14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í D-deild Alþingistíðinda. (3206)

100. mál, jarðboranir að Lýsuhóli

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. þessi á þskj. 156 um jarðboranir á Lýsuhóli á Snæfellsnesi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að fram fari á vegum jarðhitasjóðs borun eftir heitu vatni að Lýsuhóli í Staðarsveit á Snæfellsnesi:

Á Snæfellsnesi er, eins og kunnugt er, mjög lítið af heitu vatni. Það eru fáir staðir og ekki um mikið magn að ræða. Ekki síður þess vegna er mikill áhugi þar í sveitum til að fá úr því skorið, hve miklar þær orkulindir eru, sem þegar er vitað um.

Einn af þeim stöðum, sem um ræðir, er Lýsuhóll á Snæfellsnesi. Það hefur farið fram nokkur athugun á því, hve kostnaðarsöm þessi framkvæmd mundi vera. Var gert í upphafi ráð fyrir, að þarna mundi vera um að ræða framkvæmd, sem mundi kosta allt að hálfri millj., en við athugun, sem nú hefur farið fram, segir jarðhitadeildin, að það muni ekki kosta nema 200–300 þús. kr. í mesta lagi, að þessi athugun fari fram.

Það er svo með jörðina Lýsuhól, að það er ríkissjóður, sem á jörðina, og er því í alla staði eðlilegt, að framkvæmd þessi fari fram á vegum jarðhitasjóðs og henni verði hraðað svo sem auðið er, til þess að úr því fái skorizt, um hve mikla orku er þarna að ræða.

Fjvn. er sammála um að mæla með því, að þessi till. verði samþykkt, og vænti ég þess, að alþm. séu henni sammála.