11.10.1961
Sameinað þing: 1. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

1. mál, fjárlög 1962

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, hóf mál sitt á því að lýsa því, að gengisbreytingin hefði aðeins átt sér eina orsök og hún hefði verið sú að bjarga hinum fjárvana ríkissjóði frá gjaldþroti. Nú vil ég í fyrsta lagi taka það fram aftur, sem kom þó skýrt fram í framsöguræðu minni, að varðandi árið í ár mun sá tekjuauki, sem ríkissjóður fær vegna aukinna tolla af gengisbreytingunni, tæplega nema jafnhárri upphæð og hin auknu útgjöld hans vegna kauphækkana og gengisbreytingar, þannig að ríkissjóður græðir ekki á þessu í ár. Varðandi árið næsta held ég, að bæði fjárlagafrv. og framsöguræða mín hafi dregið það einnig í ljós, að það er síður en svo, að þessi gengisbreyting hafi verið ríkissjóðnum út af fyrir sig í hag. Útgjöld ríkissjóðs hafa hækkað svo mjög og hækka svo mjög á næsta ári vegna kauphækkananna og þeirrar gengisbreytingar, sem af þeim leiddi, að þær auknu tekjur, sem ríkissjóður hefur vegna tolla, sem að sjálfsögðu gefa í heild meira, þar sem erlent vöruverð hækkar, nægja tæplega til að vega þar á móti. Hér er um algeran misskilning og blekkingu að ræða.

Í öðru lagi sagði þessi hv. þm., að ríkissjóður hirti svo allan gengishagnaðinn og hefði það m.a. verið ástæða til gengisbreytingarinnar, að ríkissjóður hefði þar eygt mikla tekjumöguleika. Ekki var nú heldur hægt að fara rétt með þetta mál. Í 6. gr. l. um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, að mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirðis hans á hinu nýja gengi, þ.e.a.s. gengismunurinn, skuli færður á sérstakan reikning. Skal nota fé á þessum reikningi til greiðslu gengistaps vegna skuldar við Greiðslubandalag Evrópu og Evrópusjóðinn. í öðru lagi á að greiða af þessum reikningi 2/3 hluta útflutningsgjalds af sjávarafurðum, sem framleiddar eru á tímabilinu 16. febr. 1960 til 31. júlí 1961. Þetta tvennt á nú að greiða af þessum gengishagnaði fyrst, en þegar því er lokið, þá á að nota það, sem eftir verður, til þess að létta byrðar ríkissjóðs vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna.

Hv. þm. gerði sér mikinn mat úr því, að í fjárlagafrv. lækkar áætlun um vörumagnstoll um 2 millj, frá því, sem er í gildandi fjárlögum. Og honum varð svo mikill matur úr þessu, að hann virtist telja, að með þessu væri ríkisstjórnin að slá því föstu, að nú ætti að flytja inn minna vörumagn til landsins, allir ættu að fá minna, hver í sinn hlut, jafnvel þótt fólkinu fjölgi í landinu, eins og það gerir. Ég verð að hryggja þennan hv. þm. með því, að allt saman er þetta eintómur heilaspuni hjá honum. Sú breyting, sem gerð er í fjárlagafrv. varðandi vörumagnstollinn, er aðeins leiðrétting vegna þess, að reynslan sýnir, að áætlunin í ár hefur verið of há. Þetta er aðeins leiðrétting, og allt hans fjas um þetta er því á sandi byggt. Í rauninni hefði hann átt að geta sparað sér líka þetta, vegna þess að ég tók það skýrt fram í ræðu minni, að einmitt fjárlagafrv. fyrir 1962 er á því byggt, að innflutningur til landsins verði um 5% meiri á næsta ári en í ár, að hann hækki úr um 2700 millj. á þessu ári, miðað við núverandi gengi, upp í rúmlega 2800 millj., eða sem næst 5%, og ef fólksfjölgun í landinu er kannske um 2% á ári, þá bendir þetta ekki til þess, að eigi að minnka vörumagnið á hvern einstakling í landinu. Þetta tók ég skýrt fram í minni framsöguræðu.

Þá segir þessi hv. sami þm., að raunverulega sé nú mikill greiðsluhalli á frv., vegna þess að til undirbúningsrannsókna á virkjunum og jarðhitarannsókna eigi að taka um 30 millj. að láni og sé þetta í rauninni hreinn greiðsluhalli. Hann orðaði það svo, að þannig séu tekin venjuleg rekstrarútgjöld ríkissjóðs og þeim ekki mætt með tekjum ríkissjóðs, heldur með lántökum. Á svipaða lund talaði hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson. Þetta mál liggur þannig fyrir, að í fjárlagafrv. er veitt mikið fé, — ég ætla ekki minna fé, heldur meira en áður hefur verið, — til þess að undirbúa rafvirkjanir í landinu og jarðhitavirkjanir, jarðboranir, rannsókn jarðhita. En vegna þess að ríkisstj. vill hraða þessum undirbúningsrannsóknum enn þá meira, í miklu stærri stíl en þessar fjárveitingar nú og áður hafa leyft, þá gerir hún ráð fyrir, að til viðbótar fjárframlögum á fjárl. séu tekin lán til þessara framkvæmda, til þess að hægt sé að vinna meira. Mér finnst það vægast sagt furðuleg fjármálaspeki, ef þessar ákvarðanir eiga að þýða það, að þær 30 millj., sem gert er ráð fyrir að taka að láni til þess að hraða framkvæmdum og auka þær, það á að túlka þær sem greiðsluhalla hjá ríkissjóði.

Þá segir hv. sami þm., að þær fyrirætlanir, sem ríkisstj. hefur í hyggju um að greiða framlag til atvinnuleysistrygginga á næsta ári með skuldabréfi, séu þverbrot á samningum við verkalýðsfélögin, og hann gerir ráð fyrir, að yfirleitt flestar framkvæmdir í landinu, bæði hafnarmannvirki, bygging síldarverksmiðja og annað þess háttar, hljóti að stöðvast, ef þessi ósköp eigi yfir að ganga. Hann orðaði það nú svo fagurlega: Nú ætlar ríkið sér öll lán atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári. — Fyrr má nú rota en dauðrota. Ég skýrði þetta mál í minni framsöguræðu, og það liggur ósköp ljóst fyrir. Tekjur þessa sjóðs eru um 70 millj. á ári. Þar af á ríkissjóður að borga á næsta ári eftir gildandi lögum 28 millj. Sjóðurinn mun hafa lánað, út svipaða upphæð eða kringum 30 millj. á ári, en hann hefur svo mikið handbært fé, að án þess að hann fengi nokkurn eyri til viðbótar, hefur hann forða til 5 eða 6 ára, ef hann vilt lána eitthvað svipaða upphæð og hann hefur gert að undanförnu. Það er ekki ætlunin með því, sem hér er fyrirhugað, að fara að svipta atvinnuleysistryggingasjóð þessu framlagi ríkissjóðs, heldur aðeins í stað þess að greiða það í beinhörðum peningum, til þess að atvinnuleysistryggingasjóður leggi það beint inn í Seðlabankann á sitt nafn, þá greiði ríkissjóður það með skuldabréfi. Ég sé ekki, hver er munurinn á því fyrir atvinnuleysistryggingasjóð, og ég sé ekki, að það dragi á nokkurn minnsta hátt úr möguleikum hans til lánveitinga til nauðsynlegra og æskilegra framkvæmda.

Sami hv. þm. sagði að lokum, að furðulegt væri, að áætluð væri í fjárlagafrv. óbreytt upphæð til ríkisábyrgða og er í gildandi fjári., eða 38 millj., þótt sýnt yrði, að greiðslurnar í ár og vafalaust á næsta ári yrðu miklu, miklu hærri. í 6. gr. l. um ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar segir, eins og ég hef lesið hér upp áður, að það, sem afgangs verður af gengishagnaðinum, skuli nota til að létta byrðar ríkissjóðs vegna áfallinna ríkisábyrgða í þágu atvinnuveganna. Þetta ber auðvitað ekki að skilja svo, eins og mér þó virtist hjá hv. þm., að það mætti einungis greiða af þessu ríkisábyrgðir, sem væru fallnar á ríkissjóð, þegar lögin öðluðust gildi. Það er auðvitað alls ekki tilgangurinn, heldur aðeins það, að ekki má nota þetta fé til þess að greiða ríkisábyrgðalán, sem eru ekki á ríkissjóð fallin vegna vanskila. En vitanlega má nota þetta fé til þess að greiða ríkisábyrgðarlán í vanskilum, sem falla á ríkissjóð eftir gildistöku laganna, hvort sem það er seinni hluta þessa árs, á næsta ári eða síðar.

Ég ætla, að ég láti þetta duga til svars hv. 6. þm. Sunnl., enda var ekki fleira, að ég held, svaravert í hans ræðu.

Hv. 1. þm. Austf. kom hér allvíða við sögu, og að því er snertir mikinn hluta ræðu hans, sem fjallaði um gengisbreytingu og efnahagsmál almennt, mun ég ekki gera það að umtalsefni. Hins vegar mun ég ræða þau atriði, sem snerta fjárlögin, enda er það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir. En ég vænti þess, að áður en langt um líður, gefist tækifæri til þess að ræða við þennan hv. þm. ýtarlega um efnahagsmál og gengisbreytinguna, þegar vantrauststillaga hans kemur til umr. og verður væntanlega til umr. í útvarpinu tvö kvöld í röð.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, býsnaðist nú í byrjun yfir því, hvað fjárl. hefðu hækkað mikið, síðan hann lét af störfum, — væru 908 millj. hærri en fjárlögin 1958, sem eru síðustu fjárlög, sem hann hafði með að gera sem fjmrh. Ég verð að játa, að mér finnst þessi hv. þm. hafa verið ákaflega seinheppinn að þurfa nú einmitt að fara að minnast á þessi fjárlög, einhver þau mestu hörmungarfjárlög, sem um getur í sögu síðari áratuga á Alþ. Það má vera, vegna þess að fólk er fljótt að gleyma, að það sé farið að fyrnast yfir það, sem þá gerðist. En ég vil aðeins rifja stuttlega upp þá atburði. Það var í tíð hinnar sælu vinstri stjórnar. Þá gerðist það haustið 1957, að fjmrh. þeirrar stjórnar, Eysteinn Jónsson, lagði fyrir Alþingi frv. til fjárl. fyrir árið 1958. Það frv. var nú ekki burðugra en svo, að það vantaði mikið á, að hægt hefði verið að koma frv. saman. Í fyrsta lagi er það skýrt tekið fram í grg., að fjárfestingarútgjöld, þ.e.a.s. framlög til verklegra framkvæmda, hafi verið lækkuð. En þótt dregið hafi verið úr þeim, var samt ekki hægt að ná endunum saman, heldur var frv. lagt fyrir Alþ. með 71 millj. kr. greiðsluhalla, og rökstuðningurinn eða afsökunin fyrir þessu var sú, eins og segir í aths. um frv.: „Ríkisstj. hefur ekkert tækifæri haft til þess að ráðgast við stuðningsflokka sína á Alþ. um fjárlagafrv. né um viðhorfin í efnahagsmálunum.“ Það var því ekki von á góðu. Hún hafði ekki getað náð sambandi við nokkurn af sínum stuðningsmönnum til þess að athuga, hvernig í ósköpunum ætti að ná í þessar 70 millj., sem á vantaði. Um meðferðina hér í þinginu muna allir hv. þm., sem hér áttu þá sæti, að til þess svo að lokum að koma þessu heim og saman, var fyrir jól tekin allstór summa af útgjöldum fjárl. og fleygt fyrir borð og frv. afgreitt þannig, en um leið var ákveðið að kljúfa ríkissjóðinn sundur í tvennt, annars vegar ríkissjóð, sem skyldi bera það nafn áfram, og hins vegar stofna svokallaðan útflutningssjóð, sem skyldi fá meira og minna af tekjum ríkisins, en standa þá undir útflutningsuppbótum o.s.frv. Ég verð að segja, að þetta eru einhver þau mestu hörmungarfjárlög og hörmungarfrv., sem lagt hefur verið fyrir Alþ., og mér finnst hv. þm. ákaflega seinheppinn að þurfa nú einmitt að fara að minnast á það.

Hv. þm. sagði, að í stað þess, að ég hefði boðað, að nú yrðu öll reikningsskil hjá ríkissjóði miklu betri og fyrr á ferðinni en áður, gengi nú allt aftur á bak. Það er nú þannig, að í hans tíð var það orðinn siður, að frv. um samþykkt á ríkisreikningi var ekki endanlega afgreitt og samþykkt á Alþ., fyrr en reikningurinn var orðinn tveggja, þriggja og jafnvel fjögurra ára gamall. Þetta var ósiður, sem ég taldi nauðsynlegt að afnema, og það var gert strax á síðasta þingi, þannig að fyrir haustþingið 1960 voru lagðir fram ríkisreikningar og frumvörp til samþykkta á þeim fyrir árin 1958 og 1959, og nú verður það þannig, eins og ég gat um í ræðu minni, að frv. til samþykktar á ríkisreikningnum fyrir 1960 verður lagt fram nú í nóvember og væntanlega þá afgreitt fyrir jól. Hefur þá tekizt að koma því lagi á þetta, sem þarf að vera, að Alþ. kvitti endanlega fyrir ríkisreikninginn á árinu næsta eftir reikningslok.

Ummæli hv. 1. þm. Austf. um það, að einn liður viðreisnarinnar hafi verið sá, að tryggja hafi átt stórfelldan greiðsluafgang á árinu 1960, en hann hefði ekki komið fram, — þetta er eintómur tilbúningur og hugarburður. Það hafði aldrei komið til orða að afgreiða fjárlög með þeim hætti eða byggja upp ríkisbúskapinn þannig, að stórkostlegur greiðsluafgangur yrði á árinu 1960, heldur var allt miðað við það, að jafnvægi yrði um tekjur og gjöld, hallalaus fjárlög, hallalaus ríkisbúskapur og þá væntanlega einhver afgangur, eins og líka varð.

Hv. þm. minntist á kostnað við hagsýslu, sem hefði á síðasta ári orðið um 300 þús. kr., og býsnaðist mjög yfir því. Þeir eru ekki margir, sem eitthvað þekkja til þeirra mála, sem telja, að þar hafi verið of mikið í lagt. Þessi kostnaður er fyrst og fremst greiðslur til erlendra fyrirtækja og sérfræðinga, sem hafa verið okkur til aðstoðar í þessu máli. Og af því að hann nefndi sérstaklega sameiningu áfengis- og tóbaksverzlunar, skal ég geta þess, að þessir erlendu sérfræðingar, fyrst og fremst norskir, unnu sérstaklega að því að undirbúa þá sameiningu, og sú sameining mun spara ríkissjóði á hverju einasta ári ekki hundruð þúsunda, heldur milljónir, og á því er enginn vafi, að sá kostnaður, sem lagður hefur verið til hagsýslu, hefur margfaldlega borgað sig nú þegar.

En fyrst hv. þm. nefnir sameiningu áfengis- og tóbaksverzlunar, er vissulega ástæða til þess að minnast á feril hans í því máli. Það eru nú komin ellefu ár, síðan hann sem fjmrh. lagði frv. fyrir Alþingi um að sameina áfengis- og tóbaksverzlun. Það var að vísu ákaflega illa undirbúið og hafði ekkert verið rannsakað, í hverju sparnaður gæti verið fólginn eða hversu mikill hann yrði. Frv. dagaði uppi, og sumpart var færð sem ástæða, að það væri ekki hægt að víkja þeim forstjórum, sem þarna væru fyrir, til hliðar. Á þeim 9 árum, sem hv. þm. var svo fjmrh., losnuðu þessar forstjórastöður tvisvar, en í hvorugt skiptið notaði hann tækifærið til að sameina fyrirtækin. Ef þessi hv. þm. hefði 1950 haft manndóm í sér til þess að framkvæma þessa sameiningu, væri hann nú búinn að spara ríkissjóði ekki aðeins nokkrar milljónir, heldur líklega milli 10 og 20 millj. kr.

Hv. þm. kemst að þeirri niðurstöðu, að fjárlagafrv. sé raunverulega með svo stórkostlegum halla, að það nemi um 130 millj. kr. Við höfum í ríkisstj. fengið ýmsar hrakspár í veganesti. Ég minnist þess t.d., að skömmu eftir að stjórnin hafði lagt fram sín frumvörp til viðreisnar, var því spáð alveg ákveðið af helztu foringjum stjórnarandstöðunnar, að þessar ráðstafanir mundu leiða til stórkostlegs atvinnuleysis um allt land. Hefur það atvinnuleysi komið? Ég veit ekki til annars en hér hafi verið full atvinna og ekki minni en í tíð vinstri stjórnarinnar.

Á miðju s.l. sumri var því spáð í öðru aðalmálgagni stjórnarandstæðinga, að á ríkissjóði mundi í ár verða um 200 millj. kr, greiðsluhalli. Ég fullyrði, að hallinn verður ekki neinn í ár, heldur nokkur greiðsluafgangur. Þessi hrakspá hefur þá ekki heldur rætzt, og ég ætla, að það fari þannig einnig um þessa hrakspá eða boðskap hv. 1. þm. Austf. nú, að reynslan eigi eftir að sýna og sanna, að spádómur hans um, að raunverulega sé 130 millj. kr. halli á fjárlagafrv. fyrir næsta ár, reynist álíka haldgóður og hinir tveir fyrri, sem ég nefndi.

Það er vissulega, fyrst farið er að ræða við þennan hv. þm., 1. þm. Austf., ekki úr vegi að bera nokkuð saman, hvernig við stöndum nú á þessu ári og fyrir 6 árum, þegar hann var fjmrh., vegna þess að atvikin og atburðirnir í þjóðfélaginu og atburðarásin hafa framan af verið nokkuð svipuð. Snemma vors bæði árin 1955 og 1961 hófust upp miklar vinnudeilur og verkföll, sem lauk eftir nokkrar vikur með stórkostlegum kauphækkunum, í bæði skiptin líklega milli 13 og 20% kauphækkanir. Núv. ríkisstj. tók á þeim málum þannig, að hún taldi óhjákvæmilegt, til þess að allt lenti hér ekki í öngþveiti, að breytt yrði genginu og það leiðrétt til samræmis við hið nýja kaupgjald í landinu. Hún var sannfærð um, að ef þetta hefði ekki verið gert og það strax í ágústbyrjun, þá hefði hér skapazt stóraukin eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri og erlendum vörum, sem hefði skapað gjaldeyrisskort, eins og hann hafði verið áður um margra ára skeið, en sá gjaldeyrishalli gagnvart útlöndum hafði einmitt verið eitt helzta viðfangsefnið, eitt helzta vandamálið, sem við höfum átt við að glíma. 1955 valdi hv. 1. þm. Austf., þáv. fjmrh., aðra leið. Hann ákvað, að þá skyldi ekki neitt gera, ekki hafast neitt að, láta reka á reiðanum, með þeim afleiðingum, að þegar fjárlögin, sem hann stóð að, voru afgreidd hér á næsta vetri, fyrir árið 1956, þá þurfti að hækka öll útgjöld um nærri 30%. Fjárlögin hækkuðu um nærri 30%, og þurfti að leggja á stórkostlega nýja skatta og tolla til þess að sjá ríkissjóði farborða og útgerðinni í landinu. Nú hefur hins vegar tekizt vegna þeirra vinnubragða, sem höfð voru í sumar af hendi stjórnarinnar og stjórnarflokkanna, að leggja fjárlagafrv. fyrir næsta ár fyrir þetta þing, án þess að þurfa að hækka skatta og tolla eða leggja á nýja skatta eða tolla. í rauninni er þessi samanburður á þessum að mörgu leyti svipuðu atburðum lærdómsríkur og vissulega ekki úr vegi, að tilefni gefist til að minnast á það hér í orðræðum við þennan hv. þm.

Nú er það svo, að það er ljóst af þessu frv. og þeirri grein, sem ég gerði fyrir því áðan, að ef ekki hefðu orðið hinar miklu kauphækkanir á s.l. sumri, þá hefðu fjárlögin fyrir næsta ár getað lækkað frá gildandi fjárlögum. Fjárlögin hefðu getað lækkað og þar með verið undirbúin lækkun á tollum og öðrum opinberum gjöldum almenningi til hagsbóta. En vegna þeirra kauphækkana, sem hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, ekki aðeins beitti sér fyrir, heldur stærir sig af því nú í dag að hafa beitt sér fyrir, hækka fjárlögin nú um 126 millj. kr., í stað þess að þau hefðu getað lækkað um nokkrar milljónir. Og þegar þessi hv. þingmaður býsnast hér yfir hæstu fjárlögum, sem um getur í sögunni, þá getur hann engum öðrum um kennt fremur en sjálfum sér.

Herra forseti. Ég ætla, að það séu ekki fleiri atriði, sem ástæða er til að svara hér í þessum umræðum. Ég legg til, að fjárlagafrv. verði vísað til hv. fjvn.