26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3223)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á þeim tíma, sem ég hef til umráða, mun ég aðallega svara nokkrum ádeiluatriðum úr ræðu hv. stjórnarandstæðinga í gærkvöld og leiðrétta ýmislegt af þeim misskilningi og rangfærslum, sem óðu þar uppi.

Hv. 2. þm. Vestfjarða, Hermann Jónasson, sagði, að stjórnin hefði ekki getað komið saman hallalausum fjárlögum fyrir árið 1962 nema með óheyrilegum reikningsbrellum. Engin tilraun var gerð til að skýra eða rökstyðja þennan dóm. Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sagði í fjárlagaumr., að sú útkoma ríkisreiknings fyrir árið 1960, að útgjöldin urðu undir áætlun, væri reikningsbrella. Þeir framsóknarfélagar virðast telja, að í ríkisstj. sitji miklir reiknimeistarar, sem alltaf séu að gabba þá félaga. En ég vil segja þeim til hughreystingar, að hér eru engar reikningsbrellur á ferð, heldur einföld og auðskiljanleg reikningsdæmi.

Fullyrðingum um greiðsluhalla í frv. fyrir 1962 hef ég áður svarað í fjárlagaumr., en vil bæta þessu við:

Eitt af því, sem hv. 2. þm. Vestf. mun byggja dóm sinn á, er það, að í áætlun fjárlagafrv. um raforkumál er gert ráð fyrir stórauknum jarðborunum eftir hita og rannsóknum til undirbúnings raforkuframkvæmdum. Skal þetta unnið að nokkru fyrir framlög úr ríkissjóði, en að nokkru með lánsfé. Þetta lánsfé vilja þeir framsóknarmenn telja til greiðsluhalla ríkissjóðs. Vitanlega er þetta fjarstæða ein. Til frekari skýringar vil ég benda á tvennt:

1) Í fjárlögum vinstri stjórnarinnar fyrir árið 1958 voru áætlaðar 5 millj. kr. sem bráðabirgðalán til greiðslu á rekstrarhalla rafmagnsveitna ríkisins. Engum datt í hug að segja, að fjárlögin væru afgreidd með halla, sem þessu næmi.

2) Til rafvæðingar landsins hefur verið varið síðan 1947 688 millj. kr. að frádregnum heimtaugagjöldum. Af þessu hefur ríkissjóður lagt fram 68 millj., en 620 millj, verið teknar að láni. Ég held, að það hafi ekki hvarflað að nokkrum manni að telja þessar lántökur vegna rafvæðingar sem greiðsluhalla ríkissjóðs, allra sízt Eysteini Jónssyni, sem var fjmrh. meiri hluta þessa tímabils.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði, að stjórnin hefði heitið því að stöðva skuldasöfnun erlendis, en efndirnar verið þær að taka 800 millj. kr. lán erlendis til eyðslu, eins og hann komst að orði. Athugum þetta örlítið nánar.

Til þess að geta rétt úr okkur í því mikla gjaldeyrishallæri, sem þjóðin átti við að búa, til þess að gefa verzlunina frjálsa, til þess að gera viðreisnina mögulega þurfti varasjóð í erlendum gjaldeyri. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópusjóðurinn veittu heimild til 800 millj. kr. yfirdráttar. Hvað höfum við svo gert við þessar 800 millj., sem hv. þm. segir að farið hafi í eyðslu? 1/3 hluti þessarar upphæðar hefur alls ekki verið notaður. Hinir 2/3 hlutar hafa ýmist verið notaðir til að borga upp eldri lausaskuldir erlendis eða til að safna innstæðum í erlendum gjaldeyri. Ekki einn eyrir hefur farið til eyðslu. Þegar frá því er skýrt, að gjaldeyrisstaðan hafi batnað á árinu 1960 um 240 millj. kr. og að gjaldeyrisforði er nú í septemberlok orðinn 251 millj. kr., þá er búið að draga þessa yfirdráttarskuld frá.

Sami hv. þm. sagði, að greiðsluhalli gagnvart útlöndum hefði orðið 704 millj. 1960. Svona er ekki hægt að fara með tölur án skýringa. Þessi tala er fundin með því að telja til útgjalda á árinu allan innflutning skipa og flugvéla, sem nam nærri 600 millj. kr., og á svo mikill innflutningur sér engin dæmi hér áður. Þessi skip voru pöntuð, áður en núverandi stjórn tók við, og þessi innflutningur var að verulegu leyti fyrir lánsfé, eða 304.5 millj. að láni. — Svo kom hv. 4. þm. Austf., Lúðvik Jósefsson, í stólinn rétt á eftir og býsnaðist yfir því, að skuld þjóðarinnar við útlönd hefði hækkað um ca. 330 millj. kr., en honum láðist að geta hins, að af þessu eru 2821/2 millj. kr. lán vegna skipakaupa, sem að nokkru var stofnað til í hans stjórnartíð.

Hv. 2. þm. Vestf. taldi, að stjórnin hefði brugðizt því fyrirheiti að afnema uppbótakerfið, því að hún héldi og hefði aukið við niðurgreiðslur á vöruverði. En niðurgreiðslur, sagði hv. þm., eru uppbótagreiðslur í öðru formi. Þetta er alvarlegur hugtakaruglingur. Það er mikill munur á uppbótum á útflutningsvörur og niðurgreiðslum á neyzluvörum, og þetta tvennt hefur gerólík áhrif á efnahagskerfið. Niðurgreiðslur t.d. á mjólk, kjöti, fiski o.fl. eru félagslegar bætur, fyrst og fremst til hjálpar barnafólki, að sínu leyti eins og fjölskyldubætur. En auðvitað þarf að gæta hófs um niðurgreiðslur, til þess að verðlag í landinu skekkist ekki um of og neyzla einstakra niðurgreiddra vörutegunda aukist ekki úr hófi fram.

Sami hv. þm. sagði, að stjórnin hefði ætlað að stöðva verðbólgu, en í stað þess hafi menn fengið óðaverðbólgu. Hv. þm. virðist vera það heldur óljóst, hvað verðbólga er. Verðhækkanir þurfa ekki að þýða sama og verðbólga. Þegar gengið er lækkað til þess að koma á jafnvægi í efnahagslífinu, þá eru breytingar á verði erlendra vara, sem stafa af gengislækkuninni, ekki endilega verðbólga, og sama gildir um aðrar hækkanir erlendis á innflutningsvöru okkar. Þetta sést á því og skýrist, að þegar verðlag hefur náð samræmi eftir gengisbreytingu, stöðvast verðlagið, það hefur náð jafnvægi, í stað þess að ef verðbólga væri, héldi allt áfram að hækka. Og þetta kom greinilega fram í fyrra. Gengisbreytingin var gerð í febrúar og á miðju ári voru verðhækkanir erlendra vara að langmestu leyti komnar fram og stöðugt verðlag komið á, sem hélzt fram á mitt þetta ár. Eins verður þetta vonandi nú. Þegar verðlagið hefur náð jafnvægi á næstu vikum eða mánuðum, kemst hér á stöðugra verðlag, nema skemmdaröflunum í hópi stjórnarandstæðinga takist að skapa þá ókyrrð í efnahagslífinu og þá ótrú á krónunni, að verðbólguhugsunarhátturinn grípi um sig að nýju, eins og á árunum 1955—59, því að þá er voðinn vís. En vonandi ber þjóðin, þing hennar og stjórn gæfu til að afstýra slíkum voða.

Hv. 2. þm. Vestf. véfengdi, að sparifé hefði aukizt með þjóðinni meira en áður, og taldi stjórnina reikna aðeins eina grein innlána, sparifé, en ekki ávísanabækur, hlaupareikninga og annað, sem kallað er veltuinnlán. Með því að reikna einnig með veltuinnlán telur hv. þm., að innlánin hafi aukizt meira árin 1958 og 1959 heldur en í fyrra. Þessi hv. þm. hefur í fjölda ára verið bankaráðsformaður og lögfræðingur eins bankans. Hann ætti því að vita, að veltuinnlánin standa ekki í sambandi við sparnað í þjóðfélaginu, heldur lúta allt öðrum lögmálum. Til þess að fá mynd af því undirstöðuatriði fyrir efnahag og uppbyggingu, hve mikið fólkið sparar saman og leggur til hliðar í banka og sparisjóði, má ekki líta á innlánin í heild, heldur sparifjárbækurnar. Og samkvæmt upplýsingum Seðlabankans hefur aukning sparifjár verið sem hér segir: Árið 1958 182 millj., eða 13% aukning frá árinu áður. Árið 1959 250 millj., eða 15.9% aukning. Árið 1960 363 millj., eða 19.3% aukning. Og í ár lítur út fyrir, að hún verði enn meiri, því að 30. sept., eftir þrjá ársfjórðunga, var sparifjáraukningin orðin 319 millj., eða 14.6%.

Hv. 2. þm. Vestf. átaldi ríkisstj. fyrir, að hún hefði vanrækt að miðla málum í flugmannadeilu og í læknadeilu. Mér heyrðist hv. þm. segja, að með lagni mætti yfirleitt leysa deilur. Ég fór því að íhuga og rifja upp vinnufriðinn í vinstristjórnartiðinni, þegar þessi hv. þm. hélt um stjórnvölinn, ef maður mætti eitthvað af því læra, hvernig setja skyldi niður deilur og tryggja vinnufrið. Við þá athugun kom í ljós, að svo vel hafði friðarsókn forsrh. þáv. gengið á stuttum valdatíma, að allur kaupskipafloti Íslendinga hafði aðeins stöðvazt í einar 14 vikur, og ekki höfðu allar stéttir þjóðfélagsins efnt til verkfalla, heldur aðeins sumar þeirra, svo sem rafvirkjar, járniðnaðarmenn, blikksmiðir, bifvélavirkjar, skipasmiðir, undirmenn á farskipum, hásetar, kyndarar o.fl., stýrimenn, vélstjórar og flugmenn.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., Björn Jónsson, sagði, að nú ætluðu stjórnarflokkarnir að lækka skatta á gróðafélögum, en hækka neyzluskatta að sama skapi. Hér er mjög málum blandað. Það hefur ekki komið til orða að hækka neyzluskatta á almenningi til þess að lækka skatta á atvinnurekstrinum. En endurbætur í skattamálum atvinnulífsins hafa verið undirbúnar. Og hvers vegna eru þær nauðsynlegar? Því er fljótsvarað. Endurbæturnar eru vegna almennings, en ekki vegna einhverra auðmanna eða auðkýfinga. Þeir skattar, sem atvinnureksturinn hefur orðið við að búa, eru að dómi allra hlutlausra og sérfróðra manna með þeim hætti, að þeir lama atvinnufyrirtækin, draga úr eðlilegri endurnýjun og aukningu véla, tækja og húsa, minnka afköstin og draga þar með úr þjóðartekjunum. Þess vegna hefur komið minna til skipta milli landsins barna, þess vegna komið minna í hlut. Velmegun almennings veltur ekki sízt á blómlegu atvinnulífi, og umbætur í skattamálum atvinnulífsins eru hagsmunamál og kjarabót fyrir allan almenning. Hóflegir skattar atvinnulífsins eru hagsmunamál fólksins. Sumir verkalýðsleiðtogar virðast slegnir þeirri blindu, að það sé bezt fyrir verkalýðinn að lama atvinnufyrirtæki með sköttum. Vitanlega er hið gagástæða rétt. Það er hagsmunamál verkalýðs og launþega að örva atvinnulífið, gefa atvinnufyrirtækjum kost á að vaxa, eflast og endurnýjast, til þess að þau séu fær um að veita betri kjör, greiða hærra kaup. Og því blómlegra, fjörlegra og fjölbreyttara sem atvinnulífið er, því meiri eftirspurn er eftir vinnuaflinu, og ætti það að vera launþegum til hags, en ekki ógagns.

Varðandi lagfæringar á skattamálum atvinnulífsins geri ég ekki ráð fyrir, að þær þýði tekjutap fyrir ríkissjóð. Ég vænti þess, að þær lagfæringar muni verka þannig, að atvinnureksturinn muni telja betur fram til skatts en áður og skattabreytingar muni skapa nýtt blómatímabil í íslenzkum atvinnurekstri, þannig að hann skili meiri arði fyrir þjóðarbúið og þar með tekjum í ríkissjóð.

Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði, að ríkissjóður væri í miklum nauðum staddur, lifði af náð Seðlabankans og skuld ríkissjóðs við bankann hefði aldrei orðið eins há og í ár. Þessu er því til að svara, að viðskiptalánið við Seðlabankann er til þess að mæta árstíðasveiflum í tekjum og gjöldum ríkissjóðs, og stendur það í vissu hlutfalli við útgjöld ríkissjóðs á hverjum tíma. Þótt skuldin yrði há nú á miðju ári, vegna þess að verkföllin stöðvuðu aðaltekjustofn ríkissjóðs, komst skuldin þó aldrei hærra en í 12.8% af heildarútgjöldum ríkissjóðs samkv. fjárlögum. Á stjórnarárum Lúðvíks Jósefssonar og annarra vinstristjórnarherra varð skuldin við Seðlabankann hæst, ekki eins og nú tæp 13% af útgjöldum fjárlaga, heldur árið 1957 varð hún 16.3% og 1968 komst hún upp í 19.5% af heildarútgjöldunum. Í dag er þessi viðskiptaskuld við Seðlabankann 56 millj. kr., en það er 55 millj. lægra en sama dag í fyrra.

Sami hv. þm. sagði, að vörur og þjónusta hefðu hækkað vegna efnahagsaðgerðanna fram á s.l. sumar um 18%, og síðan sagði hann orðrétt: „Allar þessar gífurlegu hækkanir höfðu launþegar orðið að þola bótalaust: Og hv. 5. þm. Norðurl. e. tók í sama streng, að laun hefðu þurft að hækka um 18%, til þess að kaupmáttur yrði hinn sami og áður. Ógnar fyrirlitningu sýna þessir hv. þm. dómgreind fólksins. Hvert einasta mannsbarn á Íslandi veit, að einmitt til þess að vega upp á móti þessum verðhækkunum í fyrra voru fjölskyldubætur og ellilaun stórhækkuð, tekjuskattur felldur niður á almennum launatekjum og útsvör lækkuð. Eða eru kommúnistar virkilega svo starblindir af ofstæki og gersneyddir áhuga á félagslegum umbótum, að stórfelldustu umbætur á almannatryggingum í sögu þessa lands komi þeim ekkert við?

Þegar kommúnistar tala um 18% kjaraskerðingu, sem hafi hrundið af stað verkföllum í sumar, þá er það ranghermi. Þegar meta skal breytingar á lífskjörum fólksins, er auðvitað rangt að telja aðeins fram hækkanir á vöruverði, en sleppa hækkuðum fjölskyldubótum, tryggingum og skattalækkunum. Hagstofan hefur reiknað þá vísitölu, þá kjaravísitölu, sem tekur til allra þessara atriða, og hún sýndi kjararýrnun um 4°'0, en ekki 18%, um mánaðamótin maí og júní, þegar verkföllin hófust. En sagan er ekki öll sögð með þessu. Stjórnarandstæðingar hömruðu á því lengi vel, að viðreisnin hefði dregið stórlega úr eftirvinnu, þannig að hún væri jafnvel horfin í ýmsum atvinnugreinum. Minnkun eftirvinnunnar væri stórfelld kjaraskerðing, sögðu þeir. Heildartekjur verkamanna mundu því verða lægri árið 1960 en árið áður. Og hvernig á fjölskylda að fara að lifa af 48 þús. kr. á ári? hrópuðu verkalýðsvinirnir með ritstjóra Tímans í fararbroddi.

Þegar skattaframtöl um tekjur ársins 1960 lágu fyrir, var gerð athugun á meðaltekjum verkamanna. Þær reyndust ekki 48 þús., heldur 75 þús. og nokkru hærri en árið áður. Hvernig tók Þjóðviljinn þessum upplýsingum? Hann sagði, að þetta sýndi, að fólk hefði þurft að leggja meira að sér, þræla meira, vinna meiri eftirvinnu til að fá þessar tekjur og auðvitað væri slíkur þrældómur alvarleg kjaraskerðing. Þannig lá nú fyrir hin rökfasta marxistíska skýring: Minnkuð eftirvinna er kjaraskerðing, aukin eftirvinna er líka kjaraskerðing.

Í sambandi við allar þær blekkingar, sem stjórnarandstæðingar beittu til að undirbyggja kaupkröfurnar í sumar og æsa menn til verkfalla, er rétt að nefna eitt dæmi enn. Forustumenn sumra stéttarfélaga hafa tekið tímakaup eða mánaðarkaup starfsbræðra í öðrum löndum, breytt því í íslenzkar krónur, og ef það hefur sums staðar reynzt hærra í krónutölu þannig umreiknað en á Íslandi, þurfti ekki frekar vitnanna við um launaþrælkun og bágborin lífskjör á Íslandi.

Launin eru ekki nema einn þáttur lífskjaranna. Verð á nauðsynjavörum, húsnæði, ljósi og hita, tryggingar og fjölskyldubætur, ellilífeyrir, skattar, vinnutími, ákvæðisvinna, atvinnuöryggi, aðbúnaður á vinnustöðvum, aðgangur að barnaheimilum og skólum og ótalmörg atriði önnur hafa áhrif á lífskjör fólksins. Það er ekki minna um vert, kannske meira, að bætt sé aðstaðan um sum þessara mála, heldur en hækkun kaupsins eins. Og þótt kaup sums staðar erlendis sé hærra í sumum greinum en hér umreiknað í íslenzkar krónur með núverandi gengi, er ekki þar með sagt, að lífskjörin séu betri þar.

Dálítill samanburður á Kaupmannahöfn og Reykjavík er næsta fróðlegur. Að sjálfsögðu eru sumar vörur í Kaupmannahöfn með svipuðu verði og hér eða lægri. En við skulum líta á nokkrar helztu nauðsynjar. Einn lítri af nýmjólk kostar í Reykjavík 4.15 kr., í Kaupmannahöfn 5.19 kr., umreiknað í íslenzkt gengi. Eitt kg af kjöti í Reykjavík 27.50 kr., í Kaupmannahöfn 34.89. Eitt kg af þorski kostar í Reykjavík 3.50 kr., í Kaupmannahöfn 13.69 kr. Eitt kg af kaffi kostar í Reykjavík 51.60 kr., í Kaupmannahöfn 101.11 kr. Rafmagn til heimilisnotkunar kostar hver kwst. í Reykjavík 87 aura, í Kaupmannahöfn 1.29 kr. Húsahitun er auðvitað miklu dýrari þar en á hitaveitusvæðinu í Reykjavík. Ef við athugum loks beinu skattana til ríkis og bæjar, borgar kvæntur maður með tvö börn, sem hefur 75 þús. kr. tekjur, í Reykjavík 6265 kr., í Kaupmannahöfn 8324 kr., eða nærri 33% hærra en hér. Til skýringar vil ég taka fram, að þótt smásöluskattur sé hér, en ekki í Danmörku, þá er hann kominn hér inn í vöruverðið og haggar því ekki samanburðinum.

Það er rétt, að þessi dæmi komi fram, enda er ekki æskilegt að vinna að kjarabótum með villandi samanburði við önnur lönd. Það er alkunnugt, að lífskjör almennings á Íslandi, þegar litið er á þau í heild, eru betri en í mörgum löndum öðrum. En þótt svo sé, eru launamenn vissulega ekki ofhaldnir af kaupi sínu. Þvert á móti er æskilegt að bæta kjör þeirra, undireins og hagur þjóðfélagsins leyfir, og háskólagengnir menn og tæknimenntaðir hafa lakari kjör hér en standa til boða í sumum öðrum löndum, enda er launamismunur minni hér en annars staðar. Því ber hiklaust að stefna að því, að lífskjör þjóðarinnar fari batnandi, en það er meginmarkmið viðreisnarstefnu stjórnarflokkanna að skapa grundvöll fyrir varanlegum og raunhæfum kjarabótum.