14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

99. mál, raforkumál á Snæfellsnesi

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Hv. þm. þekkja vel, hversu raforkan er þjóðinni nauðsynleg og hvað fólkið fagnar því að njóta ljóss og yls ásamt margvíslegum öðrum þægindum, sem sigla í kjölfar þessa aflgjafa. Engan mun því undra, þótt fram komi tillaga í þessum efnum hér á hv. Alþingi, eins og till. sú, sem er á þskj. 155, ber með sér.

Á sýslufundi Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, sem haldinn var í Stykkishólmi dagana 25.-28. maí s.1., var samþykkt eftirfarandi till., með leyfi forseta:

„Sýslufundur Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu 1961 samþykkir að hefja nýja sókn í raforkumálum héraðsins. Fundurinn skorar á raforkuráð að láta leggja raforkulinu frá dísilstöðinni í Stykkishóimi til nágrannasveita og verði sú lina tengd vestur í Eyrarsveit háspennulínunni frá Fossá. Þá leggur fundurinn áherzlu á það, að strax á næsta ári verði lögð háspennulína frá Fossá suður í Breiðuvík og áfram suður um hreppana sunnan fjalls. Jafnframt leggur fundurinn ríka áherzlu á, að hafin verði virkjun við Hraunsfjarðarvatn, er fullnægi orkuþörfum héraðsins. Að öðrum kosti verði lögð háspennulína frá Andakílsárvirkjun inn í héraðið.

Fundurinn skorar á þingmenn kjördæmisins að fylgja þessum óskum fundarins eftir við raforkuráð og á Alþingi, og um leið felur fundurinn raforkunefnd sinni að fara til Reykjavíkur og ræða þetta mál við raforkumálastjóra og fylgja þeim tillögum, sem samþykktar hafa verið, eftir við þá aðila:

Sýslufundur Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu kaus nefnd til að vinna í þessum málum. Formaður þeirrar nefndar er Gunnar Guðbjartsson bóndi að Hjarðarfelli.

Eftir að nefndin hafði rætt þessi mál heima fyrir, boðaði formaður hennar til fundar að Vegamótum í Snæfellsnessýslu 11. nóv. s.l. Fundinn sóttu þingmenn kjördæmisins, raforkumálastjóri, formaður raforkuráðs og hlutaðeigandi hreppsnefndir auk sýslumanns Snæfellinga og nefndarmanna þeirra, sem eiga sæti í raforkunefnd Snæfellinga. Raforkumálastjóri veitti á þessum fundi ýmsar fróðlegar upplýsingar um rafmagnsmálin almennt og ekki sízt á Snæfellsnesi. Grg. þessarar till. ber með sér, hverjar leiðir raforkumálastjóri telur koma til greina fyrir viðkomandi svæði, og læt ég nægja að vísa til þess, er í grg. stendur. En sérstaka áherzlu leggjum við flm. till. á það að tengja saman aðalorkuverin og á þann hátt veita varanlega raforku í framtíðinni, og er það í samræmi við álit fundarins, sem haldinn var að Vegamótum. Rafmagnið nær þá til mun fleiri aðila á leiðinni frá Andakílsárvirkjun til Snæfellsness, bæði á sunnanverðu Snæfellsnesi og einnig í Mýrasýslu.

Það þarf ekki að fjölyrða um það, að með sívaxandi fólksfjölda og þá ekki sízt við sjávarsíðuna á Snæfellsnesi er nauðsynlegt að hraða þessum framkvæmdum, svo að rafmagnsskortur hamli engan veginn nýtingu á þeim sjávarafla, sem þarna eykst með hverju árinu, sem liður, enda eru þarna einhver beztu fiskimið umhverfis landið og aflaverðmæti þess fisks, sem barst á land í fjórum sjávarkauptúnum á Snæfellsnesi árið 1960, nam að útflutningsverðmæti 120 millj. kr., svo að það er auðséð, að um mikil verðmæti er að ræða til sjávarins, og munu þau verða miklu meiri, þegar tækifæri gefst til að bæta aðstöðu og möguleika þessa fólks frá því, sem nú er. Þá eru á Snæfellsnesi og í Dalasýslu mjög blómleg landbúnaðarhéruð, sem eru óðum að komast í það horf að veita meiri björg í bú en áður var. Verði hér á landi hugsað um að efla og auka íslenzka landbúnaðinn og byggja og rækta sveitir landsins, munu þeir, sem byggja þennan landshluta, ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum.

Eins og grg. till. ber með sér, er það í 10 ára áætlun um rafvæðingu landsins að tengja rafmagn á þéttbýlustu svæði í Dalasýslu, enda hafa margar áskoranir borizt um þessi efni, bæði frá sýslufundum, búnaðarsambandsfundum og ýmsum fleiri aðilum um, að hraðað verði sem mest framkvæmdum á þessu sviði. Á s.1. ári var lagt rafmagn frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði yfir Tunguheiði til Króksfjarðarness og Reykhólasveitar, en örstutt er úr Geiradalnum yfir Gilsfjörðinn í Saurbæ í Dalasýslu, en þar er byggðin þétt og mundu allir að undanteknum fjórum heimilum þar í sveit fá rafmagn, þegar það kemur yfir Gilsfjörðinn, því að vegalengdir eru þarna mjög stuttar á milli bæja. Ég vænti þess líka, að það verði haldið áfram með þessa raflinu, eftir að hún kemur í Saurbæinn, suður um Dali til Búðardals og á hinn bóginn haldið áfram með raflínu frá Stykkishóimi um Helgafellssveit, Skógarströnd og Suðurdali til Búðardals.

Á þennan hátt mun heppilegast að tengja saman aðalorkuver landsins, jafnframt því sem rafmagnið nær þá til fleiri en ella væri. Dísilvélar til raforkuvinnslu skoða ég sem bráðabirgðaúrræði, þar til varanleg raforka fæst.

Till. okkar flm. hljóðar þannig, eins og hv. þm. sjá á þskj. 155:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um, að hraðað verði tengingu raforkuvirkjana á Snæfellsnesi við aðalraforkukerfi landsins, og skal því lokið eigi síðar en árið 1966. Enn fremur skal hraða tengingu rafveitna Dalasýslu við aðalorkuveitur landsins:

Ég vænti þess, að þessari till. verði vel tekið hér á hv. Alþingi, og síðan, að hún megi hið skjótasta koma til framkvæmda. Ég legg því til, þegar þessari umr. er lokið, að málinu verði frestað og vísað til hv. fjvn.