15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

46. mál, verndun fiskistofna við strendur Íslands

Flm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. nr. 54 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um verndun fiskstofna við strendur Íslands. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að taka nú þegar til rækilegrar athugunar í samráði við Fiskifélag Íslands og fiskideild atvinnudeildar háskólans, hvort eigi sé nauðsynlegt til veradar fiskstofnum við strendur landsins að banna ýsuveiðar með herpinót á helztu uppeldisstöð þess nytjafisks og sömuleiðis smásíldarveiði á grunnmiðum og inni í fjarðarbotnum.

Skal undinn bráður bugur að athugun þeirri, sem að framan greinir, svo að eigi þurfi að dragast lengi, að reistar verði skorður við þeirri hættu, sem allar líkur benda til að stafað geti af þessum veiðiaðferðum.”

Svo sem fram kemur í till. þessari, er hér sérstaklega vakin athygli á nauðsyn þess, að bannaðar verði ýsuveiðar með herpinót á helztu uppeldisstöðvum þess nytjafisks og sömuleiðis smásíldarveiði á grunnmiðum og inni í fjarðarbotnum. Vegna þeirrar sérstöðu, sem Íslendingum er sköpuð með því, hve þjóðin er fiskveiðunum háð, er þeim öllum öðrum fremur nauðsynlegt að vera vel á verði og fylgjast með því, sem er að gerast á miðunum við strendur landsins. Sízt af öllu mega þeir með fyrirhyggjuleysi flana að því að beita þeim veiðiaðferðum sem skefjalausast tortíma uppfæðingnum á fyrsta aldursskeiði. Tilefni þessarar þáltill. er einmitt slíkur verknaður, sem hér hefur átt sér stað.

Um annan fiskstofninn, smásíldina, hefur þetta viðgengizt um allmörg undanfarin ár. En ýsuveiðar með herpinót hygg ég að hafi fyrst hafizt hér í Faxaflóa snemma á s.l. vori. Varðandi smásíldina má segja, að það sé nokkur afsökun, að litill hluti af því magni, sem veiðist, hefur verið nýttur til iðnaðar, þ.e. til niðursuðu eða niðurlagningar í dósir. En að það réttlæti, að margir bátar stundi þessa rányrkju árlega, svo sem dæmi eru til, fær hvergi staðizt. Sú nýja tækni, sem nú er fyrir hendi, að unnt er að þýða upp frystar sjávarafurðir með sérstökum tækjum, þannig að fiskurinn verður á ný sem ferskur að bragði til, ætti í þessu sambandi að geta tryggt nægar birgðir af smásíld til iðnaðar, án þess að um leið þurfi að koma til þess, að smásíldarkræðunni sé ausið upp jafngegndarlaust og verið hefur.

Þá hefur nokkuð verið að því gert að stunda smáufsaveiðar með herpinót inni á höfnum og í öðru landvari, þar sem þessi uppfæðingur leitar skjóls að vetrinum. Eru slíkar veiðar vægast sagt varhugaverðar, og vil ég einnig í þessu sambandi vekja athygli á því máli og tel, að það eigi einnig að reisa hér skorður við. Á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, sem nú stendur yfir, kom mál þetta nokkuð til umræðna, og gerði fundurinn um þetta sérstaka ályktun, sem ég vildi leyfa mér að lesa, með leyfi forseta. Ályktunin hljóðar svo:

„Aðalfundur L.Í.Ú., haldinn í Reykjavík 9.11. nóv. 1961, skorar á sjútvmrn. að láta nú þegar fram fara ýtarlegar rannsóknir í sambandi við ofveiði á smásíld, smáufsa og smáýsu. Enn fremur fari fram rannsókn á, hvort hætta geti stafað af ofveiði síldar á hrygningartímabilum hennar:

Það er öllum hugsandi mönnum orðið hið mesta áhyggjuefni, hvernig veiðar eru stundaðar hér við strendur landsins með slíkum rányrkjutækjum eins og hér hefur verið vikið að. Till. þessi er flutt með það fyrir augum, að látin verði fram fara nú þegar gagnger athugun á þeim rányrkjuveiðiaðferðum, sem ég hef hér minnzt á, í því skyni, að það ýti undir og flýti fyrir því, að fyrir slíkar veiðar verði tekið.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið að þessu sinni, en legg til, að umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. allshn.