04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3168)

113. mál, útflutningur á dilkakjöti

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þessari till. á þskj. 194 er útbýtt hér á Alþ. 12. des. Hún er til umræðu 15. febr., en umr. þá frestað og hefur ekki komið til umr. síðan fyrr en nú í dag.

Áður en málið fer í nefnd, vil ég leyfa mér að segja nokkuð um þetta merka mál. Ég tel, að þetta sé eitt af merkustu málum landbúnaðarins sem stendur, hvort hægt sé að ná öruggum markaði fyrir landbúnaðarafurðirnar og hækka verðið frá því, sem nú er. En í umr. um till. á þskj. 194, sem fram fóru hér, eins og ég sagði áðan, lét hv. 1. þm. Austf. (EystJ) þau orð falla, að með því að ákveðin hefði verið aðeins ein umr. um þáltill., væri sýnilegt, að þessi till. mætti ekki og ætti ekki að ná fram að ganga, þar sem gert væri ráð fyrir, að hún hefði engin útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóðinn, því að um þær till., sem eiga að hafa útgjöld í för með sér, séu hafðar og eigi að hafa tvær umr., og því sé vandséð, hvaða gagn verði að því að samþykkja till. Öll ræða hv. þm. byggðist síðan á þessum meginatriðum, að till. væri óþörf. Samband ísl. samvinnufélaga, sem með þessi mál fer, hafi jafnan leyst þann vanda svo vel af hendi, að engin ástæða sé til gagnrýni eða nokkurra aðgerða af hálfu þings og stjórnar, enda hafi Sambandinu tekizt að ná miklu hærra verði fyrir íslenzkt kjöt á erlendum markaði en öðrum, sem kjöt fluttu út á sömu markaði frá öðrum löndum. Deildi hv. þm. hart á þá aðila alla, sem látið höfðu í ljós aðrar skoðanir, og taldi, að hér væri verið að hefja skipulagðan áróður á samvinnufélögin í landinu, og spurði þó jafnframt, hvort nú stæði til að taka þessi viðskipti af Sambandinu. Las hann þessu til sönnunar upp kafla úr skýrslu þess forstjóra, sem þessi mál heyra undir hjá Sambandinu, er öll átti að sanna, hversu tilefnislaust það væri að flytja slíka till. á Alþ. eða yfirleitt að leyfa sér að gagnrýna á einn eða annan hátt verk þessara ádeildu fulltrúa bændanna, sem að þeirra eigin óskum færu með þessi mál á þann hátt, sem þeir sjálfir væru fullkomlega ánægðir með. Í þessu sambandi spurði hv. þm., hvort það vekti fyrir tillögumönnum, að veittur yrði styrkur af almannafé til stuðnings tilraunastarfsemi varðandi kjötsölu og kjötverkun, og ef svo væri, þá væri fróðlegt að vita, hvaða aðila þeir hefðu hugsað sér, að ríkisstj. styddi í þessu tilfelli, hvort það væri t.d. félagsskapur bændanna sjálfra, samvinnufélögin, sem hefðu nú kjötsötuna með höndum og ekki fyrir það, að þessum félagsskap hafi verið tryggt með hömtum eða löggjöf að vinna einum að þessum verkefnum, heldur væri þetta eini aðilinn í landinu, sem hefði nokkurn minnsta áhuga fyrir að flytja út þessar afurðir bændanna, svo að ég fari rétt með ummæli hv. þm. um þetta mál.

Út af þessum orðum hv. þm. þykir mér rétt að segja nokkur orð um þetta mjög svo merka mál, sem gera mátti ráð fyrir að maður, sem telur sig í hvívetna bera hag bændanna fyrir brjósti, hefði tekið nokkru betur en raun ber vitni um, er hann ræddi það hér á Alþ. við 1. umr.

Sú ástæða að samþykkja ekki till. fyrir það eitt, að ekki hefði verið ákveðin nema ein umr. um hana, er út af fyrir sig ekki frambærileg og eiginlega furðulegt, að jafnþaulæfður þm. og hv. 1. þm. Austf. er skuli færa fram slík rök gegn málinu. Ekki einasta eru fjölmargar þáltill. samþ., sem útgjöld hafa í för með sér fyrir ríkissjóð, þótt um þær hafi verið aðeins ákveðin ein umr., svo að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða, en auk þess og einmitt vegna þess hefur verið tekin upp sú venja hér á Alþ., þótt aðeins sé ákveðin af hæstv. forseta ein umr. um þáltill., að fresta umr., senda málið í nefnd, og á þann hátt fara raunverulega fram tvær umr. um málið.

Hv. 1. flm. till. lagði og til í lok framsöguræðu sinnar, að till. yrði vísað til hv. fjvn.n. hefur þó allar aðstæður til að rannsaka, að hve miklu leyti till. kynni að hafa útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð, eins og hún hefur óbundnar hendur til að breyta till. Og þótt till, þannig breytt með fullum stuðningi hv. fjvn. kynni að hafa í för með sér einhver útgjöld, sem nefndin þá setti hámark á, annaðhvort með beinu orðalagi í tillgr. sjálfri, í nál. um till. eða í framsöguræðu, og till. þannig samþykkt af meiri hl. Alþ., væri hér um fullkomna þinglega meðferð að ræða á málinu, er kæmi því að notum. Þau rök hv. þm., að þýðingarlaust sé að samþ. till., þar sem eigi hafi verið höfð um hana nema ein umr., eru aðeins veik tilraun til þess að draga úr gildi till. og fá engan veginn staðizt og eru honum ekki heldur til neins sóma.

Skal þá nokkuð vikið að því atriði, hvort þessi þjónusta, sem Samband ísl. samvinnufélaga hefur veitt bændum um langt tímabil, er með svo miklum ágætum, að þess vegna sé till. óþörf og engra umbóta sé þörf á því sviði. Mikill hluti ræðu hv. 1. þm. Austf. og allur skýrslulestur hans úr greinum forstjórans, Helga Péturssonar, átti einmitt að sanna þetta, sanna það, að hér væri engra umbóta þörf, hér væri allt í bezta lagi, hér væri ekki hægt að gera neitt betur og því væri till. óþörf. Ég skal ekki leggja neinn dóm á gerðir Sambandsins í þessu máll. Ég geri þvert á móti ráð fyrir því, að það, eins og hver annar aðili, sem tekur að sér slíka þjónustu, leysi hana af hendi eftir beztu getu á hverjum tíma, þannig að eigi verði almennt átalið, og e.t.v. enn betur. Það raskar þó ekki þeirri staðreynd, að ekkert verk er svo vel af hendi leyst, að ekki megi hugsa sér, að hægt sé að koma þar við einhverjum umbótum, eins og það er einnig ljóst, að hver aðili, sem fær slíka einkaaðstöðu um sölu á útflutningsvöru sem Sambandið hefur fengið hér á landbúnaðarafurðum, er ekki jafnháður þeim reglum, sem almennt gilda um sölu, sem er frjáls hverjum sem er, þ.e. að verða að tryggja sem beztan markað og hæst verð, ef hann sjálfur á að geta haldið umboðinu til sölu á vörunni fyrir hinn aðilann eða fyrir aðra. Ég skal ekki heldur leggja á það dóm, hvort þetta fyrirkomulag hefur almennt gefið bændum hæsta verð. Hitt fullyrði ég, að fleiri en einn erlendur aðili hefur kvartað mjög undan því, að síðan þetta kerfi var tekið upp, hafi verið mjög miklum mun erfiðara fyrir þá, sem höfðu hug á því að kaupa vöruna, að hefja umr. um þau viðskipti við forráðamenn Sambandsins en áður var, á meðan útflutningur var í höndum fleiri aðila, eins og ég veit líka með vissu, að þau svör hafa jafnan verið gefin af Sambandinu, þegar menn hafa boðið hærra verð fyrir ákveðið magn afurða, sem ósetdar lágu erlendis, en Sambandið þó gat fengið, að það þyrfti ekki að sinna neinum tilboðum frá milliliðum, því að þeir væru sjálfir einfærir um að selja vöru sina. Í þessum upplýsingum mínum liggur þó engin ásökun á Sambandið sérstaklega. Þetta er hin fasta regla, sem allir slíkir íslenzkir söluaðilar hafa sett sér, ekkert frekar Samband ísl. samvinnufélaga en bæði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. fiskframleiðenda og líklega allir, sem í slíka einkaaðstöðu komast í sambandi við sölu afurða. Hins vegar sannar það ekkert, nema síður sé, að ekki hefði verið unnt að ná betra söluverði með því að sinna meira en gert hefur verið fyrirspurnum og tilboðum frá aðilum, sem höfðu aðstöðu til að koma fram með betri tilboð á vörunum, en var neitað um samstarf. Þetta, sem ég hef sagt hér, eru staðreyndir, sem verður ekki haggað.

Þótt ég líti svo á, að þetta, sem ég hef sagt hér, sé eitt af því, sem beri að breyta og umbæta, þá er siður en svo, að það sé það eina, sem umbóta þarf við í sambandi við sölu íslenzkra landbúnaðarafurða á erlendum markaði. Það eru nú um 25 ár síðan ég skrifaði ýtarlega grein um útflutning á íslenzku lambakjöti í sérstökum umbúðum. Við höfðum þá um langt skeið flutt út saltkjöt, venjulega stórhöggvið, í tunnum. Innanlands var þó og er enn selt spaðsaltað kjöt, sem kallað er. Þá var í flestum löndum að koma fram á markaðnum frosið kjöt í smábitum, pakkað í loftþéttar umbúðir, sem nefnast „Cryovac“. Ég benti þá á, hversu okkur væri nauðsynlegt að taka upp þessa aðferð og senda okkar kjöt út þannig. Með því móti mundi öruggt að fá mjög hækkað verð fyrir kjötið, í stað þess að senda það á erlendan markað fryst í heilum skrokkum. Það hefði verið til of mikils ætlazt af Sambandinu að hverfa inn á þá braut, bara vegna þess að ég, sem ekki hafði gert að neinu ævistarfi að selja kjöt, hefði ritað um málið í blaðagrein. En það hefði þó verið hægt að vænta þess, að aðili, sem tekið hafði að sér þann vanda að selja landbúnaðarafurðir fyrir hæsta verð og var þess utan gefin sú aðstaða að vera einn um þá þjónustu, fylgdist fullkomlega með því, í hvaða umbúðum slík vara seldist bezt, hvernig bezt er að fá markað fyrir hana erlendis og hvernig einnig væri bezt að búa um hana. En fyrir því sýnist Sambandið hafa haft lokuð augu allt til þessa tíma. Síðan þetta var hefur á hverju ári farið sívaxandi að selja kjöt, sem inn er flutt, og jafnvel einnig innanlandsframleiðslu í hverju landi, í „Cryovac“-umbúðum, og í mörgum löndum og einkum þeim, sem lengst eru komin í meðferð matvæla, þykir það nú hreinasti skrælingjaháttur að bjóða neytendum kjötvöru í öðrum umbúðum. Það haggar þó ekki þeirri staðreynd, að þúsundir smálesta af frystu kjöti eru fluttar inn í heilum skrokkum í ýmsum löndum, sumpart í hinum gömlu léreftsumbúðum og sumpart í vaxandi mæli í loftþéttum „Cryovac“-umbúðum. Og getur hver sá, sem vill leggja það á sig að reika um kjötmarkað í borgum annarra landa, fullvissað sig um, að þetta er staðreynd. Hitt er svo jafnmikil staðreynd, að slíkt kjöt er venjulega selt hinum fátækustu mönnum í landinu, en ekki þeim, sem vilja borga hæsta verð.

Samkv. till. er lagt til, að Alþingi skori á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að tilraunir verði gerðar með útflutning á dilkakjöti, þar sem reyndar verði nýjar aðferðir með pökkun og verkun á kjötinu. Aðferðir þessar hefði raunverulega átt að vera búið að taka upp fyrir 25 árum. Einnig er lagt til, að kannaðir verði til þrautar hugsanlegir markaðsmöguleikar fyrir dilkakjöt í hverju því formi, sem gefur hagstæðast verð. Þetta verður ekki skilið á annan veg en þann, að verði till. samþ. óbreytt, ber ríkisstj. að beita sér fyrir því, að gerðar verði tilraunir til þess að flytja út dilkakjöt í öðrum umbúðum en nú er gert, þ.e. að útflytjendur taki upp nýjustu og hagkvæmustu pakkningu og umbúðir til þess á þann hátt að mæta kröfum og óskum beztu kaupendanna, eða m.ö.o. að taka upp aðferðir, sem hefði átt að vera byrjað á fyrir 25 árum og hefur skaðað bændur um milljónir á þessu tímabili, að ekki hafa verið teknar upp. Vitað er, að fiskútflytjendur hafa um langan tíma sent út vöru sina í smápökkum í stað þess að senda fiskinn heilfrosinn á markaðinn. Hafa þeir aflað sér þannig nýrra markaða og hækkað verðið og fylgzt þannig með breyttum viðhorfum á fiskmarkaðinum og lagað sig eftir því. Ríkissjóður hefur ekki stutt þessar tilraunir með beinum fjárframlögum. Það hefur þótt sjálfsögð þróun í sölutækni hjá aðila, sem hefur tekið að sér þann vanda að selja vöruna. Og hér hefur Sambandið einnig fylgzt með í þeim umbótum, á sama tíma sem það vanrækti hina hliðina, e.t.v. vegna þess, að það hefur haft einokunaraðstöðuna. En hér hefur það líka haft samkeppnina við að glíma gagnstætt því, sem á sér stað um útflutning og sölu landbúnaðarafurða. Og ég hygg, að það sé ekkert óeðlilegt að álykta, að einmitt það, að salan er í einokunaraðstöðu, þar sem engin samkeppni kemst að, eigi ekki svo litinn þátt í því, að söluaðferðir og sölutækni á íslenzku kjöti erlendis hefur staðnað meira en æskilegt er. Úr þessu verður að bæta.

Síðan Iðnaðarmálastofnun Íslands tók til starfa, hefur það verið eitt af meginverkefnum hennar að vekja áhuga Íslendinga á sölutækni. Samband ísl. samvinnufélaga á þar, aðild að stjórn. Ég tel, að það sé ekkert óhugsandi, að sú stofnun geti veitt Sambandinu stuðning í þessu mikla vandamáll. Ýmsar þjóðir, sem við höfum viðskipti við, og ekki hvað sízt Bandaríkin hafa veitt Iðnaðarmálastofnun margvíslegan stuðning. Ég tel, að þau muni verða fús til þess að veita henni einnig stuðning í þessu máli. Þær tilraunir, sem hér þarf að gera, þurfa á engan hátt að vera svo fjárfrekar, að það eitt út af fyrir sig þurfi að standa málinu fyrir þrifum. Sú tilraun er að langmestu leyti fólgin í því að kynna sér, hvaða óskir kaupendur hafa um verkun og umbúðir til þess að vilja gefa sem mest fyrir vöruna, og síðan uppfylla þær, en hverfa frá hinu, að reyna að troða upp á kaupendur vöru í úreltum og óheppilegum umbúðum, sem aldrei er hægt að fá hæsta verð fyrir, en aðeins fátækustu mennirnir eru kaupendur að.

Síðan tekinn var upp sá háttur að tryggja bændum fullkomið framleiðsluverð fyrir afurðirnar, hvort heldur þær eru seldar innanlands eða utan og á hvaða verði sem þær eru seldar, og láta ríkissjóðinn greiða mismuninn, þá er þetta ekki lengur einkamál bændanna, kaupfélaganna eða Sambandsins. Þá er það engu síður mál ríkissjóðs og þjóðarinnar í heild. Það er því alveg ástæðulaust og enda líka tilgangslaust fyrir hv. 1. þm. Austf., sem öðrum fremur telur sig vera fulltrúa bændanna og Sambandsins hér á Alþ., að vera að hlaupa upp á nef sér fyrir það og hafa allt á hornum sér, þegar borin er fram till. um að ná sem beztum markaði og hæstu verði fyrir framleiðslu þeirra aðila, sem hann þykist bera svo mikla umhyggju fyrir.

Hér hefur að vísu svo til tekizt, að það eru andstæðingar hv. þm. í stjórnmálum, sem eru flm. þessarar till., og kann það að vera einhver orsök fyrir afstöðu hv. þm. til till., en slíkt er hvorki viturlegt né sæmilegt, að ganga í berhögg við hagsmuni umbjóðenda sinna af þeim ástæðum einum. Hitt er miklu farsælla og drengilegra, að taka saman höndum við andstæðinga til fylgdar svo góðu máli sem hér er á ferðinni, og er þess að vænta, að þegar svo þaulæfður þm. sem hv. 1. þm. Austf. er áttar sig betur á nauðsyn þessa máls, þá skilji hann, að það er honum fyrir beztu að sýna þessu fulla vinsemd og ljá málinu fullt lið bæði utan þings og innan.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um þá staðhæfingu hv. þm., að útflutningur og sala íslenzkra landbúnaðarafurða sé ekki komin á hendur Sambandsins fyrir þess ósk eða fyrir neinar hömlur á þeim viðskiptum né fyrir aðgerðir Alþ., heldur beinlínis fyrir það eitt, að engir aðrir aðilar hafi haft minnsta áhuga fyrir þessum málum, eins og hann lét orð falla um hér í þinginu við 1. umr. Hér veit hv. 1. þm. Austf., að hann fer með visvitandi rangar staðhæfingar. Þessi mál eru beinlínis komin í þennan farveg fyrir aðgerðir löggjafans og áróður kaupfétagsmannanna, en ekki fyrir það, að engir aðrir aðilar hafi haft áhuga á málunum. Öllum öðrum en kaupfélögum var, gagnstætt fullyrðingum hv. þm., skipulega og ört bægt frá þessum viðskiptum með lögum, eins og ég skal nú sýna fram á. Það kemur ekki þessu máli við, hvort það þótti nauðsyn á þeim tíma og þykir enn að hafa þann hátt á. Hitt er staðreynd, að þannig hefur þetta verið, og má ekki láta slíkum fullyrðingum mikils metins hv. þm. ómótmælt, ekki hvað sízt þegar því er haldið fram, að þessu kerfi hafi verið þvingað upp á kaupfélögin og Sambandið af því, að enginn annar aðili hafi fengizt til þess áð sýna þessari þjónustu hinn minnsta áhuga, og það nú notað sem afsökun fyrir því, að ekki hefur tekizt svo vel sem skyldi um meðferð þessara mála.

Árið 1935, en það ár er Framsfl. við stjórn í landinu, eins og kunnugt er, voru sett lög á Alþingi, nr. 2 9. jan., um ráðstafanir til þess að greiða fyrir viðskiptum sláturafurða og ákveða verðlag þeirra. Bæði fyrr og síðar hefur Framsfl. talið, að þessi löggjöf hafi beinlínis bjargað afkomu íslenzkra bænda, og hælt sér mjög af því, að hann hafi einn átt þátt í þeirri björgunarstarfsemi. Það atriði skal ég ekkert ræða hér í dag, en í 3. gr. þessara laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn má slátra sauðfé til sölu né kaupa fé til slátrunar eða verzla með kjöt af því í heildsölu án leyfis kjötverðlagsnefndar. Heimilt skal þó sauðfjáreigendum, er reykja kjöt á heimilum sínum, að selja það beint til neytenda, enda greiði þeir af því verðjöfnunargjald, um leið og afhending fer fram. Leyfi til slátrunar skal veitt fyrir eitt ár í senn. Leyfi skal veita lögskráðum samvinnufélögum, sem nú eru starfandi, svo og þeim samvinnufélögum, sem stofnuð kunna að verða á viðskiptasvæðum félaga, sem hætta störfum, án þess að bændur á viðskiptasvæðinu gerist meðlimir annarra félaga:

Svo segir enn fremur: „Heimilt er að veita slátrunarleyfi félögum neytenda á þeim stöðum, þar sem ekki eru sláturhús, en aðeins fyrir það fé, sem þau kynnu að kaupa til neyzlu meðal meðlima sinna. Enn fremur getur nefndin veitt leyfi samvinnufélögum bænda, er stofnuð kunna að verða, eftir að lög þessi öðlast gildi, á svæði, þar sem ekki eru starfandi samvinnufélög fyrir og ekki falla undir ákvæði 3. málsl. þessarar greinar.“

Ég veit ekki, hvernig hægt væri að skilja þessi ákvæði á annan veg en þann, að löggjafinn er hér beinlínis að bægja öllum öðrum en kaupfélögum og Sambandinu frá þessum viðskiptum. Að vísu stendur hér enn: „Sömuleiðis þeim verzlunum öðrum, sem árið 1933 áttu eða starfræktu sláturhús, sem fullnægði ákvæðum laga um kjötmat o. fl. frá 19 júní 1933: En það er aðeins heimilt þeim mönnum, sem áttu sláturhús 1933. M.ö.o., þessi lög fyrirbjóða alveg nýjum einstaklingum að fara inn á þetta svið. Þeim er gersamlega ýtt út úr þessari þjónustu, alveg gagnstætt því, sem hv. 1. þm. Austf. fullyrti hér um daginn.

Þann 9. ágúst árið áður hafði ríkisstj. gefið út brbl. nr. 42 um þetta efni, og eru þau staðfest á næsta þingi svo að segja breytingalaust, en það ár stjórnaði einnig Framsfl. hér á þessu landi.

Ég held, að það blandist engum hugur um það, sem kynnir sér þessa grein, að með henni er mörkuð af löggjafanum sú stefna, sem þá var tekin upp og síðan haldið, og þess gætt í vaxandi mæli, að af henni yrði ekki vikið um hársbreidd. Hitt er bæði mér og öllum þeim, sem komið hafa í snertingu við þessi mál, kunnugt um, að þeir aðilar, sem falin var framkvæmd 1., sýndu sannarlega enga linkind gagnvart þeim, sem áhuga höfðu á því að fá sláturleyfi og hefja kjötvinnslu innanlands og utan, en þeir menn voru ekki ráðandi menn í Sjálfstfl., enda er þá unnið að því á mjög skipulegan hátt af framsóknarmönnum að bola í burt úr þeirri þjónustu öllum nýjum aðilum, sem vildu ekki gangast undir jarðarmen Framsfl. í öllum atriðum. Og svo leyfir hv. þm. sér að segja, að það hafi ekki fyrir aðgerðir Alþingis verið farið inn á þessa braut.

En þetta var ekki eina aðstoðin, sem löggjafinn veitti til þess að sveigja málið inn á þessa braut. Með lögum nr. 52 23. júní 1932 er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast allt að 400 þús. kr. til þess að koma upp frystihúsum á kjötútflutningshöfnum og ábyrgjast allt að 2/3 hluta kostnaðar af byggingu slíkra húsa. Og með lögum nr. 79 19. júní 1933, sbr. 5. gr. þeirra laga, er ríkisstj. heimilað að greiða allt að 1/4 stofnkostnaðar við að reisa frystihús samvinnufélaga eða sýslufélaga, — aðeins sett upp á punt, því að vissulega vissi löggjafinn þá, að sýslufélögin væru ekki að reisa slík hús, og þá sett það til málamynda, svo að gr. fengi ekki í augum almennings algerðan framsóknarblæ, enda sé aðalhlutverk þeirra að frysta kjöt til útflutnings.

Ég hygg, að þessar tilvitnanir séu nægilegar til þess að sýna, að ummæli hv. 1. þm. Austf. um það, að þessi þjónusta hafi verið falin Sambandinu vegna þess, að engir aðrir hafi haft áhuga á því að sinna henni, er algerlega röng og að hann, sem þá átti sæti í ríkisstj. sem fjmrh., og flokkur hans fór á því tímabili með landbúnaðarmálin, geti ekki verið óvitandi um þennan gang málanna, og ber hann því ummæli fram um þetta atriði á Alþ. gegn betri vitund. Þykir mér það leitt um jafnmerkan mann og hv. 1. þm. Austf. er, að hann skyldi henda þetta slys.

Ég hef þó hvorki dregið þessi gögn fram til þess að ófrægja hv. 1. þm. Austf. né til eingöngu að hrekja ummæli hans, þótt ávallt sé rétt að hafa það, sem sannast reynist, heldur miklu frekar til að sýna fram á, að vegna þessarar afstöðu löggjafans hefur Sambandið tvöfaldar skyldur gagnvart framleiðendum og þjóðinni í heild til þess að gera sitt ýtrasta í því að afla markaða og ná hæsta fáanlegu verði fyrir afurðir, sem því hefur þannig einu verið falið og styrkt á margvíslegan hátt að rækja svo sem bezt verði á kosið.

Ég geri ráð fyrir, að löggjafinn hafi einnig ætlazt til þess, að það kæmi fram í framkvæmdunum, að það yrði gert þannig, að það væri ekki hægt að gera það á neinn annan hátt betur og að hér mundi ekki þurfa að tala um vanrækslu á neinum sviðum í þessu máli.

Það kemur því úr hörðustu átt, að hv. 1. þm. Austf., sem vitað er að hefur víðtæk áhrif á starfshætti Sambandsins, skuli ganga hér fram fyrir skjöldu og fullyrða, að till. sú, sem hér er til umr., sé til einskis nýt og óþörf, því að allt sé í svo góðu lagi sem á verði kosið í sölutækni íslenzkra landbúnaðarafurða á erlendum markaði. Ég held, að honum væri meiri sæmd að því að styðja svo sem frekast mætti verða framgang till. og umbætur þær, sem till. miðar að, að gerðar verði á þessu mikla hagsmunamáli íslenzkra bænda. Ég vænti þess, að hann sjái mestan sóma sinn í því að stuðla að því og allir þm. Framsfl, fylgi þessari till. og síðan taki Sambandið fúslega upp samvinnu við þá aðila, hverjir sem þeir kunna að verða, sem falið verður að framkvæma till., eins og hún kann að verða orðuð hér, áður en hún verður samþ. í þinginu. Hitt er svo vitanlegt, að þetta er eitt af þeim málum, sem ekki má daga hér uppi, og ég vænti þess, að henni verði komið hér fljótt til nefndar ag að hv. fjvn., sem hugsað er að afgreiði málið, láti hana koma til afgreiðslu, áður en þessu þingi er lokið.