26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hv. þm. Karl Kristjánsson líkti núv. ríkisstj. við Kúnstner Hansen í Strompleik Kiljans. Ég held, að Karli hafi ratazt hér réttar á munn en hann ætlaðist til og raunar nokkuð á annan veg, því að í leikritinu er Kúnstner Hansen af hendi höfundar einmitt fulltrúi heilbrigðrar skynsemi. Spillingin hefur ekki náð tökum á honum, og hann blekkir hvorki sjálfan sig né aðra og er að því leyti andstæða annarra persóna í Strompleiknum.

Tveir hv. þm. Framsfl., Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, bera nú fram vantrauststill. á hæstv. ríkisstj., og eru það raunar ekki stórtíðindi. Fyrr á þessu ári, í marzmánuði s.1., fluttu þessir sömu menn ásamt Alþb: þm. einnig vantrauststill. á ríkisstj. Sú vantrauststill. var felld. Segja má því, að vantrauststillöguflutningur stjórnarandstöðunnar sé að verða fastur dagskrárliður Alþingis á hverjum vetri. Ég tel vafalaust, að einnig þessi vantrauststill. verði felld, og ég tel einnig vafalaust, að flm. till. gangi út frá, að svo muni verða. Till. er því áreiðanlega ekki flutt í þeirri veru, að ríkisstj. kunni nú að verða felld, þótt að formi til sé látið þannig líta út, heldur er hún vafalaust flutt til þess að fá tækifæri til að hafa almennar stjórnmálaumr. í útvarpinu umfram hinar almennu eldhúsdagsumr., sem verða síðar á þingtímanum. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja, enda ótvíræð heimild til slíks tillögn flutnings. Útvarpshlustendur verða að una því, hvort sem þeim líkar betur eða verr.

En í þessu sambandi er ástæða til að hugleiða, hvort of tíðar almennar stjórnmálaumr. Í útvarpi hafa ekki þau áhrif á útvarpshlustendur að slæva áhuga þeirra á stjórnmálum frekar en hið gagnstæða. En æskilegt er, að áhugi almennings um þau mál sé sem bezt vakandi. Ég varpa þessu hér aðeins fram til umhugsunar, en um þetta kunna að vera skiptar skoðanir.

Á flutningsmönnum vantrauststill. hvílir sú skylda að gera þm. og þjóðinni allri sem gleggsta grein fyrir, hvað þeir hafa upp á að bjóða, ef vantrauststill. yrði samþykkt. Gera verður ráð fyrir, að flm. till. séu reiðubúnir að mynda ríkisstj., ef þeim nú tækist að fella þá stjórn, sem nú situr. Við, sem greiða eigum atkv. um vantrauststill., eigum því heimtingu á að vita sem nákvæmast, hvað við tekur, ef núv. ríkisstj. yrði felld. Flm. og talsmenn þeirra hafa ekki rækt þessa skyldu. Þeir hafa forðazt að láta þess getið, hverjar fyrirætlanir þeirra hafa verið um meðferð stjórnvaldsins, ef þeir tækju nú við því valdi. Ræður þeirra hafa einvörðungu snúizt um gagnrýni á ríkisstj. Hvað eina, sem hún hefur gert, telja þeir skaðlegt eða hættulegt. Þar sjá þessir hv. þm. enga glætu fyrir stafni, nema því aðeins að þeir sjálfir fái að taka við stjórnartaumunum. En þeir varast eins og heitan eld að bregða ljósi yfir framtíðaráætlanir sínar. Það er eins og þær væru einhver hernaðarleyndarmál, sem umfram allt yrði að varðveita. En þessu er ekki svo farið. Hv. flm. eiga engan lykil að vandamálunum. Það er skýringin á þagmælsku þeirra.

Það er vitanlega algerlega ófullnægjandi, þó að þessir hv. þm., flm. vantrauststill., segist vilja halda áfram framfarasókninni og leggja áherzlu á að auka framleiðsluna og koma í veg fyrir kjaraskerðingu. Hver einn og einasti þm. er áreiðanlega sammála þessu. Við viljum áreiðanlega allir auknar framfarir, aukna framleiðslu og aukna velmegun fólksins í landinn. Það, sem skilur á milli skoðana, er ekki þetta, heldur hitt, að stjórnarandstæðingar telja, að aðferðir ríkisstj. til þess að ná þessu marki séu rangar. Því er jafnvel haldið fram í áróðursskyni, að sumar aðgerðir í þessum efnum hafi verið viðhafðar af hreinni mannvonzku eða í hefndarskyni við vissan hóp manna í þjóðfélaginu. Svo barnalegum staðhæfingum trúir að sjálfsögðu enginn maður, ekki einn sinni þeir, sem slíkum áróðri halda uppi.

Flm. og stuðningsmönnum þeirra verður tíðrætt um það, sem þeir kalla kreppustefnu og samdráttarstefnu ríkisstj., á sama tíma og hver vinnufær maður og kona hafa meira en nóg að starfa og fréttir berast víða að um stórkostlegan skort á vinnuafli, einkum nú, þegar skólarnir eru byrjaðir. Þetta krepputal þeirra hljómar því sem öfugmæli í eyrum þjóðarinnar.

Gera verður ráð fyrir af því, sem fram hefur komið í þessum umr. og raunar áður hefur komið fram, að flm. till. hefðu viljað halda uppbótakerfinu og hinum flóknu reglum um margfalt gengi. Eins og alþjóð er kunnugt, hafði þetta verið gert ár frá ári, en alltaf jókst verðbólgan og enn hefði hún aukizt með vaxandi hraða, ef fram hefði verið haldið sem horfði. Slíku var ekki hægt að halda áfram án þess að stefna þjóðarbúskapnum norður og niður, til stöðvunar, skorts og hruns. Slíkt ástand væri nú þegar komið, ef ekki hefði verið tekið í taumana með stöðvun 1959 og viðreisnarlöggjöfinni 1960 og þeim aðgerðum, sem í kjölfar hennar fylgdu. Þjóðinni var sagt frá því skýrt og skilmerkilega, að samfara viðreisninni hlýtt að verða nokkur dýrtíð, a.m.k. fyrst um sinn, en verðbólguskriðan var stöðvuð. Nú væri fróðlegt að vita, hvort það sé ætlun flm. vantraustsins, hv. þm. Hermanns Jónassonar og Eysteins Jónssonar, ef þeir tækju við stjórnartaumum nú, að taka upp að nýju uppbótakerfið með mismunandi gengi og þjóðnýtingu taprekstrar atvinnuveganna og innleiða aftur viðskiptahöftin, til þess að unnt sé að beina sem mestum innflutningi hátollavara til landsins til þess að standa undir kerfinu. Um þetta spurði hæstv. ráðh.. Gylfi Þ. Gíslsson í umr. um vantraust á ríkisstj. í marzmánuði s.l. Af hálfu stjórnarandstæðinga var fátt um svör. Það er ekki óeðlilegt, að enn sé spurt um þetta, því að hér er um að ræða eitt meginatriðið í stefnu og starfi núv. ríkisstj., afnám hins flókna uppbótakerfis og aukið viðskiptafrelsi samhliða öðrum ráðstöfunum til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum og til þess að rétta við þann halla á gjaldeyrisviðskiptum við útlönd, sem varað hafði það lengi og var orðinn svo mikill, að hann ógnaði tilveru okkar. Eðlilegt hefði verið, að hv. flm. vantrauststill. eða aðrir ræðumenn úr þeirra flokki hefðu svarað þessu. Það hefði einnig verið eðlilegt, að þeir hefðu svarað þeirri spurningu hæstv. ráðh. Gylfa Þ. Gíslssonar, sem hann beindi til þeirra við umr. um vantraustið í fyrra, hvort þeir mundu tafarlaust segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin, ef þeir mættu nú ráða. Einnig hefði verið eðlilegt og sjálfsagt vegna andstöðu þeirra við landhelgissamninginn við ríkisstj. Bretlands fyrr á þessu ári, að þeir gerðu tvímælalausa grein fyrir því, hvort þeir mundu nú gera tilraun til að upphefja þann samning og afnema grunnlínubreytingarnar og innleiða að nýja það ófriðarástand umhverfis landið, sem áður ríkti, með tilheyrandi gagnkvæmum fjandskap og algera óvissu um lausn á því máli.

Það hefur gerzt mikil saga á Íslandi á undanförnum áratugum. Þjóðin hefur risið úr fátækt til bjargálna, að vísu ekki þrautalaust eða umbrotalaust, því að þessari þróun hafa fylgt margvíslegir vaxtarverkir og hörð stjórnmálaátök. Margt hefur verið vel gert og myndarlega, en ýmislegt hefur farið miður úr hendi. Þrátt fyrir þessa efnahagslegu byltingu hefur a, m. k. síðustu 20 árin verið verðbólga mismunandi mikil á ýmsum tímum með þeim erfiðleikum, sem slíku fylgja, og reis hún hærra hér á landi og varaði lengur en í nokkru öðru Evrópuríki að heita má. Samfara þessu var halli á greiðslujöfnuði við útlönd og skuldasöfnun úr hófi fram. Hver ríkisstj. eftir aðra reyndi að ráða bót á þessu. Það heyrðist oft talað um varanleg úrræði til að lækna meinsemdirnar í efnahagskerfinu, en þessi úrræði brugðust hvert af öðru. Allir stjórnmálaflokkarnir hafa glímt við þetta verkefni meira eða minna og mistekizt meira eða minna. Aðrar þjóðir, sem áttu við svipaða erfiðleika að stríða eftir síðari heimsstyrjöldina, hafa komizt yfir þá, flestar fyrir mörgum árum og búa nú við efnahagsjafnvægi. Við erum síðastir allra í þessum efnum, og ríkisstj. sú, sem nú situr, er að gera úrslitatilraun til þess að komast út úr þeim öldudal falskrar velmegunar og öryggisleysis, sem við vorum fallin í þrátt fyrir margra ára góðæri. Henni hefur orðið vel ágengt þrátt fyrir ýmsar mótgerðir og harða gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Enn vantar herzlumuninn, en hann verður að nást. Þótt allir verði nokkuð á sig að leggja, sem er óhjákvæmilegt, og ýmsir séu óþolinmóðir, sem er vorkunnarmál, þá er hér svo mikið í húfi, að enginn má bregðast skyldu sinni. Úr stundarerfiðleikum mun greiðast fyrr en varir, ef menn láta þjóðarhag sitja í fyrirrúmi fyrir ímynduðum flokkshagsmunum, og trúa verður maður því í lengstu lög, að allir vilji keppa að efnahagslegri velmegun og félagslegu öryggi, þó að menn greini á um leiðir í þeim efnum.

Í þessu sambandi er ástæða til að minna á það, að síðan almannatryggingar voru settar á á Íslandi, hefur engin ríkisstj. gert annað eins átak þeim til aukningar og núv. ríkisstj. hefur gert, og dreg ég í efa, að menn geri sér almennt ljóst, hversu stórfellt þetta átak hefur verið. Þannig hefur ríkisstj. séð um það, að þeir, sem við þrengst kjör búa allra þegna þjóðfélagsins, þyrftu ekki að bera byrðarnar til jafns við aðra. Ég skal í því efni aðeins nefna örfáar tölur, sem gefa nokkra hugmynd um þá stökkbreytingu, sem átt hefur sér stað í þessum efnum.

Árið 1958 voru bótagreiðslur almannatrygginganna tæplega 220 millj. kr. á öllu landinu, árið 1959 voru þessar greiðslur tæplega 250 millj., árið 1960 námu þær um 440 millj., og nú í ár, 1961, er gert ráð fyrir, að þær muni nema um 540 millj. kr. Frá 1958 hafa tryggingabætur á öllu landinu, sem Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu á, hækkað úr 220 millj. í 540 millj. Í þessu efni ber að sjálfsögðu að hafa í huga gengisfellingu krónunnar á þessu tímabili, en engu að síður er hér um að ræða stórkostlega aukningu.

Fróðlegt er að gera sér grein fyrir, hve margir njóta nú þessara tryggingabóta. Ellilífeyrisþegar eru nú um 11 þúsund talsins, og þeir, sem njóta örorkulífeyris eða örorkustyrks, eru um 3300 að tölu. Bótagreiðslur til þessa fólks er áætlað 1961 að nemi um 240 millj. kr. Fjölskyldubætur eru greiddar með nær 60 þús. börnum og eru áætlaðar 166 millj. kr. 1961. Barnalífeyrir er greiddur með 2700 börnum og meðlagsgreiðslur inntar af hendi fyrir um nær 4000 börn. Áætlað er, að sjúkrahjálp sjúkrasamlaga og sjúkradagpeningar nemi talsvert á 2. hundrað millj. kr. Ég skal nefna enn eitt lítið dæmi til glöggvunar. Dánarbætur vegna slysa til ekkju eða ekkils námu á dögum vinstri stjórnarinnar innan við 20 þús. kr., nema fyrir lögskráða sjómenn. Nú eru þessar bætur 90 þús. kr. og mættu að vísu gjarnan vera hærri. Þessar tölur gefa dálitla hugmynd um, hvað gert hefur verið og hvað gert er nú á þessu félagsmálasviði í okkar 170 þúsund manna þjóðfélagi. Þær gefa til kynna, að mjög háum fjárhæðum er dreift til tekjujöfnunar á milli þegna þjóðfélagsins, til aldraðs fólks, til öryrkja, til sjúkra eða slasaðra, til ekkna og barna einstæðra mæðra. Með þessu er að sjálfsögðu ekki sagt, að tryggingakerfi okkar sé fullkomið. Fjarri fer því. Þar er enn ótæmandi verk að vinna. En hins vegar getum við með fullum rétti hrósað okkur af því, að við stöndum framarlega á meðal þjóða heims í þessum efnum, og þó að enn standi þar margt til bóta og gjarnan vildum við fá hærri og fullkomnari tryggingar, má ekki horfa fram hjá þeirri geysimiklu þjóðfélagslegu þýðingu, sem almannatryggingarnar hafa og þeir geta bezt gert sér í hugarlund, sem tryggingabótanna njóta. Það var vissulega mikill sannleikur í því, sem merkur þm. sagði, þegar atkvgr. fór fram um frv. til almannatryggingalaga árið 1946. Hann sagði, að frv. til almannatryggingalaga ætti enga hliðstæðu í íslenzkum lögum aðra en sjálfa stjórnarskrána. Með þessari lagasetningu væri verið að búa til nýtt þjóðfélag, sem yrði betra en það, sem þá var búið við, og frv. stefndi að fullkomnara þjóðskipulagi. Þessi þm. var Páll heitinn Hermannsson, en hann var sá eini úr hópi þm. Framsfl. í annarri þingdeildinni, sem greiddi frv. atkvæði. Í hinni deildinni var þá líka aðeins einn þingmaður Framsfl., sem ljá vildi frv. fylgi, en það var Páll Zóphóníasson. Er maklegt, að þessu sé á loft haldið þeim nöfnunum til verðugs hróss.

Núv. ríkisstj. hefur eflt mjög tryggingarnar og hækkað bætur stórkostlega með lögum frá 1960, eins og ég nú hef sagt. Hún hefur haft fullan skilning á því, að þjóðfélaginu ber skylda til að hlúa sem bezt að þeim, sem geta ekki sjálfir séð sér farborða sökum elli eða vanheilsu eða eiga óhægara með það vegna ómegðar. Segja má, að þetta sé ekki hrósvert, því að það sé sjálfsagður hlutur. Á hitt verður ekki heldur komizt hjá að líta, að undanfarnar ríkisstjórnir, einnig vinstri stjórnin, með hv. þm. Hannibal Valdimarsson í sæti félmrh., létu hjá liða að endurbæta tryggingakerfið. Vinstri stjórnin átti svo annríkt við að glíma við verðbólguna, sem hún féll að lokum fyrir, að gamla fólkið og öryrkjarnir gleymdust.

Miðað við fyrri reynslu í þessum efnum, leyfi ég mér mjög að draga í efa, að hv. flm. vantrauststill. og þeir aðrir, sem þá till. styðja, séu líklegri til að láta sér annt um almannatryggingar en núv. ríkisstj. Núv. ríkisstj. hefur sýnt hug sinn í verki. Fyrrv. ríkisstj. hafa einnig haft tækifæri til að sýna hug sinn í verki, en þær létu það tækifæri ónotað. Þær sýndu hug sinn með athafnaleysi. Kynni þetta ekki að vera prófsteinn um almennan áhuga fyrir velferð einstaklinganna í þjóðfélaginu? Í mínum augum er það svo, og meðal annars af þeim ástæðum mun ég ekki verða í hópi þeirra, sem greiða vantrauststill. atkv. — Góða nótt.