28.02.1962
Sameinað þing: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (3246)

91. mál, afturköllun sjónvarpsleyfis

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Háttvirtu tilheyrendur nær og fjær. Tillaga sú frá Alþýðubandalagsmönnum, sem hér liggur fyrir, er krafa um, að hæstv. ríkisstj. afturkalli að fullu og öllu leyfi varnarliðsins til sjónvarpsstarfsemi. Ég tel óþarflega langt gengið með þeirri kröfu. Ég tel ekki heldur sanngjarnt að banna, að þeir vesalings menn, sem settir eru, vafalaust gegn vilja sínum, í dvöl á Reykjanesgrjótum, fái ekki að stytta sér stundir þar við innilokað sjónvarp okkur að meinalausu, meðan þeir á annað borð hafa leyfi Íslendinga til að dveljast þarna.

Í nóvember í vetur lögðum við, fimm framsóknarmenn, fram á þskj. 161 till. um sjónvarpsmál. Sú till. hefur enn ekki verið tekin til umr., en hún sýnir afstöðu okkar til sjónvarpsmálsins á breiðara sviði, og mun ég því, áður en ég lýk ræðu minni, kynna þá till. En fyrst er að athuga þá furðulegu staðreynd, að ríkisstj. Íslands hefur veitt skilmálalaust samþykki sitt til, að varnarliðið megi fimmfalda kraft sjónvarpsstöðvar sinnar og hafa útsendinguna lausbeizlaða. Þegar stöðin væri orðin svo sterk, er fullyrt af kunnáttumönnum, að nothæft sjónvarp frá henni eigi að geta náð til byggðanna við Faxaflóa og um Suðurland svo vitt og breitt, að á að gizka 6 af hverjum 10 íbúum Íslands geti þar með fengið aðstöðu til þess að njóta þessarar áhrifaríku, erlendu starfsemi.

Þetta er fyrir íslenzku þjóðina stórmál, sem Alþingi er sannarlega skylt að láta til sín taka.

Hér er ekki um það eitt að ræða að leyfa varnarliðinu að hafa sjónvarp fyrir sig, eins og 1954, þegar þáv. ríkisstj. veitti samþykki sitt til sjónvarpsstöðvarinnar, sem varnarliðið hefur nú. Þá voru skilyrði sett, sem áttu að geta tryggt, að nothæft sjónvarp frá stöðinni næði aðeins til dvalarsvæðis varnarliðsins. Frá þeim skilyrðum mun ég nánar greina síðar. Hið nýja leyfi er aftur á móti um hömlulaust sjónvarp, sem getur náð til meira en helmings þjóðarinnar. Menn kenna hæstv. utanrrh. um þessa miklu yfirsjón, en ég tel ótrúlegt, að ríkisstj. öll eigi ekki um þetta sameiginlega sök. Því verður naumast trúað, að mál sem þetta hafi ekki verið rætt í ríkisstj. Auðvitað hefði málið líka átt að leggjast fyrir Alþingi, úr því að ríkisstj. fann sig of ístöðulitla gagnvart hinu erlenda valdi til þess á eigin spýtur að synja um sjónvarpsleyfi eða setja fullnægjandi skilmála um takmörkun sjónarsviðsins, svo að það yrði aðeins varnarliðssvæðið, er sjónvarpið næði til. Þingbundin stjórn tekur sér allt of mikið vald með því að gefa leyfi sem þetta.

Einhver kann að spyrja: Átti þá ríkisstj. s.l. vor að kalla aukaþing saman til að fjalla um þetta mál? Svarið liggur í augum uppi. Málinu lá alls ekki á. Þetta er ómótmælanlegt, enda upplýsti yfirmaður varnarliðsins núna fyrir áramótin, eftir því sem íslenzka útvarpið hermdi, að ekki væri þá farið að vinna að uppsetningu hinnar nýju sjónvarpsstöðvar og ekkert efni til hennar komið til landsins. Menn, sem kunnugir þykjast vera þessum málum, segja jafnvel, að varnarliðið hefði enn enga fjárveitingu fengið til þess að setja stöðina upp. Ríkisstj. virðist hafa afgreitt þetta mál með óvenjulega miklum hraða, miðað við það, sem íslenzkir þegnar eiga að venjast. Saga hraðans er á þessa leið:

Þriðjudaginn 11. apríl fyrra ár ritar póst- og símamálastjóri utanrrh. bréf og segir, að yfirmaður varnarliðsins hafi nýlega snúið sér til póst- og símamálastjórnarinnar varðandi sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli og farið þess á leit, að auka megi útgeislaafl úr 50 wöttum upp í 250 wött. Segist póst- og símamálastjóri hafa rætt þetta munnlega við útvarpsstjóra, sem ekkert hafi haft við orkubreytinguna að athuga. Spyr póst- og símamálastjóri í bréfinu, hvort ráðh. telji nokkra annmarka á því, að póst- og símamálastjórnin samþykki breytinguna. Svo líður bara einn dagur, miðvikudagurinn 12. apríl, hefur sennilega gengið í póstferðina með bréfið, en strax fimmtudaginn 13. apríl ritar ráðh. bréf til póst- og símamálastjóra og segi hikstalaust, að utanrrn. geti fallizt á breytinguna á sjónvarpsstöðinni. Síðan líður föstudagur, svo laugardagur, enda skammvinnur skrifstofudagur, enn fremur sunnudagur, eins og sjálfsagt er, en strax á mánudag 17. apríl ritar póst og símamálastjóri yfirmanni varnarliðsins og tilkynnir honum samþykkið skilmálalaust eins og sjálfsagðan hlut.

Segi menn svo, að íslenzka skriffinnskan sé alltaf seinfær og silaleg eða að milliríkjamál taki alltaf langan tíma.

Þessi gangur málsins sýnir athyglisverða mynd af núverandi stjórnarfari gagnvart erlendum aðilum. Sú mynd vekur ekki traust. Nú verður hins vegar að gera það, sem unnt er, til þess að Bandaríkjamenn noti ekki óðagotsleyfið á þann hátt, sem skaðar íslenzku þjóðina. Óþarft er í þessu sambandi að deila um það, hvort sjónvarp sé æskilegt eða ekki. Kjarni málsins er, að erlend þjóð hefur fengið leyfi hjá íslenzku ríkisstj. til að reka sjónvarp fyrir hermenn sína, er dveljast á Íslandi, og meiri hl. Íslendinga á að njóta þess sjónvarps með hermönnunum. Sjónvarp er með kostum sínum og göllum eitt allra áhrifaríkasta uppeldis- og áróðurstæki, sem til er. Hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, sagði í vetur í Alþýðublaðinu: „Sjónvarpið er einn bezti prédikunarstóll nútímans.“

Þetta er rétt hjá Benedikt Gröndal. Svona áhrifaríkt tæki er sjónvarpið. Hins vegar virtist hann vilja í sömu andrá og vill sennilega enn réttlæta það, að erlend þjóð fái að reisa sinn prédikunarstól á Íslandi og prédika yfir Íslendingum sem sinnar eigin þjóðar mönnum. Það sannast hér á þessum hv. þm., að ekki er nóg að setja dæmið rétt upp, ef reiknað er skakkt út úr því.

Mjög er það eðlilegt, að varnarliðsmenn vilji fá að hafa sjónvarp, meðan þeir dveljast hér, eins og þeir njóta í heimalandi sínu. Þeim þykir daufleg og dægralöng vistin á Reykjanesskaga. Skiljanlegt er, að Bandaríkjastjórn vilji láta þá hafa sjónvarp, til að stytta þeim stundir, og ekki er ótrúlegt, að skemmti- og óramyndir séu þeim valdar meira en í meðallagi til að drepa þeim leiða úr geði. En jafneðlilegt og þetta er einnig hitt, að Alþingi vilji ekki láta mata Íslendinga á slíku sjónvarpi. Kemur þar til metnaður fyrir hönd þjóðarinnar, sjálfstæðisvilji og skyldug menningarvarzla.

Blöðin íslenzku hafa í vetur flutt frásagnir manna, sem reynslu hafa af sjónvarpi, og segja frá því, hvernig börn og unglingar erlendis hópast að sjónvarpi og sitja þar öllum stundum. Geta má nærri, að íslenzk æska mundi iðka þær setur, hlusta sig, horfa sig og lifa sig út úr þjóðfélagi sínu inn í þjóðfélag prédikunarstólsins og bíða tjón á máli sínu og menningarerfðum.

Enginn skilji orð mín svo, að ég vilji innilokun Íslendinga, svo að þeir verði fyrir sem minnstum áhrifum utan frá, — nei, því fer fjarri. Ég vil, að þeir viðri sig í vindum allra höfuðátta, en gæti sín fyrir því að fjúka. Ég vil, að þeir laugi sig í straumum heimsmenningar, en drekki sér þó ekki í þeim, haldi áfram að vernda tungu sína og sérþjóðlega menningu sína, haldi áfram að vera Íslendingar. Þetta gera þeir ekki, ef þeir láta eina, — ég segi: eina erlenda þjóð yfirskyggja sig með sjónvarpi og talvarpi, sem auðvitað fylgir, og fela henni þar með uppeldi barna sinna á svo áhrifaríkan hátt.

Þegar við hugleiðum hættuna, sem tungan yrði sett í, þá er gott til glöggvunar á því, hve mikið er þar í húfi, að minnast orða Einars Benediktssonar:

„Tunga skapar svipinn sálar, sefa dýpi, munans hátt, dregur hjartað heim í átt:

Ísland, sem ekki er lengur sérstætt land eins og áður, ekki lengur afskekkt land eins og það áður var, þarf að forða börnum sínum frá því, sem dregur hjörtu þeirra að heiman, en það mundi hið erlenda sjónvarp gera.

Gott er líka í þessu sambandi að minnast hinna sígildu orða Stephans G. Stephanssonar:

„Greiðasta skeið til að skrílmenna þjóð,

er skemmdir á tungunni að vinna.“

Hvað mundu Bandaríkjamenn segja um að eftirláta prédikunarstólinn góða hjá sér, sjónvarpið sitt, einhverri annarri þjóð? Veit nokkur þá þjóð, sem er sjálfri sér ráðandi, en lýtur svo lágt að búa við sjónvarp einhverrar erlendrar þjóðar, sem er með sjónvarpi því að stytta hermönnum sínum stundir í dauflegri útivist þeirra? Við Íslendingar erum félitlir og fáir, en svo snauðir erum við ekki og smáir, sem betur fer, að við þurfum að lúta svona lágt. Svona lágt þarf engin frjáls þjóð að lúta, nema hún hugsi sjálf ekki hærra. Hver vill halda því fram, að íslenzka þjóðin sem þjóð hugsi ekki hærra en þetta? Glöggur og — ég leyfi mér að segja — gleðilegur vottur þess, að Íslendingar gera sér almennt grein fyrir þeim háska, sem hér er á ferðinni, er, hve margir málsmetandi menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafa opinberlega látið í ljós ákveðin og vel rökstudd mótmæli gegn sjónvarpi frá varnarliðsstöðinni. Einnig hafa félög námsmanna mótmælt og sýnt með því sér til heiðurs, að þrátt fyrir sína sjálfsögðu nýjungagirni er æskan sjálf þarna á verði. Frá erlendum aðilum hafa, sem vonlegt er, heyrzt raddir undrunar yfir því, að íslendingar séu að leiða yfir sig erlent varnarliðssjónvarp.

Áðurnefnd þáltill. okkar framsóknarmanna um þetta mál er í þrem liðum. Fyrsti liðurinn er áskorun á ríkisstj. að gera nú þegar fullnægjandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir þá stækkun sjónvarpsins, sem fyrirhuguð hefur verið frá Keflavíkurstöð varnarliðsins. Við teljum eðlilegt, að varnarliðið; meðan það dvelst hér á annað borð, fái að hafa sjónvarp fyrir sig, þó að því tilskildu, að sjónvarpssviðið nái ekki, svo að nothæft sé, út fyrir dvalarsvæði varnarliðsins, þ.e. hið svonefnda samningssvæði þess. Vitað er, að tæknilega er vel framkvæmanlegt að inniloka sjónvarpið þannig, að það nái alls ekki út fyrir dvalarsvæðið. Slík þráðbundin sjónvörp tíðkast meira og meira. Þau eru að vísu dýrari að sögn, en við getum ekki tekið tillit til verðmunar í þessu máli. Það, sem í húfi er hjá okkur, er miklu verðmætara en dollurum taki.

Það getur ekki talizt um of harkalegt, sem í tillögunni felst, að Alþingi leggi hæstv. ríkisstj. á herðar, að hún reyni nú þegar að gera fullnægjandi ráðstafanir til að bæta úr lítt skiljanlegri fljótfærni sinni í apríl í fyrra, þegar hún veitti fyrirvaralaust og með hraði leyfi til stækkunar sjónvarpsstöðvarinnar. Það er ótrúlegt, að þetta sé hæstv. ríkisstj. ofurefli, þó að henni kunni að þykja leiðinlegt að fara þannig gegnum sjálfa sig. En Alþingi getur vitanlega ekki tekið tillit til þess, heldur hins, hvað gera þarf. Málið ætti að vera ríkisstj. auðvelt til úrbótar. Því verður ekki trúað, að Bandaríkjastjórn taki því ekki vel að gefa eftir hið fengna stækkunarleyfi, þegar hún veit afstöðu Alþingis. Það kemur ekki til mála að gera ráð fyrir, að Bandaríkin telji viðeigandi að láta smáþjóðina gjalda þess, að ístöðulítilli stjórn landsins varð það á að veita margnefnt leyfi að of lítið hugsuðu máli. Það væri of smálegt af stórveldi eftir málsástæðum.

Annar liður tillögu okkar framsóknarmanna er að skora á ríkisstj. að ganga ríkt eftir því, að af hálfu varnarliðsins sé fullnægt þeim skilyrðum, sem sett voru árið 1954 fyrir sjónvarpsleyfi þess. Þessi liður nær fyrst og fremst til ástandsins á liðandi stund og sjónvarpsrekstrarins í dag. Leyfið til sjónvarpsrekstrarins, sem veitt var með samningi í nóvember 1954, var í té látið með eftirfarandi orðrétt uppteknum skilyrðum meðal annarra:

1) Að nothæfri sjónvarpssendingu verði ekki náð í neinni íslenzkri byggð. Þetta skal prófa af fulltrúum ríkisstj. með góðum sjónvarpstækjum, sem varnarliðið lætur í té. Gæði sjónvarpsins skulu dæmd af íslenzkum fulltrúum.

2) Ef hægt er að ná nothæfri sjónvarpssendingu í íslenzkri byggð og varnarliðið getur ómögulega eytt slíku nothæfu sjónvarpi, skal eigi starfrækja stöðina.

3) Allur kostnaður greiðist af varnarliðinu. Þessir skilmálar voru settir við leyfisveitinguna 1954. Í þeim gætti fullrar varfærni af hendi þáv. stjórnar. Hitt er annað mál, að upp á síðkastið hefur ekki verið gengið eftir því, að við samningana væri staðið. Það sleifarlag má ekki eiga sér stað. Varnarliðið á að standa við skuldbindingar sínar. Íslenzk stjórnarvöld eiga að ganga eftir því. Alþingi hlýtur að gera kröfu til þess, að þau geri það.

Þriðji og síðasti liður tillögu okkar er um íslenzkt sjónvarp. Um leið og því er slegið föstu að leyfa ekki varnarliðinu að hafa hér laust sjónvarp, hlýtur sú spurning að krefjast svars, hvort og hvenær Íslendingar sjálfir vilji og ætli að koma sér upp eigin sjónvarpi. Menn hafa mismikinn áhuga á sjónvarpi. Sumir telja það meira að segja óæskilegt. Flestir munu þó vita, að sjónvarpið er tæki, sem er gott og slæmt eftir því, hvernig á er haldið. Og augljóst er, að sjónvarp hlýtur að ryðja sér til rúms hjá okkur sem öðrum þjóðum fyrr eða seinna. Því er spáð eftir sterkum líkum, að innan skamms muni þær þjóðir, sem hafa ráð á því, endurvarpa úr háloftunum frá gervihnöttum tali sínu og myndum um öll lönd og álfur. Mundi nokkur þjóðrækinn maður telja, þegar svo væri komið, að þjóð hans væri ekki nauðsynlegt að eiga sitt sjónvarp heima fyrir, sinn prédikunarstól fyrir sig, sína tungu, sína menningu, sín lífsviðhorf. Þriðji liður tillögunnar er áskorun til ríkisstj., þannig orðuð að láta ríkisútvarpið hraða ýtarlegri athugun á möguleikum þess, að íslenzka ríkið komi upp vönduðu sjónvarpi, er nái til allra landshluta og sé rekið sem þjóðlegt menningartæki. Áætlanir um stofn- og rekstrarkostnað slíks sjónvarps, svo og álit sitt og tillögur um þetta mál, leggi stjórn ríkisútvarpsins sem fyrst fyrir Alþingi. Þetta er málefni, sem ekki má draga að athuga og athuga sem allra ýtarlegast. Og vitanlega á að athuga möguleika á því, að allir landshlutar sitji þar við sama borð, ef mögulegt er. Það á að vera markmiðið í öllum efnum, að allir landsmenn eigi þess sama kost. Hér er ekki verið að tala um að flýta sér úr hófi fram. Hér er verið að tala um að taka stórt og vandasamt mál svo skynsamlegum tökum sem unnt er og með þeirri fyrirhyggju, sem hægt er við að hafa.

Þjóðin getur ekki vikið öllum sjónvarpsrekstri frá sér með skírskotun til þess, að hann sé viðsjáll, vandasamur og kostnaðarsamur. Þjóðin getur sér að skaðlausu væntanlega beðið um stund, óvíst þó hve lengi, með að taka upp sjónvarpsrekstur. En hún má samt ekki draga stundu lengur að gera sér glögga grein fyrir því, hvernig hún ætlar að rækja skyldurnar við sjálfa sig í þessum efnum.

Hið fyrsta, sem að kallar á þessu augabragði, er þó vitanlega það, sem till. okkar framsóknarmanna setur fremst, að koma í veg fyrir, að varnarliðssjónvarpið á Reykjanesskaganum verði gert að sjónvarpi fyrir meiri hl. landsmanna. Slík óhæfa má aldrei ske. Ef Alþingi tekur nú í stjórnartaumana, eins og því er skylt, samþykkir eðlileg mótmæli og gerir kröfur um algera innilokun sjónvarpsstarfseminnar hjá varnarliðinu, eins og við framsóknarmenn höfum lagt til, þá eru fyllstu líkur til, að þær kröfur verði til greina teknar þrátt fyrir útgefna leyfið, af því að við þjóð er að eiga, sem skráð hefur á skjöld sinn, að hún virði sjálfstæðismál smáþjóða og rétt þeirra til að lifa sínu lífi.