29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í D-deild Alþingistíðinda. (3130)

67. mál, læknisvitjanasjóðir

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Fyrir 20 árum voru fyrst sett lög um læknisvitjanasjóði, en lög þau, sem nú gilda um þetta efni, eru nr. 59 frá 1942. Samkv. þeim lögum hafa verið stofnaðir nokkrir sjóðir í ýmsum læknishéruðum. Samkvæmt lögunum er það tilgangur sjóðanna að styrkja til læknisvitjana héraðsbúa, sem eiga erfiða læknissókn, eða létta þeim læknissóknina á annan hátt.

Tekjur læknisvitjanasjóðanna eru framlag ríkissjóðs gegn þriðjungsframlagi annars staðar að, og í framkvæmdinni munu það vera sveitarsjóðir á því svæði, þar sem læknisvitjanasjóðirnir starfa, sem leggja fram 1/3 teknanna. Þetta framlag ríkissjóðs má þó ekki samkv. lögunum fara fram úr 2 kr. á hvern héraðsbúa, er heima á utan þess kaupstaðar eða kauptúns, þar sem læknir situr. Þetta lága framlag er miðað við verðgildi peninga og kostnað við læknisvitjanir, eins og það var fyrir stríð, og á þessi lágu framlög var ekki greidd verðlagsuppbót.

Í 3. gr. laganna er það tekið fram, að þegar læknisvitjanasjóður hefur verið stofnaður í læknishéraði, renni til hans auk framlags þess, er um getur í 1. gr., læknisvitjanastyrkir þeir, sem veittir eru eða veittir kunna að verða á fjárlögum til sérstakra hreppa læknishéraðsins. Og ef hreppur er sér um eignarhlutdeild í sjóðnum, þá rennur læknisvitjanastyrkur hans til séreignarinnar. Þetta ákvæði var á sínum tíma sett inn í lögin vegna þess, að um það leyti, sem þau voru úr garði gerð, var veitt á fjárlögum hverju sinni nokkur fjárhæð til ýmissa sveitarfélaga í landinu, sem áttu sérstaklega erfiða læknissókn, og hélzt það nokkur ár, eftir að lögin um læknisvitjanasjóði komu til framkvæmda. En síðar hefur þessi fjárveiting verið felld niður, og við það hafa tekjur sumra þessara sjóða rýrnað umfram það, sem stofnað var til í öndverðu.

Nú hafa orðið miklar verðlagsbreytingar á s.l. 20 árum, og enn er þróunin í þá átt, að kostnaður vex vegna læknisvitjana eins og á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Af þessu leiðir, að þeir sjóðir, sem stofnaðir hafa verið samkvæmt lögunum, sem hér um ræðir, eru algerlega óhæfir til að gegna því hlutverki, sem þeim var ætlað, vegna fjárskorts. Tryggingastofnun ríkisins hefur að sönnu hlaupið hér undir bagga með því að nota þá heimild, sem henni er veitt til þess að skipta á milli læknisvitjanasjóðanna nokkurri fúlgu, sem hún hefur til ráðstöfunar í því skyni. En þrátt fyrir það eru tekjur sjóðanna alls kostar ófullnægjandi til þess að sinna því verkefni, sem þeim er ætlað. Í þessu efni þarf því að mínum dómi að gera annað hvort, að auka tekjur læknisvitjanasjóðanna í samræmi við þarfir þeirra og verðgildi peninga, þannig að þeir geti innt af hendi þær greiðslur, sem þeir eiga að gera samkvæmt hlutverki sinu, eða að fela sjúkrasamlögum og Tryggingastofnun ríkisins að láta í té þann stuðning, sem læknisvitjanasjóðum hefur verið ætlað að veita, og að þeim stofnunum, sjúkrasamlögum og Tryggingastofnuninni, verði þá séð fyrir fé til ráðstöfunar í þessu skyni. Við flm. þessarar till. teljum því eðlilegast, að ríkisstj. hlutist til um, að lögin um læknisvitjanasjóði, nr. 59 frá 1942, verði endurskoðuð og að endurskoðun laganna verði lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að umr. um till. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.