26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. S.l. vetur báru framsóknarmenn fram vantrauststillögu á hæstv. ríkisstj. ásamt kommúnistum. Var það í fullu samræmi við algera samstöðu þessara flokka yfirstandandi kjörtímabil. Hefur sú samstaða gengið svo langt, að hún hefur jafnvel náð til mikilvægra og viðkvæmra utanríkismála, þar sem framsóknarmenn hafa gegnt hlutverki hinna nytsömu sakleysingja. Hefur þetta hátterni vakið almenna og vaxandi gremju meðal kjósenda Framsóknarfl.

Það, sem fyrst og fremst vekur athygli við þá vantrauststill., sem nú liggur fyrir til umræðu, er það, að nú fá kommúnistar ekki að vera meðflm. Framsóknarmenn flytja hana einir. Varlega skyldi þó treysta því, að hér væri um sinnaskipti að ræða. Ástæðan mun frekar vera annars vegar ótti um fylgishrun, og hins vegar munu þeir telja kommúnista örugga sjálfboðaliða til þessarar niðurrifsstarfsemi. Þeir treysta því, að þeir verði fylgispakari til þeirrar iðju en ábyrgrar stjórnarstefnu á dögum vinstri stjórnarinnar.

Till. sú, sem hér liggur fyrir, verður varla rædd í réttu ljósi, nema rifjuð séu upp nokkur atriði um aðdragandann að núverandi stjórnarstefnu, sem gerði hana nauðsynlega.

Þegar vinstri stjórnin gafst upp haustið 1968 undir forsæti hv. fyrri flm. þessarar vantrauststill., Hermanns Jónassonar, var öllum orðið ljóst, að ekki yrði haldið lengra eftir leiðum uppbótakerfisins. Kerfið byggðist á stöðugum greiðsluhalla við útlönd, og kerfinu fylgdi mikil og vaxandi verðbólga, sem beindi fjárfestingu landsmanna inn á brautir, sem vorn óhagkvæmar fyrir þjóðarheildina. Verðbólgan lamaði sparnaðarviðleitni innanlands. Vaxandi greiðsluhalli eyðilagði lánstraust þjóðarinnar út á við. Verst af öllu var þó, að framleiðsla landsmanna óx ekki í neinu hlutfalli við aukna fjárfestingu og tilkostnað og var því ekki einu sinni fær um að standa undir óbreyttum lífskjörum þrátt fyrir skuldasöfnun. Engum var þetta ljósara en Hermanni sjálfum, og sagði hann af sér á þeim forsendum, að hann gæti ekki skapað nauðsynlega samstöðu til þess að ráða bót á vandanum. Fróðlegt væri að fá það upplýst hjá framsóknarmönnum við þessar umræður, hvort þeir reikni með, að stjórnarandstöðusamstaða þeirra og kommúnista mundi endast til ábyrgrar stjórnarstefnu, ef svo færi, að vantrauststill. yrði samþykkt.

Eins og kunnugt er, leysti minnihlutastjórn Emils Jónssonar til bráðabirgða þann vanda, sem þjóðin hafði ratað í undir forsæti hv. 1. flm. þessarar till., og forðaði þjóðinni frá þeirri óðaverðbólgu, sem hann hafði sjálfur lýst yfir að yrði óviðráðanleg, ef ekki yrði að gert í tíma. Stjórn Emils sat að völdum, þar til þjóðinni hafði gefizt kostur á að kveða upp sinn dóm í almennum þingkosningum og hægt var að skapa þann þingmeirihluta og þá samstöðu, sem þurfti til að framkvæma róttækar og nauðsynlegar breytingar á efnahagskerfinu og leiddi til þess, að núv. ríkisstj. var mynduð.

Núv. ríkisstj. gerði sér ljóst, að erfitt hlutverk biði hennar. Hún varð að treysta á það, að þjóðin hefði pólitískan þroska og skilning til þess að hafna ábyrgðarlausu lýðskrumi og veita henni tóm til nauðsynlegra aðgerða. Í fyrsta lagi yrði að færa nokkrar fórnir, til þess að rétta við efnahag þjóðarinnar út á við, forða henni frá gjaldþroti. í öðru lagi hlaut það að taka nokkurn tíma, að nýtt efnahagskerfi mótaði framleiðsluhætti landsmanna á þann hátt, að það yrði þess umkomið að standa undir góðum og batnandi lífskjörum. Af hálfu stjórnarflokkanna var því engin dul á það dregin, að stefnubreytingin mundi kosta nokkrar fórnir um stundarsakir.

Viðreisnarráðstafanir ríkisstj. eru svo kunnar og ferskar, að óþarfi er að rekja þær hér. Aðeins skal ég geta þess, að ríkisstj. gerði meiri og víðtækari hliðarráðstafanir samfara þessum efnahagsráðstöfunum en nokkur önnur ríkisstj. hafði áður gert, til þess að vernda hagsmuni þeirra, sem erfiðasta lífsbaráttu háðu. Má hér minna á stórkostlega auknar fjölskyldubætur, elli- og örorkulífeyri, afnám tekjuskatts á venjulegar launatekjur, verulega lækkun á útsvörum og nokkra aukningu á niðurgreiðslum. Nema þessar hagsbætur sem svarar 11 vísitölustigum, sem að sjálfsögðu eiga að koma til frádráttar, þegar framfærsluvísitalan er reiknuð út, enda var framfærsluvísitalan ekki nema 104 stig, áður en verkföllin hófust s.l. vor, eða sem næst það, sem áætlað hafði verið í upphafi.

Þegar viðreisnartill. ríkisstj. lágu fyrir, stóð ekki á hrakspám stjórnarandstöðunnar, sem taldi, að stjórnarstefnan mundi leiða til samdráttar, atvinnuleysis og hvers konar óáranar og ekki leiða til lausnar á neinum þeim vanda, sem þeim var ætlað að ráða bót á. Ekki er ástæða til að rekja það glórulausa ofstæki, sem fram kom í gagnrýni stjórnarandstöðunnar hér á þinginu mánuð eftir mánuð, frá fyrsta degi til síðasta dags þinghaldsins. Það er óþarfi að minna á ummæli hv. 1. þm. Norðurl. e., Karls Kristjánssonar frá Húsavík, en hann líkti því ástandi, sem efnahagsaðgerðirnar mundu leiða yfir þjóðina, við einhverja verstu óáran, sem yfir þjóðina hefur dunið á umliðnum öldum, móðuharðindin, og skal ég koma að því síðar, eins og hann hefur sjálfur óskað eftir.

Nú liggur fyrir nokkur reynsla af efnahagsaðgerðunum, og væri fróðlegt að bera hana saman við hin spámannlegu orð stjórnarandstöðunnar. Við þann samanburð verður þó að hafa í huga ýmis aðsteðjandi óhöpp, sem eru efnahagsaðgerðunum með öllu óviðkomandi. Má í því sambandi nefna það, að verðfall á fiskmjöli og lýsi var meira og varanlegra en nokkurn óraði fyrir. Þótt mjöl hafi aftur hækkað nokkuð í verði, er það enn 20—25% lægra en það var 1959 og verð á lýsi 30—40% lægra. Nokkur hækkun hefur orðið á sumum öðrum sjávarafurðum, en samkvæmt útreikningum Fiskifélagsins er talið, að verð á sjávarafurðum í heild hafi í ágústmánuði s.1. verið 3.8% lægra en 1959, og var sá samanburður enn þá óhagstæðari á árinu 1960. Þá má öllum vera ljóst, hver áhrif hinn óvenjulegi aflabrestur togaraflotans bæði árin 1960 og 1961 hefur haft og léleg vetrarvertíð bátaflotans s.l. vetur, sem síldarvertíðin nær alls ekki að vega upp á móti, enda var það svo samkvæmt útreikningum Fiskifélagsins, að aflaverðmæti á árinu 1960 og 1961 nær alls ekki aflaverðmætinu eins og það var 1959, þrátt fyrir það þótt nettóaukning bátaflotans hafi verið a.m.k. 50 bátar og togurum einnig fjölgað. Það láist mörgum að hafa í huga þessa miklu aukningu skipastólsins og hinn stóraukna kostnað við tilkomu nælonneta og annan nýjan tæknilegan tilkostnað fiskiflotans og að samt skuli ekki hafa náðst sama aflaverðmæti, og er aflabresturinn því í rauninni meiri en aflaskýrslur benda til. Ofan á þetta bættust svo truflanir af völdum vinnustöðvana árið 1961, sem byrjuðu með vetrarvertíð í Vestmannaeyjum og siðar á Suðurnesjum, breiddust út til Reykjavíkur og Norðurlandsins, er síldarvertíð skyldi hefjast þar. Það hefði því mátt teljast gott, þótt viðreisnin hefði ekki gert betur en standa af sér þær erfiðu aðstæður, sem hér hafa verið raktar.

En þrátt fyrir þessar aðstæður voru jákvæð áhrif efnahagsráðstafananna orðin mjög augljós s.l. vor. Gjaldeyrishallinn, sem á árinu fyrir viðreisnina nam að meðaltali 300–400 millj. kr. á ári, mun samkvæmt bráðabirgðayfirliti að mestu eða öllu leyti hafa horfið á árinu 1960. Gjaldeyrisstaða bankanna batnaði um 240 millj, kr., í stað stöðugs yfirdráttar undanfarin ár var gjaldeyrisforðinn um s.l. áramót 112 millj. kr., þrátt fyrir það þótt innflutningur hafi að mestu verið gefinn frjáls. Samkvæmt ársskýrslu stjórnar Seðlabankans fyrir 1960 höfðu sparifjárinnlán viðskiptabankanna aukizt um 265 millj. kr., en útlán um 254 millj. Taldi Seðlabankinn, að hér hefði mjög mikilvægum árangri verið náð, og það jafnvægi, sem náðist með þessu í peningamálum, leiddi til þess, að unnt reyndist að lækka vextina nokkuð aftur um s.l. áramót. Hjá ríkissjóði varð nokkur tekjuafgangur á árinu 1960 þrátt fyrir stórauknar greiðslur til almannatrygginga, og á þessu ári standa vonir til, að endarnir nái saman þrátt fyrir tekjurýrnun af völdum verkfalla.

Framfærsluvísitalan s.l. vor var 104 stig, eða sem næst því sem ráð hafði verið fyrir gert, og verðlag var orðið stöðugt. Verðbólga og dýrtíðarvöxtur var stöðvaður. Samdráttur og atvinnuleysi hafði hvergi látið á sér bera og atvinnutekjur jafnvel vaxið á árinu 1960, og er þessi þróun öll í algeru ósamræmi við hrakspár stjórnarandstöðunnar.

Nú voru góð ráð dýr hjá stjórnarandstöðunni, mönnum, sem höfðu strandað þjóðarskútunni á svo aumkunarverðan hátt haustið 1958 og lýst því yfir, að engin samstaða væri um úrræði, þegar vandann bar að höndum og ábyrgðin hvíldi á þeim, en sameinast aftur í stjórnarandstöðunni í ofstækisfullri gagnrýni og hrakspám. Viðreisnin hafði staðið af sér erfitt árferði og batamerkin voru mjög augljós. Þeir sáu fram á það, að ef viðreisnin fengi eðlilegan reynslutíma eða bara ef verulega batnaði í ári um afurðaverð og aflabrögð kæmust t.d. í það horf, sem þau voru í þeirra eigin stjórnartíð, mundi viðreisnin verða stórkostlegur pólitískur sigur stjórnarflokkanna og stjarna stjórnarandstöðunnar að sama skapi lækka á lofti. Það var því ekki seinna vænna að láta til skarar skríða með viðreisnarstefnuna, hvað sem hagsmunum þjóðarinnar liði. Nú er það staðreynd, sem að minnsta kosti stjórnmálamönnum og verkalýðsleiðtogum ætti að vera ljós, að jafnvel velheppnaðar kauphækkunaraðgerðir geta beinlínis orðið til tjóns fyrir launþega, ef ekki eru til staðar raunveruleg framleiðsluverðmæti á móti kauphækkuninni. Ef knúðar eru fram kauphækkanir umfram það, sem aðalatvinnuvegir landsmanna geta borið, skeður annað tveggja, að sá atvinnurekstur, sem verst er stæður, stöðvast og atvinnuleysið heldur innreið sína eða að kauphækkanirnar, að svo miklu leyti sem þær eru raunhæfar, brjótast fram í hækkuðu verðlagi með einhverjum hætti.

Undirstaða bættra lífskjara er heilbrigt efnahagslíf, stöðugt verðlag og framleiðsluaukning. Á þessum staðreyndum byggja verkalýðsfélög nágrannalanda okkar stefnu sína. Núgildandi kjarasamningar Svía eru t.d. til tveggja ára og fyrir fram samið um 31/2 % kauphækkun hvort ár. Er þá við það miðað, að launþegar fái eðlilega hlutdeild í framleiðsluaukningunni, án óheillavænlegra áhrifa á atvinnuöryggi eða verðlag. Á þennan hátt hafa Norðurlandaþjóðirnar undir forustu jafnaðarmanna í ríkisstjórn og verkalýðshreyfingu bætt lífskjör sín um 30–50% undanfarinn áratug. Á sama tíma hefur íslenzka þjóðin mátt horfa upp á pólitísk hjaðningavíg í þjóðmálum og verkalýðshreyfingu, sem komið hefur í veg fyrir sérhverja heiðarlega tilraun til þess að treysta efnahagsgrundvöll atvinnulífsins og tryggja framleiðsluaukningu, er byggja mætti á raunhæfar kjarabætur. Hefur sú skemmdarstarfsemi nú náð hámarki í sameinuðum slagkrafti kommúnista og framsóknarmanna. Þeir hafa látið sig hafa það að nota hvert einasta tækifæri í hálft annað ár í ræðu og riti til þess að lýsa neikvæðum áhrifum viðreisnarinnar. Gjaldeyrisástandið á að hafa versnað, spariféð minnkað, atvinnuvegirnir í kalda koll. Síðan snúa þeir allt í einu blaðinu við og bjóða heilbrigðri skynsemi upp á þá fullyrðingu, að þetta sama efnahagskerfi sé á þessu sama hálfu öðru ári búið að gjalda syndir vinstri stjórnarinnar og sé auk þess fært um að veita 80—90% þjóðarinnar 11—20% raunhæfar kjarabætur, án þess að það segi til sín í verðlagi.

Áður en ég vík að þætti stjórnarandstöðunnar í atburðum s.l, sumar, verkföllunum og gengisfellingunni, vil ég víkja nokkrum orðum að frammistöðu þeirra haustið 1958, þegar þeir áttu að heita ábyrgir stjórnarherrar.

Efnahagsaðgerðir vinstri stjórnarinnar vorið 1958 jafngiltu gengisfellingu, og fór verðlag ört hækkandi. Sumarið og haustið 1958 gengu verkalýðsfélögin til kjarasamninga, eftir að hafa veitt vinstri stjórninni tveggja ára vinnufrið, þrátt fyrir sívaxandi verðbólgu og dýrtíð. Iðnaðarmenn sömdu um 6% kauphækkun og Dagsbrún 9%. Samkomulag náðist um kauphækkun verkamanna á fundi h,já sáttasemjara 22. sept. 1958. En fróðlegt er að kynnast því og rifja það upp, með hverjum hætti það samkomulag var gert. Að því samkomulagi stóðu auk atvinnurekenda og Eðvarðs Sigurðssonar, formanns Dagsbrúnar, tveir ráðherrar vinstri stj., þeir Hermann Jónasson og Lúðvík Jósefsson. Svo að ekkert fari á milli mála um þessa atburði, skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp bókun, sem bókuð var í gerðabók sáttasemjara ríkisins:

„Af hálfu atvinnurekenda var því lýst yfir, að þeir gætu ekki samþykkt kauphækkanir þær, sem um var rætt, nema þeir fengju tryggingu fyrir því, að fullt tillit yrði tekið til þeirra við verðlagsákvarðanir. Ræddu þeir þetta sérstaklega við sáttanefndina og sjávarútvegsmálaráðherra (þ.e. Lúðvík Jósefsson). Ráðherra ræddi málið við forsætisráðherra (þ.e. Hermann Jónasson) og gaf síðan svofellda yfirlýsingu, sem atvinnurekendum var tilkynnt :

Sú meginregla skal gilda um verðlagsákvæði eftir gildistöku, hins nýja Dagsbrúnarsamnings, að miðað sé við hið umsamda kaup við ákvörðun verðlagningar og nýjar verðreglur ákveðnar sem fyrst, hafi kauphækkunin teljandi áhrif á verðlagsútreikninginn:

Ég held, að öllum hljóti að vera ljóst, að hér er um hrein svikráð að ræða, ekki aðeins gagnvart verkamönnum, heldur einnig gagnvart allri þjóðinni. Enda mun Eðvarð hafa leynt því fyrir verkamönnum, hver forsendan var fyrir kauphækkuninni. Þeir ráðherrarnir Hermann og Lúðvík stóðu hins vegar dyggilega við loforð sín gagnvart atvinnurekendum, eins og hv. þingmenn geta sjálfir kynnt sér í Vinnuveitandanum, félagsriti atvinnurekenda, frá þessum tíma. Þar er m.a. sagt frá því, að eftir þessari yfirlýsingu hafi verið farið um ákvörðun verðlags, þó með þeirri undantekningu, að til erfiðleika hafi dregið um verðlagningu á olíu og benzíni, en síðan er birt bréf, sem Vinnuveitendasambandið skrifaði þáv. forsrh., Hermanni Jónassyni, í októbermánuði, þar sem undan þessu er kvartað. Er þar vitnað í yfirlýsingu þeirra ráðherranna, og síðar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir því sem vér bezt vitum, hefur til þessa gengið greiðlega að fá staðfestingu verðlagsyfirvalda á nýjum verðútreikningum í samræmi við ofangreinda yfirlýsingu. Oss er nú tjáð, að undantekning sé frá þessu í sambandi við verðlagningu á benzíni og olíum:

Er síðan farið fram á það, að þetta verði leiðrétt. — Á öðrum stað í blaðinu er frá því sagt, að leiðrétting hafi fengizt á þessu nokkru síðar.

Afleiðing þessara vinnubragða lét ekki á sér standa. Strax í nóvembermánuði var sýnilegt, að vísitalan mundi taka mikið heljarstökk. Þá skoraði forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson félmrh., opinberlega á launþega að gefa eftir af kaupi sínu og skoraði á bændur að gefa eftir nokkuð af verði landbúnaðarvara og taldi allt annað veginn til glötunar, sem lægi fram af hengiflugi. Hermann forsrh. heimsótti þing Alþýðusambandsins og bað um eftirgjöf af kaupgjaldi, þrátt fyrir það þótt verðhækkanirnar, sem af kauphækkununum leiddi, væru að mestu leyti komnar fram í verðlagi. Báðir ráðherrarnir gengu bónleiðir til búðar. Vísitalan hækkaði um 17 stig 1. des. og óðaverðbólga var skollin á, eins og forsrh. skýrði sjálfur frá við uppgjöf vinstri stjórnarinnar.

Ég rek þessa atburði ekki vegna þess, að ég álíti, að það hafi verið á valdi þessara manna að gera þessar kauphækkanir raunhæfar. Til þess var uppbótakerfið ekki megnugt. En það réttlætir ekki, hvernig að þessum málum var staðið. Ég rek þessa atburði vegna þess, að þeir sýna glögglega, hvernig hlýtur að fara, ef samið er um miklar, almennar kauphækkanir, sem ekki eiga stoð í aukinni framleiðslu. Ég rek þessa atburði vegna þess, að gengisfellingin 1960 var m.a. bein afleiðing þessarar ráðsmennsku, skilgetið afkvæmi þeirrar stjórnarandstöðu, sem að vantrauststillögunni stendur, og á engan hátt sök þeirrar ríkisstj., sem tókst á hendur það vanþakktáta hlutverk að forða þjóðinni frá gjaldþroti og byggja upp nýtt og heilbrigðara efnahagskerfi.

Ég rifja þessa atburði upp vegna þess, að þeir urðu banabiti vinstri stjórnarinnar, og vegna þess, að hún hafði ekki þrek og samstöðu til að skrá rétt gengi og afnema uppbótakerfið og alla þá spillingu, sem því hafði fylgt. Ég rifja þessa atburði upp vegna þess, að öllum má nú vera ljóst, að stjórnarandstaðan ætlaði núv. ríkisstj. svipaðan banabita með svikráðum sínum í verkföllunum s.l. vor. Þeir unnu að því að sprengja kjarasamningana upp fyrir það mark, sem hugsanlegt væri að efnahagskerfið þyldi án rekstrarstöðvana eða nýrra aðgerða, og skeyttu engu um afleiðingar fyrir þjóðarheildina. Atvinnurekendur buðu 3% kauphækkun, þótt þeir vissu, að þeir fengju það ekki bætt með verðhækkunum. Lögð var fram sáttatillaga um 6% strax og 4% síðar. Vafalaust hefðu þessar kauphækkanir ekki leitt til gengisfellingar eða annarra efnahagsaðgerða, og vonir stóðu til, að þær gætu að verulegu leyti orðið raunhæfar. En framsóknarmenn treystu því a.m.k. ekki, að þær nægðu til þess að sprengja efnahagskerfið. Skyndilega létti móðuharðindunum yfir heimkynnum Karls Kristjánssonar. Samvinnufélögin á Húsavík og fleiri stöðum gátu allt í einu boðið upp á helmingi hærri kauphækkun þrátt fyrir hið fordæmda efnahagskerfi. Athyglisvert er, að þrátt fyrir það, þó að samningar samvinnufélaganna lægju fyrir, samþykktu ýmis verkalýðsfélög hér syðra sáttatilboð sáttasemjara, þótt fleiri felldu það. Athyglisverðast var þó, hve þátttaka í atkvgr. viðast hvar var sáralítil, og sýndi það vægast sagt tómlæti fyrir lýðskrumi framsóknarmanna.

Í sambandi við þessa niðurstöðu mála er rétt að geta þess, að formaður Dagsbrúnar, Eðvarð Sigurðsson, sem sæti á í sex manna nefndinni, skrifaði sjálfur undir fyrstu verðhækkunina, sem af samningunum leiddi vegna hækkunar á dreifingarkostnaði landbúnaðarvara. Og þá er einnig rétt að geta þess, að samvinnufélögin víða um land létu það verða sitt fyrsta verk eftir samningana að lækka umsamið fiskverð til sjómanna, og sýnir það, svo að ekki verður um villzt, að stjórnarandstaðan viðurkenndi sjálf, að samningarnir hlytu að hafa ýmsar óþægilegar afleiðingar og væri ekki um raunhæfa kjarabót að ræða.

Ætli það fari ekki að verða lýðum ljóst, að gengisfellingin s.l. sumar er runnin undan rifjum framsóknarmanna og að hverri einustu verðhækkun, sem að garði ber hjá alþýðuheimilum, ætti að fylgja kveðja framsóknarmanna og kommúnista?

En stjórnarandstaðan misreiknaði sig í einu. Hún bjóst við því, að ríkisstj. mundi fresta nauðsynlegum aðgerðum fram undir áramót eða þar til verulegur samdráttur væri orðinn í atvinnulífinu og vertíðarflotinn stöðvaðist. Von þeirra var, að ríkisstj. missti þannig úr höndum sér það jafnvægi í gjaldeyris- og peningamálum, sem þegar hafði náðst, og þjóðin yrði á þann hátt látin færa eins og hálfs árs fórn til einskis. Markmið stjórnarandstæðinga var bersýnilega að knýja aftur fram sama öngþveitið í efnahagsmálum og þá algeru stöðvun útflutningsframleiðslunnar, sem við blasti, þegar þeir sjálfir gáfust upp haustið 1958 á brún hengiflugsins.

„Hvað varðar mig um þjóðarhag?“ eru gamalkunn orð eins framámanna íslenzkra kommúnista, þegar flokkshagsmunir þeirra áttu í hlut. Framsóknarmenn standa nú berstrípaðir frammi fyrir allri þjóðinni undir sömu sökina seldir.