28.02.1962
Sameinað þing: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í D-deild Alþingistíðinda. (3249)

91. mál, afturköllun sjónvarpsleyfis

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Framsóknarmenn eiga mjög í vök að verjast í þessum umr. Þeir eru nú í stjórnarandstöðu að ráðast á sjónvarpsstöð, sem þeir sjálfir leyfðu, þegar þeir voru í stjórn. Þó átti ég ekki von á, að þeir mundu seilast eins langt til að reyna að bjarga sér út úr þessari klípu og Karl Kristjánsson gerði áðan. Karl las upp það, sem hann sagði að væru skilyrði, sem framsóknarmenn hefðu sett fyrir veitingu sjónvarpsleyfisins á sínum tíma. Karl las upp rangt skjal. Hann tók bréf, sem gekk á milli í umr. um þetta mál, segir, að það hafi verið skilyrðin. En það kom í ljós, að þessar hugmyndir voru óframkvæmanlegar, og það var ekki bréfið, sem Karl las, frá 26. nóv. 1954, sem veitti leyfið heldur annað bréf, sem sent var 7. marz 1955. Í því bréfi eru aðeins tvö skilyrði sett fyrir veitingu leyfisins, fyrsta, að afl stöðvarinnar sé ekki yfir 50 wött, og í öðru lagi, að stærsti sjónvarpsgeisli sé ekki meira en 345 gráður. Þetta var leyfið, sem gilti. En ég undrast það, ef Karl Kristjánsson hefur gert það vísvitandi að flytja slíka fölsun eins og hann gerði.

Við hina kommúnistísku vélbyssu, sem var að skjóta á okkur hér áðan, vil ég aðeins segja eitt varðandi íslenzka menntmrh. Kommúnistar hafa einu sinni átt menntmrh. í þessu landi, Brynjólf Bjarnason. Hann barðist fyrir því hér í sölum Alþingis, að Íslendingar segðu öðrum þjóðum stríð á hendur. Það var eitt af hans stærstu hugsjónamálum fyrir íslenzka æsku í lok síðustu heimsstyrjaldar og í framtíðinni.

Síðan við Íslendingar urðum frjáls og sjálfstæð þjóð, höfum við þurft að glíma við eina þraut, sem er þýðingarmeiri en allar aðrar. Hún er þessi: Hvernig getum við tryggt frelsi og öryggi okkar sjálfra vopnlausir, meðan allar aðrar þjóðir bera vopn og beita þeim meira eða minna til að fá vilja sínum framgengt?

Áður fyrr vorum við hlutlausir. Það var þó ekki hlutleysið, heldur fjarlægðin til næstu landa, sem bjargaði okkur. Nú er sú fjarlægð úr sögunni, en hlutleysi hvorki raunhæf né hugsanleg stefna lengur. Eins og aðstæður eru í heiminum í dag, eiga Íslendingar tveggja kosta völ: að annast sjálfir varnir landsins eða fá aðra til þess.

Við höfum valið þá stefnu að gerast aðilar að varnarsamtökum nágranna okkar við Atlantshaf og taka við varnarliði á þeirra vegum. Þessa stefnu mörkuðu þrír af fjórum flokkum Alþingis, og hún hefur verið staðfest í fjórum alþingiskosningum.

Þegar rætt er um vandamál í sambúð okkar við varnarliðið, verðum við að hafa þessa stærri mynd í huga. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar hefur stutt þá ákvörðun að hafa hér varnarlið, meðan heimsfriður hangir í bláþræði, eins og nú er. Meðan varnarliðið er hér að okkar ósk, verðum við að standa við þá ákvörðun okkar og gera liðinu kleift að gegna hlutverki sínu í vandræðalausri sambúð við þjóðina. En hvernig hefur sambúð Íslendinga og varnarliðsins verið, þegar á heildina er litið? Varnarliðið er að miklu leyti lokað inni á Keflavíkurflugvelli og háð svo ströngum reglum, að þess eru engin dæmi í öðrum löndum nema um fangabúðir. Þetta kerfi ber þann árangur fyrir okkur Íslendinga, að við vitum tiltölulega mjög lítið af varnarliðinu. Hins vegar segja kunnugir embættismenn svo frá, að innilokunin hafi þau áhrif á varnarliðsmenn, að þeir uni sér ekki vel, fjölmargir þeirra fái andúð á Íslandi og Íslendingum og fari með það hugarfar af landi brott. Þegar þetta ástand er haft í huga, hljóta hugsandi Íslendingar að fallast á, að við getum ekki með nokkurri sanngirni bannað þessum mönnum að drepa tímann með því að horfa á sitt eigið sjónvarp. Fyrsti ræðumaður hér í kvöld, Alfreð Gíslason, er taugalæknir, og hann hlýtur að skilja öðrum mönnum betur nauðsyn dægrastyttingar fyrir varnarliðsmenn við þessar aðstæður.

Bent er á, að sjónvarp á erlendu máli sé hættulegt fyrir tungu og þjóðerni Íslendinga. Segja mætti einnig, að erlent útvarp, sem heyrist hingað, að kvikmyndahúsin um allt land, að erlend blöð, bækur og hljómplötur, sem streyma til landsins, sé allt að vissu leyti hættulegt. Ég skal fúslega viðurkenna, að í öllu þessu felst nokkur hætta. En við megum ekki mikla hana fyrir okkur um of. Við skulum ekki gleyma þeirri sögulegu staðreynd, að íslenzk tunga og menning hafa blómgazt mest og bezt, þegar samgöngur við önnur lönd hafa verið greiðastar, en komizt næst útrýmingu í innilokun, þröngsýni og einangrun. Við getum aldrei varið menningu okkar með gaddavírsgirðingum, boði eða banni. Ef við erum sífellt hræddir við umheiminn og áhrif hans, erum ávallt að fárast af minnimáttarkennd yfir einu og öðru, þá erum við í hættu. Menningu okkar getum við varðveitt, ef við höfum heilbrigða trú á sjálfum okkur og komum fram eins og sjálfstætt, óhrætt fólk. Okkur ber að styrkja kjarnann í uppeldisstarfi og skólum, listum og vísindum og hvers konar íslenzku menningarstarfi.

Fyrir 10 árum héldu spámenn bölsýninnar í íslenzkum menningarmálum því fram, að betra mundi að drepa hálfa þjóðina í stríði en hafa hér erlent varnarlið, það mundi íslenzk menning aldrei þola. En hvað hefur reynsla í heilan áratug sýnt? Í fyrra kom hingað til lands frægur norskur menningargagnrýnandi. Hann lét í ljós undrun yfir því, hve lítið honum fannst bera á beinum amerískum menningaráhrifum hér á Íslandi. Þegar hann kom heim til Oslóar, hóf hann sókn í blaði sínu til þess að finna norsk orð í staðinn fyrir ensk, sem voru að festast þar í máli. En hann benti á Íslendinga sem fyrirmyndir í þessum efnum.

Höfuðatriði þessa máls er, að við munum ekki gera menningu okkar gagn með einangrun. Við skulum vissulega halda vöku okkar og styrkja þann þjóðarkjarna, sem kann að velja og hafna.

Við skulum hugsa betur um æskuna og uppeldi hennar, en ekki láta okkur til hugar koma, að hún muni sætta sig við boð eða bönn. Einu sinni var hávaði mikill vegna útvarpsstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Nú heyrist lítið á hana minnzt, vegna þess að okkar eigið útvarp sér fyrir léttri og þungri tónlist allan daginn. Í dag er þrætueplið sjónvarp þar syðra. Við getum bannað það, en eftir fá ár kemur hingað til lands alþjóðlegt sjónvarp frá Bandaríkjamönnum og Rússum endursent frá gervihnöttum. Hvernig ætla menn að banna það hér uppi á Íslandi? Eigum við þá að setja upp truflunarstöðvar til að fyrirbyggja, að geimsjónvarpið nái til okkar?

Enda þótt ógerlegt sé að banna varnarliðsmönnum sem eru að mestu lokaðir inni á Miðnesheiði, að hafa sitt eigið sjónvarp til dægrastyttingar, þá er engu að síður óviðunandi, að í landinu sé aðeins sjónvarp á erlendu máli. En þann vanda getum við ekki og eigum ekki að leysa með banni. Lausn málsins er á öðru sviði, að við komum upp sem allra fyrst okkar eigin íslenzka sjónvarpi. Þau undur hafa gerzt, síðan deilur um Keflavíkursjónvarpið hófust, að allflestir menn og flokkar á Alþingi virðast nú fylgja því, að komið verði upp íslenzku sjónvarpi sem fyrst. Öðruvísi mér áður brá. Fyrir fimm árum var til umr. hér á þingi tillaga um, að tekjur viðtækjaeinkasölunnar skyldu renna til þjóðleikhússins og sinfóníuhljómsveitarinnar. Þá flutti ég litla brtt. þess efnis, að tekjur af innflutningi sjónvarpstækja skyldu þó renna til undirbúnings íslenzks sjónvarps. Þessi till. var kolfelld hér í Nd. Mig minnir, að 3 eða 4 þm. hafi staðið með mér, allir hinir á móti, og þá ekki sízt framsóknarmenn og kommúnistar, sem nú þykjast ákafastir fylgismenn sjónvarps. Ef till. hefði verið samþ. 1957, ættum við nú þegar í sjóði 1–2 millj. kr. til að undirbúa sjónvarpið okkar. En eftir atkvgr. komu ýmsir þm. og létu í ljós andstöðu og vantrú á þeirri fásinnu að koma upp sjónvarpi á Íslandi.

En látum þetta kyrrt liggja. Hitt er meira um vert, að nú virðist risinn almennur áhugi meðal valdamanna á að hrinda þessu máli í framkvæmd. Er vonandi, að sá áhugi reynist vera meira en áróðursbóla í sambandi við Keflavíkurmál og þessir menn vilji gera það átak, sem þarf til að koma íslenzku sjónvarpi á fót.

Fyrir fjórum árum eða svo úrskurðaði menntamálaráðherra, Gylfi Þ. Gíslason, að sjónvarp skyldi teljast útvarp og gilda því lög um útvarp jöfnum höndum um sjónvarp og hljóðvarp. Þessi skilgreining er hin sama og gerð hefur verið í öðrum löndum, en þetta þýðir, að sjónvarp er í verkahring ríkisútvarpsins samkv. lögum og mun vaxa upp sem deild úr því, nema Alþingi ákveði annað. Þess vegna hefur útvarpið látið gera undirbúningsrannsóknir á sjónvarpsrekstri hér á landi og lagt þær ásamt drögum að fjárhagsáætlun fimm fyrstu árin fyrir ríkisstj. Útvarpið er þátttakandi í útvarpsbandalagi Evrópu, en hluti þess er sjónvarpskerfið Eurovision. Yfirverkfræðingur þessara samtaka, Belgíumaðurinn Hansen, sem hefur aðsetur í Brüssel, hefur komið hingað til lands til að kynna sér aðstæður til sjónvarps og gera byrjunartillögur um það. Á skýrslu hans byggist ýmislegt það, sem ég nú segi um væntanlegt sjónvarp á Íslandi.

Hann telur eðlilegt, að við Íslendingar byrjum með 5000 watta sjónvarpsstöð í Reykjavik, takið eftir, 5000 watta. Hér er verið að rífast um 50 watta stöð á Keflavíkurflugvelli. Eitt hundrað sinnum sterkari verður fyrsta stöðin okkar að vera. Á þessu sjá menn stærðarhlutföllin og hversu litlar þær stöðvar raunverulega eru og eftir því lélegar, sem við erum að deila um.

Stofnkostnaður við stöðina sjálfa hefur verið áætlaður 11—12 millj. kr. Útvarpið er nú að fá nýja útvarpssendistöð á Vatnsenda, og verður hún svo miklu fyrirferðarminni en gamla stöðin, að þar fæst nægilegt húsrými fyrir sjónvarpssendi. Þá er talið, að nota megi loftnetsstengur útvarpsins fyrir sjónvarpið, og sparar það stórfé. Til viðbótar þyrfti sjónvarpssali í bænum, 150–200 fermetra. Ekki er rétt að byggja fyrir sjónvarp, fyrr en nægileg reynsla er fengin af húsnæðisþörf þess eftir 5—10 ár.

Ætlunin er, að fyrstu 5–10 árin verði sjónvarpsdagskrá okkar ekki nema 2–21/2 st. á dag, enda er það ærið nóg, ef vel tekst efnisvalið. Hafa stærri þjóðir, eins og Svíar, Danir og Norðmenn, talið það fullnægjandi. Efni sjónvarpsins mun fara eftir dugnaði og hugkvæmni okkar sjálfra. Fréttir verða þar veigamiklar og fréttamyndir eða sjónvarpssegulbönd eiga að berast víðs vegar úr heiminum. Hvers konar samtalsþættir fá nýtt líf, þegar þeim er sjónvarpað. Það verða margs konar fræðsluþættir með stokkum og steinum, kyrrmyndum og kvikmyndum til skýringar. Það verður tiltölulega auðvelt að setja íslenzkan texta inn á fræðslukvikmyndir og gefa útdrætti úr efni stærri kvikmynda, sem þó yfirleitt munu verða gamlar, því að kvikmyndahúsin fá að sitja ein að nýjum myndum. Veðurfregnir fá nýtt gildi, er við sjáum veðurkortin og fáum þau útskýrð. Barnatímar eru heill heimur, þar sem með litlum tilkostnaði má gera margt til skemmtunar og fróðleiks í sjónvarpi. Sumar íþróttir njóta sín ágætlega í sjónvarpi, danssýningar gera það, og öðru hverju mundum við hafa ráð á heilum leiksýningum.

Þannig mætti lengi tala áfram um dagskrána. Sjónvarpið er aðeins tækni, sem við sjálf verðum að blása í lífi og móta í hendi okkar. Ég skil ekki þá bölsýnismenn, sem telja það vera óalandi og óferjandi, þótt sýnilega séu þeir á hverju strái hér á Íslandi. Við megum ekki búast við stórkostlegum skrautsýningum eða umfangsmiklum leikritum á hverju kvöldi, eins og tíðkast með stórþjóðum. Við munum ekki heldur setja auglýsingar innan um efnið, en hafa þær, eins og auglýsingar ríkisútvarpsins nú eru, á einum stað.

Enda þótt rétt sé að vera bjartsýnn um öflun sjónvarpsefnis og vantreysta ekki hugkvæmni og dugnaði þjóðarinnar, verður kostnaður við dagskrána óhjákvæmilega mikill. Hann er sá liður, sem veldur mestu um, að sjónvarpið mun í fyrstu hafa um 10 millj. kr. útgjöld, en eftir 5 ár eða svo verða komið um eða yfir 15 millj. á ári.

Hvernig getum við tryggt sjónvarpinu tekjur til að standa undir þessum gjöldum? Sjónvarpsnotendur munu að sjálfsögðu greiða iðgjöld, eins og fyrir útvarp. Með núv. verðlagi mætti reikna með 500—700 kr. á ári eða innan við 1 kr. fyrir hverja klukkustund sjónvarpsefnis.

Reiknað er með, að sjónvarpsnotendur verði eftir 5 ár orðnir 12–15 þús., og er það varlega áætlað samkv. reynslu annarra þjóða. Auglýsingatekjur verða án efa nokkrar í sjónvarpi, eins og þær eru í útvarpinu. Má búast við, að auglýsingar verði skuggamyndir eða örstuttar kvikmyndir fluttar í einum samfelldum tíma. Þessu til viðbótar er óhjákvæmilegt, að til sjónvarpsins renni a.m.k. fyrstu árin allmikið af þeim gjöldum, sem hið opinbera tekur af innfluttum sjónvarpstækjum. Er það sama leið, sem notuð var fyrir 30 árum til að koma útvarpi af stað, og mun vonandi ekki verða deilt um réttmæti þess. Þegar þessir þrír tekjuliðir koma saman, gera áætlanir ráð fyrir, að sjónvarp þurfi ekki frekari stuðnings við og geti vaxið upp sjálft á sama hátt og útvarpið hefur gert. Allmikill gjaldeyriskostnaður verður við að kaupa sjónvarpstæki til landsins. Hefur verið áætlað, að þetta muni á fyrstu 5 árum sjónvarpsins nema um 65 millj. kr., eða 12—13 millj. á ári að jafnaði. Þetta eru háar tölur, en dreifast á mörg ár og munu ekki verða teljandi liður í gjaldeyrisnotkun okkar, sem nemur nú um 3500 millj, á ári.

Herra forseti. Ég hef nú lagt spilin á borðið og skýrt frá höfuðatriðum varðandi kostnað við stofnun sjónvarps á Íslandi. Ég hef nefnt háar tölur, og verður þá ljóst, hvers vegna sjónvarpið er ekki nú þegar komið. Ríkisútvarpið hefur ekki viljað flana út í neitt. Hins vegar vil ég biðja hlustendur að láta ekki tölurnar vaxa sér í augum. Það eru allar tölur háar nú á dögum, og við ráðum vel við sjónvarp, ef farið er hóflega af stað og stofnunin látin safna kröftum á nokkrum árum.

Stofnkostnaður við sjónvarpið er hlutfallslega ekki eins mikill og stofnkostnaður útvarpsins var 1930. Vænti ég, að forráðamenn þjóðarinnar í dag telji sig ekki minni menn til stórræða en Jónas og Tryggvi voru þá. Rekstur sjónvarpsins mun í byrjun kosta lítið meira en rekstur Tímans, og er hann þó aðeins eitt af fimm dagblöðum okkar.

Sjónvarpsmálið liggur nú fyrir ríkisstj., og vil ég vænta þess, að hún hafi stórhug og myndarskap til að gera það að veruleika. Það er farsælt að byrja snemma og hóflega, þótt við séum nú þegar orðnir eftirbátar annarra í þessu efni.

Sjónvarpið er ný tækni, sem er notuð á ótrúlega mörgum sviðum. Það er ekki aðeins tæki til fræðslu, upplýsingar og skemmtunar á heimilum. Börnin okkar munu upplifa, að sjónvarpsmynd verði á hverjum síma, svo að viðtalendur sjái hvor annan. Þau munu vinna með sjónvarpstækni í frystihúsum, niðursuðuverksmiðjum og öðrum iðjuverum næstu framtíðar, þar sem framleiðslan er að mestu sjálfvirk, en sjónvarpsaugað fylgist með henni. Nemendur munu læra læknisfræði með því að sjá í sjónvarpi hverja fingrahreyfingu skurðlæknis. Sjómenn og vísindamenn munu skoða undirdjúp fiska og botn hafsins með sjónvarpi. Ekkert af þessu eru draumórar, þetta er allt nú þegar til í einhverri mynd.

Og þá er ónefnd veigamesta þýðing sjónvarpsins, sem er á sviði skólamála. Góðir kennarar geta gert kraftaverk með sjónvarp sem hjálpartæki og sýnt nemendum fjölda atriða, sem ógerningur er að framkvæma í hverri kennslustofu. Hvert einasta land, sem komið hefur upp sjónvarpi, hefur samtímis byrjað að hagnýta það fyrir skólana. Ég skal nefna sem dæmi, að í gærmorgun var Niels Bohr, hinn frægi vísindamaður, fyrir framan skólasjónvarpið í Danmörku, en gagnfræðaskólanemendur um allt landið hlustuðu á þennan aldna vísindamann útskýra kjarnorkuna.

Hér á Íslandi eru framsýnir menn, sem hugsa til þessa nýja kennslutækis. Í tveim nýbyggðum skólum í Reykjavík eru þegar fyrir hendi allar nauðsynlegar innanhúsleiðslur til að flytja sjónvarp í hverja kennslustofu.

Það eru líka ýmsir gallar á sjónvarpinu. Við skulum ekki gleyma því. Í fyrstu er setið við tækið í myrkri tímum saman, og það hefur áhrif á annað félagslíf. En hér var setið fast við útvarpið, meðan það var nýtt. Þetta fer af, áður en langt líður, og fólk venst á að velja þá þætti, sem það hefur áhuga á, en loka fyrir aðra. Sagt er, að sjónvarpið dragi úr lestri blaða og bóka, en það hefur ekki reynzt svo í öðrum löndum. Þvert á móti hafa sjónvarpsþættir um bækur, höfunda og efni þeirra stóraukið sölu viðkomandi bóka. Í einu landi var bókmenntasaga kennd í sjónvarpi klukkan sjö á morgnana, en samt mættu 1500 manns til að taka próf í skóla að loknu þessu námskeiði. í þessum efnum veldur hver á heldur.

Eins og þróun sjónvarpsmála hefur verið í heiminum hin síðustu ár, er óhugsandi, að Íslendingar tileinki sér ekki þessa tækni. Hana má nota til góðs eða ills, rétt eins og talað orð, eins og prentað mál, eins og hvert annað tæki, sem við höfum eignazt. En við, sem trúum á hið góða í manninum, getum ekki efazt um, að vankantar sjónvarpsins verði þegar fram líða stundir smámunir við hliðina á kostum þess. Ég hef staðfasta trú á, að Íslendingar ráði fjárhagslega við rekstur sjónvarps. Ég er sannfærður um, að sjónvarpið muni reynast máttugt tæki til fræðslu, til aukinnar menningar, og það mun styrkja þann íslenzka arf, sem er líf okkar og tilveruréttur sem sjálfstæðrar þjóðar. Ég vona, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé á sama máli, hvað sem þeir fínu menntamenn í Reykjavik segja, og að ekki standi á Alþingi eða ríkisstj. í þessu frekar en öðrum framfaramálum. — Góða nótt.