22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (3051)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Í s.1. marzmánuði gerðu ríkisstj. Íslands og Bretlands með sér samkomulag um lausn fiskveiðideilu þeirrar, sem staðið hafði á milli ríkjanna frá því í septemberbyrjun 1958. Segja má, að efni þessa samkomulags hafi verið tvíþætt. Annars vegar gerðu Bretar hvort tveggja í senn að viðurkenna rétt Íslendinga til stórfelldrar útfærslu á fiskveiðilögsögu við Ísland frá því, sem ákveðið var 1958, með því að fallast á, að Íslendingar hefðu heimild til að fækka stórlega grunnlínupunktum, og auk þess viðurkenndu Bretar í prinsipinu 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland frá þeim grunnlínum, sem ákveðið var. En öðrum þræði var samkomulagið þess efnis, að ríkisstj. Íslands féllst á, að brezk fiskveiðiskip mættu stunda fiskveiðar innan hinnar nýju útfærðu fiskveiðilögsögu á takmörkuðum svæðum og takmörkuðum tímum úr ári næstu 3 árin.

Sú hugsun, sem lá til grundvallar þessu samkomulagi, var fyrst og fremst þess eðlis, að af Íslendinga hálfu var lagt mikið upp úr því að geta eytt deilunni við Breta og fengið þá jafnframt til þess að viðurkenna ekki aðeins 12 mílna grundvallarregluna fyrir fiskveiðilögsögu við Ísland, heldur einnig stórfellda og þýðingarmikla útfærslu á fiskveiðilögsögunni frá því, sem hún var ákveðin með reglugerðinni frá því sumarið 1958. Auk þess lá sú hugsun til grundvallar þessu samkomulagi, að ekki væri óeðlilegt, að Bretar fengju nokkurn umþóftunartíma til að hverfa burt úr íslenzkri fiskveiðilögsögu, og það ekki sízt vegna þess, að ríkisstj. var að undirbúa og framkvæmdi frekari útfærslu á fiskveiðilögsögunni en áður hafði verið.

Skömmu eftir að þetta samkomulag við Breta var gert, leitaði ríkisstj. Vestur-Þýzkalands eftir viðræðum við ríkisstj. Íslands um aðstöðu þýzkra skipa til veiða á Íslandsmiðum. Þannig hagar til um fiskveiðar þýzkra skipa á Íslandsmiðum, að mikill fjöldi þeirra hefur stundað hér veiðar um áratugi. Vestur-Þjóðverjar koma næst á eftir Bretum um fiskveiðar á Íslandsmiðum, bæði hvað varðar fjölda fiskiskipa, lengd veiðitíma á ári, fjölda þeirra ára, sem skipin hafa stundað hér veiðar, og aflamagn, og kemst engin þjóð önnur neitt til samjafnaðar þar við Breta og Vestur-Þjóðverja. Þegar fiskveiðilögsagan var færð út 1958, voru Vestur-Þjóðverjar einir þeirra, sem mótmæltu lögmæti þeirrar útfærslu að alþjóðarétti. Ríkisstj. taldi mikið upp úr því leggjandi, að hægt væri að fá Vestur-Þjóðverja til þess að viðurkenna bæði 12 mílna grundvallarregluna um fiskveiðilögsögu við Ísland og hina nýju útfærslu, sem framkvæmd var í marzmánuði s.l. með fjölgun grunnlínupunkta, og taldi því ríkisstj. rétt að taka upp viðræður við ríkisstj. Vestur-Þýzkalands um þetta mál. Í þeim viðræðum kom í ljós, að ríkisstj. Vestur-Þýzkalands var fús til að fallast á fiskveiðilögsöguna við Ísland, eins og hún var ákveðin í s.l. marzmánuði, á sama hátt og Bretar höfðu á hana fallizt, enda fengju þeir sambærilega aðstöðu við það, sem Bretum var veitt með því samkomulagi, sem við þá hafði verið gert. Ríkisstj. taldi rétt að gera slíkt samkomulag við ríkisstj. Vestur-Þýzkalands, en þó aðeins þannig, að þriggja ára fresturinn skyldi renna út á sama tíma gagnvart Vestur-Þjóðverjum og hann rennur út gagavart Bretum, enda þótt samkomulagið við Vestur-Þjóðverja væri gert nokkru síðar.

Áður en gengið var frá málinu, var það borið undir utanrmn. Meiri hl. n. lýsti sig samþykkan því, að fallizt yrði á það samkomulag, sem ríkisstj. gat komizt að við ríkisstj. Vestur-Þýzkalands og mælt með að yrði gert, en minni hl. var slíku samkomulagi andvígur. Eftir þetta gekk ríkisstj. frá samkomulagi um málið við ríkisstj. Vestur-Þýzkalands, sem að efni til var nákvæmlega samhljóða samkomulaginu við ríkisstjórn Bretlands. Þetta samkomulag kom til framkvæmda, um leið og það var gert, en með þeim fyrirvara þó af Íslands hálfu, að það væri háð samþykki Alþingis, og mundi falla úr gildi, ef það fengist ekki staðfest þar. Þetta samkomulag er nú hér með lagt fyrir hv. Alþingi til meðferðar og afgreiðslu, og leyfi ég mér að leggja til, að umr. um málið verði frestað og því verði vísað til utanrmn. til athugunar og meðferðar, áður en meðferð þess lýkur hér við umræðuna.