14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

52. mál, viðurkenning Þýskalands á fiskveiðilögsögu við Ísland

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér liggur fyrir, ber það fallega nafn að heita samkomulag um viðurkenningu Sambandslýðveldisins Þýzkalands á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Eftir að svo hafði staðið, að Sambandslýðveldið Þýzkaland hafði fullkomlega í reynd viðurkennt 12 mílna fiskveiðilandhelgi við Ísland, þannig að það hafði bægt öllum sínum skipum út fyrir 12 mílna mörkin og ekkert veiðiskip frá því landi hafði gert sig á neinn hátt sekt varðandi þær reglur, sem giltu frá Alþingi Íslendinga um fiskfriðunarmál okkar, — eftir að svo hafði staðið nokkuð á þriðja ár og þeir þannig í reynd viðurkennt 12 mílna landhelgina, þá gerast þau undur, að það á að viðurkenna 12 mílna landhelgina af þessu landi með nokkuð öðrum hætti, og hátturinn er sá, að það á að hleypa þeim inn fyrir 12 mílna mörkin og leyfa þeim að veiða upp að 6 mílum. Og enn fremur er svo það, að það á að ákveða í óuppsegjanlegum samningi, að við skulum eftirleiðis ekki hafa rétt til að breyta okkar landhelgismörkum nema leita samráðs við fulltrúa þessa lands og einnig gefa þeim rétt til þess að skjóta ágreiningsefnum, sem upp kunna að koma, til alþjóðadómstóls, sem á að skera úr um það, hvort um frekari útfærslu af okkar hálfu getur orðið að ræða eða ekki.

Ég hygg, að það muni vera fleiri en ég, sem líta svo á, að þetta sé viðurkenning með nokkuð einkennilegum hætti, miðað við öll málsatvik. Nei, hið sanna er auðvitað það, að það, sem hér er um að ræða, er, að nú leitar hæstv, ríkisstj. eftir heimild til þess að mega víkja frá 12 mílna landhelginni, sem hér var í gildi, og heimila togurum frá Vestur-Þýzkalandi að veiða inn að 6 mílna mörkunum á mörgum stöðum við landið um þriggja ára tímabil. Um það er sú till., sem hér liggur fyrir. Það er verið að leita eftir heimild til þess að mega víkja frá 12 mílna fiskfriðunarmörkunum og heimila togurum frá tilteknu landi að veiða fyrir innan þau á tilteknu tímabili. Um það er till., og hún hefði vitanlega átt að bera nafn í samræmi við þennan megintilgang. En það er nú svo, að þeim, sem að till. standa, þykir hitt hentara að gefa henni þetta fallega nafn, að segja, að till. sé um viðurkenningu á 12 mílna landhelginni við Ísland, þótt hún sé um þetta atriði, sem ég hef sagt.

Þegar samningurinn við Breta var gerður veturinn 1961, um að heimila þeim um þriggja ára skeið að veiða innan 12 mílna markanna, þá sögðum við hér á Alþingi, sem vorum á móti þeim samningi, að það væri nokkurn veginn gefið mál, að á eftir mundu fylgja hliðstæðir samningar við aðrar þær þjóðir, sem togveiðar stunda hér við land. Og reyndin hefur líka orðið þessi. Það var ekki aðeins verið að hleypa brezkum togurum inn fyrir mörkin, það var um leið verið að opna fyrir það að hleypa öllum þeim togaraflota inn fyrir mörkin, sem veiðar stundar hér við land, og samkvæmt þessari till. á sem sagt vestur-þýzku togurunum að vera veitt þessi heimild.

Ég tók eftir því, að fyrr í þessum umr. komst hv. frsm. meiri hl. utanrmn. þannig að orði, að hann teldi, að slíkur ávinningur hefði okkur orðið að samningunum við Breta í landhelgismálinu, að nú mundi enginn Íslendingur óska eftir því að hverfa til þess tímabils, sem þar hefði verið á undan, allir væru raunverulega ánægðir með þennan samning, því að við hefðum haft hagnaðinn einan saman af. Þetta gefur mér tilefni til þess að minnast á það með örfáum orðum, hvað raunverulega hefur gerzt í þessum efnum. En mér sýnist, að þessi orð bendi til þess, að a.m.k. 1. þm. Vestf. viti harla lítið um það, hvað hefur verið að gerast á fiskimiðunum við landið, síðan þessi samningur við Breta var gerður. Það vildi að vísu svo til, að síðasta vetrarvertið, vertiðin veturinn 1960—61, var að verulegu leyti um garð gengin, þegar Bretar höfðu aðstöðu til að notfæra sér hinn nýja samning til veiða innan 12 mílna markanna hér við Ísland. Samningurinn var ekki gerður fyrr en um miðjan marzmánuð eða svo, og um það leyti stóð yfir verkfall hjá enskum togurum, og það fór því svo, að ensku togararnir gátu ekki notfært sér af þessum ástæðum hinar nýju veiðiheimildir innan landhelginnar hér við Ísland á síðustu vetrarvertið. Menn urðu því tiltölulega lítið varir við brezku togarana hér á aðalvetrarvertíðarsvæðinu á síðustu vertíð. Það er sú vertíð, sem nú stendur yfir, sem er raunverulega fyrsta vertiðin, sem nokkuð reynir á hér á vetrarvertíðarsvæðinu, hvernig fer um þessa heimild, hvernig hún reynist í framkvæmd. En það er þó komið nokkuð annað reynslutímabil, en það er þar við landið, þar sem vetrarvertíð er ekki fyrst og fremst stunduð, en þar sem sumarvertið er stunduð og haustvertíð. Við Austfirðingar, við höfum t.d. þegar fengið talsverða reynslu af því, hvað þessi nýi samningur gildir í reynd, og ég ætla, að það hafi Norðlendingar fundið líka. Auðvitað fór það svo, að brezkir togarar notfærðu sér samninginn, um leið og þeir komu hingað á Íslandsmið, og þeir tóku að veiða innan 12 mílna markanna upp að 6 mílum á fiskimiðum bátanna, t.d. fyrir öllu Austurlandi og Norðurlandi, og það gerðu þeir s.l. vor og sumar og s.l. haust. Afleiðingarnar af þessu urðu þær, að hvað eftir annað kom það fyrir, að smábátar urðu að hrekjast af miðum sínum vegna ágangs brezkra togara. Æði oft var skýrt frá þessu í blöðum landsins, en auðvitað miklu, miklu sjaldnar en efni hefðu staðið til, og ástæðan er eingöngu sú, að menn geta ekki verið að endurtaka það í sífellu, sem gerist orðið svo að segja dag eftir dag. Á s.l. ári komu eitt hundrað brezkir togarar t.d. inn til Neskaupstaðar, leituðu þar hafnar, fengu þar viðgerðir og aðra þjónustu. Áður hafði það hins vegar verið svo, að þeir höfðu ekki sézt þar, á meðan á deilunni við Breta stóð, á meðan 12 mílna landhelgin var í fullri framkvæmd. Eftir að samningurinn við Breta var gerður, þá sem sagt sóttu togararnir hingað á Íslandsmið margfalt meir en þeir höfðu gert áður. Þeir ruddust inn á mið bátanna, sem urðu auðvitað að víkja fyrir þeim í mörgum tilfellum, og þá gátu brezku togararnir notið hér allra hlunninda í íslenzkum höfnum, sem þeir gátu ekki áður. Okkar bátaútgerð varð auðvitað iðulega fyrir línutjóni og öðru tjóni, sem slíkum ágangi fylgir. Og svo koma hér hv. alþm. fram, tala fyrir hönd meiri hl. utanrmn. og halda, að allir Íslendingar séu einkar ánægðir með skiptin, við höfum ekkert haft nema hag af þessu. Ég minnist þess, að það eru aðeins örfáir dagar síðan annað stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, birti skýrslur úr enskum blöðum um það, að nú væri aftur farið að sækja í hið betra horfið fyrir brezka togara með afla frá Íslandi, nú væri aflinn orðinn miklu meiri, sem brezkir togarar kæmu með af Íslandsmiðum á markað þar, heldur en áður hefði verið. Hver var ástæðan? Ástæðan var einfaldlega sú, að ágengnin hér á miðin af hálfu Bretanna var stórum miklu meiri en áður og þeir voru búnir að fá ný veiðisvæði undir, sem þeir gátu gengið í. Það var því verið að rýra þá fiskfriðun, sem við stefndum að, það var verið að minnka hana brezkri togaraútgerð til góða. Og svo, eins og ég segi, koma hér fram alþm. og fagna þessu og eru ánægðir yfir og halda, að allir Íslendingar hafi grætt.

Nei, ég er sannfærður um, að það verða ekki aðeins austfirzkir útgerðarmenn og sjómenn, sem þessa sögu hafa að segja, og norðlenzkir. Þeir hér fyrir sunnan eiga eftir að segja sina sögu. Röðin fer að koma að þeim, þótt hins vegar mér sé fullljóst, að samningurinn við Breta var gerður þannig, að þar var látið hallast sérstaklega á Austfirðinga og Norðlendinga. Það var engu líkara en hæstv. ríkisstj. hugsaði málið þannig, að fylgi hennar og aðstaða stæði þannig, að það skipti minna máti, hvað þeir segðu fyrir austan og norðan. En ég er ekki í nokkrum vafa um, að hér eiga árekstrar eftir að verða líka, þegar Bretar fara að notfæra sér þau auknu hlunnindi, sem þeir fengu með þessum samningi, sem við þá var gerður á s.l. vetri.

En auðvitað er aðalatriði þessa máls það, að við höfðum að vísu fengið fullan sigur varðandi 12 mílna landhelgina við Ísland, þegar þessi samningur við Breta var gerður. Við höfðum fengið meiri og betri friðun á okkar fiskimiðum innan 12 mílnanna og í rauninni við Ísland almennt séð en menn höfðu þorað að búast við, þegar fiskveiðilandhelgin var stækkuð 1958. Við höfðum náð þessu öllu saman, og við höfðum fengið mikilvæga viðurkenningu annarra þjáða fyrir hinni nýju landhelgislínu okkar. En þrýstingurinn frá ýmsum erlendum aðilum stóð á íslenzk stjórnarvöld áfram. Það var enn þá leitað ráða til þess að beygja íslenzk stjórnarvöld til hlýðnisafstöðu við erlenda aðila í þessum efnum, og það tókst að fá íslenzk stjórnarvöld til þess að fórna þeim sigri, sem við höfðum unnið, og gera þennan undansláttarsamning, sem gerður var. Það var þessi bilun, sem þarna kom fram, sem var vitanlega það alvarlegasta í málinu. Það var vitað um þessa bilun einmitt í forustuliði þeirra flokka, sem nú fara með völd í landinu, frá því að fyrstu átökin urðu um útfærslu landhelginnar. En bilunin var sem sagt öllum augljós, þegar þessi samningur við Breta var gerður á s.l. vetri. En þessi bilun, sem þá var og var býsna alvarleg, nú er fullvist um, að hún er enn fyrir hendi. Enn er verið að þrýsta á. Þegar samningurinn við Breta var gerður í marzmánuði 1961, átti hann að heita að nafninu til til þriggja ára. En það er þegar farið að tala um það alveg opinskátt, hvernig megi komast fram hjá þessum þriggja ára mörkum, hvernig sé hægt að framlengja rétt Breta til veiða hér við land. Það hefur alveg greinilega komið fram hjá brezkum útgerðarmönnum og forustumönnum þeirra að undanförnu, að leiðin í þessum efnum sé hægust sú að nota nú einmitt tækifærið varðandi Efnahagsbandalag Evrópu, með einni eða annarri þátttöku af Íslands hálfu í því bandalagi eigi brezkir útgerðarmenn að fá rétt til fiskveiða innan fiskveiðilandhelginnar við Ísland. Og íslenzkir ráðh, hafa klifað á því að undanförnu, að við Íslendingar ættum ekki annan kost, við vorum nauðbeygðir til þess að ganga í Efnahagsbandalagið og þá að sjálfsögðu að afsala rétti okkar til okkar fiskveiðilandhelgi, en það er bein afleiðing af því að ánetjast Efnahagsbandalagi Evrópu. Það er þetta, sem er aðalhættan í málinu. Við vitum um veikleikann hjá núv. ríkisstj. Sá veikleiki hefur komið bert í ljós. Við höfum fengið að súpa seyðið af þessum veikleika. Og hættan vofir yfir okkur enn einu sinni.

Ég vit taka það skýrt fram, að við Alþýðubandalagsmenn erum að sjálfsögðu á móti þeirri till., sem hér liggur fyrir, að veita ríkisstj. heimild til að gera þennan samning við Sambandslýðveldið Þýzkaland. Við lýstum því í rauninni yfir, að við yrðum á móti slíku, þegar samningurinn við Breta var gerður. En við vitum, að þetta samkomulag við Sambandslýðveldið Þýzkaland er í beinu framhaldi af þeim samningi, sem gerður var við Breta. Það er auðvitað illt, sem gerzt hefur í þessum efnum, en hitt ar rétt, að menn hafi fyllilega í huga, hvaða hættur fylgja því, sem gerzt hefur, en villist ekki svo gersamlega eins og hér kom fram hjá 1, þm. Vestf., að halda, að það, sem gerzt hefur í þessum efnum, hafi verið okkur Íslendingum eingöngu til vinnings, því að það er mikill misskilningur.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar nú að sinni, en vona, að svo megi til takast, áður en næsta hætta ríður yfir í þessum efnum, að há verði kominn annar meiri hl. hér á Alþingi en nú er, því að annars er hætt við því, að þriggja ára samningurinn, sem hér er verið að fjalla um, verði framlengdur.