26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Háttvirtir áheyrendur. Hv. síðasti ræðumaður, hv. 7. þm. Reykv., Þórarinn Þórarinsson, vék að því í sinni ræðu, að Sigurður Ingimundarson, hv. 1. landsk. þm., hefði sent ríkisstj. bréf 15. febr. í vetur. Ég vil aðeins geta þess sem dæmis um málflutning hv. þm., að Sigurður Ingimundarson var á þeim tíma alls ekki í landinu, heldur staddur á Norðurlandaráðsfundi erlendis og hefur engin afskipti haft af því bréfi.

Þessi hv. ræðumaður spurði: Er ástandið betra nú en fyrir þremur árum? Vill fólkið bera saman það, sem var fyrir þrem árum, og það, sem er nú? En það er nú bara ekki þetta, sem á að bera saman. Það á að bera saman ástandið eins og það hefði orðið, ef ekki hefði orðið stefnubreyting í efnahagsmálunum, og ástandið eins og það er í dag. Hermann Jónasson sagði í árslok 1958, að við værum að steypast fram af hengiflugsbrúninni, og það var vitað, að það var ekki hægt að klífa til baka nema með nokkurri fórn. Og ég fullyrði, að þjóðin hefði á engan hátt getað komizt út úr ógöngunum, sem vinstri stjórnin var búin að koma henni í 1956-1958, nema eftir þeirri leið, sem farin hefur verið.

Hv. 2. landsk. þm., Eðvarð Sigurðsson, vildi gera afstöðu Alþfl. og hv. 9. landsk. þm., Jóns Þorsteinssonar, til kauphækkananna sérstaklega tortryggilega eftir ræðu Jóns Þorsteinssonar hér í gær. Hann taldi, að stefna flokksins í þessum málum væri í ósamræmi við það, sem hún hefði áður verið, og það minntist hv. síðasti ræðumaður, Þórarinn Þórarinsson, á líka, að öðruvísi mundu þeir Jón Baldvinsson og Héðinn Valdimarsson hafa tekið á þessum málum en forusta Alþfl. í dag. En ég skal segja þessum hv. þm., hver er stefna Alþfl. í launamálum, bæði nú og fyrr, og hún er ekki breytt frá því, sem hún hefur áður verið. Stefna Alþfl. í þessum málum er sú að vera á móti óraunhæfum kauphækkunum, sem aftur eru teknar mjög fljótlega af launþegunum í hærri sköttum, í auknum tollum og öðru slíku, eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Það er enginn akkur í því og ekkert unnið við það að fá hærri laun, ef þau eru tekin strax aftur. Ef launin eru spennt hærra en atvinnureksturinn getur borið, án þess að grípa þurfi til sérstakra ráðstafana af hálfu ríkisstj., án þess að bæta þetta af opinberu fé, þá er launahækkunin einskis virði. Það er einkennandi, og það sýnir glöggt, hvert stefnt hefur verið, að á undanförnum 10—12-15 árum hefur kaupmáttur launa ekkert hækkað í þessu landi, heldur þvert á móti lækkað, þrátt fyrir að hækkanirnar hafi orðið miklar í krónum. Það er af því, að þær hafa verið teknar of stórar og óraunhæfar, þannig, að atvinnureksturinn hefur ekki getað borið þær, og þess vegna hefur orðið að klípa þær aftur af launþegunum. Hefðu í staðinn verið teknar kauphækkanir eins og atvinnureksturinn gat borið, hefðu launþegarnir getað haldið þeim og hagur þeirra vissulega orðið betri.

Í umræðunum í kvöld hefur annars fátt komið fram merkilegt, nema ef vera skyldi það, sem hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sagði um inngöngu Íslands í Efnahagsbandalagið, því að meginuppistaðan í ræðu hans var um inngöngu okkar í það bandalag og þær hættur, sem því væru samfara. Það, sem gerzt hefur í þessi máli, er það eitt af hálfu ríkisstj., að hún hefur verið að kynna sér málið, enga ákvörðun tekið, ekkert gert í málinu annað en kynna sér það. Og hún mun ekkert gera í málinu, án þess að það verði áður lagt fyrir hv. þm., hvenær svo sem það kann að koma til afgreiðslu. Þetta getur ekki verið ástæðan til vantrausts, að kynna sér mál, því að vissulega er það þýðingarmikið, hvort við eigum að verða meðlimir í þessu bandalagi, og hins vegar, hvort við getum það.

Þessi hv. þm. vildi líka reyna að læða því inn hjá hv. þm. og öðrum hlustendum, að ósamræmi hefði verið í afstöðu hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar. 1950 og afstöðu hans nú til flutnings gengisskráningarvaldsins til Seðlabankans. En ástæðan til þess, að afstaða viðskmrh. núverandi var 1950 önnur en hún er í dag, er sú einfaldlega, að Seðlabankinn í sinni núverandi mynd var ekki til 1950. Hann var aðeins hluti af viðskiptabanka þá, og þess vegna giltu um hann allt aðrar reglur en um Seðlabankann gilda í dag. Enn fremur var í því gengislækkunarfrv., sem flutt var 1950 af Sjálfstfl. og Framsfl., gert ráð fyrir því, að Seðlabankinn eða sá hluti Landsbankans, sem kallaður var Seðlabanki, hefði það fyrst og frerist til hliðsjónar við gengisskráningu, hver væru laun verkamanna. Slíkt ákvæði er ekki til í núverandi lögum, sem fluttu gengisskráningarvaldið úr höndum Alþ. til Seðlabankans.

Ég skal svo leyfa mér að fara nokkrum orðum um umr. þær, sem hér fóru fram í gærkvöld.

Hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, sagði, að hann teldi lýðræði á Íslandi stofnað í voða með sviknum kosningaloforðum stjórnarflokkanna, og nefndi sem dæmi, að Alþfl. hefði lofað að halda dýrtíðinni í skefjum, en svikið það gersamlega, og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson var mikið inni á því sama. En hvað er nú það sanna í þessu? Jú, undir stjórn Hermanns Jónassonar og verndarvæng hans sjálfs hafði þróazt óðaverðbólga í þessu landi. Vísitala framfærslukostnaðar hafði hækkað um 34 stig á einu ári, á árinu 1958, og ljóst var, að hún mundi hækka um 50 stig á næsta ári til viðbótar, ef ekki yrði að gert. En fyrir aðgerðir stjórnar Alþfl. var þessi óheillaþróun stöðvuð, og vísitala framfærslukostnaðar hækkaði ekki um eitt einasta stig á árinu 1959 og fyrstu mánuði ársins 1960, í stað þess að hún hefði hækkað um 50 vísitölustig á árinu 1959, — sú hækkun lá á borðinu,—hefði ekki verið að gert. Og það sem meira er, í tíð núv. ríkisstj. hækkaði framfærslukostnaðarvísitalan ekki nema um aðeins 4 stig í rúmt eitt og hálft ár þrátt fyrir mikla gengisbreytingu í ársbyrjun 1960, sem ekki var hægt að komast hjá. Hún hækkaði ekki fyrr en ráðstafanir kommúnista og framsóknarmanna komu til skjalanna og kauphækkanir hófust s.l. sumar. Að taka einstaka þætti hækkananna út úr heildarvísitölunni, eins og t.d. ýmsar neyzluvörur, og segja, að þær hafi hækkað um 18%, gefur auðvitað fullkomlega ranga mynd af því, sem gerðist, því að þessum hækkunum var af ríkisstj. mætt með hliðarráðstöfunum, eins og hækkunum bóta almannatrygginganna, skattalækkunum og fleira, sem bættu upp rúml. 2/3 af hækkunum neyzluvaranna. Nei, Alþfl. og ríkisstj. í heild hefur hér engin kosningaloforð svikið, en það eru aðrir, sem hafa komið þeim hækkunum til leiðar, sem orðið hafa svo örlagaríkar síðustu mánuðina.

Hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, sagði, að ríkisstj. hefði lofað að beita sér fyrir því, að atvinnuvegir landsmanna yrðu reknir án styrkja og að skuldasöfnunin við útlönd yrði stöðvuð, en hvort tveggja hefði verið svikið. Það er rétt, að þegar gengisbreytingin var ákveðin í ársbyrjun 1960, var hún við það miðuð, að afkoma útvegsins yrði svipuð án styrkja og uppbóta og hún var áður en gengisbreytingin var gerð. Var þá miðað við sama aflamagn og áður og sama verðlag á afurðunum og áður. Nú skeði það hins vegar, að verðlag á tveimur aðalútflutningsvörum okkar, mjög þýðingarmiklum, lækkaði stórkostlega og aflamagnið, sérstaklega hjá togurunum, minnkaði mjög verulega. Hefur því afkoman, sérstaklega hjá togurunum, versnað frá því, sem gert hafði verið ráð fyrir. Ekki er það efnahagsráðstöfunum ríkisstj. að kenna, heldur af ástæðum, sem ég nú var að nefna, aflaleysinu og verðfallinu. Afli togaranna t.d. var að meðaltali 1958 á hvert skip 5247 tonn. 1959 var hann 4339 tonn, eða nærri þúsund tonnum minni. Og 1960 varð hann 3032 tonn, eða rétt um 68% af því, sem hann var 1958. Það er auðsýnilegt, að slík aflarýrnun hlýtur að hafa afgerandi áhrif á afkomu þessara skipa, sem eru efnahagsaðgerðum ríkisstj. gersamlega óviðkomandi og er út af fyrir sig mikið vandamál, sem vissulega þarf að bæta úr.

Gjaldeyrisstaða bankanna við útlönd var orðin slík um það bil, sem uppbótakerfið var að syngja sitt síðasta vers, að þar hélt við stöðvun. Lausaskuldirnar voru orðnar um 200 millj. kr., og allir lánamöguleikar voru tæmdir. Nú hefur ekki aðeins þessi skuld verið greidd upp, heldur hefur safnazt nokkur gjaldeyrisforði, þó að enn sé hann mikils til of lítill, en miðar þó þar í rétta átt.

En þessi hv. þm., Lúðvík Jósefsson, kunni eitt ráð, sem átti að vera allra meina bót, og það var, að allir vinstri menn í landinu sameinuðust nú undir forustu Alþb. eða nánar tiltekið kommúnista, um að taka upp aftur hina fyrri stefnu óðaverðbólgu, uppbóta og styrkja. Hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, var líka inni á þeirri hugsun í ræðu sinni nú í kvöld. Ég hélt þó, að þjóðin hefði verið búin að fá nóg af slíkri stefnu, sem hafði borið þann raunalega árangur, að allar kauphækkanir, sem orðið höfðu á s.l. 10—15 ára tímabili, höfðu verið gerðar að engu, farið í verðbólguhítina og kaupmáttur launanna ýmist staðið í stað eða lækkað. Það hefur nefnilega alltaf á undanförnum árum verið að því ráði horfið að bæta atvinnuvegunum hækkunina með uppbótagreiðslum og gjaldeyrisfríðindum eða öðrum slíkum dulbúnum gengislækkunum, þegar allt var að komast í þrot, en alltaf of seint.

Hefði till. sáttasemjara um 10% launahækkun, 6% strax og 4% 1. júní n. k., verið samþykkt, mundi ríkisstj. hafa reynt að gera allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að launþegar gætu haldið þessari hækkun án skerðingar sem nokkru næmi, og freista þess, að atvinnuvegirnir gætu undir því risið, þó að þar væri greinilega teflt á mjög tæpt vað, og hefði þá farið á allt annan og betri veg en nú er orðið.

Hv. 2.. landsk, þm., Eðvarð Sigurðsson, taldi í sambandi við afstöðu Alþfl. til þessara kjarabreytinga, sem gerðar voru á s.l. sumri, að verkalýðsfélög þau, sem Alþfl.-menn og að sumu leyti Sjálfstfl.-menn hefðu stjórnað og haft áhrif á, hefðu haft allt aðra skoðun á þessum málum en Alþfl.- forustan, og hann nefndi í því sambandi verkakvennafélagið Framsókn og Múrarafélagið. En ég get sagt þessum hv. þm. það, ef hann man það ekki, sem hann þó sjálfsagt gerir, að bæði þessi félög samþykktu till. sáttasemjara, þegar hún kom fram, og sýndu þar með í verki, að þau vildu heldur una því, sem raunverulegt var, heldur en hinu, sem enga stoð hafði í raunveruleikanum. En þegar svo þessi tillaga sáttasemjara var hækkuð um 100% eða meir, var strax sýnilegt, að atvinnuvegirnir mundu alls ekki geta undir því risið. Þá voru tvær leiðir til: annaðhvort að gera ekki neitt og bíða eftir því, að atvinnureksturinn stöðvaðist að meira eða minna leyti, eða gera hinar nauðsynlegu ráðstafanir strax. Ef fyrri leiðin hefði verið farin, var sýnilegt, að hinn litli gjaldeyrisforði, sem til var, mundi ganga til þurrðar á mjög skömmum tíma, þar sem innflytjendur mundu fljótlega gera sér grein fyrir því, hvað verða vildi og hvert stefndi, og flýta sér að kanpa, meðan genginu yrði ekki breytt, auk þess sem 500—600 millj. kr. hækkun á ári, en það er sú upphæð, sem heildarlaunin í landinu hækkuðu um á s.l. sumri, mundi koma fram í mjög aukinni eftirspurn eftir erlendri vöru. Hér var því ekki um neina hefndarráðstöfun að ræða, heldur aðeins um aðgerð, sem hlaut að koma fyrr eða síðar, en allt mælti með, að gerð yrði strax, ef ekki ætti aftur að sökkva í fen gjaldeyrisskorts og hafta. Uppbótaleiðinni hafði þjóðin fengið nóg af og því ekki um aðra leið að ræða en gengisbreytingu, sem gæfi útflutningsatvinnuvegunum lífvænlega afkomu, eftir því sem við yrði ráðið.

Þegar meta skal verk einnar ríkisstj., þá gildir um það fyrst og síðast, að taka verður tillit til hvors tveggja, þess, sem vel kann að hafa verið gert, alveg eins og ekki síður en til hins, sem miður kann að hafa farið, ef sanngjörn niðurstaða eða dómur á að fást. Engin mannanna verk eru alfullkomin, jafnvel ekki heldur verk framsóknarmanna eða komúnista, og til þess ber einnig að taka tillit.

Núv. ríkisstj. hefur setið að völdum í tæp tvö ár, og á þeim tíma hefur hún komið ýmsu góðu til leiðar, sem vafizt hafði fyrir fyrrv. ríkisstjórnum. Vildi ég í því sambandi nefna hinar gagngerðu og róttæku endurbætur á almannatryggingalögunum, sem nú eru komin í það horf, sem bezt þekkist annars staðar. Lausn landhelgisdeilunnar við Breta var einnig mjög þýðingarmikið mál fyrir okkur, sem ríkisstj. heppnaðist að leiða til lykta á þann hátt, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar fagnar þeirri lausn. Lækkun beinna skatta, tekjuskatts og útsvars, er líka hlutur, sem telja má stórt spor í rétta átt. Loks má minna á lausn efnahagsvandamálanna, sem yfirleitt hafði tekizt vel, þangað til hinar óraunhæfu kauphækkanir voru knúðar fram s.l. sumar af stjórnarandstöðuflokkunum, launþegum í landinu til ógagns, og voru tilræði við efnahagskerfið. Það, sem miður hefur farið í þessu sambandi, má því fyrst og fremst rekja til stjórnarandstöðunnar, og verðskuldar hún því vissulega sjálf það vantraust, sem hún er að bera fram, og það vantraust mun þjóðin vissulega veita henni, þegar þar að kemur í fyllingu tímans. — Góða nótt.