11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

40. mál, verðtrygging lífeyris

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Fjvn. leggur til, að þáltill. verði samþ. með þeirri breytingu, sem fram kemur í nál. N. ræddi málið og sendi það til umsagnar Tryggingastofnunar ríkisins. Ég vil leyfa mér að lesa hér efni umsagnar Tryggingastofnunarinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Mál það, sem hér um ræðir, er tvíþætt. Annars vegar er um það að ræða, hvernig bezt megi tryggja hagsmuni aldraðs fólks, en hins vegar, hvernig örva megi þá sparnaðarhvöt, sem í fyrirhyggjunni fyrir ellinni felst. Fyrra sjónarmiðið er m.a. ein ástæðan til þess, að endurskoðunarnefnd almannatryggingalaga, sem nú starfar, hefur tekið til athugunar, hvort ekki sé rétt að láta almannatryggingar ná til allra landsmanna og gera lífeyrissjóðina þar með alla að viðbótartryggingu við þær. Niðurstaða þessa máls getur haft áhrif á, hve víðtæk sú verðtrygging frjálsra lífeyristrygginga, sem til greina þætti koma, þyrfti að vera.

Á undanförnum árum hefur verðrýrnun bitnað mjög á lífeyrissjóðum. Áhrif hennar á hag sjóðsfélaga eru þó með sérstökum hætti, þar eð sjóðmyndunin hefur að miklu leyti verið jafnóðum notuð til lána til sjóðsfélaga sjálfra. Hjá sjóðum, þar sem enginn aðili tekur ábyrgð á lífeyrisgreiðslum, skapast að sjálfsögðu við þetta misrétti fyrir þá sjóðsfélaga, sem ekki hafa tekið lán, en fá síðar skertan lífeyri vegna verðrýrnunar.

Sennilegt er, að lánsfjárformið hafi engu minni áhrif haft en fyrirhyggja fyrir ellinni á fjölgun lífeyrissjóða undanfarin ár, enda hefur sú fjölgun verið mikil. Sökum verðrýrnunarinnar hefur hins vegar verið mjög litið um lífeyristryggingar hjá tryggingafélögum, en hvarvetna í nágrannalöndum okkar er sparifjármyndun með þeim hætti mikilvægur þáttur efnahagslífsins. Telja má víst, að sjóðmyndun lífeyrissjóða verði það mikil á næstu áratugum, að verðtrygging þeirra hljóti að hafa víðtækar efnahagslegar afleiðingar.

Tryggingastofnunin telur sjálfsagt, að mál þetta verði tekið til rækilegrar athugunar, en er á þeirri skoðun, að slík athugun sé tímafrekari en svo, að henni sé lokið á fáum árum:

Eins og ég sagði í upphafi, leggur n. einróma til, að þáltill. verði samþ.