01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3311)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Eðvarð Sigarðsson:

Herra forseti. Ég get sparað mér mörg orð. Það er búið að taka fram aðalatriði þess, sem þurfti að svara í ræðu hv. flm. þessarar þáltill.

Aðalinnihald hennar er það, að hann vill láta reikna út tap af verkföllum, og sjálfsagt á að gera það til þess að hafa það til samanburðar við ávinninginn, sem hins vegar er þó ekki lagt til að reiknaður sé út eða birtir neinir reikningar um.

Ég vildi aðeins segja það í þessu sambandi, að við þekkjum ósköp vel hér í þessu landi, hver er helzti áróður atvinnurekenda og málgagna þeirra, þegar verkafólk neyðist til þess að fara út í verkfallsbaráttuna. Þá er gripið til þess að sýna fram á, hve gífurlegt tap menn bíði af verkföllunum, töpuðum vinnustundum, og þá um leið þjóðfélagið í heild í töpuðum verðmætum, sem ekki ern sköpuð, þegar verkföllin eru. Hv. flm., 9. landsk., er út af fyrir sig ekki beint með þennan tón. Hann færir þetta allt í svolítið annan búning. En það er alveg augljóst, hver tilgangurinn er, og hann er hinn sami og íhaldsblaðanna, atvinnurekendanna, þegar verkföllin eru, það er ákaflega augljóst.

Hins vegar virðist hv. flm. vera ákaflega fjarri því að skil ja, — og það er ekki nema ósköp eðlilegt, því að hans hugur liggur svo fjarri því, sem er hið raunverulega innihald og hinn raunverulegi ávinningur þessarar baráttu, hann er líka ákaflega,fjarri því að skilja eða gera sér grein fyrir, hver árangurinn er af kaupgjalds- og verkfallsbaráttunni. Hann segir, að í sinni till, sé ekki gert ráð fyrir, að þetta sé reiknað út, enda telur hann það algerlega óþarft, vegna þess að hagstofan sinni þessu verkefni nú þegar með því að reikna út vísitöluna. Finnst nú hv. flm. þetta. nokkurt svar? Hvenær og hvernig ætti vísitalan að fara að því að sýna — ég mundi segja miklu meira en helming af þeim ávinningi, sem fæst fram í verkfallsbaráttu? Slík vísitala er ekki reiknuð út á Íslandi, og ég efast um, að það væri mögulegt að reikna út slíka vísitölu.

Það hafa verið nefnd hér nokkur dæmi um það, sem áunnizt hefur í verkfallsbaráttunni, — ekki beinar kauphækkanir, þær út af fyrir sig er kannske auðvelt að meta, þær koma að sumu leyti fram, þegar kaupmáttur launanna er reiknaður út beint í vísitölunni. Það hefur verið minnzt hér á löggjafaratriði, sem eru bein afleiðing og orðið hafa til beinlínis vegna árangurs í verkfallsbaráttu, kaupdellubaráttu, svo sem orlofslögin, atvinnuleysistryggingarnar. Það mætti bæta hér við vökulögunum og ýmsu öðru. Enn fremur vildi ég benda á, að það er fjöldi annarra atriða, sem útilokað er að hafa fyrir sér í einhverjum tölulegum dæmum til samanburðar á upphæðum vegna niðurfelldra vinnustunda. Við skulum taka eitt dæmi. 1930, — flm. finnst við alltaf fara svo langt aftur í tímann, en þetta er ákaflega lýsandi dæmi, — þá var hér kaupdeila í Reykjavík. Vinnutíminn var styttur og næturvinna var bönnuð. Nokkrum dögum eða skömmum tíma áður en þetta næturvinnubann gekk í gildi höfðu fleiri en einn verkamaður hér í Reykjavík, við vinnu við Reykjavíkurhöfn, veikzt af lungnabólgu og látizt, fleiri en einn, og aðrir beðið heilsutjón. Hvernig ætlar nú hv. flm. að fá þetta inn í vísitölu þá, sem hagstofan núna reiknar út? Nei, mannslíf, mannslimir og heilsa fjölda verkafólks, sem hefur verið bjargað vegna verkfallsbaráttunnar, verður aldrei reiknað á þennan hátt, og menn, sem bera ekki meira skyn á, hvað felst í baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum, ættu ekki að vera að blanda sér í þessi mál.

Þá er ótalið það, sem kannske er stærst af öllu, ef ætti nú að fara að reikna í tölum, og það er, að kaupgjaldsbarátta eða jafnvel verkfallsbarátta er eitthvert sterkasta framvinduaflið í þjóðfélaginu. Það kennir atvinnurekendum, þegar þeir þurfa að borga hærra kaup, að nota hverja vinnustund betur en þeir hafa áður gert, að auka hjá sér tækni og annað slíkt. Þetta er það, sem hefur skapað framfarirnar í þjóðfélögunum.

Svipurinn á þessari till. er ósköp auðsær, enda sagði þessi hv. þm. hér fyrir nokkrum dögum í umr, á Alþ., hér í þessum sama ræðustóli, er ég nú stend, að það hefði átt að banna verkföllin í vor og það ætti að banna þau verkföll, sem nú eru í uppsiglingu, ef af þeim yrði. Það er þessi hugsunarháttur; sem mótar þessa tillögu.