29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

83. mál, gufuveita frá Krýsuvík

Flm, (Sveinn S. Einarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt 4 öðrum alþm. að bera fram till. þá til þál., sem prentuð er á þskj. 110 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram athugun á tæknilegum og fjárhagslegum möguleikum á byggingu og rekstri gufuveitu frá jarðgufusvæðunum við Krýsuvík til Hafnarfjarðar, Garðahrepps, Bessastaðahrepps, Kópavogs, Reykjavíkur og Seltjarnarness í samráði við stjórnendur bæjar- og sveitarfélaga þeirra, sem hér eiga hlut að máli. Gufuveita þessi sé miðuð við það, að frá henni verði hægt að afhenda gufu til iðnaðarþarfa og heitt vatn til rekstrar hitaveitna í fyrrgreindum bæjar- og sveitarfélögum:

Áður en ég ræði efni till. þessarar í einstökum atriðum, vil ég leyfa mér að víkja nokkrum orðum að orkubúskap Íslendinga almennt og þeim möguleikum, sem fyrir hendi eru á því að láta innlenda orkugjafa koma í stað innflutts eldsneytis til landsins, enda miðar tillagan að athugun á mjög veigamiklum áfanga í þeim málum. Því miður er skýrslugerð um orkunotkun þjóðarinnar mjög áfátt, og er þar mikil þörf bóta. Í umr. um þessi mál verður því að verulegu leyti að styðjast við áætlanir um ýmis atriði, og getur þar skakkað verulega á einstökum liðum. hær tölur, sem ég nefni hér á eftir, verður því að taka með hæfilegri varúð, enda þótt þær séu grundvallaðar á beztu frumheimildum, sem mér hafa verið tiltækar. Þrátt fyrir þetta vona ég, að orð mín varpi nokkru ljósi á viðfangsefnið og leiði til aukins skilnings á því.

Hér á landi, eins og í öðrum löndum, fer orkunotkunin vaxandi frá ári til árs. Þessu til skýringar skal ég nefna nokkrar tölur, er gefa samanburð á orkunotkun Íslendinga á árunum 1961 og 1959. Það veldur að vísu örðugleikum, að orkugjafarnir, sem landsmenn nota, eru mjög margvíslegir, svo sem kol, olía, jarðhiti, raforka o.s.frv., og auk þess mældir í mismunandi einingum. Til þess að samanburður verði mögulegur, verður því að umreikna notkunina í tilsvarandi einingu, og verður hér notuð einingin ein lest af olíu í samanburðarskyni og hún nefnd olíueining. Við umreikning á raforkuframleiðslunni er raforkan látin jafngilda jafnmörgum lestum af olíu og þurfa mundi að nota til þess að framleiða tiltekinn fjölda kwst. í olíukyntum varmaorkuverum. Ef litið er á tölurnar fyrir árið 1951 og 1959 þannig umreiknaðar eftir skýrslum, sem á sínum tíma voru gerðar á raforkumálaskrifstofunni, þá kemur í ljós, að innfluttu orkugjafarnir eru þessir: Steinkal og koks, sem 1951 voru 37800 einingar, 1959 21200. Dísíl- og brennsluolíur voru 1951 188 þús. einingar, en 1959 313900. Benzín og steinolía 33 þús. árið 1951, en 82 þús. árið 1959. Samtals eru hinir innfluttu orkugjafar þessi ár 258800 einingar fyrra árið en 417100 síðara árið, og hefur aukningin verið 61%. Hinir innlendu orkugjafar eru: Jarðhiti til hitaveitna, gróðurhúsa og sundlauga, fyrra árið 52500, en síðara árið 61500 einingar og aukning á milli þessara ára 17%. Vatnsaflsstöðvar framleiddu raforku, sem fyrra árið samsvarar 74200 einingum, en síðara árið 206 þús. einingum, og er þar aukningin 153%. Heildarorkunotkun landsmanna mæld í jafngildi olíulesta er árið 1951 385500, en árið 1959 683600 og hafur aukizt um 77% á þessu 8 ára tímabili. Við samanburð þessara tveggja ára verður að hafa í huga, að á árunum á milli urðu þrjár meiri háttar stökkbreytingar, ef svo má að orði kveða, í orkuframleiðslu og orkunotkun hér á landi. Árið 1953 var bæði Írafossstöðin við Sog og áburðarverksmiðjan tekin í notkun, og sementsverksmiðjan hóf starfsemi á árinu 1958.

Eins og fyrr var sagt, virðist heildarorkunotkun landsmanna hafa vaxið um 77 % á þessum 8 árum, eða til jafnaðar um 9.7 % á ári, en orkunotkunin, reiknuð á hvern íbúa í landinu, hefur vaxið um 6.6% á þessum 8 árum. Þetta er mjög ör vöxtur. Á sumum árum óx orkunotkun á hvern íbúa jarðarinnar um 3%. Hraðastur var vöxturinn í hinum vanþróuðu löndum, en mun hægari í hinum háþróaðri iðnaðarlöndum, t.d. aðeins 1.6% á íbúa í Vestur-Evrópu. Iðnaðarlega verður Ísland að teljast fremur vanþróað land, enda hafa fyrrnefnd þrjú mannvirki, sem tekin voru í notkun á tímabilinu, átt mjög drjúgan þátt í hinum stóra vexti, eins og vænta mátti.

Fyrrnefndar skýrslur bera það með sér, að hlutdeild innlendra orkugjafa í heildarorkubúskap landsmanna hefur numið minna en 40%. M.ö.o.: um það bil 2/3 hlutar af orkunotkun Íslendinga hafa því verið fengnir úr innfluttu eldsneyti. Það er því ástæða til þess að velta þeirri spurningu fyrir sér, að hve miklu leyti Íslendingar geti í fyrirsjáanlegri framtíð látið innlendar orkulindir koma í stað þeirra orkugjafa, sem þeir flytja inn frá öðrum löndum. Er þeim mun meiri ástæða til þess að gera þetta fyrir þá sök, að Ísland er miðað við stærð þjóðarinnar mjög auðugt af náttúrlegum orkulindum. Hinir innfluttu orkugjafar eru fyrst og fremst olíur, þá benzín og loks kol, en notkun þeirra síðasttöldu fer þó minnkandi.

Lítum við á neytendur þessarar innfluttu orku, greinast þeir í tvo meginflokka, þ.e. staðbundna neytendur og hreyfanlega. Til hinna síðarnefndu teljast farartæki á landi, legi og í lofti, svo sem flutningatæki alls konar og margvíslegar vinnuvélar, skip, flugvélar o.s.frv. Augljóslega er ekki annars að vænta á næstu árum en að fullnægja verði þörfum þessara hreyfanlegu neytenda með innfluttu eldsneyti að langmestu leyti, svo sem verið hefur. Til staðbundinnar notkunar telst upphitun húsa, orkunotkun í verksmiðjum, framleiðsla raforku í varmaorkuverum o.s.frv. Á einmitt þessum sviðum er að leita möguleikanna á því að nota innlenda orkugjafa í stað þeirra innfluttu. Árið 1951 var áætlað, að innflutt eldsneyti til staðbundinnar notkunar hafi numið jafngildi 160 þús. lesta af olíu. Fyrir árið 1959 vantar tölur, er sundurliði þetta, en ætla má, að þá hafi samsvarandi tala verið töluvert hærri. Við getum aldrei náð því marki að láta innlenda orkugjafa koma algerlega í stað hinna innfluttu í hinni staðbundnu notkun, en eigi að síður er hægt að komast alllangt á þeirri braut: Það er tæknilegur möguleiki t.d. að hita öll hús á landinu með innlendri orku. Annað mál er það, hve langt er hægt að ganga í þeim efnum af fjárhagslegum ástæðum. Ef öll hús landsmanna hefðu verið hituð á þennan hátt árið 1951 og 1959, hefði hlutdeild hinna innlendu orkugjafa í orkubúskap Íslendinga nálgazt, en ekki náð því að nema 60% af heildarorkunotkuninni. Um þetta bil virðast vera hin efri mörk, miðað við aðstæðurnar umrædd tvö ár, og hafa þær lítið breytzt síðan. Þessi mynd getur að sjálfsögðu breytzt verulega hinum innlendu orkulindum í hag með tilkomu nýrra og orkufrekra iðngreina. En þó að því séu takmörk sett, eins og nú hefur verið lýst, að hve miklu leyti Íslendingar geta sparað sér innflutning eldsneytis með aukinni notkun innlendra orkulinda, hlýtur það að vera þjóðinni keppikefli að ná sem lengst í þessu efni.

Ég vil nú leyfa mér að gera upphitun húsa að sérstöku umtalsefni, því að einmitt þar eru miklir möguleikar fólgnir.

Láta mun nærri, að nota þurfi um eina lest olíu á ári á hvern íbúa til að hita upp hús hér á landi. Tekið skal fram, að þetta er áætluð tala, og getur því verið eitthvert frávik frá henni á báða vegu. Í dag mun jarðhiti spara um 45 þús. lestir af olíu árlega til híbýlahitunar og rafmagn frá vatnsaflsstöðvum innan við 10 þús. lestir á ári. Ætla má því, að þjóðin þurfi nú að flytja inn nálægt 125 þús. lestir af olíu á ári til húsahitunar. Verðmæti þessa innflutnings mundi þá nema nálægt 150 millj. kr., miðað við cif-verð.

Hvaða möguleikar eru á því að beizla innlendar orkulindir til að komast hjá þessum stórkostlega eldsneytisinnflutningi? Hér kemur fyrst og fremst til greina notkun jarðhita og í annarri röð notkun rafmagns, sem framleitt er með vatnsorku eða jarðgufu. Svarðar- og brúnkolalög þau, sem í landinu finnast, munu hér sennilega skipta litlu máli. Vitað er um jarðhita á um 260 stöðum á Íslandi, en mjög er dreifing hans óregluleg, og bæði hitastig og vinnanleg hitaorka er mjög mismunandi frá einum stað til annars. Yfirgnæfandi hluta hitaorkunnar er að finna í 12 þekktum jarðgufusvæðum. Það er að sjálfsögðu miklum vandkvæðum bundið að áætla orkumagn jarðhitasvæðanna. En þeir, sem gerst þekkja til, hafa nefnt eftirfarandi heildartölur, sem má ekki af skiljanlegum ástæðum taka sem annað en grófa ábendingu um stærðarhlutföll. Samanlagt stöðugt hitaútstreymi frá jarðgufusvæðunum í landinu er talið samsvara hitagildi 2 millj, smálesta af olíu á ári hverju. Og varmaforði í undirstöðuberginu, sem vinnanlegur ætti að vera með borunum til viðbótar fyrrgreindu hitaútstreymi, er talinn samsvara hitagildi 130 millj. lesta af olíu. Af þessu má hverjum vera ljóst, að af miklu er að taka. Því miður eru mörg jarðgufusvæðanna, þ. á m. nokkur hinna öflugustu í óbyggðum miðhálendisins, óaðgengileg til nytja í náinni framtíð. Hins vegar eru nokkur þeirra í námunda við byggð, eins og Námaskarð, Krafla, Þeistareykir á Norðurlandi og Reykjanes, Krýsuvík og Hengissvæðið á Suðvesturland. Af jarðgufusvæðunum munu hin þrjú síðastnefndu fá alveg sérstaka þýðingu á næstu áratugum sökum heppilegrar legu í grennd við langþéttbýlasta hluta landsins.

En það eru ekki jarðgufusvæðin ein, sem þýðingu hafa. Lághitasvæðin við Reyki í Mosfellssveit og undir eystri hluta Reykjavíkurbæjar standa undir rekstri núverandi hitaveitu í Reykjavík og verulegri stækkun hennar frá því, sem nú er. Hitaveiturnar í Ólafsfirði, á Sauðárkróki, Selfossi og að nokkru í Hveragerði grundvallast einnig af notkun lághitasvæða, þ.e. svæða með 100 gráðu hita eða lægri. Mörg slík svæði önnur eru í takmarkaðri notkun í byggðum Suðurlandsundirlendisins, Borgarfjarðar, Skagafjarðar og viðar. Og loks eru allmörg lághitasvæði, sem enn hafa ekki verið tekin í notkun.

Það er ekki ófróðlegt að reyna að gera sér grein fyrir því í þessu sambandi, hve margir af íbúum landsins gætu haft möguleika á jarðhitanotkun, miðað við núverandi fólksfjölda og dreifingu byggða í landinu. Lausleg athugun á þessu bendir til þess, að eftirfarandi byggðir komi til greina, en með hliðsjón af manatalinu 1960 mætti ætla, að sá íbúafjöldi, sem tilgreindur er, gæti átt kost á aðgangi að jarðhita að verulegu leyti eða öllu. Reykjavík með 72300 manns, Kópavogur með 6200 manns, Hafnarfjörður með 7100, Keflavík með 4700, kauptún og þéttbýlishverfi í Gullbringu- og Kjósarsýslu á að gizka 5000, Selfoss, Hveragerði og byggðahverfi á Suðurlandi á að gizka 3000, Húsavík 1500, Akureyri allt að 8800, Ólafsfjörður 900, Sauðárkrókur 1200 manns og Akranes ef til vill 3840 manns. Samkv. þessari upptalningu, sem að sjálfsögðu er ekki nákvæm, mætti ætla, að allt að 115 þús. manns eða 65% landsmanna búi nú á svæðum, sem tæknilega séð væri hugsanlegt að gætu fengið afnot af jarðhita til híbýlahitunar. Þau liðlega 50 þús. manna, sem hér eru ekki talin með, skiptast trúlega sem næst til helminga að tölu til á kaupstaði, kauptún og þéttbyggðahverfi annars vegar og eiginlegt dreifbýli, þ.e. einstaka sveitabæi, hins vegar. Eftirtektarvert er, að svo til allir þeir kaupstaðir, sem fólksfjölgun hefur orðið í undanfarinn áratug, — Vestmannaeyjar og Neskaupstaður eru einu undantekningarnar, — eru innan þeirra marka, sem ætla má að geti fengið afnot af jarðhita. Þetta á auk þess við flestöll sjávarþorpin og nýbyggðahverfin í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Loks er rétt að vekja athygli á því, að viða um land ber á þéttbýlismyndunum umhverfis einstök jarðhitasvæði. Þess er að vænta, að á mörgum þessara staða rísi héraðamiðstöðvar með góðu félagsheimili, íþróttamannvirkjum, viðgerðarstofum, verzlunum o.s.frv.

Niðurstaðan af þessu er þá sú í stórum dráttum, að sterkar líkur eru fyrir því, að verulegur hluti fólksfjölgunarinnar í landinu í næstu framtíð verði einmitt á þeim svæðum, sem líkur hafa fyrir jarðhitaafnotum. Á sama hátt er líklegt, að utan þessara svæða verði fólksfjölgun fremur hægfara og að fólksfjöldi þar verði um nokkurt árabil innan við 60 þús. manna.

Nú kann einhver að spyrja: Kemur híbýlahitun með rafmagni ekki til álita einnig á þeim svæðum, sem aðgang geta haft að jarðhita? Ég tel, að svo sé yfirleitt ekki, og ræður það úrslitum, að öflun jarðhita er stórum ódýrari en öflun rafmagns til hitunar, svo sem nú skal sýnt.. Í dag er talið, að stofnkostnaður vegna öflunar og dreifingar jarðhita í hitaveitum og í þéttbýli fari naumast yfir 10 þús. kr. á hvern íbúa. Í þessu sambandi má geta þess, að nýbygging hitaveitu í Reykjavík, sem nú stendur fyrir dyrum fyrir allt að 30 þús. manna, er talin munu kosta um 8000 kr. á hvern íbúa, sem hana fær. Byggingarkostnaður vatnsaflsstöðva er nú talinn vera á bilinu frá tæpum 10 þús. kr. á uppsett ku, í ódýrustu stórvirkjunum og allt að því 15 þús. kr. á kw. í miðlungsstórum og smærri vatnsvirkjunum. Kostnaður við upphitun húss með rafmagni fer mjög eftir því, hve vel húsin eru einangruð. Ef gengið er út frá því, að hús sé 1/3 betur einangrað en nú tíðkast almennt, má ætla, að reikna þurfi með hámarksálagi, er næmi 1.3 kw. á hvern íbúa, sem rafmagnshitun notar, til hennar einnar. Við þessar aðstæður verður byggingarkostnaður í orkuverinu einn saman 13-20 þús. kr. á hvern íbúa. Þar við bætist kostnaður við byggingu dreifingarkerfis, sem hæglega gæti numið 2500—3000 á mann. Og loks er ótalinn aukakostnaðurinn, sem leiðir af bættri einangrun húsa. Af þessu er ljóst, að stofnkostnaður vegna rafmagnshitunar í stórum stíl getur hæglega orðið allt að tvisvar sinnum hærri en stofnkostnaður hitaveitna á jarðhitasvæðum, miðað við hvern íbúa.

En hvernig er þá samanburðurinn milli rafmagns og jarðhita hvað snertir framleiðslukostnað hitans? Samkv. þeirri reynslu, sem fyrir liggur m.a. hjá Hitaveitu Reykjavíkur, er framleiðslu- og dreifingarkostnaður á hitamagni, sem við húsahitun jafngildir 1 lest af olíu, nálægt 1050 kr. Framleiðslukostnaður á raforku í stórvirkjunum hér á landi verður naumast lægri en 13 aurar á kwst. Hér er átt við stórvirkjanir um og yfir 100 þús. ku. Og í minni virkjunum mundi hann sennilega vera nálægt 25 aurum á kwst. Þegar tekið er tillit til dreifingarkostnaðar raforkunnar, er útlit fyrir, að sú raforka, sem jafngildir einni olíulest í húsahitun, mundi kosta nálægt 1500 kr. frá stórvirkjunum og allt að 2300 kr. frá meðalstórum og smærri virkjunum. Niðurstaðan er því sú, að framleiðslu- og dreifingarkostnaður raforku til upphitunar mundi verða 50–120% hærri, miðað við hús notandans, en kostnaðarverð jarðhita er nú frá Hitaveitu Reykjavíkur. Hér er rétt að geta þess, að með róttækum endurbótum við einangrun húsa frá því, sem nú tíðkast, er hægt að ná mun hagstæðari útkomu fyrir rafmagnsupphitun en hér hefur verið reiknað með. Og vafalaust yrðu sett mjög ströng skilyrði í þessum efnum, ef rafmagnsupphitun yrði tekin hér upp í stórum mæli. En þetta breytir hins vegar engu hvað snertir samanburð við jarðhitann, því að þeim megin er einnig hægt að fá að sama skapi hagstæðari niðurstöðu, ef reiknað væri með betri einangrun húsa en nú tíðkast almennt.

Áður en ég skil við þessar almennu hugleiðingar um orkubúskap og viðhorf til notkunar innlendrar orku til húsahitunar, er ekki úr vegi að gera lauslega grein fyrir því, hvað það mundi kosta, miðað við núverandi fólksfjölda, að koma upp þeim mannvirkjum, sem með þarf til þess að hita öll hús hér á landi með jarðhita eða raforku. Niðurstöðutölurnar má að sjálfsögðu ekki taka of bókstaflega. Þær eru fyrsta nálgun, gerð í því skyni að bregða nokkru ljósi á stærð viðfangsefnisins.

Ef gengið er út frá því, sem fyrr hefur verið sagt, þarf að virkja jarðhita fyrir um 70 þús. manns og vatnsafl fyrir rúmlega 50 þús. manns, til þess að þessu marki verði náð. Lauslega áætlað má ætla, að stofnkostnaður jarðhitamannvirkjanna væri 700 millj. kr., en vatnsorkuveranna ásamt dreifingarkerfum þeirra 1200—1500 millj, kr., eða samtals kringum 2 milljarða kr. Sparnaður sá í innflutningi eldsneytis, sem fæst með notkun innlendra orkugjafa, er að sjálfsögðu eins mikils virði fyrir afkomu þjóðarinnar og tilsvarandi aukning á framleiðsluvörum til útflutnings. Í þessu sambandi er þó rétt að undirstrika það, að hitaveitur og vatnsorkuver nota tiltölulega mjög lítið af innfluttum rekstrarvörum og vinnuaflsnotkun við framleiðslu orkunnar er hverfandi í samanburði við verðmætin, sem sköpuð eru. Þegar byggingartíma þeirra er lokið, keppa þau því að mjög litlu leyti um vinnafl við aðra atvinnuvegi. Að sjálfsögðu er uppbygging þessara fyrirtækja mjög fjárfrek. En þau hafa reynzt ákaflega traust fjárhagslega, þannig að stofnfjár til þeirra ætti að jafnaði að vera hægt að afla með lánsfé að verulegu leyti. Loks er rétt að vekja sérstaka athygli á því, að þegar hitaveitur og orkuver hafa verið greidd niður, halda þau áfram að vera mikilvægar fjármagnsuppsprettur, ef rétt er á haldið, og er þess ekki lítil þörf í okkar fjármagnssnauða þjóðfélagi.

Herra forseti. Að loknum þessum almennu skýringum skal ég nú víkja orðum mínum að efnishlið þáltill., sem fyrir liggur, í þrengri skilningi.

Á svæðinu frá Reykjavík til Hafnarfjarðar, að báðum þessum kaupstöðum meðtöldum, búa nú nær 90 þús. manns eða um helmingur þjóðarinnar. Á undanförnum áratugum hefur fólksfjölgun á þessu svæði verið svipuð og nettófjölgun landsmanna í heild. Ekkert bendir til annars en þróunin fari í svipaða átt í fyrirsjáanlegri framtíð. Þéttleiki byggðarinnar í sveitarfélögum þessum er nú þegar orðinn svo mikill, að tæknilega virðist fyllilega koma til greina að byggja hitaveitu í kaupstöðunum Kópavogi og Hafnarfirði, og sama er að segja um þéttbýlustu hluta Garðahrepps og Seltjarnarness. Innan fárra áratuga er þess vænzt, að meira og minna samfelld byggð verði orðin á öllu þessu svæði og alllangt í austur frá núverandi byggð. Þjóðhagslega séð er til mikils að vinna að koma upp hitaveitum á þessu svæði. Í dag hafa um 40% íbúanna afnot Hitaveitu Reykjavíkur, og fyrir dyrum stendur að auka hana, þannig að hún þjóni allt að 70 þús. manns. Þegar þeim áfanga er náð, skortir þó enn á, að um 20 þús. af núverandi íbúum svæðisins hafi aðgang að hitaveitu auk allra þeirra, sem við bætast. Hér má geta þess, að tillögur um framtíðarskipulag Reykjavíkur og nágrennis, sem nýlega hafa verið birtar, gera ráð fyrir því, að um árið 1980 verði íbúar þarna orðnir um 160 þús. Fyrirsjáanlegt er, að innan fárra ára verður að sækja jarðhita til aukningar á Hitaveitu Reykjavíkur mun lengri leið en nauðsynlegt hefur verið til þessa. Koma þá fyrst og fremst til greina jarðhitasvæðin við Krýsuvík og í Hengli. Af þessum jarðhitasvæðum virðist Krýsuvíkursvæðið liggja mun betur við í fyrstu áföngum, þar sem það er stórum nær byggðum þessum en Hengilssvæðið. Þess má vænta að öðru jöfnu, að kostnaður við byggingu og rekstur jarðhitamannvirkja verði þeim mun lægri á hverja framleidda hitaeiningu, þeim mun stærri sem virkjunarskrefin eru.

Af því, sem nú hefur verið sagt, er ljóst, að stefna ber að samstarfi milli allra bæjar- og sveitarfélaga á svæðinu um virkjun meiri háttar jarðhitasvæða, eins og Krýsuvíkur og Hengils, þegar þau þarf að taka í notkun. Þetta yrði öllum aðilum til gagas og að sjálfsögðu ekki sízt hinum minni og fátækari bæjar- og sveitarfélögum, sem naumast mundu ráða við slíkar stórframkvæmdir á eigin spýtur. Samstarfinu mætti t.d. haga þannig í stórum dráttum, að bæjar- og sveitarfélögin stofnuðu sérstakt fyrirtæki, e.t.v. með þátttöku ríkisins, er framkvæmdi boranir á jarðhitasvæðinu og virkjun hitans og byggði og ræki hin sameiginlegu aðveitumannvirki, en seldi hitaorkuna í heildsölu til hitaveitukerfa hinna einstöku sveitarfélaga. Væri þá hafður líkur háttur á og nú á sér stað í Sogsvirkjuninni og hefur gefizt vel.

Þjóðhagslega þýðingu þess að byggja hitaveitur um allt þéttbýlið í þessum landshluta, eins og það er í dag, má marka af því, að þessar nýju hitaveitur mundu spara innflutning á eldsneyti, sem að cif-verði mundi kosta nálægt 60–65 millj. kr. á ári. Hins vegar má ætla, að kostnaður við byggingu þessara mannvirkja mundi vera í námunda við 500 millj. kr. að meðtalinni þeirri stækkun, sem nú stendur fyrir dyrum á Hitaveitu Reykjavíkur. Hitaveitur þessar mundu geta lækkað hitunarkostnað íbúanna verulega frá því, sem nú er, ef marka má reynslu af rekstri hitaveitna annars staðar, en hitunarkostnaðurinn er tilfinnanlegur útgjaldaliður hjá hverri fjölskyldu. Loks má ekki gleyma þeim stórauknu þægindum og bættu hollustuháttum, sem hitaveitur hafa í för með sér. Hér er því um að ræða eitt af mestu framfara- og hagsmunamálum þessara byggðarlaga, en þau byggir nú þegar helmingar þjóðarinnar.

En hér er á fleira að líta, eins og þáltill. ber með sér. Þegar jarðgufusvæðin við Krýsuvík og Hengil verða tekin til virkjunar, skapast möguleikar til þess að veita gufu með þrýstingi til iðnaðarnotenda á umræddum hitaveitusvæðum. Hér er um nýmæli að ræða, sem ætla má að muni geta fengið stórkostlega þýðingu fyrir margs konar framleiðslustarfsemi, því að ódýr hitaorka hefur í mörgum greinum eins mikla og oft meiri þýðingu en ódýr raforka. Boranir þær, sem framkvæmdar hafa verið á jarðgufusvæðum hér á landi á undanförnum árum, hafa sannað, að á þennan hátt er hægt að framleiða ódýrari hitaorku til iðnaðar en völ er á, svo að nú sé vitað um, nokkurs staðar í Vestur-Evrópu. Nú eru t.d. uppi fyrirætlanir um að leiða jarðgas frá Sahara og jafnvel einnig frá olíulindasvæðum við Svartahaf til Evrópulanda. Þess er vænzt, að á þennan hátt geti iðnaður þar fengið hitaorku á ódýrari hátt en áður hefur verið kostur á. Samkvæmt þeim heimildum, sem handbærar eru, er þess vænzt, að á þennan hátt fáist hitaverð, er samsvarar því, að jafngildi 1 lestar af steinkolum kosti um 400 ísl. kr. Lausleg athugun, sem gerð hefur verið, bendir til þess, að samsvarandi hitaverð gufu úr gufuveitu frá Krýsuvík til Reykjavíkur geti orðið um 250 kr. við aðalæð eða aðeins 60% af lægsta hitaverði, sem væntanlegt er á meginlandi Evrópu á næstu árum. Hér má skakka miklu, ef jarðhitinn og þá einkum jarðgufan á ekki eftir að hafa mikið aðdráttarafl fyrir margs konar framleiðslustarfsemi, sem á þarf að halda miklu af ódýrri hitaorku. Þegar við þetta bætist það, að á svæðinu frá Hafnarfirði til Reykjavíkur er stærsti vinnuaflsmarkaður landsins, beztu hafnirnar, möguleikar á að afla sérlega góðs vatns og að hér má vænta ódýrrar raforku, auk þess sem mikið landrými er fyrir hendi, þá dylst engum, að hér eru óvenjuleg skilyrði til margvislegs iðnrekstrar, þannig að lítil ástæða virðist til þess að kvíða verkefnaskorti fyrir þá starfskrafta, sem við bætast á hverju ári, í framtíðinni. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann eigi enn miklu ólokið af ræðu sinni?) Tvær mínútur. (Forseti: Tvær mínútur. Þá skulum við halda áfram.)

Á miklu veltur, að hér sé búið skynsamlega í haginn fyrir uppbyggingu þessara svæða í framtíðinni. Það veltur ekki minnst á því, að viturlega sé unnið að skipulagsmálum og við það starf tekið fyllsta tillit til sjálfsagðra mannvirkja, eins og hitaveitna og hugsanlegra gufuveitna, sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni, í því sambandi skal enn fremur bent á það, hve mikilsvert er, að skipulögð séu sérstök samfelld iðnaðarhverfi fyrir þær atvinnugreinar, sem gætu orðið kaupendur að slíkri iðnaðargufu. Í þessum efnum hefur það úrslitaþýðingu, að sem nánast samstarf sé á milli hinna sex sjálfstæðu bæjarog sveitarfélaga, sem á svæðinu eru. Undirbúningur virkjunarframkvæmda sem þeirra, er hér hafa verið ræddar, tekur óhjákvæmilega nokku,r ár. Þetta rekur á eftir, að undirbúningsathuganir séu hafnar sem fyrst, og þess vegna er þáltill. borin fram. Sökum þess, hve margir aðilar eiga hér hlut að máli, og ekki sízt vegna þeirrar þjóðhagslegu þýðingar, sem þetta mál hefur að dómi flm. till., hafa þeir talið eðlilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi frumkvæði í málinu, en í fullri samvinnu við forráðamenn viðkomandi sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að umr. um þáltill. þessa verði frestað og till. þá vísað til hv. fjvn. til athugunar.