14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3152)

109. mál, samgöngubætur á eyðisöndum Skaftafellssýslu

Flm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 176 flyt ég ásamt samþingismönnum mínum í Austurlandskjördæmi till. til þál. um rannsókn á skilyrðum til samgöngubóta á eyðisöndum Skaftafellssýslu.

Góðar samgöngur eru lífæð hverrar byggðar. Atvinnulífið og aðstaða manna í lífsbaráttunni er háð samgöngum á hverjum stað. Góðar samgöngur auka enn fremur kynningu þjóðarinnar á landinu og þekkingu á hinu fjölbreytta náttúrufari þess. Þjóðin í heild vill njóta góðra samgangna, enda er árlega varið verulegum fjárhæðum af hálfu ríkisins, sýslna og hreppa til að bæta samgöngur á landi, sjó og í lofti. Kostað er kapps um að gera akvegina sem bezt úr garði, brúa vatnsföll og spenna vegakerfið um landið. Auðvelt er að átta sig á þróun samgöngumála með því að bera saman það, sem var fyrir alllöngum tíma, svo sem aldarfjórðungi, og það, sem nú er, og gera sér grein fyrir þeim framförum, sem orðið hafa. Þá er auðsætt við slíkan samanburð, hve þróunin er ör á þessu sviði. Þó að verkefni við vega- og brúargerðir séu víða brýn og aðkallandi og mörgum finnist of hægt ganga að leysa þau þá miðar samt í áttina, þannig að vegakerfið lengist og batnar ár frá ári, og nú eru unnin verk við brúargerðir og fyrirhleðslur vatna, sem alls kostar ókleift hefði verið að leysa af hendi fyrir einum eða tveimur áratugum. Valda því einkum hin stórvirku tæki, sem nú eru notuð við verklegar framkvæmdir og margfalda orku mannshandarinnar.

Ekki þarf að ætla, að þróunin á sviði tækni og verklegra framkvæmda stöðvist. Þvert á móti verður að gera ráð fyrir því, að framtíðin muni bera í skauti sér enn þá örari þróun á þessu sviði en verið hefur til þessa, þannig að eftir tiltölulega stuttan tíma verði kleift að fullkomna vegakerfið og bæta mikið frá því, sem nú er, og að skilyrði skapist til að sigrast á torfærum, sem nú virðast óviðráðanlegar, og verður að skoða viðfangsefnin með tilliti til þess.

Eftir því sem fleiri ár eru brúaðar, því auðveldara á að vera að taka föstum tökum þau stóru verkefni, sem óleyst eru við brúargerðir. Á s.l. sumri var brú á Hornafjarðarfljótum fullgerð. Þá tengdist akvegurinn í Austur-Skaftafellssýslu vestur að Jökulsá á Breiðamerkursandi. Er þá svo komið, að öruggur og sæmilega greiðfær akvegur liggur umhverfis landið, nema um Breiðamerkursand og Skeiðarársand. Á Breiðamerkursandi eru skilyrði til þess að ryðja hindruninni úr vegi með brúargerð. Fyrirhugað er, að Fjallsá verði brúuð á þessu ári. Þá verður Jökulsá eini farartálminn, sem hindrar algerlega ferðir bifreiða yfir Breiðamerkursand. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á brúarstæði þar, en þær athuganir eru ekki fullnægjandi, og þarf að halda þeim áfram.

Á fulltrúafundi bænda í Austur-Skaftafellssýslu, sem haldinn var dagana 26. og 27. nóv. s.1., var samþykkt einróma ályktun þess efnis, að fundurinn teldi tímabært, að rannsakað yrði til hlítar brúarstæði á Jökulsá á Breiðamerkursandi. 1. liður þessarar tillögu er því borinn fram í beinu framhaldi af ályktun bændafundarins og vegna áskorana Austur-Skaftfellinga. Aðstaða við Jökulsá er þannig, að s.l. 30 ár hefur þróunin verið sú og sú þróun fremur ör, að jökullinn eyðist. Við þá breytingu, sem þannig verður á jökultanganum, hefur Jökulsá skorizt niður í einn farveg, og það er alveg öruggt, að úr þeim farvegi fer hún ekki, nema jökullinn fari að ganga fram að nýju og gangi langt fram frá því, sem takmörk hans eru nú, og jafnvel þó að breyting yrði í þá átt, þá mun hún varla gerast á skemmri tíma en áratugum að því marki, að farvegur árinnar raskist. Skeiðarársandur er hins vegar þröskuldur, sem erfitt er yfir að stiga, á þjóðveginum umhverfis landið, en það er svo í samgöngumálum, að verklegar framkvæmdir nægðu ekki til framfara á sviði samgöngumála, ef gerð samgöngutækjanna stæði í stað.

Það hefur valdið miklu um framfarir í samgöngumálum, að ný samgöngutæki og fullkomnari en hin eldri ryðja sér sífellt til rúms, og það er nauðsynlegur þáttur til að ná góðum árangri við lausn erfiðra viðfangsefna í samgöngumálum að athuga sem bezt nýjungar í gerð tækja og hagnýta þá reynslu, sem þannig fæst.

Efni það, sem felst í 2. tölulið þessarar tillögu, er ekki nýtt mál í mínum huga né ýmissa annarra Skaftfellinga. Nú eru orðin fimm ár síðan ég bar fram tillögu hér á hv. Alþingi um tilraunir með ný samgöngutæki á eyðisöndum Skaftafellssýslu. Þeirri tillögu var þá vísað til fjvn., og hlaut hún þar mjög góðar undirtektir og afgreiðslu frá n. allri sameiginlega, og tillagan var síðan samþykkt óbreytt á hv. Alþ. 20. marz 1957, og er sú ályktun svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta í samráði við vegamálastjóra athuga nýjar tegundir samgöngutækja til samgangna um torfærur á landi með hliðsjón af reynslu, sem fengin er af slíkum tækjum erlendis. Síðan skal gera tilraunir með ný samgöngutæki á eyðisöndum Skaftafellssýslu, ef ætla má að athugun lokinni, að þau muni reynast hæf til samgöngubóta þar. Kostnaður, sem leiðir af athugun þessari og tilraunum með ný samgöngutæki, greiðist úr ríkissjóði.“

Þó að nú séu að verða fimm ár síðan þessi ályktun var gerð, þá hefur hún ekki enn þá komið til framkvæmda. Í því sambandi vil ég ekki áfellast neinn, hvorki ráðherra né vegamálastjóra. Ég hef fylgzt með þessu máli og veit, að það tæki, sem sérstaklega var haft í huga, Þegar um þessa tillögu var fjallað hér, hefur ekki fengizt, en þar með er vitanlega ekki sagt, að þessi leið sé lokuð og að ekki séu fáanleg einhver tæki, sem kunna að geta leyst þá örðugleika, sem þarna er við að fást. Okkur flm. finnst því eðlilegt að fá endurnýjaða viljayfirlýsingu Alþingis í þessu efni.

Þess vil ég enn fremur geta, að framtakssamir menn af skaftfellsku bergi brotnir fóru s.l. sumar austur á Skeiðarársand í leit að gömlu skipsflaki og verðmætum í því sambandi, eins og frá hefur verið skýrt í blöðum. Þeir fóru á vélknúnu tæki yfir Núpsvötnin í vatnavöxtum og ferðuðust dögum saman fram og aftur um Skeiðarársand á þessu tæki nærri ströndinni og komust heilu og höldnu af sandinum aftur og lögðu út í Skaftá, svona til þess að sýna mönnum, hvað hægt væri að gera. Þetta rifjar upp það mál, sem hér var afgreitt fyrir tæpum fimm árum, og bendir til þess, að hægt muni vera að leita nýrra úrræða um samgöngubætur á Skeiðarársandi. Ég hef ekki þekkingu til að dæma um það, hvort þau tæki, sem þessir menn höfðu og ég hef minnzt á, eru hæf til farþegaflutninga. Ég skal engan dóm fella um það, það er verkfræðilegt atriði. En hinu vil ég leyfa mér að halda fram, að það séu miklar líkur til þess, að vélknúin tæki séu fáanleg eða verði smíðuð innan skamms, sem hæf séu til þess að sigrast þarna á erfiðleikum, og ég tel fullkomna ástæðu til, að haft sé vakandi auga á því af hálfu ríkisvaldsins í sambandi við ferðir yfir Skeiðarársand.

3. liður þessarar tillögu er um það að skora á ríkisstj. að láta fylgjast sem bezt með tæknilegum nýjungum við brúargerðir, er kynnu að gera kleift að brúa jökulvötnin á Skeiðarársandi. Það verður að viðurkenna, að eins og þeirri tækni er háttað nú, sem við Íslendingar höfum yfir að ráða og beitt er við brúargerðir, þá virðist það vera mjög torvelt viðfangsefni eða jafnvel ókleift að brúa vötnin á Skeiðarársandi, einkum vegna jökulhlaupanna, sem brjótast fram, venjulega á fimm til tíu ára fresti, og raska farvegum og bera fram jaka. En í því sambandi vil ég leggja áherzlu á það, að á síðustu árum hefur verið unnið mikið að því af hálfu fræðimanna að reyna að rannsaka Vatnajökul, orsakir hlaupanna, eðli þeirra og áhrif. Um þetta eru skrifaðar heilar bækur og ritgerðir, bæði á erlendum málum og á íslenzku. Ég hef nú þetta ekki við höndina, enda tel ég óþarft að fara svo ýtarlega út í þetta mál, en það er staðreynd, að sú breyting hefur orðið á í sambandi við jökulhlaupin á Skeiðarársandi nú s.l. 20—30 ár, að þau brjótast ekki fram á eins skömmum tíma og með eins miklum hraða og þau áður gerðu. Það var algengt áður, á síðastliðinni öld og fyrstu áratugum þessarar aldar, að þetta geysilega vatnsflóð brauzt fram á kannske tveim sólarhringum, tveim eða þremur sólarhringum, og þá var vatnsflaumurinn svo mikill, að hann braut verulega skörð í jökuljaðarinn, bylti þessum stóru jökum með sér fram á sandinn. En síðan 1934 hefur ekki komið þarna hlaup, sem hefur hagað sér á þennan hátt, heldur tekur vatnsrennslið miklu lengri tíma, allt upp í hálfan mánuð til þrjár vikur, sem vatnið rennur fram og Skeiðará er í óeðlilegum vexti. Þetta veldur því, að þó að kannske eins mikið vatnsmagn renni fram, þá eru hlaupin ekki nærri eins æðisgengin, þegar rennslið dreifist á lengri tíma, og þetta veldur því, að þau brjóta miklu minna úr jökuljaðrinum nú í seinni tíð en þau áður gerðu.

Þegar þetta er haft í huga annars vegar og hins vegar sú öra tækniþróun, sem á sér stað í heiminum, sem kemur fram í æ fullkomnari mannvirkjum, bæði brúargerðum og öðru, þá virðist það fullkomlega tímabært, að á því sé haft vakandi auga af hálfu ríkisvaldsins að fylgjast sem bezt með tæknilegum nýjungum að þessu leyti, með það í huga, að síðar kynni að verða kleift að brúa vatnsföllin á Skeiðarársandi. Og ég er sannfærður um, að það vaknar fyrir því áhugi á meðal þjóðarinnar. Það verður ekki eingöngu og kannske ekki fyrst og fremst vegna þeirra tiltölulega fáu íbúa, sem eru búsettir þarna í grennd, því að þegar vegakerfi okkar er orðið öruggt og nokkurn veginn fullkomið allt umhverfis landið og eftir verður einungis einn 30 km kafli til þess að tengja það saman að fullu hringinn í kringum landið, þá er það trúa mín, að það skapist á því áhugi að fylla þetta skarð, smíða þann hlekk, sem á vantar, til þess að keðja vegakerfisins verði tengd saman.

Ég vænti þess, að þessari tillögu okkar þm. verði mætt með skilningi hér á hv. Alþ. Ég legg til, að henni verði vísað til hv. fjvn. til athugunar.