21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

83. mál, gufuveita frá Krýsuvík

Fram. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Þessi till. var rædd í fjvn. og send til umsagnar jarðhitadeildar raforkumálaskrifstofunnar, sem telur, að hún sé tímabær, og mælir með samþykkt hennar. Raforkumálastjóri telur í bréfi sínu, að líkur séu til, að jarðhitinn í Reykjavík og næsta nágrenni verði fullvirkjaður og nýttur innan tíu ára og muni þá þurfa að leita lengra til fanga. En slík mannvirki þurfa nákvæma athugun og undirbúning, og veitir því ekki af að byrja þegar á honum. Við höfum nú þegar svo mikla og góða reynslu af notkun jarðhitans, að eðlilegt er að leita ráða til að notfæra sér þessa auðlind enn betur en gert hefur verið til þessa.

Jarðhitaorkuverin eru einhver beztu fyrirtæki, sem við eigum. Þau selja orkuna mun ódýrara en erlendir orkugjafar, kol eða olía, kosta, spara stórfé í erlendum gjaldeyri og hafa samt góða afkomu. Enn hefur aðeins nærtækasta jarðhitaorkan verið nýtt, en þegar farið verður að nýta þær orkulindir, sem fjær eru, er sennilegt, að hagkvæmastar verði allstórar virkjanir, og þess vegna rétt að hafa í huga að nota nokkuð af orkunni til iðnaðarþarfa, en ekki fyrst og fremst til húsahitunar og gróðurhúsa, eins og hingað til hefur verið. Þær athuganir, sem gerðar hafa verið í þá átt, benda til þess, að hægt sé að fá jarðhitaorkuna mun ódýrari en orku frá kolum eða olíu, en hafa ekki enn leitt til framkvæmda. Orkan frá kjarnorkuverum er enn þá nokkru dýrari en frá orkuverum, sem nota kol eða olíu eða vatnsafl, nema við sérstakar aðstæður, t.d. í heimskautalöndunum. Bilið hefur þó minnkað mikið á fáum árum og ekki víst, að langt liði, þar til verð orku frá kjarnorkuverum lækkar enn. Það er því brýn nauðsyn fyrir okkur Íslendinga að fresta því ekki að nýta þær auðlindir, sem við eigum í fossunum og jarðhitasvæðunum, sem enn þá eru ódýrustu orkulindirnar, sem þekkjast. Nefndin leggur því einróma til, að þessi till. verði samþykkt.