28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (3268)

104. mál, sjónvarpsmál

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þeirrar till., sem hér liggur fyrir, hefur í rauninni verið rætt mjög ýtarlega fyrir nokkrum dögum á Alþingi við útvarpsumræður, er fram fóru um aðra till. um sama efni. Ég hefði því í rauninni getað verið mjög stuttorður um þessa till. og látið mér nægja að vísa til þess, sem ég hef fyrir nokkrum dögum sagt um þetta málefni hér á Alþingi. En vegna þess, með hverjum hætti hv. síðasti ræðumaður hagaði máli sínu, tel ég óhjákvæmilegt að koma nokkuð inn á málið í einstökum atriðum.

Það er bersýnilegt af málflutningi þeirra, sem að þessum till. standa, að þeir leggja þunga áherzlu á, að sjónvarpsleyfi hafi upphaflega verið gefið út til varnarliðsins undir árslok 1954 og þá sett fyrir leyfinu þau skilyrði, s,em gilda hafi átt og gilda enn í dag. Þessi málflutningur er með þeim hætti, að ég get ekki neitað mér um að rifja upp með fáum orðum, hvað það var í raun og veru, sem gerðist í samningunum, sem fram fóru haustið 1954 á milli utanrrn. og varnarliðsins, sérstaklega að því er þetta sjónvarp snertir.

Menn minnast þess að sjálfsögðu, að fram að kosningunum 1953, þegar framkvæmd varnarmálanna var í höndum annarra en framsóknarmanna, var af hálfu Framsfl. höfð uppi mjög sterk gagnrýni á framkvæmd málanna. Töldu þeir framsóknarmenn, að flest færi þar illa úr hendi og margrá umbóta væri þörf. Þegar þeir sjálfir tóku við framkvæmd þessara mála haustið 1953, létu þeir það boð út ganga, að nú skyldu miklar breytingar hér á verða. Og snemma á árinu 1964 var stofnað til viðræðna á milli utanrrn. og Bandaríkjamanna um endurskoðun á framkvæmd varnarmálanna. Eitt meginatriði, sem semja átti um í þessum viðræðum, var að loka varnarliðið að sem mestu leyti inni á Keflavíkurflugvelli, þannig að varnarliðsmenn gætu litið út af vellinum farið, og var tilgangurinn sá áð reyna að loka helzt að mestu leyti fyrir samskipti Íslendinga og varnarliðsmanna.

Í umr. var farið fram á það af hálfu utanrrn. eða réttara sagt utanrrn. tilkynnti varnarliðinu, að ráðuneytið hefði ákveðið að setja mjög strangar reglur um ferðir varnarliðsmanna út af Keflavíkurflugvelli. Varnarliðið svaraði utanrrn. því til, að það neitaði með öllu að taka við nokkrum slíkum reglum frá utanrrn. Þetta ákveðna svar varnarliðsins varð til þess, að utanrrn. féll mjög snemma á árinu 1954 frá öllum kröfum um, að Íslendingar settu nokkrar reglur sjálfir nm ferðir varnarliðsmanna burt af varnarsvæðinu.

Bandaríkjamenn lýstu því hins vegar yfir í þessum viðræðum, að þeir fyrir sitt leyti vildu gera það, sem í þeirra valdi stæði, til þess að koma í veg fyrir, að varnarliðsmenn færu út af varnarsvæðunum nema hið allra minnsta. En öruggustu leiðina til þess að koma slíku til leiðar töldu Bandaríkjamenn vera þá, að búa þannig að varnarliðinu á varnarsvæðinu, að varnarliðsmenn yndu þar hag sínum og leituðu ekki út af svæðinu. Jafnframt sögðu varnarliðsmenn utanrrn., að þeir sjálfir skyldu setja nokkrar reglur um brottför sinna manna út af Keflavíkurflugvelli. Varð niðurstaðan sú, að Bandaríkjamenn settu sér sjálfir nokkrar reglur. Óskum utanrrn. um að fá að birta þessar reglur var hafnað. Óskum utanrrn. um, að það mætti staðfesta reglurnar, var sömuleiðis hafnað; og voru reglurnar trúnaðarmál varnarliðsins, sem lögreglustjórinn í Keflavík fékk þó að vita um, hvernig voru.

Allar tilraunir utanrrn. til að setja þessar reglur og öll þeirra stóru orð um, að reglurnar skyldu settar, enduðu í því, að varnarliðið setti sér sjálft reglur, sem voru algert leyndarmál. Hins vegar tókst ágæt samvinna á milli utanrrn, ag varnarliðsins um það að reyna að búa þannig að varnarliðinu, að menn gætu unað hag sínum vel á vellinum, og voru báðir aðilar sammála um það, að ein bezta leiðin til þess að ná góðum árangri í því efni væri, að varnarliðsmenn gætu fengið sjónvarp, sem þeir gætu unað við.

Snemma í þessum viðræðum tilkynnti utanrrn. varnarliðinu, að það mundi veita þetta leyfi, en það hefði hug á að binda það því skilyrði, að sjónvarpið sæist ekki út fyrir flugvöllinn. Utanrrn. var þá þegar bent á það, að ekki væri hægt með sæmilegu móti að koma upp sjónvarpi á Keflavíkurflugvelli þannig, að það tæki til varnarliðsins eins, ef vallarmena ættu að geta séð það með nokkurn veginn sæmilegu móti. Og eftir að utanrrn. hafði tilkynnt varnarliðinu um vilja sinn til að gefa leyfið með þessu skilyrði, lét utanrrn. fara fram rækilega athugun á því, hvort hægt væri að takmarka sjónvarpið við völlinn einan. Athuganir sérfræðinga leiddu til þess, að menn sannfærðust um, að ef styrkleiki sjónvarpsins ætti að vera svo takmarkaður, að það sæist ekki utan vallarsvæðisins, gætu menn innan vallarins ekki haft nein not af því. Það var látin fara fram sérstök athugun á því, hvort tiltækilegt væri að hafa þarna lokað sjónvarp, þannig að um samband við það væri að ræða eins og um símasamband. En sérfræðingur utanrrn. komst að þeirri niðurstöðu; að þetta væri ekki tiltækilegt. Og á grundvelli álitsgerðar þessa sérfræðings utanrrn. var fallið frá því að gera þessa kröfu til varnarliðsins, að sjónvarpið væri lokað. Þegar því leyfið var endanlega útgefið til varnarliðsins í marzmánuði 1955, þá voru þau skilyrði ein sett, að stöðin færi ekki yfir vissan hámarksstyrkleika og að hún væri bundin og skyggður væri ákveðinn partur úr hringnum. Formlega leyfið, sem út var gefið, var gefið út af utanrrn. 7. marz 1955, og stendur í því berum orðum, að þetta leyfi er veitt með því skilyrði, að stöðin sé ekki yfir vissan styrkleika og að úr sé skorinn ákveðinn hringur. Tákvæmlega samhljóða leyfi gefur póst- og simamálastjóri út 4. marz 1955.

Samkvæmt þessum tveimur leyfum hefur sjónvarpsstöðin á Keflavíkurflugvelli síðan verið rekin. Það umtal og þær umræður, sem fóru fram seinni part sumars 1954 og haustið 1955 um frekari skilyrði í sambandi við sjónvarpsleyfið, — þau skilyrði þótti ekki tiltækilegt að hafa uppi af hálfu utanrrn., þegar sjónvarpsleyfið var gefið út í marz 1955.

Allar fullyrðingar þess hv. þm., sem talaði hér áðan, um það, að umtalið og þær bókanir, sem fram fóru í sambandi við viðræður í varnarmálanefnd haustið 1954, — að það, sem þar var sagt, hafi verið skilyrði fyrir leyfinu endanlega, eru algerlega rangar. Sjónvarpsleyfið sjálft, sem sjónvarpið starfar eftir, ber greinilega með sér, hver skilyrðin eru, og þar er ekki vitnað til neins annars en þess, sem í leyfinu sjálfu stendur.

Mér kemur það mjög undarlega fyrir sjónir, að því skuli vera haldið fram nú af talsmönnum þeirrar till., sem hér liggur fyrir, að sjónvarpsleyfið hafi verið útgefið haustið 1954 og skilyrðin fyrir leyfinu hafi verið sett þá. Ég býst við, að það séu einhverjir hér inni, sem minnast þess, að haustið 1954 flutti þáverandi. utanrrh. þinginu skýrslu um gang varnarmálanna fram að þeim tíma, og hann flutti sérstaka skýrslu um þær viðræður, sem hann til þess tíma hafði átt í við Bandarfkjamenn um framkvæmd varnarmálanna. Ráðherrann skýrði alveg sérstaklega frá þeim árangri, sem fengizt hafði af viðræðunum, og hvaða breytingar ættu að verða á framkvæmd varnarmálanna og aðbúnaði varnarliðsins samkv. þeim samningaviðræðum, sem þá höfðu staðið yfir. Umræður um þessa skýrslu stóðu að minnsta kosti í tvo daga hér á hv. Alþingi. Formaður Framsfl., Hermann Jónasson, tók einnig þátt í þeim umræðum og lét þess getið, að hann hefði verið einn af samningamönnunum við Bandaríkjamenn. Í öllum þessum umræðum var ekki vikið að því einu orði, að til mála hefði komið í viðræðum við Bandaríkjamenn að veita leyfi til sjónvarpsrekstrar á Keflavíkurflugvelli. Af hálfu utanrrh. og af hálfu formanns Framsfl. var ekki vikið að því einu orði, að Bandarfkjamenn hefðu farið fram á það að fá leyfi til sjónvarpsrekstrar á Keflavíkurflugvelli, hvað þá að slíkt leyfi hefði verið veitt. Nú kemur hv. 1. flm. þessarar till. með nokkra sína flokksmenn með sér á hinni sömu till. og segir okkur, að um það leyti sem utanrrh. Framsfl. og formaður Framsfl. eru að gefa þinginu skýrslu um gang varnarmála, þá hafi þessir tveir heiðursmenn leynt þingið því, að þeir hafi lengi staðið í viðræðum við varnarliðið um það að leyfa því sjónvarp og meira að segja væru jafnvel búnir að gefa leyfið og það með skilyrðum. Ég vil nú spyrja hv. 1. flm. þessarar till.: Segir hann það satt, að það sé virkilega skoðun þeirra framsóknarmanna, að leyfið fyrir sjónvarpi á Keflavíkurflugvelli hafi verið endanlega útgefið haustið 1954, um það leyti eða jafnvel áður en þeir framsóknarmenn eru að gefa þinginu skýrslu um málið? Ef það er rétt, sem i. flm. þessarar till. er að fræða okkur um hér núna, hafa fyrrv. hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. leynt þm. mjög þýðingarmiklum og mikilsverðum upplýsingum, svo að ég segi ekki annað meira.

Ég verð að segja, að mér hefði fundizt, að bæði utanrrh. og formaður Framsfl. hefðu átt að skýra þinginu frá því í nóvember 1954, vil umræðurnar, að fram væru komnar óskir um það að veita sjónvarpsleyfi á Keflavíkurflugvelli og að þeir ætluðu sér að veita leyfið, þó að ekki væri búið að ganga frá því. Mér hefði fundizt, að þeir hefðu átt að skýra frá þessu. En hins vegar kemur mér ekki til hugar að saka þá um, að þeir hafi sagt rangt að því leyti, að þeir hafi þá verið búnir að gefa leyfið, eins og hv. 1. flm. þessarar till. vill halda fram, því að leyfið lá þá alls ekki fyrir.

Ég hef getið um það mjög ýtarlega áður, að ástæðan fyrir því, að Bandaríkjamenn þurftu nú að fá leyfi til að endurbyggja þessa sjónvarpsstöð sína og hafa hana nokkru stærri en áður, er eingöngu sú, að stöðin er orðin svo slitin og úr sér gengin, að rekstur hennar getur stöðvazt á hverri stundu. Þess eru ekki tök að fá stöð, sem er af jafnlitlum styrkleika og núverandi stöð, því að þær fyrirfinnast ekki. Sú minnsta stöð, sem talið er að hægt sé að fá í staðinn fyrir þessa stöð, er sú stöð, sem þegar hefur verið leyfð. Það er algerlega rangt, sem flm. þessarar till. eru að reyna að halda hér fram, að hin nýja stöð muni ná svo og svo miklu lengra út en núverandi stöð hefur gert. Það er upplýst af sérfræðingum og m.a. vottað af póst- og símamálastjóra, að hin nýja stöð mun varla ná meira en innan við 10 km lengra en núverandi stöð nær. Styrkleikinn verður meiri á flugvallarsvæðinu sjálfu og allra nánasta nágrenni þess, en langdrægi stöðvarinnar eykst ekki um meira en innan við 10 km þrátt fyrir stærðina. Hér er um svo óverulega stækkun að ræða, að mér finnst það hefði ekki getað komið til mála að taka af sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli eingöngu vegna þessarar stækkunar. Það er samróma álit allra, sem við þessi mál hafa fengizt, að stöðin hafi haft ómetanlega þýðingu í þá átt að halda varnarliðsmönnum rólegum og kyrrum innan varnarsvæðisins, og það er skoðun allra, sem um þessi mál hafa fjallað, að slíkt mundi ekki hafa tekizt, ef sjónvarpsstöðin hefði ekki verið. Og ef nú ætti að fara að leggja sjónvarpsstöðina niður eða gera aðrar ráðstafanir, sem því eru hliðstæðar, þá tel ég, að þar væri mikill skaði unninn að þessu leyti.

Þeir, sem að þessari till. standa, hafa hvað eftir annað látið orð að því liggja, að þetta mál hafi ekki verið undir þingið borið, áður en það var afgreitt nú af utanrrn., og sé þar nm vanrækslu að ræða af hálfu ráðuneytisins. Ég hef áður bent á það, að þetta er ekki mál, sem ber að leggja undir Alþingi, og sérstaklega hef ég vakið athygli á því, að þegar leyfi var upphaflega gefið út til að stofna sjónvarpsstöðina, þá var það mál ekki borið undir Alþingi, — og það sem meira er, sú ríkisstj., sem fjallaði um sjónvarpsleyfið í upphafi, skýrði þjóðinni alls ekki frá því, að neitt sjónvarpsleyfi hefði verið gefið. Þvert á móti, eins og ég minntist á hér áðan, þá stóðu yfir umræður í tvo daga á hv. Alþingi, þar sem utanrrh. og formaður Framsfl. voru að gefa þinginu skýrslu um gang varnarmálanna um það leyti, sem sjónvarpsmálið var á dagskrá, og hvorugur þeirra minntist á það einu orði, að neitt hefði verið um það mál talað.

Ég verð að segja, að mér finnst það harla mikil kaldhæðni, að þeir, sem staðið hafa að sjónvarpsleyfinu á Keflavíkurflugvelli í upphafi og haldið á því máli eins og raun ber vitni um og sérstaklega gagnvart Alþingi, skuli nú vera að deila á mig fyrir að hafa gefið þetta leyfi út án þess að hafa haft samráð við Alþingi um það. Og sérstaklega vil ég taka það fram, að leyfið hafði ekki fyrr verið gefið út en frá því var skýrt, og engin leynd var á því, að leyfi hafði verið gefið út til þess að stækka sjónvarpsstöðina. Frásögn um það kom í dagblöðunum hér í Reykjavík um mjög svipað leyti og varnarliðið fékk sjónvarpsleyfið í hendur.

Mér þykir ekki rétt að skilja svo við till. þá, sem hér liggur fyrir, að ég ekki bendi á, að ef samþykkja ætti 2, tölul. þessarar till., eins og hann liggur fyrir, þá segir sú samþykkt í rauninni ekki nokkurn skapaðan hlut. Þar segir, að ganga eigi ríkt eftir því, að af hálfu varnarliðsins sé fullnægt þeim skilyrðum, sem sett voru árið 1954 fyrir sjónvarpsleyfi til þess. Eins og ég hef upplýst, voru engin skilyrði sett haustið 1954 fyrir sjónvarpsleyfinu. Og ef ætti að fara að ganga eftir einhverjum skilyrðum, sem þá voru sett, þá eru það skilyrði, sem ekki voru til, og engin skilyrði urðu endanlega til um þetta, fyrr en leyfið var gefið út í marz 1955.