15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (3106)

43. mál, kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Allir þingmenn Norðurlandskjördæmis eystra og landskjörnir þingmenn úr því kjördæmi hafa leyft sér að flytja á þskj, 50 till. um kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Mál þetta hefur töluvert verið rætt og reifað opinberlega, þannig að ég skal reyna að stytta mál mitt í því efni og aðeins minnast á meginatriði málsins.

Það hefur verið á döfinni um allmörg ár athugun á því, hvort ekki mundi hagkvæmt að vinna kísilgúr úr Mývatni, og hafa ýmsir innlendir og erlendir sérfræðingar að þessu unnið, og gerðar hafa verið um þetta ýmsar áætlanir, sem eftir því sem tíminn hefur liðið hafa verið endurskoðaðar og leitað til ýmissa sérfræðinga um yfirskoðun á þeim áætlunum, og málið virðist vera komið á það stig nú, að það sé orðið tímabært að ljúka þessum athugunum og fá úr því skorið, svo að óyggjandi sé, hvort hér sé um hagkvæma fraraleiðslu að ræða eða ekki.

Af hálfu ríkisins hefur verið á undanförnum árum veitt nokkurt fé til athugunar á aðstæðum öllum við . Mývatn og þá sérstaklega verið um það að ræða að rannsaka gæði kísilgúrsins. Þar er um að ræða efnafræðilegar athuganir, sem. ég skal ekki hér út í fara. Þarna er um mjög sérhæfða framleiðslu að ræða, og kemur til greina að vinna þetta efni bæði sem fullunna fyrsta flokks vöru og. einnig hinar, ef svo má segja, ófínni tegundir af kísilgúr, og niðurstöðuathuganir virðast benda til þess, að það muni hagkvæmast að leggja áherzlu á, að sá kísilgúr, sem þarna verður unninn, verði í fyrsta gæðaflokki.

Málið stendur þannig í dag, að í raun og veru er ekki, hvað hina efnafræðilegu hlið málsins snertir, annað eftir en að fullreyna það, hvort kísilgúrinn skilar þeim gæðum, sem vonir standa til að hann geri.

Eftir að þessi þáltill. var hér flutt, hefur verið hafin söfnun kísilgúrs í hlývatni með það í huga að senda hann til athugunar og fullnaðarvinnslu í erlendum verksmiðjum og til athugunar í erlendum efnafræðistofum, og er hér um að ræða fullnaðarathugun og endanlega athugun á því, hvort hér reynist um svo hagkvæman iðnað að ræða, sem athuganir, sem hingað til hafa verið gerðar, benda til. Og það má gera ráð fyrir, að niðurstöður í þessu efni liggi fyrir nú í vetur eða næsta vor. Eftir öllum undanfarandi athugunum að dæma virðast vera svo miklar vonir um, að hér reynist vera um hagkvæma vinnslu að ræða, að það sýnist vera full ástæða til þess, ekki aðeins til að ljúka þessum athugunum, sem ég hef að vikið, heldur einnig að hefjast nú þegar handa um að kanna, hvaða úrræði séu líkleg til þess að koma upp verksmiðju til vinnslu á þessum kísilgúr við Mývatn. Það hefur verið gerð áætlun. Það er með hana eins og allar áætlanir, að svo sem allar verðbreytingar eru, þá er það margt breytingum háð í henni, en í síðustu áætlun, sem um þetta hefur verið gerð, er gert ráð fyrir því, að stofnkostnaður verksmiðju sem þeirrar, sem talið er hagkvæmast að byggja, en það er verksmiðja, sem mundi vinna 10 þús. tonn af kísilgúr, sú verksmiðja mundi kosta um 120 millj. kr., og það er gert ráð fyrir því, að gjaldeyristekjur af slíkri framleiðslu mundu verða nettó um 30 millj. kr. á ári.

Svo sem ljóst er af þessum tölum; er hér í rauninni ekki um mjög mikið fyrirtæki að ræða. Það er ekki hægt í rauninni að flokka það undir stóriðju, sem oft er talað um, en þó er þetta fyrirtæki allverulegt á íslenzkan mælikvarða. Það er talið, að í slíkri verksmiðju mundi vera um 70 manna starfslið við rekstur hennar. Þessi verksmiðja mundi nota gufuorku og mundi því ekki aukast að neinu verulegu ráði raforkuálag í sambandi við starfrækslu hennar. Þó að það væri töluvert rafmagn að vísu, sem til hennar þyrfti, mundi ekki þykja þurfa sérataka virkjun af þeim sökum.

Nú er þannig háttað, þó að ég ætli ekki að fara hér út í almennar hugleiðingar um nýtingu náttúruauðlinda og nýjar atvinnugreinar yfirleitt, en þá er vert að gera sér grein fyrir því, að það er eitt veigamikið atriði, að þau fyrirtæki, sem sett eru á stofn, taki ekki mikinn mannafla. Ef allt atvinnulíf er hér í fullum gangi, svo sem nú er, sýnir það sig, að fólksskortur er mikill, og því má fara varlega í það að setja upp atvinnufyrirtæki, sem taka mjög mikið vinnuafl frá þeim atvinnugreinum, sem fyrir eru. Þessi verksmiðja hefur hins vegar þann kost, að það er fátt starfslið, sem hún þarf, og miðað við hennar framleiðsluafköst sýnist það vera svo, að þar sé um mjög hagkvæmt, þjóðhagslegt fyrirtæki að ræða að þessu leyti. Spurningin rís þá upp þessi: Hvernig á að koma þessari verksmiðju upp? Og það er auðvitað með þetta eins og öll fyrirtæki hér, sem nokkru máli skipta, að þar verður við fjárskort að stríða. Ég held, að það sé engum vafa undirorpið, að það sé veigamikið atriði í sambandi við þessa verksmiðju, að erlendir aðilar komi þar til. Ekki eingöngu er það fjármagnsins vegna, vegna þess að það má út af fyrir sig segja, að þetta sé ekkert óskaplegt fyrirtæki, sem kosti um 120 millj. kr. En það ber þó samt engu að siður að líta á þá hlið málsins. Nógu erfitt reynist okkur að afla fjár til fyrirtækja, þó að minni séu. En ég álít, að það séu þó tvö önnur atriði, sem hafi enn veigameiri þýðingu í sambandi við rekstur þessarar verksmiðju. Og það er annars vegar þekkingin, sem við þurfum á að halda. Við höfum enga reynslu í þeirri vinnslu, sem hér er um að ræða. Þetta er mjög sérhæfð vinnsla, og mjög veltur á, að með fyllstu nákvæmni sé að framleiðslunni unnið, og það eru tiltölulega ekki mjög margir aðilar, sem hafa þá þekkingu, sem hér þarf að koma til. Ég hygg því, að það sé mjög veigamikið atriði einmitt að tengja við þetta fyrirtæki aðila, sem hafa þegar reynslu varðandi framleiðslu þess efnis, sem hér er um að ræða. Og hitt atriðið, sem er ekki veigaminna, er, að það er lífsnauðsyn fyrir þetta fyrirtæki að tryggja því markað. Það eru tiltölulega fáir aðilar, sem ráða yfir öllum markaði á þessum efnivörum, og það veltur að sjálfsögðu á öllu varðandi framtíð og afkomu fyrirtækisins, að það takist að tryggja sölu á framleiðsluvörum þess. Og ég hygg, að það muni reynast mjög erfitt, og það er skoðun, held ég, allra þeirra, sem að þessu máli hafa unnið, að það muni vera grundvallaratriði í sambandi við það, hvort þessa verksmiðja eigi að reisa eða ekki, að það sé hægt að komast í það samband við þá aðila, sem yfir markaðinum ráða, að það sé hægt að tryggja markaðinn. Það sýnist því vera svo, ekki aðeins frá því sjónarmiði að tryggja fjármagn til fyrirtækisins, heldur einnig vegna hinnar tæknilegu hliðar, sérhæfingar, sem hér er um að ræða, og markaðsaðstöðu, að þá sé það mikilvægt atriði að fá erlenda aðila til samvinnu á þessum vettvangi.

Það er skoðun okkar flm., enda þótt ekki sé bent á ákveðnar leiðir í þessu efni, að það beri brýna nauðsyn til þess einmitt að kanna til hlítar, hvaða úrræði séu tiltækilegust til þess að tryggja fjárhagslegan grundvöll þessa fyrirtækis: í fyrsta lagi fé til að koma verksmiðjunni upp og í annan stað að sjálfsögðu að tryggja framtíðarrekstur þess, og þá koma þessi atriði til álita. Að sjálfsögðu er ekki auðið að leggja neinar ákveðnar línur í því efni. Ég hef aðeins vikið að þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið í sambandi við umræður og athuganir málsins hjá þeim sérfræðilegu aðilum, sem að því hafa unnið. Af hálfu okkar flm. er engu föstu slegið í þessu efni, annað en óska eftir því, að ríkisstj. láti athuga það rækilega, hvaða úrræði séu tiltækilegust til að hrinda málinu í framkvæmd, ef sú lokaathugun, sem nú stendur yfir og fer fram á næstunni, leiðir í ljós, að hér sé um fyrirtæki að ræða, sem þjóðfélagslega sé æskilegt að koma upp.

Svo sem ég áðan gat um, hefur þessu máli þokað allverulega áleiðis. Og það kann að vísu að mega segja sem svo, að það hafi e.t.v. ekki verið þörf á því að flytja þessa þáltill., vegna þess að málið sé í fullum gangi og í fullri athugun hjá hæstv. ríkisstj. Hins vegar teljum við flm., að málið sé þess eðlis, að það sé brýn nauðsyn, að á því verði engin töf, og að þess vegna sé mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. hafi fulla vissu fyrir því, að Alþingi vilji styðja að því, að þessu máli sé hrundið í framkvæmd. Það kann vel að vera, að athuganir leiði í ljós, að það sé nauðsyn sérstakrar löggjafar í sambandi við verksmiðjustofnun þessa. Það er hins vegar atriði, sem er ákaflega erfitt fyrir okkur, sem að þessari tillögu stöndum, að slá föstu um, vegna þess að atriði þeirrar löggjafar geta að sjálfsögðu oltið nokkuð á því, hver niðurstaða yrði um fjárhagsgrundvöll og hverjir yrðu aðilar að þessu fyrirtæki. Því hefur okkur þótt rétt að vekja málið hér í þinginu í þessu formi.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist til, að orðlengja frekar um þetta mál, en vil leyfa mér að leggja til, að umr. verði frestað og till. verði vísað til hv. fjvn.