11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

55. mál, jarðboranir við Leirá í Borgarfirði

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þáltill. sú. sem hér um ræðir, er nm að heimila ríkisstj. að láta fara fram borun eftir heitu vatni að Leirá í Borgarfirði. Er það með það fyrir augum, að þær orkulindir, er þar kunna að vera, verði hagnýttar fyrir hitaveitu til Akraness.

Á þessum umrædda stað hefur nú þegar farið fram nokkur forrannsókn. 1960 var gerð ein borhola, sem er 133 m á dýpt. úr þeirri borholu koma nú stöðugt 7—8 sekúndulítrar af 80 stiga heitu vatni. Þessi árangur er talinn mjög góður, þegar tillit er tekið til þess, að borinn, sem notaður var í sambandi við framkvæmdina, er bæði lítill og ófullkominn. Þá hefur farið fram athugun á því, að alls muni vatnsmagnið þurfa að verða um 55 sekúndulítrar, svo að nægilegt sé, til þess að fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir hendi, og að það vatnsmagn muni nægja til þess að fullnægja Akraneskaupstað, miðað víð það, að íbúatalan sé 5000 íbúar. Sem kunnugt er, er íbúatala Akraness nú um 4 þús.

Á þskj. 289 var flutt brtt. við þessa þáltill um að hefja borun jafnframt í Skútudal í Siglufirði. Fjvn. ræddi þessar till. báðar og sendi þær til raforkumálastjóra eða jarðborunardeildar ríkisins til umsagnar. Í bréfi frá raforkumálastjóra segir, að jarðhitadeildin skýri frá því, að rannsóknarborun hafi farið fram að Leirá með góðum árangri, og telji líkur fyrir frekari árangri, ef borun yrði haldið áfram. Hins vegar er það álit jarðhitadeildarinnar, að óráðlegt sé að svo stöddu að leggja út í kostnaðarsamar boranir í Skútudal. Telur jarðhitadeildin, að áður en út í það sé ráðizt, þurfi að fara fram ýtarlegri forrannsókn á Skútudalssvæðinu með jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum, og telur rétt að verja til þess fé úr jarðhitasjóði.

Fjvn. var sammála um að mæla með afgreiðslu þáltill. með þeirri breytingu varðandi Skútudalsframkvæmdina að láta framkvæma sem fyrst ýtarlegar forrannsóknir á Skútudalssvæðinu í Siglufirði með jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum aðferðum með það fyrir augum, að úr því fáist skorið, hvort líkur bendi til þess, að þar sé að vænta árangurs með borun eftir heitu vatni til hitaveitu fyrir Siglufjarðarkaupstað.

Raforkumálastjóri segir, að þær athuganir, sem til þessa hafi verið gerðar á jarðhitasvæðinu í Skútudal, bendi ekki til þess, að líkur séu fyrir miklum árangri af borunum þar. Þó telur hann rétt að gera ýtarlegri forrannsóknir, eins og um getur í till. fjvn., og er það það, sem við leggjum til.

Ég tel svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið. Ég vænti þess, að það fái samþykki þingsins, eins og fjvn. hefur lagt til.