11.10.1961
Sameinað þing: 1. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1962

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ég hef ekki átt sæti á Alþingi lengi, en fylgzt með stjórnmálum á Íslandi í býsna mörg ár, en ég upplifði nú í byrjun þessa þings í fyrsta skipti að heyra alþm. líkja íslenzku þjóðinni við geðveikrasjúklinga. Það var sem sagt fyrsti boðskapur kommúnista til þjóðarinnar á þessu þingi, og skal ég ekki hafa fleiri orð þar um, en bið hlustendur að dæma sjálfan málflutninginn að öðru leyti.

Hæstv. fjmrh. hefur lagt fyrir Alþ, frv. til fjárlaga fyrir árið 1962 og gert þingi og þjóð grein fyrir einstökum atriðum þess. Þetta frv. er í stórum dráttum þess efnis, að ríkisstj. telur nauðsynlegt, að þjóðin leggi fram um 1700 millj. kr. til að greiða fyrir þær stofnanir og þá þjónustu, sem hið sjálfstæða lýðveldi okkar þarf að halda uppi.

Frv. er 134 blaðsíður að stærð og á hverri síðu nokkur hundruð tölur um krónur og aura. Til að ruglast ekki algerlega á þessu mikla talnaflóði langar mig til að gera örlitla tilraun. Við skulum færa fjárlögin niður í eina krónu. Það gæti verið einhver króna, sem ég eða þú, góður hlustandi, höfum greitt í skatt til ríkisins. Hvað verður um þessa krónu, eftir að hæstv. fjmrh. tekur við henni?

Stærsta upphæðin á útgjöldum ríkisins rennur til félagsmála, þ.e. að langmestu leyti til almannatrygginganna. Þangað fara hvorki meira né minna en 24 aurar af krónunni okkar. Við þetta má gjarnan bæta heilbrigðismálum, sem fá tæplega 4 aura, svo að þarna eru 28 aurar, sem ríkið skilar svo til beint aftur til borgaranna. Þetta er viðleitni ríkisins til að jafna tekjur landsmanna, taka af þeim, sem eru aflögufærir, og greiða til hinna, sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni. Ef þér finnst, hlustandi góður, að þú hafir ekki fengið mikið af þessum 28 aurum af hverri krónu ríkisins, er það öruggt merki um gæfu og velgengni þína. Það þýðir, að þú ert hvorki gamalmenni né örkumla, það þýðir, að þú ert, ekki ekkja eða munaðarleysingi, þú hefur verið heilsuhraustur og ekki þurft að liggja á sjúkrahúsi, þú hefur ekki fyrir þungri fjölskyldu að sjá, en það er einmitt þetta fólk og fjölmargt annað, sem fyrst og fremst nýtur trygginganna og sjúkrakerfisins.

Næsti liður fjárl. og sá næststærsti eru niðurgreiðslur á ýmsum vörutegundum, sem fá 17 aura af krónunni okkar. Ef þessar niðurgreiðslur væru ekki, mundu ýmsar af brýnustu nauðsynjum heimilanna hækka mjög í verði til viðbótar við allar aðrar hækkanir. Þessum 17 aurum er einnig skilað beint aftur til þjóðarinnar, og munar þá mest um niðurgreiðslurnar, sem minnst hafa fjárráðin. Niðurgreiðslur hjálpa fyrst og fremst efnaminnstu heimilunum.

Þriðji stærsti liður fjárl. er kennslumál. Þau fá 13 aura af krónunni. Það hefur verið og er stolt Íslendinga að hafa gott skólakerfi, sem veitir hverjum vaxandi borgara þá fræðslu, sem hann þarf og vill. Alltaf erum við að eignast börn, og alltaf eru börnin að stækka og komast á skólaaldur, og þannig fjölgar stöðugt skólum og kennurum. Á þessu ári einu var óhjákvæmilegt að fjölga barnaskólakennurum um 53 og gagnfræðaskólakennurum um 36.

Næst skulum við nefna samgöngur, af því að við erum fámenn þjóð í stóru og strjálbýlu landi, sem þó vill ekki, að neinn búi í einangrun. Til vega, vita, hafna, brúa, flugmála og slíkra atriða fara 10 aurar af skattkrónunni okkar.

Þá nefni ég loks bein framlög til atvinnuveganna, en þar eru ræktun og nýbýli, fiskmat og hlutatryggingar sjómanna, iðnlánasjóður, raforkumál, rannsóknir og fleira slíkt, en til þeirra fara 9 aurar af hverri krónu.

Nú er svo komið, að við höfum talið upp stærstu liði fjárl. Af hverri krónu, sem ríkið fær, renna 28 aurar til félags- og heilbrigðismála, 17 aurar í niðurgreiðslur, 13 aurar í kennslumál, 10 aurar í samgöngur og 9 aurar í atvinnuvegina. Þarna eru farnir 77 aurar af hverri krónu, sem ríkið tekur til sín.

Ég veit, að til eru afturhaldsseggir í landinu, sem vilja skera niður tryggingarnar og breikka bilið verulega milli fátækra og ríkra. Ef slíkir menn eiga sæti á Alþ., vona ég, að þeir standi upp, áður en afgreiðslu fjárlaga lýkur, og lofi þjóðinni að sjá, hverjir þeir eru.

Það er hægt að spara ríkinu fé með því að afnema niðurgreiðslur, en þá yrðu neytendur í landinu að greiða sömu upphæðir til viðbótar fyrir nauðsynjavörur, og það mundi bitna harðast á þeim, sem minnst hafa fjárráðin.

Einhverjir hafa látið í ljós þá skoðun, að rétt væri að skera niður skólakerfið og lækka skatta um svo sem 100 millj. Það væri óviturlegt ráð, því að menntun æskunnar er bezta og skynsamlegasta fjárfesting, sem þjóðin leyfir sér. Nútímaþjóðfélag krefst stöðugt meiri þekkingar, og rétt er að minnast þess, að ekki gera menn hjartaskurði eða byggja rafstöðvar eða stýra flugvélum af brjóstvitinu einu saman.

Varla eru þeir margir, sem vilja skera niður framlag til vega og hafna eða til atvinnuveganna. Og fer þá að verða ljóst, að meira en 3/4 hlutar fjárl. renna ýmist beint til fólksins aftur eða til liða, sem verða ekki á gerðar stórfelldar breytingar án þess að snúa Þjóðarskútunni við og stefna til afturhalds og ómenningar.

Þessi mynd af ríkisbúinu okkar og starfsemi þess verður enn þá skýrari, ef við athugum opinbera starfsmenn, en mikill hluti af öllum rekstrarkostnaði er óhjákvæmilega mannalaun. Með fjárlagafrv. fylgir starfsmannaskrá ríkisins, og eru þar taldir allir þeir menn og þær konur, sem taka laun samkv. launalögum á þeim greinum, sem fjárlög ná yfir. Nú halda menn e.t.v., að skrifstofumenn hljóti að vera þar í miklum meiri hluta, því að ýmsir trúa, að opinber starfsmaður hljóti að sitja á skrifstofu og hafa það náðugt. En svo er alls ekki. Langstærsti hópur starfsmanna á þessu fjárlagafrv. eru kennarar. Þeir eru um 1600 talsins. Næststærsti hópurinn er starfslið sjúkrahúsanna, sem telst vera hjá ríkinu um 730 manns auk annarra sjúkrahúsa. Landsspítalinn einn hefur yfir 300 manna starfslið með fæðingardeildinni, og við stækkun á barnadeild á næsta ári verður að bæta við 28 manns. Kleppsspítali hefur 119 manna starfslið og samt eru sjúkrarúm sízt of mörg. Þriðji stærsti hópur opinberra starfsmanna samkv. þessari skrá kann að koma einhverjum á óvart. Það eru starfsmenn við póst og síma, sem teljast samtals um 700, enda borgar þjóðin nú árlega fyrir póst- og símaþjónustu alla yfir 200 millj. kr. Skyldi ekki einhver tala óþarflega mikið í síma í þessu landi? A.m.k. er svo, ef borið er saman við símanotkun í öðrum löndum.

Svona mætti lengi telja. Dómarar, ríkislögregla og allt það starfslið er um 300 manns, flugvallarstarfslið og veðurþjónusta um 150, en hið eiginlega íslenzka ríki, ráðuneytin og þær skrifstofur, sem þeim fylgja, hafa aðeins um 150 manna starfslið.

Þessar einföldu tölur um skiptingu á skattkrónunni og fjölda opinberra starfsmanna á fjárlagafrv. gefa til kynna, að það sé engan veginn eins auðvelt og ætla mætti við fyrstu sýn að skera niður ríkisútgjöldin og gera skatta léttari á Íslendingum en öðrum þjóðum. Samt sem áður er margt ótalið og víða hægt að spara verulegar upphæðir, ef það er reynt af alvöru og festu.

Núv. ríkisstj. hefur lofað þjóðinni að spara í opinberum rekstri, og hún hefur sýnt mikla viðleitni til að standa við það loforð, eins og fram kom hjá hæstv. fjmrh. Þjóðin hefur kvartað undan miklum kostnaði við utanríkisþjónustu, en einmitt á því sviði hefur orðið mikill sparnaður. Fækkað hefur verið um tvo menn í Reykjavík, einn í London, einn í Kaupmannahöfn og annað sendiráðið í París hefur verið lagt niður. Þá er í alvarlegri athugun hjá utanrrh. sá möguleiki að sameina sendiráðin á Norðurlöndum, sem þó er engan veginn einfalt mál. Hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, gerði sérstaka árás á þessi sendiráð okkar á Norðurlöndum. Það mátti jafnvel skilja svo, að dýrtíðin í Noregi og Danmörku væri ríkisstj. á Íslandi að kenna. En ekki finnst mér samræmi í því, að Karl og flokkur hans berjast fyrir, að ríkisstarfsmenn á Íslandi fái kauphækkun í samræmi við aukna dýrtíð, eins og þeir eru búnir að fá, en þegar starfsmenn íslenzka ríkisins í Danmörku og Noregi eiga að fá kauphækkun í samræmi við dýrtíð þar, kalla kommúnistar það bruðl. Það er ekki sama, hver í hlut á, þegar þeir eru að berjast.

Á Keflavíkurflugvelli hefur starfslið verið dregið saman um 8 manns og í lögreglunni þar um 2 menn, svo að dæmi séu nefnd, og nemur sá sparnaður á aðra millj. kr. Innflutningsskrifstofan við Skólavörðustíg var lögð niður í heilu lagi og áfengis- og tóbakseinkasölur sameinaðar, fækkað í dómsmrn., og fleira mætti upp telja, eins og þegar hefur verið gert.

Á þennan hátt verður að halda áfram að grisja skóginn og koma við öllum þeim sparnaði, sem framast er unnt, án þess að nauðsynleg þjónusta sé skert eða störf vanrækt. En því miður verður að viðurkenna, að þróunin hefur ekki öll verið í þessa átt. Á ýmsum stöðum hefur verið fjölgað starfsliði og tilkostnaður aukinn, þótt ekki sé alltaf hægt að ráða við það. Sem dæmi má nefna eitt nýtt embætti, saksóknara ríkisins, sem stofnað var með lögum s.l. vor. Ég hygg, að alþm. hafi ekki grunað, að eftir sex mánuði yrði beðið um 1.2 millj. kr. fyrir 8 manna starfslið í þessu embætti, en áður voru störf þess unnin af dómsmrn. Þetta dæmi sýnir, hvernig fara vill, jafnvel þótt ágætustu menn eigi í hlut, en einmitt slíkan Parkinsonsvöxt verður að forðast eins og framast er unnt.

Í sambandi við sparnað ríkisins talar almenningur mikið um ríkulega risnu og mikinn ferðakostnað, og er nokkuð til í hvoru tveggja. Það er nauðsynlegt fyrir smáþjóð eins og Íslendinga að gæta fyllsta hófs í slíkum efnum, og vafalaust er rík þörf fyrir strangt eftirlit ríkisstj. á þessu sviði. Það eftirlit verður bæði að ná til ráðuneytanna sjálfra og ekki sízt til hinna ýmsu ríkisstofnana, sem hvorki spyrja kóng né prest í þessum efnum. Mér er kunnugt um, að fjmrh. hefur rætt við samráðherra sína um slíkt eftirlit, og gerði það raunar að umtalsefni í kvöld, og virðist sjálfsagt, að það verði sett á laggirnar, svo að almenningur þurfi ekki ávallt að vera tortrygginn í þessum efnum.

Rómverjar hinir fornu komust að þeirri niðurstöðu, að þeir þyrftu að tryggja alþýðunni brauð og leiki til að hafa hana ánægða. Hin síðari ár virðast Íslendingar hafa lagt öllu meiri áherzlu á leikina, og hefur ekki aðeins ríkið í mörgum tilfellum, heldur og bæjarfélög og ýmsir aðrir aðilar gerzt æ stórtækari í þeim efnum, hvaða flokkar eða menn sem í hlut hafa átt hverju sinni. Mundi það ekki verða hollt fyrir þjóðina að reyna nú að draga verulega úr alls konar tildri og hátíðarstússi, sem allt kostar mikla peninga, hvað sem hver segir? Kostnaðurinn við slíkt er mikið atriði, en hitt er enn verra, að eftir höfðinu dansa limirnir og þjóðlífið allt vill mótast í vaxandi mæli af lúxus og leikjum. Þegar höfðingjarnir og stórfyrirtækin þurfa að hafa bíl, bílstjóra og laxveiðiá, fara smáfyrirtækin að kaupa bíla fyrir forstjórana og jafnvel hafa bílstjóra. Þegar kostnaður fyrirtækjanna fer vaxandi og þau berjast í bökkum, aka menn á sínum Mercedes á fund til að heimta þetta og heimta hitt, hærri laun, hærri álagningu eða hvað sem til þarf hverju sinni. Meðan slíkt gerist um allar jarðir í landinu, er erfitt að amast við hinum lægst launuðu, er þeir gera kröfur, og árangurinn verður óánægja, kröfupólitík og stöðugir efnahagslegir erfiðleikar. Þannig leiðir eitt af öðru. Hér er um að ræða þróun, sem nær yfir mörg ár, og verður sjálfsagt engum einum flokki, einum manni eða einni stjórn um það kennt, heldur er þetta tímanna tákn.

Ef þjóðin vildi breyta til í þessum efnum og hugsa í framtíðinni minna um leiki og meira um brauð, gæti t.d. verið ágæt byrjun að afnema fálkaorðuna með öllum þeim hégóma, sem henni fylgir, en vera framvegis orðulaus þjóð, sem lætur sér nægja, að „orðstir deyr aldrigi, hveim sér góðan getur“. Síðan mætti draga úr risnu og öðrum slíkum kostnaði hjá háum jafnt sem lágum, ríki, bæjum og fyrirtækjum, en halda þó fullum sóma innanlands og utan. Loks mætti minnka allt hátíðastand, án þess að forfeðrum okkar, frumherjum og brautryðjendum væri nokkur vansæmd gerð.

Allt þetta þyrfti að verða aðdragandi þess, að við reyndum að lækna tvö af ljótustu sárum á þjóðarlíkama okkar, en þau tel ég vera skattsvik og vörusmygl. Þessar tvær meinsemdir eru svo alvarlegar og útbreiddar í þjóðfélagi okkar, að við líkjumst þar ekki siðmenntuðum nágrannaþjóðum okkar, heldur hálfmenntuðum og frumstæðum þjóðflokkum. Ríkisheildin byggir afkomu sína á sköttum og tollum, en svik borgaranna á því sviði kosta ríkissjóðinn að mínu áliti a.m.k. 300–500 millj. kr. á hverju ári.

Fyrr á árum var það skoðun jafnaðarmanna á skattamálum, að fyrst og fremst bæri að skattleggja tekjur manna, og skyldi vera stighækkandi skatturinn, eftir því sem tekjurnar væru meiri. Þannig mundi fást sú réttláta skipting, að breiðu bökin bæru þunga skattbyrðanna, en fátækir og félitlir greiddu lítið sem ekkert. Þessi hugmynd er á pappírnum sú réttlátasta, sem enn hefur verið upp fundin. Hins vegar hefur framkvæmd hennar verið með allt öðru móti hér á landi, og hefur farið minna og minna fyrir réttlætinu, eftir því sem árin liðu. Atvinnuhættir hafa þróazt á þann veg, að ógerningur er að fylgjast með tekjum af neinni nákvæmni. Þegar þjóðin gerðist bjargálna og menn færðust eðlilega í hærri og hærri skattstiga eftir vaxandi efnum, tók að bera meira og meira á skattsvikum. Hin síðustu ár hefur verið svo komið, að tekjuskattur og útsvör, sem eru á pappírnum hinir réttlátustu allra skatta, hafa í framkvæmdinni hjá okkur Íslendingum skapað mesta þjóðfélagsóréttlæti, sem hér er til.

Þarf að nefna nokkur dæmi þessu til sönnunar? Þekkir ekki hvert mannsbarn burgeisana, sem búa í fínum villum og hafa stóran stromp, en greiða litla eða enga skatta? Eru ekki allt umhverfis okkur dæmin um menn, sem vinna hlið við hlið, en annar greiðir 5, 10 eða 15 þús. kr. meira í skatta en hinn? Það getur enginn efazt um, hversu útbreitt þetta vandamál hefur verið og hversu hróplegt óréttlæti skattamálanna hefur verið undanfarin ár. Og hið sárasta við skattsvikin er einmitt sú staðreynd, að þeir, sem nauðugir eða viljugir telja fram allar tekjur sinar, verða að greiða gjöldin fyrir skattsvikarana, af því að ríkið verður að fá sitt, hvað sem á dynur.

Af öllu þessu var jafnaðarmönnum ljóst, að tekjuskattskerfið gengur alls ekki í þjóðfélagi okkar Íslendinga, þótt það gangi vel annars staðar. Það mundi þurfa mörg þúsund manna skattlögreglu til að grafast fyrir sannleikann og koma skattframtölum í heilbrigt horf. Þess vegna er rétt að leita eftir öðrum leiðum til að tryggja ríkinu nauðsynlegar tekjur og reyna að skipta þeim réttlátlega á borgarana, þannig að þeir beri, sem borið geta. Þetta eru staðreyndirnar að baki þeirri stefnubreytingu í skattamálum, sem Alþfl. hefur tekið á síðustu árum. Við teljum, að tekjuskatturinn hafi ekki staðizt prófið, og við viljum finna aðrar leiðir. Þar verða fyrst og fremst söluskattar fyrir valinu, og þetta er ástæðan til þess, að Alþfl. hefur tekið þátt í þeirri breytingu skattkerfisins, sem núv. stjórn hefur gengizt fyrir.

Ekki svo að skilja, að við teljum núverandi skattakerfi vera fullkomið eða til langrar frambúðar. Söluskattarnir leggjast engan veginn eins rétt á landsfólkið og þeir ættu að gera, og þarf á næstu árum að kanna það mál ofan í kjölinn með vaxandi reynslu og gera þar nauðsynlegar breytingar. Sennilega verður að hafa fastan, lágan söluskatt á flestum eða öllum vörum, en síðan aðra söluskatta, sem leggjast með vaxandi þunga á vörur og þjónustu eftir því, hve nauðsynlegar þær teljast hverju alþýðuheimili. Þannig á að leggja skattinn á þá, sem hafa peninga til að veita sér eitt og annað í þjóðfélaginu, en hafa lítið sem ekkert á nauðþurftum heimilanna.

Nú hefur verið haldið fram, að misbrestur sé á innheimtu söluskatts ekki síður en tekjuskatts. Að vísu eru þeir, sem innheimta söluskatt fyrir ríkið, þ.e. alls konar fyrirtæki, miklum mun færri en hinir, sem áður greiddu tekjuskatt, og er því auðveldara að fylgjast með þeim. Það hefur líka verið gert, og hæstv. fjmrh. hefur gert út leiðangur til að rannsaka bókhald fyrirtækja og skil þeirra á söluskatti. Ekki hefur verið upplýst um árangur þeirra rannsókna, en vonandi verður frá málinu skýrt opinberlega og hert mjög á þessu eftirliti. Að láta fyrirtæki innheimta söluskatt af viðskiptavinum sínum, en skila honum ekki til ríkissjóðs, er að sjálfsögðu beinn þjófnaður. Það er bezt fyrir alla aðila, að löggæzla á þessu sviði sé svo ströng, að engin tortryggni komist þar að.

Það er erfitt að gera sér grein fyrir, hve miklu af tekjum er skotið undan skatti hér á landi. Þó er hægt að bera saman þjóðartekjurnar, eins og þær koma fram í skattframtölum, og þjóðartekjur, eins og þær eru reiknaðar út eftir framleiðslunni. Kemur í ljós, þegar þetta tvennt er borið saman, að það vantar yfir 1800 millj., til þess að allar tekjur fyrirtækja og einstaklinga komi til skila við skattaframtöl. Nú eru þetta að sjálfsögðu ekki allt skattsviknar tekjur. Þarna eru hin mörgu fyrirtæki ríkis og bæjarfélaga, þ. á m. bankarnir, sem eru skattfrjáls með öllu. Samt sem áður hljóta að vera í þessum mikla mun, 1800 millj., skattsvik svo gífurleg, að þess munu vera fá dæmi annars staðar. En þótt reynt sé að breyta skattakerfinu á þá lund, að ekki gefist tækifæri til undanbragða, verður meinsemdin aldrei læknuð að fullu á þann hátt. Hér verður að koma til hugarfarsbreyting, þannig að menn telji það sjálfsagða skyldu að greiða sín gjöld, eins og gerist í nágrannalöndum okkar.

Vörusmygl er annað vandamál, sem mjög snertir fjárlög íslenzka ríkisins, þar sem ríkissjóður tapar fé í hvert sinn, sem vöru er smyglað inn í landið, og verður að leggja þá greiðslu á herðar annarra. Að vísu verðum við sem siglingaþjóð að telja það eðlilegt, að sjómenn, flugmenn og ferðalangar geti komið með eitthvað af vörum til einkanota heim, án þess að greiða af þeim tolla. En hér hefur verið um annað og meira að ræða. Skýrslur benda t.d. eindregið til þess, að árlega sé smyglað til landsins ekki minna en 30 smálestum af nælonsokkum, og getur hvert mannsbarn séð, að svo mikið magn er varla flutt inn í vösum og töskum einstaklinga. Hér hljóta heilar vörusendingar einhvern veginn að komast inn í landið án tollafgreiðslu, eins og glöggir menn geta séð með því að skoða varning verzlana. Nýlega var skýrt opinberlega frá máli, þar sem reynt hafði verið að koma heilum vörusendingum fram hjá tollafgreiðslu, og virðist vera brýn ástæða til að gefa þeirri hlið smyglmálanna vandlega gaum. Að sjálfsögðu verður ríkið að berjast gegn smyglinu á margan hátt, bæði með tollapólitík og auknu eftirliti með innflutningi, og hefur hæstv. fjmrh. látið í ljós, að unnið sé að ýmsum breytingum, m.a. á tollskrá, með þetta og annað fyrir augum. Það er bókstaflega grundvallaratriði undir meginhluta af tekjuöflun ríkisins, að stórfellt smygl sé ekki stundað af skipulögðum hringum, eins og allar líkur benda til að gert hafi verið hingað til hér á landi.

Þau fjárlög, sem nú eru til umr., verða að skoðast í ljósi þeirrar þróunar, sem verið hefur í efnahagsmálum, enda hlýtur fjárhagur ríkisins að standa í nánu sambandi við þau mál. Fyrir rösklega 5 árum kom vinstri stjórnin svonefnda til valda í landinu. Þá var verið að reyna nýja stjórnarsamsteypu, og gerðu margir sér ýmsar vonir um þá stjórn. Hún hafði að vísu óljósa stefnu í mörgum málum, ekki sízt í efnahagsmálunum, þar sem hún ætlaði sér að fara nýjar leiðir til varanlegrar lausnar efnahagsvandræðanna. Reynslan átti eftir að sýna, að forustumenn vinstri flokkanna báru ekki gæfu til að koma sér saman um nein úrræði í efnahagsmálum. Hið eina nýja voru brbl. Hannibals Valdimarssonar um að lögfesta kaupgjald og verðlag, sem kommúnistar sögðu þá að væri beinlínis til að bæta kjör verkalýðsins. Eftir það sökk vinstri stjórnin lengra og lengra í fen uppbótakerfis og lækkaði gengið ár eftir ár, en faldi það á bak við nöfn eins og yfirfærslugjöld. Árangurinn varð vaxandi hallarekstur gagnvart öðrum löndum og vaxandi verðbólga innanlands, unz stjórnin féll.

Emil Jónsson tók við stjórnartaumunum á jólaföstu 1958 með minnihlutastjórn jafnaðarmanna. Sú stjórn greip til rösklegrar niðurfærslu innanlands, færði niður bæði kaupgjald og verðlag, svo að almenningur undi vel sínum hag. Þar með var þjóðinni forðað frá óðaverðbólgu innanlands. En stjórn Emils tókst ekki að leysa vandann út á við. Uppbótakerfið var enn við lýði, og hallarekstur hélt áfram gagnvart útlöndum. Þess vegna voru úrræði þeirrar ríkisstj. ekki nægileg til frambúðar. Þeim var ætlað að halda skútunni á floti, unz nýtt Alþing kæmi saman, og það tókst, en meira ekki.

Núv. stjórn tók við fyrir tveimur árum. Eftir nokkurra mánaða undirbúning lagði hún fram viðreisnaráætlun sína. Þetta voru stórtækustu breytingar á efnahagskerfi þjóðarinnar, sem nokkru sinni höfðu verið reyndar, og átti nú að koma efnahagsmálunum í sama horf og hjá grannþjóðum okkar. Viðreisnin hefur á veigamiklum sviðum náð tilgangi sínum. Hún hefur gerbreytt verzlun okkar við útlönd, gjaldeyrisstöðunni, útlánastefnu bankanna og fleiri höfuðatriðum, með þeim árangri, að íslenzka Þjóðarbúið hefur ekki verið rekið með halla síðan viðreisnin hófst. Það eitt er veigamikill árangur. Hins vegar hafa áform ríkisstj. um að fá atvinnurekendur og verkalýðsfélög til að semja ekki um meiri kauphækkanir en fyrirtækin geta greitt, án þess að fá það bætt upp annars staðar, ekki tekizt. Ef ekki hefði verið gripið til síðari gengislækkunarinnar, hefði þegar komið til hallarekstrar gagnvart útlöndum og allt verið glatað, sem þó hafði áunnizt með þrengingum síðustu tveggja ára. Hins vegar eru deilumál um tekjuskiptingu og laun innanlands óleyst og þar með ekki jafnvægi í verðlagi í landinu.

Undanfarin ár var keypt til landsins mikið af atvinnutækjum, sérstaklega fiskibátum og togurum. Þetta var yfirleitt greitt með lánum til skamms tíma, og hefur því hvílt á þjóðinni mikil og þung greiðslubyrði. Núv. ríkisstj. hefur ekki aðeins stöðvað hallarekstur og komið gjaldeyrismálunum í sæmilegt horf, heldur hefur hún verið að greiða niður þessar báta- og togaraskuldir eftir mætti. Þegar þessi skuldabyrði léttist, verður þjóðin að hefja næstu lotu í sókn sinni til fjölbreyttara atvinnulífs og meiri framleiðslu. Við erum nú búin að kasta mæðinni í tvö ár og koma gjaldeyrismálum okkar í það horf, að grundvöllur er undir ábyrgum og skynsamlegum lántökum til næstu framfaraskrefa. Þessi skref hefur ríkisstj. látið undirbúa með því að fá færustu sérfræðinga Noregs í áætlunarbúskap til að stjórna samningu fyrstu fimm ára áætlunar Íslendinga. Þessi fimm ára áætlun á að vera tilbúin um næstu áramót og koma til framkvæmda frá og með árinu 1962. Þá ættu Íslendingar í fyrsta sinn að hafa skynsamlega heildarmynd af því, hvernig þeir þurfa að haga fjárfestingu sinni til þess að tryggja sér t.d. 5% aukningu þjóðarteknanna á ári hverju. Þá ættum við að geta forðazt að eyða stórfé í að byggja mörg mannvirki af sömu gerð samtímis, en ganga illa að ljúka nokkru þeirra, að eyða stórfé í framleiðslugetu, sem er ekki hagnýtt, og yfirleitt að vita, hvert við stefnum í fjárfestingarmálum. þessi fyrsta áætlun um framkvæmdir á Íslandi hefur að mestu verið hafin yfir pólitískar deilur hingað til. Vonandi treystir enginn flokkur sér til að berjast gegn henni, enda nauðsyn slíkrar áætlunar augljós. Þó er rétt að minnast þess, að nauðsynleg erlend lán til framkvæmda á næstu árum fást því aðeins, að gjaldeyrismál okkar séu í góðu lagi og þjóðarbúið ekki rekið með halla. Ef ekki hefði verið gripið til gengislækkunar á þessu hausti, er algerlega útilokað, að það hefði verið hægt að hugsa til nýrrar framkvæmdaáætlunar í byrjun næsta árs. Þetta eru staðreyndir, sem eru þyngri á metunum en allur áróður stjórnarandstöðunnar um, að þessar aðgerðir séu einungis gerðar af illmennsku ráðherranna og í hefndarskyni.

Meðan uppbótakerfið var við lýði, fékk ríkissjóður mikinn hluta af tekjum sínum af svokölluðum hátollavörum. Af þeim sökum var innflutningsskrifstofan á Skólavörðustig látin veita svo til takmarkalaus leyfi fyrir ýmiss konar hátolla- og lúxusvöru til að tryggja ríkissjóðinn, meðan skortur var á nauðsynjavörum. Núv. ríkisstj. breytti þessu fráleita kerfi. Það er ekki lengur hagsmunamál ríkissjóðs, að óþarfavarningur sé fluttur til landsins, enda hafa orðið verulegar breytingar á samsetningu þess, sem flutt er inn. Nú flytja menn inn það, sem nauðsynlegt er, en eru ekki neyddir til að flytja inn vörur, sem ríkissjóður fær af mestar tekjur. Af þessari breytingu leiddi óhjákvæmilega nokkra minnkun á tolltekjum, eins og hæstv. fjmrh. hefur nánar gert grein fyrir. Þetta hefur leitt til ýmissa erfiðleika við að koma fjárlögum saman, en þó hefur nú tekizt að semja og leggja fram fjárlagafrv. á þann hátt, að ekki er gripið til neinna nýrra hækkana á skatta- og tollastigum. Þetta er mikilsvert atriði fyrir hag almennings í landinu, og ber að vona, að þetta breytist ekki í meðförum Alþingis.

Það hefur verið eitt höfuðeinkenni á þróun fjármála ríkisins í höndum núv. stjórnar, að upphæðir til almannatrygginga hafa stóraukizt, að tekjuskattur hefur verið stórminnkaður, en söluskattar hafa aukizt. Báðar þessar ráðstafanir miða til aukins, þjóðfélagslegs réttlætis. Tryggingarnar eru tilfærsla á tekjum, og skattabreytingin á, þegar fram liða stundir, að jafna skattbyrðum réttar milli þegnanna og ná til þeirra, sem áður svikust undan þunga gjaldanna. Hvort tveggja þetta telja jafnaðarmenn mikinn ávinning í fjármálastjórn ríkisins hin síðari ár. — Góða nótt.