01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í D-deild Alþingistíðinda. (3312)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þessar umr. minna mig um margt á umr., sem urðu hér á síðasta þingi um till., sem ég flutti þá um rannsókn á styrkjum. til landbúnaðarins: Það var hér viss flokkur á þinginu, Framsfl., sem var þeirri till. mjög andvígur, og hann sendi ýmsa af sínum mönnum með allskonar málþóf upp í ræðustólinn, og aðalinntakið í því var; að það mætti rannsaka hitt og þetta, en bara alls ekki það, sem ég lagði til. Alveg eins tala þessir hv. kommúnistar, sem hér hafa talað, þ.e. hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. landsk. þm. Þeir eru með alls konar vangaveltur um ýmsa aðra hluti, sem væri meiri nauðsyn á að rannsaka; tala um margvíslegan ávinning af verkföllum, eins og það komi málinu nokkuð við. Það er ekki með þessu á nokkurn hátt verið að stuðla að því, að ávinningurinn af verkföllum minnki. Það er þvert á móti verið að reyna að gera ávinninginn meiri með minni fórnum. Það er alveg eins og það leynist á bak við hjá þessum hv. þm., þó að þeir láti það ekki koma fram, óttinn um það, að þetta tjón, sem þarna kynni að koma í ljós, verði skrifað á þeirra reikning. Það er óttinn um það, sem alltaf kemur fram í hugskoti þessara manna, þó að þeir viðurkenni það ekki beinlínis. Og að vera svo með einhvern þvætting um, að þessi till. gæti komið í veg fyrir það, að verkamenn eða aðrir bættu heilsu sína eða heilsufarslega aðstöðu með verkfallsbaráttu, ég hef aldrei heyrt aðra eins fjarstæðu. Ég vill nú álíta, að sem betur fer, þá sé ekki málum svo komið nú í okkar þjóðfélagi, að það sé orðið heilsufarsatriði fyrir verkafólk og launþega að standa í verkfallsbaráttu: En flutningur þessarar tillögu stendur auðvitað ekki í neinu sambandi við slíkt, að ef einhvers væri ábótavant í slíkum efnum, þá mundi ekki árangur nást. Það mætti t.d. gjarnan athuga verkfall Dagsbrúnar á s.l. vori, sem báðir þessir hv. þm. eða a.m.k. hv. 3. þm. Reykv. hefur gert hér mjög að umtalsefni. Hann sagði, að það hefðu allar leiðir verið reyndar til sátta, áður en út í verkfall kom. Þetta er alls ekki rétt. Það var að vísu þó nokkuð langan tíma, ég held svo að mánuðum skipti, talað við atvinnurekendur. Að vísu voru þeir fundir ekki tíðir. En deilunni var ekki vísað til sáttasemjara, fyrr en um leið og verkfall var boðað eða rúmri viku áður en vinnustöðvun skyldi skella á. Þetta tel ég engin vinnubrögð og alveg ósamboðin stærsta verkamannafélagi landsins. Eins var það á Akureyri, þar sem raunverulega var allsherjarverkfall hjá öllum verkalýðsfélögunum. Þeirri deilu var aldrei vísað til sáttasemjara. Svo koma þessir herrar og segja: Það var gert allt, sem í okkar valdi stóð, til þess að koma á sáttum í deilunni og jafna þetta, án þess að kæmi til verkfalls. — Það mætti t.d. spyrja: Hvaða tjóni hafa Dagsbrúnarverkamenn orðið fyrir við það að hlíta ráðum kommúnista og hafna sáttatillögunni? Það mætti líka spyrja að öðru: Þegar vika er liðin af verkfallinu, samdi Vinnumálasamband samvinnufélaganna um 13% kauphækkun, eins og kunnugt er. Nokkrum dögum síðar, — ég man að vísuekki, hvenær það var, en það var nokkrum dögum síðar, — þá gaf Vinnuveitendasambandið sig og bauðst til að semja upp á mjög svipuð kjör. Þessu höfnuðu Dagsbrúnarmenn undir forustu hv. 2. landsk, þm., og þetta var á fyrsta formannsári hans í Dagsbrún. Síðan hélt verkfallið áfram eftir þetta í tvær eða þrjár vikur, án þess að Dagsbrún ynni nokkurn skapaðan hlut á — ekki neitt, og aðeins þessi viðbót, þessar tvær til þrjár vikur, þær hafa kostað Dagsbrúnarmenn í launum 8—10 millj. kr.

Það mætti lengi tala um svona hluti, ef út í það á að fara. En hér er ekki raunverulega verið að ræða um það. Það er ekki verið að deila um einstök verkföll, heldur á bara að meta heildartjónið, sem af vinnustöðvunum leiðir í þjóðfélaginu, án þess að það sé verið að spyrja um, hverjum það sé að kenna eða hverjir beri ábyrgð á því.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði hér, að verkföll væru yfirleitt mjög árangursrík á Íslandi. Það væri betur, að satt væri. Ég hef nú varla lesið svo málgagn þess flokks, sem þessi hv. þm. tilheyrir, síðustu árin, svo að þar sé ekki alltaf fullt af yfirlýsingum um það, að öllum kjarabótum sé jafnóðum stolið af verkamönnum, og þó stendur þessi hv. þm. hér upp og segir, að verkföll séu yfirleitt árangursrík. Árangurinn hlýtur þá a.m.k. að vera mjög skammær, það er ómögulegt annað. Það getur ekki öðruvísi verið. Og hann var að ásaka ríkisstj. fyrir það að hafa ekki komið í veg fyrir verkföll. Það mætti spyrja þennan hv. þm.: Hvers vegna kom ekki vinstri stjórnin í veg fyrir öll þau verkföll, sem þá dundu yfir? Ég hugsa, að þau hafi verið á milli 10 og 20, sem dundu yfir í tíð vinstri stjórnarinnar. Jú, það var eitt verkfall, sem var komið í veg fyrir, og það var verkfall Dagsbrúnar haustið 1958, og það veit öll þjóðin, með hvaða ráðum það var gert. Það var gert með þeim ráðum, að hæstv. þáv. forsrh. og þáv. sjútvmrh. gáfu atvinnurekendum loforð um það fyrir fram, að þeir fengju að velta öllum kauphækkunum yfir á almenning í landinu með hækkuðu vöruverði. Það var á þann hátt, sem þessu verkfalli var afstýrt. Var það mjög árangursrík kjaradeila, þó að það yrðu ekki verkföll?

Þá var þessi hv. þm. líka að tala um það, að núv. ríkisstj. hefði lýst því yfir, að hún ætlaði ekkí að hafa nein afskipti af kjaradeilum. Þetta eru hrein ósannindi. Núv. ríkisstj. sagði, að hún mundi ekki veita atvinnurekendum heimild til þess að hækka verð á sínum vörum og þjónustu, ef þeir semdu um kauphækkanir, atvinnurekendur ættu að standa undir þessu sjálfir. Nú geta menn spurt: Atvinnurekendur, jú, þeir sömdu um talsverðar kauphækkanir, og ríkisstj. hefur veitt þeim leyfi til þess að hækka verð á sínum vörum og sinni þjónustu, og eru þetta þá ekki brigðmæli? Ástæðan fyrir þessu er sú, að það var raunverulega ekki um frjálsa samninga að ræða. Þessir samningar voru markaðir af yfirboðum Vinnumálasambands samvinnufélaganna, sem nauðugt hlýddi fyrirskipunum framsóknarforkólfanna. Eftir að Vinnumálasamband samvinnufélaganna var búið að semja hér í Reykjavík og búið var að semja á Akureyri og Húsavík, þá vissu kommúnistar ósköp vel og það vita allir, að þegar svo stór hópur er búinn að semja, þá geta ekki aðrir atvinnurekendur staðið á móti því að semja um það sama. Það vita allir menn, sem eitthvað þekkja til kjaramála. Þess vegna var þetta raunverulega ekki markað af frjálsum samningum. Og sú var ástæðan. Ef hins vegar hefði verið farið að eins og við Alþfl.-menn vildum, að sáttatillagan hefði verið samþykkt, þá hefði verið gert allt, sem unnt var, til þess að sú hækkun hefði orðið raunhæfar kjarabætur.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hann áliti, að það væri rangt hjá mér, að verkföll væru tíðari hér og stæðu lengur yfir en með öðrum þjóðum. Ég skal að vísu játa, að ég þekki þetta ekki svo út um heim alls staðar, en það, sem ég hafði fyrst og fremst í huga, eru okkar nágrannaþjóðir, og það veit ég vel, að maður fylgist það vel með, að það er ekkert sambærilegt, hvað verkföll eru þar miklu sjaldgæfari. Hann var þó helzt að tala um Bandaríkin. En við verðum að athuga það, að verkfali fámennrar stéttar hér hefur svo mikil áhrif vegna þess, hvernig skipulagi verkalýðssamtakanna er háttað. Við skulum taka til dæmis, sem aft hefur verið vitnað í, að 10—20 matsveinar á kaupskipaflotanum geta raunverulega stöðvað alla aðflutninga til landsins eða 200–300 yfirmenn á kaupskipaflotanum geta gert það sama, þannig að þó að manni kannske finnist þetta ekki stórt verkfall, það nái ekki til margra manna, þá hefur það samt mjög mikil áhrif til tjóns út frá sér.

Annars var það eftirtektarvert, þegar þessi hv. þm. var að tala um verkföll hér aftur í tímann og rifja upp, þá sleppti hann eiginlega alveg öllum verkföllum, sem voru í tíð vinstri stjórnarinnar. Hann minntist helzt ekki á þau, vildi helzt, að þau væru grafin og gleymd, eins og þau hefðu aldrei átt sér stað.

Hann var enn fremur, þessi hv. þm., að ræða um það, að við hefðum stolið vísitöluuppbótum af verkalýðnum, þessi ríkisstj. og þeir þm., sem hana styddu. Ég vil aðeins benda á, að ég veit ekki betur a.m.k. en hv. .1. landsk. þm. sé formaður Alþb., þess flokks, sem hv. 3. þm. Reykv. tilheyrir. Sá hv. þm., sem er formaður Alþb., er líka og hefur um margra ára skeið verið forseti Alþýðusambands Íslands. Þegar alþýðusambandsþing var sett 1958, var hann enn þá ráðh., og þá var hann að ræða um það, hvaða leiðir væru vænlegar til þess að stöðva verðbólguna, og ein af þeim leiðum, sem hann taldi að þar gætu komið vel til greina, — og þá geta þessir hv. þm. litið í Alþýðusambandstíðindin frá þeim tíma, þar er ræðan birt orðrétt, — eitt af því, sem kom til greina að hans áliti, var að afnema vísitöluuppbótina. Það er formaður Alþb., sem telur þetta vera eina af leiðunum, sem koma til greina. Svo kemur þessi hv. þm., undirmaður hans úr flokknum, og er að ásaka mig og aðra stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. fyrir það, að við höfum framkvæmt þetta og séum þar með að ræna af verkalýðnum. Þannig er nú samræmið í málflutningi þessara hv. þm.

Ég vil benda á t.d., að í minni till. er talað um tvö atriði, sem mjög koma til greina til þess að reyna að draga úr tjóni af völdum vinnustöðvana, þ.e.a.s. að stórauka sáttastörf í vinnudeilum. Ég hugsa, að það séu flestir, hvar í flokki sem þeir standa, sammála um þetta. Það er enn fremur annað atriði, sem ég hef talað um. Það er að breyta skipulagi verkalýðssamtakanna. Ég veit ekki betur en að það sé óhætt að segja, að það sé mjög mikil samstaða um það innan Alþýðusambands Íslands og verkalýðshreyfingarinnar, að það þurfi að breyta skipulaginu og það hafa þegar verið gerðar ákveðnar tillögur í því efni. Og það er enginn vafi á því, að þegar þær tillögur eru komnar í framkvæmd, sem því miður getur tekið mjög langan tíma að framkvæma, þá kemst þetta á miklu heilbrigðari grundvöll og þá verður samningsrétturinn á miklu færri höndum, færri og stærri heilda. Þá verða þessi keðjuverkföll eða smáhópaverkföll að mestu úr sögunni. Það væri mjög stór ávinningur bara við það eitt.

Ég held þá ekki, að það sé öllu fleira, sem ég tel ástæðu til þess að svara úr ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa talað. Það getur auðvitað vel verið, að hað sé margt fleira í okkar þjóðfélagi, sem þurfi að rannsaka, heldur en tjón af völdum vinnustöðvana. Nú vil ég að vísutaka það fram, alveg eins og þeir eru að tala um, að ávinningurinn birtist í ýmsum myndum, sem sé reyndar ekki hægt að meta og ekki hægt að setja það inn í vísitölu, og það er út af fyrir sig alveg rétt. Þannig getur ávinningur af vinnustöðvun komið fram. Á alveg sama hátt getur tjón af vinnustöðvun birzt í ýmsum myndum, sem ekki er hægt að reikna út, enda er hér aðallega um tvær hliðar á þessu tjóni að ræða. Það er alls ekki allt tjónið, heldur aðeins tvær þýðingarmestu hliðarnar, sem ég hef talið ástæðu til að láta hagstofuna reikna út. Og ef þeir hafa alvarlegan áhuga á því að láta fara fram ýmsa annars konar rannsóknarstarfsemi, þó að þeir telji, að það sé að vísu áróður, þegar ég er að biðja um rannsóknir, þá skal ég gjarnan styðja það, að það fari fram ýmiss konar fleiri rannsóknir í þjóðfélaginu heldur en þessi. En ég vil bara biðja þá að vera ekki að reyna að drepa minni till. á dreif með því að koma með tillögur um rannsóknir um alla skapaða hluti aðra, líkt og gert var við áminnzta tillögu mína, sem ég flutti á Alþingi í fyrra.