26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Háttvirtu tilheyrendur. Aldrei vill nein ríkisstj. láta illt af sér leiða fyrir þjóð sína, þess er ég fullviss. En góð meining gagnar ekki, ef skakkt er að farið eða þrek vantar. Núv. hæstv. ríkisstj. er glöggt dæmi um þetta.

Allir viðurkenna, að mikil uppbygging hafi átt sér stað á Íslandi á síðustu áratugum. Allar stéttir hafa lyft þar björgum í vegg, en víða er uppbyggingin í miðjum klíðum, enda þörfin þrotlaus hjá vaxandi þjóð og alltaf einhverjir að byrja. Frjáls félagssamtök hafa lyft undir björgin, og þjóðfélagið hefur gert það líka.

Einn af höfuðgöllum núv. ríkisstj. er, að hún veldur ekki verkefnum sínum fyrir framfarasókn þjóðarinnar og hefur farið öfugt að flestu í þeim efnum, af því að hún skilur ekki hlutverk sitt. Eftirfarandi ljóðlínur Gríms Thomsens eru eins og til hennar talaðar:

„Gildari virðist, unglingar,

til ofanveltu ykkar kraftur,

en til þess að byggja upp aftur.“

Ríkisstj. kallar efnahagsgerðir sínar viðreisn. En hvernig væri að nota kjarnyrði Gríms og kalla þær ofanveltu? Örfá dæmi skulu nefnd af ótal.

Stjórnin sagðist ætla að bæta gjaldeyrisstöðu bankanna. Samkvæmt skýrslum Hagtíðinda um þróun peningamála voru gjaldeyrisinnstæður bankanna í árslok 1958 nettó 202.2 millj. kr., en í árslok 1960 ekki nema 112.3 millj. Þessu getur hæstv. fjmrh. ekki neitað, þó að hann æfi hráskinnaleik.

Stjórnin sagði, að hætt yrði erlendum lántökum. Þar væru Íslendingar búnir að stofna sér í voða. Samt jók hún skuldirnar við útlönd á síðastliðnu ári um 500 millj.

Stjórnin sagði, eins og satt er, að nauðsynlegt væri að auka sparifjársöfnun. Vegna þeirrar þarfar vildi hún réttlæta að nokkru hina öfgafullu vaxtahækkun sína. Hagtíðindin, sem hæstv. fjmrh, ætti betur að lesa, eftir því sem hann talaði hér áðan, bera með sér, að innstæður í bönkum og sparisjóðum uxu á árinu 1958 um 15.8%, 1959 um 13.8%, en 1960 ekki nema um 12%.

Stjórnin sagði, að spara yrði tilkostnað ríkisins og lækka álögur þess. Sparnaðurinn hefur í heildinni reynzt ráðagerðir einar og öfugmæli. Þegar miðað er við fjárlagafrv., sem liggur fyrir Alþ., hafa fjárl, hækkað um 100% í höndum hennar, og svo aumt er ástandið, eins og bent hefur verið á, að til þess að greiða lögboðin ríkisgjöld er gert ráð fyrir að afhenda skuldabréf.

Stjórnarflokkarnir sögðust ætla að bæta lífskjörin og lækka dýrtíð. Efndirnar eru kjaraskerðing og ofsaleg verðbólga. Samkvæmt Hagtíðindum hefur t.d. mjölvara hækkað frá 1. okt. 1958 um 83.4% og fatnaður um 66.5%. Annars er óþarfi að lýsa dýrtiðinni. Allir þekkja hana heima hjá sér. Hún situr þar við hvers manns borð og étur græðgislega fyrir hönd ríkisstj. Þessi sopi er fyrir Gunnar, þessi biti er fyrir Bjarna, segir hún, o.s.frv.

Viðreisnin hefur í heild verið þeirrar náttúru að draga úr athafnalífi almennings, skapa kyrrstöðu, sem er sama og afturför og gagnstæð lífsþrá og lífsmöguleikum íslenzku þjóðarinnar.

Til eru að vísu staðir í landinu, sem fara sæmilega að stofni og búa við mikla atvinnu og allgóðan stundarhag. Þetta er þrátt fyrir viðreisnina og ofanveltukraft hennar. Það eru staðir, þar sem búið var með hjálp annarrar stjórnarstefnu að byggja upp grundvöll atvinnulífs með atvinnutækjum og útfærslu landhelginnar 1958. Þeir staðir mega þó kenna viðreisninni um, að blómi þeirra er ekki eins og hann hefði getað verið. Á öðrum stöðum, sem engin sérstök höpp hafa hlotið, sverfur hart að.

Um landbúnaðinn má segja umbúðalaust, að honum er misþyrmt og algerlega tekið fyrir eðlilega framþróun hans. Vegna sjávarútvegsins þurfti að efna til sérstakra skuldaskila strax eftir eitt viðreisnarár. Enn er hann þannig settur, að borga verður tryggingariðgjöld fyrir hann á þessu ári. Og svo er togaraútgerðin. Hvernig fer með hana?

Fyrri gengisfelling þessrar ríkisstj. var harkaleg. Seinni gengisfellingin var ósvífni. Búið er að margsanna, að hennar var engin þörf til að vega á móti þeim sanngjörnu kauphækkunum, sem átt höfðu sér stað með nýjum samningum milli verkalýðsfélaga og vinnuveitenda. Þeir samningar höfðu alls ekki tilsvarandi áhrif í skiptum þjóðarinnar við útlönd. Hafi gengisfellingarinnar verið einhver þörf, var það til að stoppa í eldri göt viðreisnarinnar.

Enginn dirfist að mæla á móti því, nema helzt foringjar Alþfl., að verkalýð var lífsnauðsyn á kjarabótum vegna dýrtíðarinnar. Ríkisstj. hafði skotið skollaeyrum við að hafa milligöngu um úrbót. Lengi biðu verkalýðsfélögin. Loks hófust verkföll, og stefndi til allsherjar vinnustöðvunar. Sáttatilraunir fyrir milligöngu hins opinbera báru ekki árangur, þótt tímar liðu. Atvinnulífið var óðum að stöðvast. Þá brutu samvinnumenn fyrir norðan ísinn með því að ganga inn á hóflega samninga. Aðrir vinnuveitendur komu í kjölfarið.

Fyrir vikið völdu blöð stjórnarinnar samvinnumönnum hin verstu hrakyrði og höfðu í hótunum við samvinnufélögin.

Þingeyingar urðu fyrstir manna til að semja og afstýra verkfalli heima hjá sér á Húsavík. Magnús Jónsson sagði í gærkvöld um þetta, að þingeyskir samvinnumenn hefðu látið Reykvíkinga segja sér fyrir verkum. Orð hins hv. þm. sýna, að hann þekkir þingeyska samvinnumenn lítið. Engir eru fjær því, — það sýnir sagan, — að beygja sig fyrir Reykjavíkurvaldi, enda kusu þeir ekki Magnús Jónsson á þing, þó að hann yrði að vísu 6. þm. í Norðurlandskjördæmi eystra. Nei, samningarnir á Húsavík voru miðaðir við sanngirni og ótvíræða þörf atvinnulífsins, og þeir voru gerðir í trássi við Reykjavíkurvald, sem um þær mundir sat, að fyrirmælum ríkisstj., eins og þursi á málinu.

Hvað hefði það kostað þjóðina, ef verkföllin hefðu staðið áfram og magnazt? Hvaða samningar hefðu orðið að lokum? Hvernig hefðu atvinnurekendur og verkafólk fengið vinnustöðvunartjón sitt bætt? Hvernig hefði búskapurinn hjá ríkisstj. sjálfri gengið, ef verk hefðu fallið niður hjá öllum hlutaðeigendum og þorskur og síld ekki veiðzt lengi sumars? Um það hefði ríkisstj, átt að hugsa, áður en hún felldi gengið um 13%. Hún gat lækkað okurvextina og linað lánsfjárkreppuna og stofnað til friðar við hið vinnandi fólk. Án þess friðar getur engin ríkisstj. unnið. Og hvernig eru horfurnar með þann frið nú? Með samningunum var ríkisstj rétt líftaug, en í stað þess að nota hana skar hún með offorsi á hana.

Þótt ekki væri nema þetta eitt til saka, er full ástæða til, að stjórnin sé látin axla skinn sín. Hefur þú, tilheyrandi góður, fyrirhitt marga, sem mæla 13% gengisfellingunni bót? Ég þekki fáa slíka. Fyrr mátti nú líka vera ofanveltan.

Ekki get ég stillt mig um að lýsa ánægju minni yfir því, að í ljós kom í gærkvöld hjá nálega öllum stjórnarliðum, sem töluðu, að þeir mundu vel eftir ársgamalli aðvörun minni til stjórnarliðsins um að stofna ekki til „móðuharðinda af mannavöldum.” Engin varnaðarorð virðast hafa bitið eins á þá og þessi. Enn þá ganga þeir með þau orð eins og hættumerki á nefinu. Ég óska, að svo verði áfram, því að ekki mun þeim af veita.

Hæstv. menntmrh., Gylfi Þ. Gíslsson, minntist í ræðu sinni í gærkvöld á hið nýja leikrit Halldórs Kiljans, Strompleikinn. Ráðherrann sagði réttilega, að leikritið væri ádeila á það, sem er óekta í þjóðlífinu. Ráðherrann taldi, að því er virðist, vantrauststill. þá, sem hér liggur fyrir, óekta, án þess þó að sanna það með sérstakri tilvitnun í leikritið. Hins vegar taldi hann viðreisnarstefnu ríkisstj. ekta. Nú mun ýmsum spurn: Fær ráðherrann þetta út úr leikritinu, þar sem segir: „Kjaftshöggin eru ekta“? Almenningur hefur fundið fyrir því, að í þeim skilningi er viðreisnarstefnan ekta.

Úr því að búið er að draga Strompleikinn inn í þessar umræður, vil ég minnast á eina persónu leiksins: Kúnstner Hansen. Kúnstner Hansen gengur á tréfæti eins og ríkisstj., og hann er sáfellt að tálga fót sinn eins og hún.

Hann heldur sig listamann, og stjórnin telur sig kúnstner líka. Annað er það þó, sem gerir líkinguna með þeim fullkomna. Kúnstner Hansen, sem hlotið hefur litla frægð hjá löndum sínum, segir: „Mín upphefð kemur að utan.“ Þetta er einmitt eins og ríkisstj. segi það: „Mín upphefð kemur að utan.”

Ríkisstj. heldur sig svo mikið erlendis, að jafnvel annað aðalmálgagn hennar, Alþýðublaðið, getur stundum ekki stillt sig um að draga dár að henni fyrir það. Hún biður aðra þjóð um hóp erlendra manna til að gera framtíðaráætlun fyrir sig. Hún telur sig hafa hlotið upphefð og vinsældir ytra fyrir eilífðarafsláttinn í landhelgismálinu. Nú kallar að spurningin um það, hvort Íslendingar eigi að ganga í Efnahagsbandalag Evrópu. Það getur verið hættulegt fyrir lítið land að einangrast, en það er líka stórkostlegur vandi að gera samning um inngöngu í bandalag, þar sem aðildarríkin afsala sjálfsforræði í veigamiklum málum til stofnana bandalagsins og samningurinn er óuppsegjanlegur.

Íslenzka þjóðin er fámenn og á lítið gull. En hún á stórt land mikilla möguleika. Þess auðs þarf hún í ágengum heimi að gæta af mikilli árvekni og festu, ef hún vill ekki fá þjóðahafið yfir sig og hverfa í það haf. Ofanvelturíkisstj., sem biðlar til upphefðar að utan, er ekki trúandi fyrir þeirri gæzlu.

Ég tel, að þjóðin eigi nú þegar siðferðilega heimtingu á kosningum til nýs Alþingis, sem myndi nýja stjórn, er sé skylduð til að hefja öflugt uppbyggingarstarf og halda trúan vörð um sjálfstæði landsins.