16.12.1961
Efri deild: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (316)

107. mál, verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., um verðlagsráð sjávarútvegsins, hefur á undanförnum dögum verið til umr. í hv. Nd. og verið rætt þar allýtarlega. Voru gerðar á því nokkrar smávægilegar breytingar, en efnislega er frv. óbreytt.

Að efni til er frv. þessu skipt í þrjá aðalkafla. Er I. kaflinn um skipun og verkefni verðlagsráðsins, en því er skipt í tvær deildir, fiskideild og síldardeild. Sú breyting var gerð á skipan verðlagsráðsins frá því upphaflega var ákveðið í frv., að í stað 14 fulltrúa eru þeir nú 12, 6 frá hvorum aðila, fiskkaupendum annars vegar og Landssambandi ísl. útvegsmanna og sjómönnum hins vegar, 3 frá hvorum. Verkefni verðlagsráðsins skulu vera: 1) að ákveða lágmarksverð á öllum tegundum þess sjávarafla, sem seldur er til vinnslu hér á landi eða selja skal í skip eða annað flutningatæki til útflutnings óunninn; 2) að fylgjast með markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum á hverjum tíma; 3) að safna gögnum um framleiðslukostnað hinna ýmsu framleiðslugreina sjávarútvegsins, svo og að safna öðrum þeim gögnum, sem ákvarðandi kunna að verða um verð á sjávarafla.

II. kafli frv. er um verðákvarðanir verðlagsráðsins. í 7. gr. er kveðið á um það, að ákvarðanir um lágmarksverð á sjávarafla skuli byggðar á markaðsverði sjávarafurða á erlendum markaði. Í því sambandi er mikilsverð sú aðstaða, sem verðlagsráðinu er sköpuð samkv. 6. gr. frv. með því að hafa greiðan aðgang að upplýsingum frá öllum opinberum stofnunum og útflutningssamtökum fiskframleiðenda og öðrum þeim aðilum, sem upplýsingar geta veitt, er að gagni mega koma við störf verðlagsráðsins. Í þessum kafla frv. er enn fremur kveðið á um það, að ef ekki næst samkomulag innan verðlagsráðsins um verð í einstökum atriðum eða verð á sjávarafla í heild fyrir tilskilinn tíma, sem gert er ráð fyrir að ákveðinn verði sérstaklega í reglugerð, þá skuli vísa ágreiningsatriðunum til sérstakrar yfirnefndar, er síðan fellir fullnaðarúrskurð um ágreiningsatriðin, og ræður þá einfaldur meiri hluti atkvæða úrslitum.

Í III. kafla frv. eru ýmis ákvæði, svo sem um setningu reglugerðar með nánari ákvæðum um framkvæmd laganna o.fl.

Það má segja, að á ýmsu hafi oltið um verð á sjávaraflanum á undanförnum árum. Hvort tveggja er, að verð hefur stundum verið mismunandi á ýmsum stöðum á landinu, og svo hitt, að það hefur raunverulega verið um tvenns konar verð að ræða. Með hinum geysimikla tilkostnaði, sem hlaðizt hafði á útgerðina, m.a. í sambandi við alls konar nýja tækni, ný tæki, var öllum, sem eitthvað til þeirra mála þekktu, löngu orðið ljóst, að skiptakjörin á bátaflotanum voru útgerðinni svo óhagstæð, að vonlaust var um annað en útgerðin stöðvaðist, ef ekki kæmi til einhver leiðrétting um hlut hennar úr aflaverðmætinu. Þess vegna var að því horfið um tíma heldur en að breyta skiptafyrirkomulaginu að reikna fiskinn til sjómanna á öðru og lægra verði en útgerðarmaðurinn fékk raunverulega fyrir afla sinn. Á þessari framkvæmd voru ýmis vandkvæði og þegar í upphafi fyrirsjáanlegt, að slíkt fyrirkomulag gat ekki orðið til frambúðar. Segja má, að þetta flókna og að flestu leyti óheppilega kerfi hafi byrjað um svipað leyti og hinar sérstöku útflutningsverðuppbætur hófust, enda var þá við hver áramót, þegar samið var um rekstrargrundvöll fyrir bátaflotann fyrir vertíðina, samhliða gengið út frá ákveðnu fiskverði, bæði til sjómanna og útgerðarmanna. Það er svo fyrst eftir að útflutningssjóðurinn er lagður niður og hætt er öllum verðuppbótum á útfluttan sjávarafla, að teknir eru upp samningar á milli útgerðarmanna og sjómanna um það, að aðeins eitt verð skuli gilda. En þá var um leið endurskoðaður skiptagrundvöllurinn og samræmdur í heild hlutur hvers aðila, eins og hann hafði raunverulega verið. Um verð á síldinni, þó sérstaklega norðan- og austanlands, hefur það viðgengizt lengst af, að síldarverðið hefur verið ákveðið af sjútvmrh. eða ríkisstj. eftir tillögum stjórnar síldarverksmiðja ríkisins og síldarútvegsnefndar varðandi síld til söltunar. Með þessa framkvæmd hefur verið vaxandi óánægja meðal sjómanna og útgerðarmanna.

Sú skipan, sem með frv. þessu er gert ráð fyrir að verði varðandi verðlagningu á sjávarafla, er hliðstæð því, sem verið hefur um langt skeið um verðlagningu landbúnaðarafurða og gefizt vel. Það er því ekki óeðlilegt að ætla, að þessi skipan geti einnig á sama hátt gefizt vel um verðlagningu sjávaraflans. Nefnd sú, er hæstv. sjútvmrh. skipaði þann 9. nóv. s.l. til þess að undirbúa mál þetta og gera drög að því frv., sem hér er til umr., var á einu máli um, að nauðsyn bæri til þess að koma á verðlagsráði sjávarútvegsins. Einn fulltrúinn í nefndinni gerði þó ágreining um eitt eða tvö atriði. Var það fulltrúi Alþýðusambands Íslands, Tryggvi Helgason, sem vildi ekki fallast á skipun oddamannsins í yfirnefndinni, eins og frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur vildi hann fjölga um einn mann í verðlagsráðinu, og skyldi sá fulltrúi vera tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands.

Um það atriði í frv., sem varðar skipun yfirnefndarinnar, segir svo í 9. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Nú næst ekki einróma samkomulag í verðlagsráði um verð í einstökum atriðum eða verð sjávarafla í heild fyrir tilskilinn tíma, og skal þá vísa ágreiningsatriðunum til sérstakrar nefndar. Skal hún skipuð fimm mönnum, tveimur tilnefndum af fisksöluaðilum í verðlagsráði, og skal annar tilnefndur úr hópi fulltrúa L.Í.Ú., og má hann ekki eiga aðild að fiskkaupum, vera félagsbundinn eða hafa hagsmuna að gæta í samtökum fiskkaupenda þeirra, sem tilnefna menn í verðlagsráðið samkv. B-lið 1. gr., en hinn úr hópi sjómannafulltrúa, tveimur tilnefndum af fiskkaupendum í verðlagsráði, og skal a.m.k. annar tilnefndur af þeim aðila, sem ágreiningur er við, og einum oddamanni, sem verðlagsráð kemur sér saman um.

Nú nær verðlagsráð ekki einróma samkomulagi um skipun oddamanns í yfirnefndina innan tveggja sólarhringa, frá því að ákvörðun var tekin um vísun ágreinings til yfirnefndar, og skal þá oddamaður tilnefndur af hæstarétti.

Þannig skipuð fellir yfirnefndin fullnaðarúrskurð um ágreiningsatriði, og ræður meiri hluti atkv. úrslitum.“

Af þessu má sjá, að augljóst er, að því aðeins verður til þess gripið að skipa yfirnefndina, að samkomulag náist ekki í verðlagsráðinu, og hæstiréttur tilnefni því aðeins oddamanninn, að verðlagsráðið í heild geti ekki komið sér saman um tilnefningu hans. Án þess að slíkt ákvæði sem þetta sé fyrir hendi samkv. lögunum, gæti svo farið, að við værum litlu nær um lausn þessa vandamikla hagsmunamáls en við erum í dag.

Eins og fram kemur í nál. meiri hl. sjútvn. á þskj. 227, varð ekki samkomulag í nefndinni um að mæla með frv., en meiri hl. hefur á þskj. 227 leyft sér að mæla með, að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og það kom frá Nd. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um mál þetta að sinni, en geri það að tillögu minni, að það verði samþykkt og vísað til 3. umr.