda á, hafi ekki tekizt samningar á milli aðila um verðið, en ég tel, að það sé enginn vafi á því, að t.d. sjómenn uni því illa að láta úrskurða sér fiskverð á þann hátt. En það er búið að reyna að fá því atriði breytt, en samkomulag hefur ekki fengizt hér um það að breyta því atriði.

Ég hef ákveðið að flytja hér aðra brtt. við 1. gr. frv. Brtt. sú, sem ég hef lagt fram og ekki er búið að útbýta hér enn þá, en verður væntanlega gert bráðlega, við 1. gr., er þannig, með leyfi hæstv. forseta, að aftan við gr. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

„Heimilt er aðilum þeim, sem tilnefna eiga fulltrúa af hálfu fisksölu- og fiskkaupaaðila samkv. Þessari grein, að skipta um fulltrúa sína í verðlagsráði, eftir því sem þeim þykir rétt, til þess að sjónarmið þeirra fiskseljenda og fiskkaupenda, sem hlut eiga að máli við hverja verðákvörðun, komi sem bezt fram.“

Ég tel einn galla á samsetningu verðlagsráðsins, eins og gert er ráð fyrir því í 1. gr. frv., vera þann, að þar er gert ráð fyrir, að sömu aðilar séu í verðlagsráðinu allan tímann við ákvörðun á fiskverði frá hálfu fiskseljenda. Í verðlagsráði eiga að vera sömu 3 mennirnir allan tímann frá hálfu sjómanna og sömu 3 mennirnir allan tímann af hálfu Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Og sama er að segja um fiskkaupendurna. Það er gert ráð fyrir því, að það séu sömu aðilar, að frátöldum sérstökum undantekningaratriðum, sem um er getið í 3. og 4. gr. frv., varðandi mismunandi veiðar, eins og síldveiðarnar fyrir norðan og austan og síldveiðarnar fyrir sunnan og svo aftur þorskveiðarnar, þar er gert ráð fyrir nokkrum breytingum á fulltrúum fiskkaupenda. En það er enginn vafi á því, að hér er um svo breytilega hluti að ræða, að það er mjög miklum vandkvæðum bundið að fá fulltrúa til þess að vera í þessum samningum fyrir alla aðila og varðandi allar þær verðákvarðanir, sem hér koma undir. Ég teldi t.d., að það væri mjög til bóta, að fiskseljendur mættu skipta um sína fulltrúa, þannig að þótt t.d. samtök sjómanna tefldu nú nokkuð eðlilega fram fulltrúum héðan af Suðvesturlandi í samningana, þegar verið er að ákveða fiskverðið á vetrarvertíðinni, sem aðallega fer fram hér sunnan- og suðvestanlands, þá sé á sama hátt réttmætt, að inn í verðlagsnefndina gætu komið fulltrúar sjómanna t.d. af Austur- og Norðurlandi eða Vestfjörðum, þegar verið er að semja um fiskverðið yfir sumarveiðitímabilið og haustveiðatímabilið, sem aðallega er á þeim svæðum. En þar er um það að ræða, að það er gert ráð fyrir því, að það geti verið um annað fiskverð að ræða á því tímabili, því að það er annað veiðitímabil og þar er jafnvel að verulegu leyti um aðrar fisktegundir að ræða. Það er því mjög réttmætt, að þá fái að koma að samningaborðinu hinir raunverulegu fiskseljendur, sem þá eru, og hinir raunverulegu fiskkaupendur, sem þá eru, að það þurfi sem sagt ekki að vera alltaf í verðlagsráðinu sömu fulltrúar sjómanna og sömu fulltrúar útgerðarmanna né heldur að það sé bundið, að það séu sömu fulltrúar fiskkaupenda allan tímann í verðlagsráðinu. Ef þessi tillaga mín væri samþykkt, þá verður a.m.k. heildarsamtökunum gefinn kostur á því að hleypa að samningaborðinu þeim aðilum, sem verið er raunverulega að semja fyrir hverju sinni, en það þurfi ekki menn ókunnugir aðstæðum eða sem eiga nokkuð annarra hagsmuna að gæta að semja þarna um þeirra mál.

Ég hef því lagt hér fram tvær brtt. nú við 3. umr. málsins, aðra viðvíkjandi breyt. á 1. gr., eins og ég hef gert grein fyrir, og hina viðvíkjandi breyt. á 9. gr. frv., þar sem tekið yrði alveg skýrt fram, að í yfirnefndinni yrði fulltrúi sjómanna einmitt fulltrúi Alþýðusambandsins í verðlagsráðinu. Verði þessar brtt. mínar báðar samþykktar, tel ég, að þetta sé miklu betra. En það fer þó fjarri því, að ég telji málið þá komið í það form, sem það þyrfti að vera. Það virðist ekki vera neinn grundvöllur fyrir því að fá um málið samkomulag þannig, að það sé eins og ég tel að það þurfi að vera, til þess að allir aðilar, sem eiga hlut að máli, geti raunverulega sætt sig við það og þetta geti náð fullum tilgangi.

Ég vil svo taka það skýrt fram, að ég tel, að það hefði verið miklu eðlilegra að ganga þannig til móts við þau sjónarmið, sem hér höfðu komið fram áður í þessum umr., að hafa í hópi fiskseljenda jafnmarga sjómenn og útgerðarmenn, — það hefði verið miklu eðlilegra að fjölga fulltrúum sjómanna um einn heldur en fara hina leiðina, að fækka fulltrúum Landssambandsins. Eins og hér hefur réttilega verið bent á, hefði með því líka unnizt það, að þá var hægt að leysa önnur vandamál. Þá var hægt að gefa Alþýðusambandinu kost á því að hafa hér tvo fulltrúa í staðinn fyrir einn. Það kemur þarna fram sem aðili fyrir miklum mun stærri hóp en hinir aðilarnir, sem þar eiga að hafa jafnmarga fulltrúa, að það hefði sannarlega verið réttmætt að fara þá leið fremur en þá, sem meiri hl. sjútvn. hefur nú valið.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en leyfi mér að leggja brtt. mínar fram.