25.10.1961
Sameinað þing: 7. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í D-deild Alþingistíðinda. (3220)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Einu sinni var maður, sem var haldinn sterkri löngun til þess að komast í lögregluna. Hann sótti hvað eftir annað um upptöku í lögregluliðið, en fékk ávallt synjun, þar sem hann var ekki talinn hæfur til starfsins. Af þessu reiddist maðurinn og fylltist hatri í garð lögreglunnar. En hann lét ekki þar við sitja. Á laun fór nú maðurinn að fremja ýmis afbrot og illvirki til þess eins að ná sér niðri á lögreglunni. Síðan talaði hann manna hæst um það, að lögreglan væri ekki starfi sínu vaxin og einskis trausts verð, þar sem hún væri ekki fær um að koma í veg fyrir þessi óhæfuverk.

Það er líkt á komið með Framsfl. og manni þessum. Flokkurinn sækir það fast að komast í ríkisstj., en hefur ekki fengið áheyrn. Af þeirri ástæðu er sprottin sjúkleg heift Framsfl. Í garð núv. ríkisstj., og lætur hann einskis ófreistað til þess að gera henni allt til miska og unnir henni aldrei sannmælis.

Á s.l. sumri tókst svo framsóknarmönnum með hjálp kommúnista að vinna skemmdarverk á efnahagskerfinu og steypa nýrri verðbólguöldu yfir þjóðina. Nú lýsa framsóknarmenn yfir vantrausti á ríkisstj. reistu á þeim rökum, að stjórninni hefði ekki tekizt að koma í veg fyrir þeirra eigin skemmdarstarfsemi. Sá einn getur borið fram vantraust, sem sjálfur er trausts verður. Till. þeirri um vantraust á ríkisstj., sem hér er til umr., á því að vísa heim til föðurhúsanna.

Frumatriðið í viðreisnarstefnu núv. ríkisstj. var að mínum dómi það að afnema uppbótakerfið með allri þeirri spillingu og misrétti, sem því var samfara, skrá rétt gengi og gera öllum útflutningsatvinnuvegunum jafnhátt undir höfði. Þessi stefna hefur þegar borið árangur í aukinni vöruvöndun og vaxandi fjölbreytni útflutningsvarnings. Hin rétta gengisskráning hefur t.d. gert okkur fært að flytja út ýmiss konar iðnaðarvarning á erlenda markaði, sem áður var ekki samkeppnishæfur. Nú verða útflytjendur að spjara sig og eyða orku sinni í það eitt að framleiða sem bezta og verðmætasta vöru. Nú þýðir ekkert fyrir þá að dveljast langdvölum á biðstofum ráðherranna í Reykjavík og heimta útflutningsuppbætur. Nú hefur Austfjarðaýsan og Vestfjarðasteinbíturinn engan forgangsrétt fram yfir síld, hval, þorsk, ullarteppi, húsgögn eða aðrar vörur, sem við flytjum út. Hin rétta gengisskráning hefur einnig leitt til þess, að nú opnast stórfelldir möguleikar til þess að gera Ísland að ferðamannalandi og skapa þar með nýjan atvinnuveg, sem veitt getur þúsundum manna góða atvinnu og stóraukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Í viðreisninni fólst enn fremur sú stefnubreyting, að þjóðin varð að hætta að safna síauknum gjaldeyrisskuldum og lifa af því, sem hún aflaði sjálf. Af þessu leiddi vitanlega kjaraskerðingu hjá öllum landsmönnum, en sú kjaraskerðing var ekki sök viðreisnarinnar. Skerðing lífskjaranna var óhjákvæmileg, hvaða stefna sem upp hefði verið tekin, nema með því einu móti að halda skuldasöfnuninni áfram. En jafnvel sú leið var óframkvæmanleg, þótt einhver hefði viljað fara hana, af þeirri einföldu ástæðu, að lánstraustið erlendis var þrotið. Að þessu leyti hefur viðreisnin einnig borið mikinn árangur. Gjaldeyrisstaðan hefur batnað, og lánstraustið hefur verið endurreist. Jafnvel stjórnarandstæðingar viðurkenna þetta og segja batnandi gjaldeyrisstöðu skapa grundvöll fyrir miklum kjarabótum, þótt þeir að vísu segi í hinu orðinu, að gjaldeyrisstaðan hafi versnað og það sýni, hvað ríkisstj. sé slæm. Það er því auðsæ blekking hjá andstæðingum ríkisstj., þegar þeir halda því fram, að viðreisnin hafi mistekizt, af því að lífskjörin hafi ekki batnað aftur í eins ríkum mæli og æskilegt væri. Þvert á móti hefur það, sem hver einstaklingur hefur orðið að fórna, bætt hag þjóðarinnar. Bóndi, sem orðið hefur að draga úr útgjöldum og neyzlu á heimili sínu, meðan hann er að borga niður skuldir sínar, hefur vissulega bætt hag sinn.

Þegar grundvallaratriðum viðreisnarstefnunnar var hrundið í framkvæmd á fyrstu mánuðum ársins 1960, var því miður við því búizt, að kommúnistar og framsóknarmenn mundu innan tíðar misnota aðstöðu sína í verkalýðshreyfingunni til þess. að hefja verkfallsbaráttu gegn viðreisnarstefnunni. Til að byrja með voru kommúnistar og framsóknarmenn hinir hreyknustu og sögðu, að af stefnu ríkisstj. mundi leiða geigvænlegt atvinnuleysi og samdrátt, atvinnuvegirnir kæmust á heljarþröm og viðreisnin mundi kollsteypast af sjálfu sér. Bergmál af þessu tali mátti heyra í ræðu Lúðvíks Jósefssonar hér í kvöld, er hann hélt því fram, að minni fiskframleiðsla vegna aflabrests stafaði af samdráttarstefnu ríkisstj. Stjórnarandstæðingar töldu sig því ekki einu sinni þurfa að hafa fyrir því að magna verkfallsöldu til þess að koma viðreisninni á kné, þeir gætu bara beðið rólegir. Svo leið tíminn, og hrakspárnar rættust ekki. Þá varð framsóknarmönnum og kommúnistum ekki um sel. Við svo búið mátti ekki standa. Þá fóru þeir að undirbúa verkfallsbaráttuna, sem háð var á s.l. vori. Það létti þeim svo undirbúning þessarar baráttu, að sá kjarabótagrundvöllur, sem reiknað hafði verið með að mundi skapast, var veikari en ella, vegna þess að aflabrögð voru óvenjuléleg á árinu 1960, og mikið verðfall varð þá á ýmsum útflutningsafurðum okkar. Þessar staðreyndir vildu kommúnistar og framsóknarmenn ekki hlusta á. Virtist þá sem þeir hefðu skyndilega fengið oftrú á viðreisninni og teldu hana óháða aflabrögðum og verðlagi á erlendum mörkuðum. Viðreisnarstefnan væri svo mikið snjallræði, að unnt væri að veita miklar kjarabætur, hvað sem áðurgreindum staðreyndum liði.

Á s.l. vetri var það almenn og réttmæt skoðun landsmanna, að sá tími nálgaðist óðum, að unnt væri að veita takmarkaðar kjarabætur. Væri því sanngjarnast, að þær bætur fengju eingöngu verkamenn og láglaunafólk, en aðrar stéttir yrðu að bíða nokkuð enn, unz þjóðarframleiðslan gerði það kleift, að þær fengju einnig úrlausn. Á þessum grundvelli átti að vera auðvelt að leysa kjaradeilurnar án verkfalla, ef haldið hefði verið á málum af skynsemi og fyrirhyggju af hálfu verkalýðssamtakanna og atvinnurekenda. En þessu var því miður ekki til að dreifa. Framsóknarmenn og kommúnistar notfærðu sér þá samúð, sem launabarátta verkamanna naut með þjóðinni, til þess að setja fram miklu hærri kjarabótakröfu en þjóðfélagið gat staðið undir. Var tilgangurinn með þessu sá að granda viðreisnarstefnunni, sprengja efnahagskerfið og skapa nýja verðbólguöldu, er bæri ríkisstj. ofurliði, svo að hún yrði að hrökklast frá völdum við svipaðan orðstír og vinstri stjórnin. Raunhæfar kjarabætur verkamönnum til handa létu þessir herrar sér hins vegar í léttu rúmi liggja, enda höguðu þeir vinnubrögðum sínum innan Alþýðusambandsins á þann veg, að í komandi kjarabaráttu mundu verkamenn fórna mestu og uppskera minnst. Kom það og allt fram síðar.

Kommúnistum og framsóknarmönnum tókst betur en ella að koma þessum fyrirætlunum í framkvæmd vegna þröngsýni atvinnurekenda. Því miður eru það margir úr hópi atvinnurekenda, sem leggja meiri áherzlu á verðbólgugróða en heilbrigðan atvinnurekstur, er geti smátt og smátt hækkað raunverulegt kaup starfsmanna sinna. Þessi hluti atvinnurekenda átti þannig samleið með kommúnistum og framsóknarmönnum í baráttunni fyrir nýrri verðbólgu. Allan þann tíma, sem samningsviðræður stóðu yfir á milli verkamanna og vinnuveitenda, léðu atvinnurekendur aldrei máls á neinum kjarabótum, og er Vinnumálasamband samvinnufélaganna þar ekki undanskilið. Það var loksins daginn áður en verkfall skyldi hefjast, sem vinnuveitendur buðu 3% hækkun, en það boð var hvort tveggja í senn of lágt og of seint fram komið, til þess að það gæti afstýrt vinnustöðvun. Tilgangur atvinnurekenda með því að hafast ekkert að til að afstýra verkfalli var sá að þvinga ríkisstj, til að ganga inn á kröfur þeirra um hækkun á framleiðsluvörum þeirra og þjónustu til að bæta sér að fullu upp aukin útgjöld vegna væntanlegra kauphækkana. Hin þröngu eiginhagsmunasjónarmið vinnuveitenda mörkuðu þá stefnu þeirra að vilja heldur ganga inn á 10–20% kauphækkun, ef þeim væri tryggt, að þeir fengju að velta þeim hækkunum að fullu yfir á verðlagið, fremur en að samþykkja 5—10% kauphækkun, sem þeir yrðu flestir að borga sjálfir og greiða úr eigin vasa. Söknuðu atvinnurekendur þess nú sárt, að vinir þeirra, Hermann og Lúðvík, voru orðnir valdalausir, en á valdatíma vinstri stjórnarinnar lofuðu þeir atvinnurekendum fyrir fram að mega velta öllum kauphækkunum af sér yfir á almenning í landinu með verðhækkunum.

Öllum er ljóst, hvernig kjaradeilunum í vor lyktaði, og þarf naumast að rifja það upp. Afstaða Alþfl. var skýr og ótvíræð í þeim málum. Flokkurinn vildi láta samþ. sáttatillöguna um 6% kauphækkun og 4% til viðbótar að ári, þar sem hann taldi þetta vera hámark raunhæfra kjarabóta, sem grundvöllur væri fyrir, án þess að verðlag þyrfti að hækka. Fór það líka svo, að í þeim verkalýðsfélögum, þar sem Alþýðuflokksmenn hafa mest áhrif, var till. samþ. Í meiri hluta félaganna var till. hins vegar felld með tilstyrk kommúnista og framsóknarmanna, og var þá alveg ljóst, að ekki var lengur um kjarabaráttu að ræða, heldur um pólitíska baráttu gegn ríkisstj.

Nokkrum dögum eftir að sáttatillagan var felld, gerist svo það, að KEA á Akureyri og Vinnumálasamband samvinnufélaganna semja um kjarabætur, sem nema 13%, þegar hækkun á orlofi og sérstök hækkun á eftirvinnu eru meðreiknaðar. Þessa hækkun hefur Tíminn kallað hina hóflegu og sanngjörnu lausn samvinnumanna. Væri þá fróðlegt að vita, hvað framsóknarmenn vildu kalla 3% kauphækkunina, sem Vinnumálasambandið hafði boðið aðeins viku áður. Sannleikurinn var sá, að það voru forustumenn Framsfl., sem skipuðu Vinnumálasambandinu að semja um 13% kauphækkun. Jarðvegurinn var undirbúinn með því að láta postula móðuharðindanna, Karl Kristjánsson, éta ofan í sig móðuharðindatalið með því að bjóða Húsvíkingum hæsta kaup á landinu. Hafa það áreiðanlega verið Karli þung spor, því að hann er þekktur að afturhaldssemi í kjaramálum. En hann hlýddi.

Eins og áður segir, hafa framsóknarmenn talið 13% kauphækkunina hóflega og sanngjarna, og væri það vandalaust fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar að standa undir þessari kjarabót án þess að fá nokkuð á móti. Vinnumálasamband samvinnufélaganna hefur sjálft hnekkt þessum staðhæfingum. Að samningunum loknum gaf stjórn Vinnumálasambandsins út yfirlýsingu, þar sem segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ljóst, að miðað við óbreyttar aðstæður er atvinnurekstur almennt illa fær um að taka á sig aukin útgjöld. En hins vegar er viðurkennt, að löng verkföll lama fjárhagsafkomuna og geta beinlínis leitt til stórvandræða fyrir þjóðfélagið í heild. Það er staðreynd, að langvarandi stöðvun er mjög alvarlegt áfall fyrir rekstur atvinnuveganna, ekki síður en afkomu launþega.“

Síðar í þessari sömu yfirlýsingu Vinnumálasambandsins segir svo enn fremur orðrétt: „Vinnumálasambandið álítur, að tekizt hafi að ná samkomulagi til lausnar þessari deilu, sem ekki er óhagstæðara en ætla mætti, að tekizt hefði að fá eftir langvarandi verkföll.“

Yfirlýsing þessi var birt í Tímanum undir fyrirsögn, er náði yfir þvera blaðsíðuna og hljóðaði þannig: „Lengra verkfall hefði litlu eða engu breytt, en valdið auknu tjóni.“

Í framangreindri yfirlýsingu Vinnumálasambands samvinnufélaganna kemur alveg skýrt fram, að sambandið telur atvinnurekstur illa færan um að taka á sig 13% kauphækkun. Sambandið semur þó upp á þessi býti, af því að það telur, að samningar um minni kauphækkun muni ekki fást, og þá sé betra að semja sem fyrst til þess að losna við tjón af langri vinnustöðvun.

Ég man ekki eftir öðru en að Framsfl. hafi ávallt talið óhjákvæmilegt að mæta launahækkunum með verðhækkunum, þegar hann hefur verið í ríkisstj. Man ég í því sambandi sérstaklega vel eftir vinnudeilunum í marz og apríl 1955. Áður er þó rétt að rifja upp, hver sé öruggasti mælikvarðinn á það, hvort grundvöllur sé fyrir kjarabótum eða ekki. Hygg ég flesta sammála um það, að verðmætisaukning þjóðarframleiðslunnar sé þar bezti mælikvarði. Á undanförnum árum hefur aukning eða skerðing á framleiðsluverðmætunum verið sem hér segir: Árið 1950 minnkaði framleiðslan um 1.8%. Árið 1951 minnkaði framleiðslan um 2.4%. Árið 1952 minnkaði framleiðslan um 2.8%. Árið 1953 óx framleiðslan um 16.2%. Árið 1954 óx framleiðslan um 8.5%. Árið 1955 óx framleiðslan um 9.2%. Árið 1956 óx hún um 4.8%. Árið 1957 óx framleiðslan um 3.5%. Og árið 1958 óx framleiðslan um 4% í þessum tölum er ekki tekið tillit til fólksfjölgunarinnar.

Það eftirtektarverðasta við þessar tölur er það, hve miklar sveiflurnar eru frá ári til árs, sem á rót sína að rekja til þess, að við byggjum afkomu okkar svo mjög á einum atvinnuvegi, sjávarútveginum, sem getur brugðizt til beggja vona. Framleiðsluaukningin er langmest á árunum 1953, 1954 og 1955, sem stafaði að allmiklu leyti af batnandi viðskiptakjörum eftir lok Kóreustyrjaldarinnar og af mikilli varnarliðsvinnu. Á árunum 1953 og 1954 urðu hér engar kjarabreytingar, og maður skyldi því ætla, að þegar kom fram á árið 1955, væri fyrir hendi traustari grundvöllur til kauphækkana og kjarabóta en nokkru sinni fyrr, þegar hin mikla framleiðsluaukning var höfð í huga. En hvað skeði þá? Kom Vinnumálasamband samvinnufélaganna með faðminn útbreiddan á móti verkalýðnum og bauð 13% kjarabætur? Nei, það var nú eitthvað annað. Verkalýðurinn varð að heyja harðvítuga verkfallsbaráttu í 6 vikur til þess að fá kjarabætur, sem námu 12–14%. Í kjölfar þeirra kjarabóta fylgdu svo miklar verðhækkanir og nýjar álögur á þjóðina. Þessu halda framsóknarmenn, að þjóðin hafi nú með öllu gleymt, enda státaði formaður flokksins af því í ræðu í sumar, að það væri vísindalega sannað, að fólk gleymdi yfirleitt því, sem stjórnmálaflokkar aðhefðust, á einu til tveimur árum. Hygg ég, að Framsfl. verði hált á því að treysta um of á gleymsku þjóðarinnar.

Tölur yfir framleiðsluaukningu áranna 1959 og 1960 eru ekki enn fyrir hendi. En þess er naumast að vænta, að um aukningu hafi verið að ræða á þeim árum vegna aflabrests og verðfalls svo og vegna minnkandi tekna af varnarliðinu, sem út af fyrir sig ber ekki að harma.

Framsfl. og Alþfl. eru þeir tveir stjórnmálaflokkar hér á landi, sem lent hafa í sambærilegri aðstöðu, og því nokkuð auðvelt að bera saman, hvað þessir flokkar hafa látið af sér leiða. Á ég þar við það, að hvor þessara flokka um sig hefur um skeið verið í stjórnarsamstarfi með Sjálfstfl. einum, Framsókn á árunum 1950—1956, eða tæp 7 ár, en Alþfl. frá því haustið 1959 og fram á þennan dag, eða í 2 ár. Samanburður á þessum tveimur stjórnartímabilum, sem bæði hófust með gengislækkun, er því um leið samanburður á Framsfl. og Alþfl. Lítum fyrst á, hvernig gert var við sparifjáreigendur. Eftir gengislækkunina 1950 fengu þeir verðbætur á sparifé, sem námu alls 10 millj. kr. En þeir urðu að bíða í 4 ár eftir verðbótunum. Eftir gengislækkunina 1960 fengu sparifjáreigendur strax vaxtahækkun, sem nú þegar hefur skilað þeim yfir 100 millj. kr. í auknum vaxtatekjum.

Lítum næst á hagsmunamál kvenþjóðarinnar. Á árunum 1950–56 minntust framsóknarmenn aldrei á það einu orði, að konur þyrftu að ná launajafnrétti við karla. Nú hefur Alþfl. aftur á móti tryggt það með löggjöf, að launajafnrétti verði komið á í áföngum á næstu sex árum. En þegar lög þessi voru sett á s.l. vetri fyrir forgöngu Alþfl., áttu framsóknarmenn ekki nógu sterk orð til að lýsa því, hve þetta málefni hefði alltaf verið þeim hjartfólgið.

Lítum í þriðja lagi á hagsmunamál skattborgaranna. Ekki beittu framsóknarmenn sér fyrir neinum breytingum á beinum sköttum á valdatíma sínum, sem nokkru máli skiptu. Nú hefur tekjuskattur af almennum launatekjum á hinn bóginn verið felldur niður og lækkaður verulega á hærri tekjum. Hefur þannig verið bætt úr því herfilega misrétti, sem launamenn áttu við að búa, er þeir urðu ekki aðeins að borga skatta fyrir sjálfa sig, heldur einnig fyrir þá, sem aðstöðu höfðu til að draga undan skatti.

Á báðum þessum stjórnartímabilum hefur verið lagður á söluskattur. Á framsóknartímabilinu var þessi skattur keðjuverkandi og því í mörgum tilfellum mjög ranglátur. Nú er söluskatturinn hins vegar eingöngu lagður á lokastig viðskipta.

Lítum í fjórða lagi á hagsmunamál neytendanna. Eftir gengislækkunina 1950 var dregið mjög úr verðlagseftirliti og verðlagið gefið að miklu leyti frjáist. Eftir gengislækkunina 1960 var öðruvísi farið að. Eigi var slakað neitt á verðlagseftirlitinu, heldur þvert á móti, og strangari verðlagsákvæði sett en nokkru sinni fyrr. Að vísu hefur í sumar verið slakað nokkuð á verðlagsákvæðunum aftur, m.a. fyrir háværar kröfur frá SÍS og KRON, sem gengu jafnvel svo langt að hefja sölustöðvun og stóðu alveg við hlið kaupmanna í því máll. Sú tilslökun er þó á engan hátt sambærileg við álagningarfrelsið á árunum 1950–196.

Lítum svo síðast, en ekki sízt á hagsmuni gamla fólksins, öryrkjanna og barnmargra fjölskyldna. Á 7 ára stjórnartímabili Framsóknar og sjálfstæðismanna stóðu þessar bætur að mestu í stað og hækkuðu treglega í samræmi við hækkandi verðlag. Nú hafa bætur þessar fyrir forgöngu Alþfl. verið stórkostlega auknar og skerðingarákvæði afnumin. Á 7 árum, 1950—56 að báðum meðtöldum, námu heildarbætur almannatrygginganna 915 millj., en á 2 árum, 1960—61, nema þessar bætur aftur á móti 985 millj. Meðalbæturnar á samstjórnartíma Framsfl. og Sjálfstfl. voru á ári 131 millj. kr., en á þeim tveimur árum, sem Alþfl. og Sjálfstfl. hafa stjórnað saman, nema meðalbæturnar yfir árið 492 millj. Þótt tekið sé fullt tillit til fólksfjölgunar og hækkandi verðlags, er samt auðsætt, hve gífurlegur munur er hér á.

Framangreindur samanburður sýnir í heild, hve mörgum góðum málefnum Alþfl. hefur tekizt að koma fram á tveim árum í samvinnu við Sjálfstfl., sem Framsfl. tókst ekki á 7 árum. Ástæðan fyrir þessu er ekki sú, að Framsfl. hafi verið svo áhrifalítill í stjórnarsamstarfinu, heldur hin, að flokkurinn var áhugalítill um þessi málefni.

Það eitt er ekki nóg að bera fram vantraust á ríkisstj., heldur verður sá flokkur, sem það gerir, að benda á betri stjórnarstefnu sjálfur. Á þetta hefur mjög skort hjá Framsfl. Flokkurinn segist að vísu vilja taka upp byggðastefnu, leiða framleiðsluna til öndvegis og halda uppi framfarasókn. Framsóknarmönnum virðist alveg sjást yfir það, að þjóðin vill stefnu, en ekki fagurgala. Þó þykist ég vita með vissu um þrjú atriði, sem framsóknarmenn vildu hrinda í framkvæmd, ef þeir mættu ráða. Hið fyrsta er að lækka vextina, annað að bæta úr lánsfjárskorti og hið þriðja að rifta samningnum við Breta um landhelgismálið. Vaxtalækkun mundi, eins og nú standa sakir, draga úr sparifjárinnlögum og þar með auka lánsfjárskortinn, en ekki minnka hann. Háir vextir eru auk þess nauðsynlegir til þess að draga úr verðþenslunni og beina fjármagninu að þeim atvinnugreinum, sem arðvænlegastar eru. Verðbólgualdan, sem stjórnarandstæðingar mögnuðu í sumar, hlýtur að valda verulegri frestun á því, að unnt sé að lækka vextina. Vissulega væri það gott að geta bætt úr lánsfjárskortinum, en framsóknarmönnum láist alltaf að geta þess, hvernig á að fara að því. Líklega hafa þeir helzt í huga að gefa út fleiri seðla eða taka ný lán, en hvort tveggja mundi koma okkur í koll síðar. Riftun landhelgissamningsins mundi auk þess gera okkur að athlægi á alþjóðavettvangi og hafa þær afleiðingar, að landhelgisdeilan blossaði upp á ný. Landanir íslenzkra togara stöðvuðust í Bretlandi og við misstum hin stóru hafsvæði, sem grunnlínubreytingarnar tryggðu okkur. Ég fæ ekki séð, að á þeim örfáu sviðum, þar sem Framsfl. hefur ákveðna stefnu, sé sú stefna trausts verð.

Í okkar þjóðfélagi hefur það fyrirkomulag lengi verið við lýði, að þegar verkamenn fá kjarabætur, fylgja allar stéttir þjóðfélagsins í kjölfarið og fá laun sín hækkuð, en af þessu leiðir svo jafnan almennar verðhækkanir. Þetta fyrirkomulag hefur það vitanlega í för með sér, að það verður örðugra en ella fyrir verkamenn að fá kjör sín bætt. Undirstaða þessarar meinsemdar er sú, að lögboðin er hækkun á landbúnaðarvörum, ef kaup Dagsbrúnarmannsins hækkar. Þessa meinsemd þarf að skera burt. Forustumenn Dagsbrúnar virðast þó ekki hafa áhuga á þessu. Þvert á móti líkar kommúnistum vel að geta notað Dagsbrún til þess að koma skriðunni á stað og nota félagið til pólitískra óhappaverka andstætt hagsmunum verkamanna. Reynslan frá því í sumar sýnir, að það eru aðrar stéttir en verkamenn, sem hafa öðlazt mestar kjarabætur. Og Þjóðviljinn hefur í hvert sinn fagnað því alveg sérstaklega, þegar hinar betur launuðu stéttir hafa náð meiri kjarabótum en verkamennirnir. Hannibal Valdimarsson sagði líka í þingræðu fyrir tveimur dögum, að læknar væru „galeiðuþrælar“ hjá ríkisstj., af því að hún hafði með brbl. skyldað þá til þess að láta sér nægja í bili svipaða kauphækkun og verkamenn. Mun þessi fyrrv. heilbrmrh. ekki hafa séð eftir sjúku fólki að inna af höndum mun hærri greiðslur fyrir læknishjálp en áður.

Verðhækkanirnar, sem leiðir af kjarabótum hinna betur launuðu stétta, hljóta óumflýjanlega að rýra gildi þeirra kauphækkana, sem verkamenn hafa fengið. Af þessum sökum er það alveg óvíst, hvort 13% kauphækkunin í sumar nær því að gefa 6% raunhæfar kjarabætur, og raunar ósennilegt, að svo verði. Allar stéttir þjóðfélagsins verða að skilja, að glundroðinn í kjaramálum leiðir til ófarnaðar. Það, sem ein stéttin krefst, er af annarri tekið. Þjóðinni hættir til að vera svo á vegi stödd sem skipverjar á bát, sem nýkominn er að landi, og vilja skipta á milli sin meiri afla en á land hefur borizt. í stað þess að standa og deila um hlutaskiptin eiga þeir að fara í nýjan róður, róa dýpra og finna fengsælli mið. Á þeim úrræðum þarf þjóðin að halda öllu fremur.

Á undanförnum árum og einkum nú í sumar hafa heyrzt æ háværari raddir frá háskólagengnum mönnum, sem hafa talið, að launakjör sín væru alls ekki viðunandi. Þegar tillit væri tekið til þeirrar ábyrgðar og menntunar, er krafizt væri við störf þeirra, þegar tillit væri tekið til þess, hversu mörgum árum af starfsævi sinni þeir hafa fórnað við nám, þegar tillit væri tekið til kostnaðarins af náminu, væru kjör þeirra á engan hátt sambærileg við launakjör stéttarbræðra þeirra hjá nágrannaþjóðunum. Vissulega hafa menntamennirnir mikið til sins máls í þessu efni. Hitt verða þeir að skilja, að meðan fórna er krafizt af öllum, er þeirra tími ekki kominn. Þá er réttmætt, að lægst launaða fólkið sitji fyrir þeim takmörkuðu kjarabótum, sem unnt er að veita. Þegar fram líða stundir, er á hinn bóginn ekki hægt að komast hjá því að taka launamál menntamanna til gagngerðrar endurskoðunar, ekki fyrst og fremst þeirra sjálfra vegna, heldur engu siður þjóðarinnar vegna, sem hefur hvorki ráð á að missa af starfskröftum sinna hæfustu manna né heldur að láta þá slíta sér út við alls konar aukastörf, sem draga úr afköstum þeirra á því sviði, þar sem þeir gera þjóðfélaginu mest gagn.

Meginsökina á þeirri verðbólguöldu, sem reið yfir þjóðina í sumar, bera stjórnarandstæðingar. framsóknarmenn og kommúnistar. En ríkisstj. ber einnig nokkra ábyrgð á þessu að mínum dómi. Hún sýndi ekki nægan manndóm til að koma í veg fyrir skemmdarverkin. Sáttatillöguna átti hiklaust að lögfesta, ekki sízt fyrir þá sök, að hún fékk betri undirtektir hjá verkalýðsfélögunum en vinnuveitendunum. Síðan átti að halda verðlaginu í skefjum með harðri hendi. Lögfesting sáttatillögunnar hefði forðað okkur frá eins mánaðar verkföllum og varnað því, að verðbólgualda rísi. Ætti þjóðin erfitt með að sætta sig við slíkar aðgerðir, gat hún beðið næstu alþingiskosninga og kosið þá menn til forráða, sem hún áleit að leystu vandamálin á betri veg. En ekki sakar að fást um orðinn hlut. Nú hefur ný atlaga verið boðuð. Nú verður að taka á móti af meiri karlmennsku en áður. Það verður að slá skjaldborg um viðreisnarstefnuna, sem hin austrænu öfl fá ekki rofið. — Góða nótt.