15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (3096)

40. mál, verðtrygging lífeyris

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég tel þá till., sem hér liggur fyrir til umr., allrar athygli verða, og ég tel það mjög tímabært, að sú athugun fari fram, sem þar er lagt til að gerð sé, þ.e.a.s. að fram fari athugun á því, með hverjum hætti verði verðtryggðir lífeyrissjóðir.

Það er alkunna og þarf ekki að eyða að því mörgum orðum hér, hversu sívaxandi verðbólga og síendurteknar gengislækkanir hafa farið illa með sparifjáreigendur, og alveg sérstaklega hefur þetta bitnað á lífeyrissjóðum. Nú hygg ég það hins vegar vera álit flestra, að það sé æskilegt að ýta undir stofnun lífeyrissjóða og ýta undir lífeyristryggingu, bæði vegna þess, að með þeim hætti tryggja menn sig á ellidögunum, og eins hitt, að með þeim hætti getur fram farið nokkur sjóðasöfnun, sem getur verið æskileg og nauðsynleg. Og að mínum dómi er það svo, að starfsemi lífeyristrygginga þyrfti hér, ef vei væri, að færast í aukana. Það ætti í raun og veru að vera svo, að á væri komið lífeyristryggingu, ekki aðeins fyrir þá launþega, sem nú njóta þess, heldur og alla landsmenn. Það getur að sjálfsögðu verið álitamál, hvernig þeirri lífeyristryggingu ætti að vera fyrir komið, hvort þar ætti að vera um að ræða skyldutryggingu eða frjálsa tryggingu, hvort sú trygging ætti að vera í sambandi við þær almannatryggingar, sem nú eru, eða hvort það ætti að setja upp sérstaka stofnun í því skyni. En hvað sem menn álíta um það atriði, reka menn sig alls staðar á það, að erfitt er að koma á slíkum lífeyristryggingum, svo að að gagni megi verða, nema verðgildi trygginganna sé með einhverjum hætti tryggt. Og ég verð að taka undir það með hv. flm. þessarar till., að ég tel, að þó að það hafi ekki verið um annað að gera, eins og hann tók fram, varðandi almannatryggingarnar, en að breyta til frá því, sem upphaflega var þar ráð fyrir gert, í hinum upphaflegu lögum frá 1936, að byggja tryggingarnar á sjóðasöfnun og hverfa í þess stað að niðurjöfnun, þá tel ég, að það væri æskilegra, að hægt væri aftur að hverfa meir að sjóðasöfnun í því sambandi. Ég tel þess vegna eðlilegt, að það fari fram athugun á þessu atriði, og fagna því út af fyrir sig, að þessi till. skuli vera fram komin.

En ég get ekki látið hjá líða að minna á það í þessu sambandi, að ég hef hér tvisvar sinnum áður á Alþingi borið fram tillögu um verðtryggingu sparifjár. Sú tillaga hefur að vísu að formi til verið um verðtryggingu sparifjár almennt, en bæði í greinargerð með þeim tillögum og eins í framsöguræðu um þær tillögur hefur verið tekið fram, að það væri einmitt alveg sérstakt vandamál í því sambandi, hvernig farið væri með lífeyrissjóðina, og bent á það, að athugun á verðgildi sparifjár gæti vitaskuld takmarkazt við einstaka þætti sparifjár og þá alveg sérstaklega lífeyrissjóðina. Þessari till. hefur, ef ég man rétt, í bæði skiptin verið vísað til þeirrar hv. þingnefndar, sem hv. flm. lagði til að þessari till. yrði til vísað, sem sé fjvn. Í bæði skiptin hefur þessi till. dagað uppi í fjvn. og ekki verið um hana áliti skilað. Það gleður mig, ef í þessu efni eru nú orðin sinnaskipti og þessi hugmynd, sem hér er hreyft, á vaxandi fylgi að fagna.