22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3053)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessari till. segja fáein orð.

Þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilandhelgina 1. sept. 1958, sigldu aðfaranótt þess dags togarar allra þjóða út úr landhelginni nema brezku togararnir. Þetta þýddi, eins og raunar kom enn greinilegar fram fljótlega, að í verki viðurkenndu allar þjóðir útfærsluna nema Bretar, og þar á meðal voru Vestur-Þjóðverjar, og eiga þeir miklar þakkir fyrir það eins og aðrar þjóðir, sem þetta gerðu.

Ég hef alltaf haldið því fram, að þegar þetta gerðist, hafi sigur unnizt í útfærslumálinu, vegna þess að einni þjóð yrði aldrei stætt á því að taka sig út úr og fiska með ofbeldi í fiskveiðilandhelginni. En þetta gerðu Bretar eða reyndu að gera, eins og kunnugt er, en með afar lélegum árangri, og hættu því svo, þegar frá leið. Þá var 12 mílna landhelgin eða friðun hennar í raun og veru orðin staðreynd. En þrátt fyrir þetta samdi ríkisstj. við Breta um landhelgismálið, þvert ofan í eldri yfirlýsingar, og samningurinn var í raun og veru um að færa fiskveiðilandhelgina inn í 3 ár, færa hana inn víðs vegar við strendur landsins, eins og Bretum kom bezt. Og það sem verra er, að ég vantreysti því, — og ég veit, að það gerir mikill hluti þjóðarinnar, — ég vantreysti því, að þessi innfærsla verði aðeins til 3 ára, ef núv. stjórnarflokkar fá að ráða hér einir. Menn geta alveg eins búizt við því, að þetta yrði framlengt, ef þeim byði svo við að horfa, og þyrfti ekki mikið til að mínu viti.

En þetta var annað atriðið í samningnum. Hitt atriðið var, að Íslendingar skuldbundu sig til þess að hafa samráð við Breta um frekari útfærslu og að Bretar gætu skotið fyrirhugaðri útfærslu síðar til Haagdómsins, ef þeim sýndist. Með þessu móti afsöluðu Íslendingar sér í samningi við Breta einhliða útfærslurétti, sem þeir óumdeilanlega höfðu haft. Hér var um að ræða afar þýðingarmikið framsal á landsréttindum, einmitt þess konar framsal, sem Jón Sigurðsson taldi að Íslendingar mættu aldrei gera, því að hans stefna var sú í sjálfsstjórnarmálinu, að þó að menn gætu ekki komið sjálfsstjórninni á til fulls og ekki nema áleiðis, þá væri alltaf aðalatriðið að afsala sér aldrei neinum rétti. En landsréttindum var afsalað með samningnum við Breta. Það, sem í móti kom frá Bretum eða talað var um að kæmi í móti, var svo, að þeir hættu hernaðinum í fiskveiðilandhelginni, sem að mínu viti var óhugsandi fyrir þá að halda áfram, og viðurkenning á breytingu grunnlína, sem Íslendingar höfðu tvímælalaust rétt til að breyta einhliða og þurftu því ekki að semja um. Við þurftum ekki að færa inn landhelgina á stórum svæðum, til þess að hægt væri að lagfæra grunnlínurnar. Þessi samningur var því þannig, að ég var honum algerlega mótfallinn fyrir mitt leyti og Framsfl., eins og kunnugt er.

Enda þótt framkoma Vestur-Þjóðverja í þessu máli sé mjög ólík framkomu Breta, þá breytir það þó ekki því, að þegar ég var kvaddur í sumar á utanríkismálanefndarfund til þess að taka afstöðu til þess, hvort gera ætti hliðstæðan samning við Vestur-Þjóðverja og gerður hafði verið við Breta, þá tók ég afstöðu á móti því, að slíkur samningur væri gerður við Vestur-Þjóðverja. Það var byggt á þeirri hugsun, að því fleiri samningar sem gerðir væru af þessu tagi, því verr væri farið, það væri meira en nóg komið og Íslendingar ættu alls ekki að binda sig gagnvart fleiri þjóðum á þá lund, sem þeir hefðu bundið sig með landhelgissamningnum gagnvart Bretum.

Þessa grg. fyrir afstöðu minni vildi ég láta koma fram nú strax, áður en þetta mál fer til nefndar, sem ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir að það fari.