29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

51. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Í þessari till. felst, að ríkisstj. verði falið að láta endurskoða lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og þeirri endurskoðun skuli lokið svo snemma, að frv. um breytingar á lögunum verði lagt fyrir Alþingi það, er nú situr.

Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra voru sett árið 1949. Það verður að telja, að hér hafi á þeim tíma verið um mjög merka lagasetningu að ræða. Hér var nýmæli á ferðinni um það, hvernig tekið skyldi samræmdum, föstum tökum á alvarlegu félagslegu vandamáli. En þessi lög voru nýsmíði, og þau báru þess ótvírætt einkenni, enda hafa ýmsir vankantar á lögunum komið í ljós við fengna reynslu. Þessir gallar eru svo miklir, að þeir hafa háð þeirri starfsemi, sem lögin fjalla um, á mjög áberandi hátt, og gallarnir verða svo að segja áþreifanlegri með hverju ári sem líður.

Í lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra er gerður mjög sterkur greinarmunur á ölvuðum mönnum og drykkjusjúkum. Þeim eru ætlaðar mismunandi stofnanir og meðferð, og það heyrir meira að segja undir sitt hvort ráðuneyti eftir því; hvort um ölvaða menn eða drykkjusjúka er að ræða. Þessi hnífskarpi greinarmunur á ölvuðum mönnum og drykkjusjúkum er mjög óeðlilegur, óraunhæfur og hefur enga þýðingu í framkvæmd. Við gerum okkur allir grein fyrir því, að ölvaður maður er drykkjusjúkur, á meðan hann er ölvaður, og drykkjusjúkur maður er mjög oft ölvaður, eins og kunnugt er. Þarna eru engin glögg skil á milli. Þetta atriði, sem ég nú hef nefnt, hefur m.a. háð framkvæmd þessara laga. T.d. hefur I. kafli laganna um meðferð ölvaðra manna aldrei komið til framkvæmda, þótt liðin séu nú nærri 12 ár, síðan lögin voru sett.

Önnur stórskyssa varð á, þegar þessi lög voru sett, og hún var sú, að öll meðferð drykkjusjúkra manna var lögð undir geðveikraspítala ríkisins. Þetta atriði hefur orðið drykkjumannahjálpinni í landinu mjög fjötur um fót fram til þessa, enda var það og er enn í dag álit allra sérfróðra lækna, að slík ráðstöfun sé óheppileg.

Það er ýmislegt fleira og þó smærra, sem er athugavert við þessi lög, þótt ég reki það ekki hér. Stærsti gallinn er sá, að lögin, eins og þau eru nú úr garði gerð, koma í veg fyrir samræmdar, skipulagðar aðgerðir í lækningu drykkjumanna. Þau hindra einbeitingu krafta og fjár að vandamálinu. Ég held, að það sé fyrst og fremst vegna þessara ágalla laganna, að starfsemin til hjálpar drykkjumönnum er enn í dag öll í molum, þannig að a.m.k. þrír stórir aðilar, sem við þessi mál fást, bauka hver í sínu horni, án minnsta samráðs eða samvinnu hver við annan. Ætti það að liggja í augum uppi, að slíkur ágalli er slæmur, og hann er verri fyrir þá sök, að hann er óþarfur. Hér er því um galla að ræða, sem telja verður að sé laganna sök.

Ég hef tvívegis í hv. Ed. flutt frv. til laga um meðferð drykkjumanna. Það frv. var sniðið eftir lögunum eins og þau eru nú, en verstu ágallarnir numdir burtu. Ég flutti þetta frv. fyrst og fremst til þess að vekja athygli á þessu máli. Nú flyt ég þessa þáltill. um endurskoðun þessara laga og geri það í sama skyni.

Ég get upplýst, að fyrrv. landlæknir, Vilmundur Jónsson, sem var einn höfuðsmiður laganna 1949, skildi orðið þörfina á því, að þessum lögum yrði breytt, og á árunum 1957. og 1958 beitti hann sér fyrir því sem landlæknir að fá verstu vankantana sniðna af þeim, þótt það bæri ekki árangur þá. Núv. tandlæknir, dr. Sigurður Sigurðsson, er sama sinnis. Hann telur þörf á, að þessum lögum sé breytt. Á árinu 1959 skipaði ríkisstj., sem þá sat að völdum, þriggja manna nefnd til að endurskoða þessi lög. Núv. landlæknir var formaður þeirrar nefndar. Þessi nefnd skilaði áliti og tillögum í heilbrmrn. í jan. 1960. Þar hefur þetta mál legið síðan. Það hefur verið lagzt á það. Þar er enginn áhugi fyrir því að gera þær umbætur, sem æðstu mönnum heilbrigðismála í landinu finnst full þörf á. Það ætti því að vera auðvelt að framkvæma það, sem í þessari till. felst, þegar vitað er, að í rn. liggja tillögur frammi tilbúnar nú í nærri tvö ár, till. um þær breytingar, sem hér er átt við. Það er ekki annað fyrir hæstv. ríkisstj. að gera í því máli en að dusta rykið af þessum tillögum, láta dubba þær upp og leggja þær fyrir Alþingi, og það á að gerast í vetur. Þetta er aðkallandi mál.

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.