06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

83. mál, gufuveita frá Krýsuvík

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, fjallar um, að hv. Alþingi skori á ríkisstj. að láta fara fram athuganir á möguleikum til nýtingar jarðgufu í Krýsuvík til hitaveitu og iðnaðarþarfa fyrir byggðarlögin hér í grenndinni. Um þörfina á því, að nýttur sé jarðhiti, eru að sjálfsögðu allir á einu máli, svo sem einnig er minnzt á í upphafi grg. þáltill. En til þess að frómar óskir rætist, þarf að beita vinnuafli, þekkingu, tækjum og fjármagni. Alls þessa þarf með, til þess að þáltill. þessi verði meira en orðin ein, jafnvel þótt á bak við hana komi vonandi til með að standa samþykki þingheims alls. Til þess að tryggja framgang allra þeirra óska, sem lengi hafa verið fyrir hendi um nýtingu jarðhita, voru á síðasta þingi samþykkt lög um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins, þótt sjóðnum væru að vísu ekki tryggðar tekjur umfram það, sem veitt er á fjárlögum hverju sinni og heimilað er með lántökum. Í þeim lögum er heimilað að veita fé úr jarðhitasjóði til þeirra athugana, sem þáltill. fjallar um. Upphaf 2. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Úr jarðhitasjóði má verja fé til vísindalegra rannsókna á eðli og uppruna jarðhita, til leitar að jarðhita með jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum, til rannsókna og tilrauna við vinnslu hita o.fl:

Það liggur nærri að ætla, að hæstv. ríkisstj. beri að láta framkvæma a.m.k. hluta þeirra athugana, sem farið er fram á í þessari þáltill., þótt samþykkt hennar kæmi ekki til, því að 8. gr. laganna hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. lætur framkvæma jarðboranir eftir heitu vatni og gufu í rannsóknarskyni og til vinnslu víðs vegar um landið með hagnýtingu jarðhitans í hitaveitum, til almenningsþarfa og til ræktunar, raforkuvinnslu og iðnaðar. Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum frá jarðhitadeild raforkumálastjórnar, hvar borað er, en jafnan skal láta sitja í fyrirrúmi borun á þeim stöðum, þar sem vænta má, að verðmæti jarðhitans verði mest og komi fyrst að notum.”

Ætla mætti, að verðmæti jarðhitans komi að mestum notum þar, sem þéttbýlið er fyrir í næsta nágrenni, og ætti jarðhiti í Krýsuvík að vera þar í fremstu röð. En hvernig hefur verið unnið að því að uppfylla þær óskir um nýtingu jarðhitans, sem menn eru svo sammála um? Jafnvel þótt menn séu sammála um þörfina á nýtingu jarðhitans, hefur ekki verið fullt samkomulag um þær fjárhæðir, sem á fjárlögum eru veittar til raunhæfra framkvæmda, En hvað sem því liður, ætti þó naumast að vera ágreiningur um að nota til fulls og sem fyrst þær fjárveitingar, sem samþykktar eru, þau tæki, sem aflað hefur verið, og þá sérþekkingu, sem fyrir hendi er.

Það, sem segja má, að við höfum haft úr að spila í þessu efni varðandi nýtingu jarðhitans t.d. í Krýsuvík, er: Stórvirki borinn, sem keyptur var hingað til lands fyrir nokkrum árum, það starfslið, sem hafði orðið þekkingu og æfingu til að nota hann, þekking íslenzkra vísindamanna, sem vitnað er til í grg. þáltill., og svo fjárveiting á fjárlögum. Raunhæfar framkvæmdir hafa því miður ekki verið í samræmi við hinar frómu óskir. Það, sem við höfum haft yfir að ráða, hefur engan veginn verið nýtt sem skyldi. Stórvirki jarðborinn hefur ekki verið hreyfður síðan um s.l. áramót. Þeim starfsmönnum, sem við hann unnu, var sagt upp störfum hinn 7. jan. s.l. Hinn 16. marz s.l. kom til umr. í hv. Nd. stöðvun á framkvæmdum með stórvirka jarðbornum, þegar hv. 2. landsk. þm. (EðS) vakti athygli á því atriði í umr. um frv. til laga um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins. Lýsti hann ótta sínum um, að þeir menn, sem þekkingu hefðu fengið á starfrækslu borsins fengjust ekki aftur til starfa, þegar hafizt yrði handa að nýju, og þar með tapaðist sú kennsla, sem veitt var af erlendum sérfræðingum, sem störfuðu við borinn, fyrst eftir að hann kom, sumir jafnvel í rúmt ár. Hv. þm. spurði hæstv. raforkumrh., hvort þær ráðstafanir, sem í lögunum væru gerðar, væru nægilegar til þess að tryggja starfrækslu borsins. Hæstv. ráðh. svaraði því til, að raforkumálastjóri hefði samið frv., og yrði því að ætla, eins og hæstv. ráðh. sagði orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „að það sé sniðið við þarfir og við það, að borarnir“ þ.e.a.s. stóri borinn og Norðurlandsborinn „geti verið að starfi meginhluta ársins eða þann tíma, sem þeir þurfa ekki að vera í viðgerð.“ Nokkrar deilur urðu um orsakirnar, sem voru fyrir því, að borinn hafði verið tekinn úr notkun, en hann hafði verið starfslaus í 21/2 mánuð, þegar umr. fóru fram. Hv. 2. landsk. þm. taldi, að viðgerðir eða athuganir væru ekki meginorsök þess, að borunum hefði verið hætt, heldur lægju fjárhagslegar ástæður að baki. Hæstv. ráðh. taldi ekki óeðlilegt, að sá tími gæti komið, að það þætti heppilegt að stöðva boranir. Fleira gæti valdið en fjárskortur, t.d. það, að sérfræðingar raforkumálaskrifstofunnar hafi ekki tilbúnar tillögur um það, hvar heppilegast sé að bora. Þá benti hæstv. ráðh. á, að á fjárlögum þessa árs væru 6 millj. kr. til þessara framkvæmda, sem væri ekki farið að snerta, og auk þess ætti Reykjavíkurbær að greiða hluta af kostnaðinum. Enn fremur lýsti hæstv. ráðh. yfir því, að samkvæmt viðtali við raforkumálastjóra væri nokkuð tryggt, að hinir sérfróðu starfsmenn við borinn störfuðu við hann áfram.

Í síðustu ræðu sinni dró hæstv. ráðh. að lokum saman þær ástæður, sem gætu legið til stöðvunar borsins: í fyrsta lagi viðgerðir og eftirlit; í öðru lagi: sérfræðingar væru ekki búnir að ákveða, hvar ætti að bora næst, og sagði að síðustu, með leyfi hæstv. forseta: „Þriðja ástæðan getur tæplega verið fjárskortur, úr því að ekki er farið að snerta fjárveitinguna, auk þess sem með frv. er verið að gera ráðstafanir til þess að rekstur þeirra, þ.e.a.s. jarðboranna, verði tryggður.“

Hinn 16. marz s.l. voru því hv. þm. látnir standa í þeirri trú, að stöðvun á starfrækslu stórvirka jarðborsins yrði ekki langæ. Ekki væri ástæða til að óttast, að boranir með honum væru lagðar niður á þessu ári. Frá því að þetta var látið koma fram, er liðinn 81/2 mánuður, borinn verið starfslaus allt árið. Bezti tíminn er um garð genginn, en enn hefur stórvirki jarðborinn ekki verið hreyfður til framkvæmda og ekki verið séð til þess, að starfræksla hans flýti því, að rætist óskir manna um rannsóknir og nýtingu jarðhitans, og ekki einu sinni notuð þau fjárframlög, sem fengust þó veitt á fjárlögum. Nú, þegar enn koma til umr, frómar óskir manna um nýtingu jarðhitans, þá væri ástæða til þess, að hæstv. raforkumrh. upplýsti þingheim um hinar raunhæfu framkvæmdir í þessum efnum á því ári, sem nú er senn lokið.

Ég hef hér rætt nokkuð um fjárframlög til jarðhitarannsókna og notkun þeirra og nýtingu þeirra tækja, sem störfin byggjast á, svo og nýtingu á sérþekkingu þeirra manna, sem við þau hafa starfað, en hætta er á, að kynnu að tapast. Er þá komið að enn einum þætti þessara mála og ekki hinum veigaminnsta: störfum þeirra íslenzku vísindamanna, sem farið hafa með stjórn jarðhitarannsókna og annazt öll vísindaleg störf í sambandi við þær. Í aths. um 2, gr. frv. til I. um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins segir m.a. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„En gæta þarf þess hins vegar að vanrækja ekki hina vísindalegu hlið þessara mála. Hér á landi eru öll skilyrði fyrir hendi til þess, að íslenzkir vísindamenn séu brautryðjendur á sviði jarðhitarannsókna. Hafa alþjóðastofnanir þegar nokkrum sinnum leitað aðstoðar íslenzkra vísindamanna á þessu sviði. Aukin vísindaleg þekking á jarðhitanum mun án efa spara töluvert í borunar- og vinnslukostnaði í framtíðinni.“

Á þetta geta allir fallizt. En hvers vegna stendur nú í grg. eða aths.: „Gæta þarf þess hins vegar að vanrækja ekki hina vísindalegu hlið“ o.s.frv.? Vegna þess, að fyrr í aths. um 2. gr. frv. er þess sérstaklega getið, að kostnaður af vísindalegum rannsóknum á jarðhita, annar en borunarkostnaður, hafi til þessa verið hverfandi lítill á móti því fé, sem til sjálfra jarðborananna hafi farið. Svo muni og verða framvegis. En hins vegar megi sem sagt ekki þess vegna vanrækja hina vísindalegu hlið þessara mála. Hvernig er þessum málum nú komið? Samkvæmt blaðafregnum mun sá sérfræðingur, sem mest hefur haft þessi mál með höndum, dr. Gunnar Böðvarsson, sem einmitt er vitnað til í grg. með þáltill. þessari, hafa sagt upp starfi hjá raforkumálastjórninni, að því er ætla má vegna ágreinings um launakjör, á sama hátt og úr þjónustu ríkisins eru að tinast flestir verkfræðimenntaðir menn. Hæstv. raforkumrh. gat þess hinn 16. marz s.l. hér á hv. Alþingi, eins og ég hef áður rakið, að ein ástæðan til þess, að stöðvazt gætu framkvæmdir með stórvirka jarðbornum, þrátt fyrir nægilega fjárveitingu, væri sú, að sérfræðingar raforkumálaskrifstofunnar hafi ekki tilbúnar tillögur um það, hvar heppilegast sé að bora, og af raunhæfum framkvæmdum verði því ekki. Þetta virðist einmitt hafa gerzt í sumar. Nauðsynleg undirbúningsstörf eru ekki fyrir hendi vegna kaupdeilna. Finnst nú hæstv. ráðh., að sú þróun, sem nú á sér stað um störf vísindalega menntaðra manna í þessu efni, stuðli að því, að raunhæfar framkvæmdir verði með þeim hætti, sem óskir flestra eða allra standa til? Eða þykir honum þessi þróun ískyggileg? Og hvað hefur verið gert til þess að sporna við henni?

Ég ætla ekki að fara að ræða þessi mál almennt varðandi verkfræðimenntaða menn í þjónustu ríkisins, heldur aðeins vekja athygli á því, hvað er að gerast varðandi raunhæfar framkvæmdir til nýtingar jarðhitans. Rekstur stórvirka jarðborsins taldi hæstv. ráðh. s.l. vor að mundi kosta um 20 millj. kr. á ári, þó sjálfsagt meira. En jafnvel í grg. með frv. til l. um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins, sem m.a. var ætlað að tryggja rekstur borsins, er það tekið sérstaklega fram, að kostnaður vegna vísindalegra rannsókna, annar en borunarkostnaður, sé hverfandi, þó að hann sé vitaskuld ein aðalundirstaðan undir því, að boranir geti farið fram eða beri jákvæðan árangur. Í grg. er þess einnig getið, að hina vísindalegu hlið megi ekki vanrækja og hér á Íslandi séu jafnvel öll skilyrði fyrir hendi til þess, að íslenzkir vísindamenn séu brautryðjendur á sviði jarðhitarannsókna. Það virðist sem ekki hafi að ástæðulausu verið minnt á mikilvægi starfa vísindamannanna og til frekari tryggingar bent sérstaklega á, að kostnaður við störf þeirra sé hverfandi, miðað við annað. Það virðist ekki að ástæðulausu hafa verið varað við að vanrækja hina vísindalegu hlið þessara mála, og ég vildi með þessum orðum ítreka þessa áminningu úr grg. með því frv., sem hæstv. raforkumrh. hefur upplýst að raforkumálastjóri hafi samið, og fara þess á leit, að hæstv. ráðh. geri þingheimi grein fyrir því, hvað er að gerast í þessu efni. Það hlýtur að vera krafa allra þeirra, sem hafa áhuga á, að nýttur sé jarðhiti á Íslandi, að ekki sé beitt nokkurri þröngsýni gagnvart þeim vísindamönnum, sem að þessum málum hafa unnið og við erum svo heppnir að eiga, — mönnum, sem leggja fram þá undirbúningsvinnu, sem allar raunhæfar framkvæmdir byggjast á. Sé svo, að nokkur hætta sé á því, að við missum starfskrafta þessara vísindamanna, þá held ég, að brýn þörf væri á, að hv. Alþingi fæli hæstv. ríkisstj. að tryggja viðunanlega lausn í því máli, til þess að um raunhæfar framkvæmdir geti verið að ræða, ekki siður en að við látum enn einu sinni vita um óskir okkar um nýtingu á jarðhita til almenningsþarfa, svo nauðsynlegt sem það að sjálfsögðu er.