08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (3318)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Gunnar Jóhannsson:

Ég held, að það fari tæplega á milli mála, hvað vakir fyrir hv. 9. landsk. með flutningi till. á þskj. 32. Þessi hv. þm. hefur ekki farið dult með andúð sína í garð verkalýðshreyfingarinnar að undanförnu. Í útvarpsumr. um vantraust á hæstv. ríkisstj. taldi þessi hv. þm., að hann væri að einu leyti óánægður með aðgerðir hæstv. ríkisstj. Hann vildi halda fram, að ríkisstj. hefði sýnt of mikla linkind í verkföllunum í vor, — og hann sagði meira: Það hefði átt að sýna meiri hörku gagnvart verkalýðssamtökunum. — Og hann heldur áfram og segir eitthvað á þessa leið: Eftir að sáttatillagan var felld, hefði ríkisstj. átt að lögfesta kaupgjaldið og þar með vitanlega banna frekari verkföll.

Þá skoraði þessi sami hv. þm. á atvinnurekendur og ríkisstj. að taka nú mannlega á móti í þeim átökum, sem nú væru fram undan, og þá að sjálfsögðu að fallast ekki á neinar kjarabætur til launastéttanna vegna gengisfellingarinnar í ágúst í sumar. Það er alveg ljóst, hvað þessi hv. þm. Alþfl. er að fara. Það er ekki í neinar grafgötur um það að fara. Hann vill láta taka samningsréttinn í eitt skipti fyrir öll af verkalýðsfélögunum. Hann vill láta einhverja stofnun, máske Hagstofu Íslands, reikna út og ákveða allt kaup hér í landinu. Hann vill láta banna með lögum öll verkföll. Og til þess að hægt sé að koma þessari hugsjón 9. landsk. í framkvæmd, þarf vitanlega og að sjálfsögðu að gerbreyta vinnulöggjöfinni frá því, sem nú er, setja á hrein og bein þrælalög, þar sem verkalýðsfélögin yrðu svipt öllu frelsi til samninga við atvinnurekendur á jafnréttisgrundvelli. Það á að dómi þessa hv. þm. Alþfl. að svipta menn frumstæðustu manaréttindum. Meðlimir verkalýðshreyfingarinnar skulu sviptir réttinum til að verðleggja vinnuafi sitt. Og nú hljóta menn að spyrja: Talar hv. 9. landsk. fyrir munn Alþfl., þegar hann er að boða þessa stefnu gagnvart verkalýðssamtökunum? Allir meðlimir verkalýðshreyfingarinnar eiga tvímælalaust fyllsta rétt á því að fá að vita, hvort svo sé, og þá hvort Alþfl. hafi kastað fyrir borð fyrri stefnu sinni gagnvart samningafrelsi verkalýðssamtakanna.

Hér er um svo alvarlegt mál að ræða, að ekki verður hjá því komizt að krefja Alþfl. hér á Alþingi sagna í þessu máli. Það er vitað, að Sjálfstfl. hefur fullan hug á því að svipta verkalýðsfélögin samningaréttinum eða a.m.k. að takmarka hann stórlega frá því, sem nú er. Þá er það og vitað, að innan Sjálfstfl. eru þau öfl að verki, sem vilja takmarka eða jafnvel svipta verkalýðsfélögin verkfallsréttinum. Í þessu sambandi nægir að benda á samþykktir frá þingi ungra sjálfstæðismanna, sem haldið var á Akureyri á s.l. hausti, og enn fremur á samþykkt frá síðasta landsfundi Sjálfstfl. um sama mál. Við höfum alltaf vitað, hvar við höfum haft Sjálfstfl. í þessu máli, það fer ekkert á milli mála. Það er svo aftur á móti staðreynd, að Sjálfstfl. hefur ekki talið sig fram að þessu hafa nægilegt þingfylgi til — þess að koma í gegn breytingum á vinnulöggjöfinni. Það liggur því alveg ljóst fyrir, að Sjálfstfl. mun af mikilli gleði taka opnum örmum við boðskap hv. 9. landsk. og sérstaklega ef þar væri um stefnu Alþfl. að ræða, sem ég vil þó draga í efa að sé. Því verður ekki trúað, fyrr en á reynir, að Alþfl. sé svo langt horfinn frá sinni fyrri stefnu, að hann nú gangi svo langt til samstarfs við Sjálfstfl., að hann verði með í að svipta verkalýðssamtökin samningsrétti sínum við atvinnurekendur að meira eða minna leyti og verði með að setja lög, sem torvelda eða jafnvel eyðileggja frjálsa starfsemi verkalýðsfélaganna að meira eða minna leyti. Nú er því spurt um allt land og í hverju einasta verkalýðsfélagi, hver sé stefna Alþfl. í sambandi við breytingar á vinnulöggjöfinni. Hefur hv. 9. landsk. túlkað stefnu Alþfl. í útvarpsumr. um vantraust á hæstv. ríkisstj., þegar hann kom með þetta, sem hér hefur verið minnzt á, eða var þessi hv. þm. að túlka sínar einkaskoðanir? Um þetta er spurt, og Alþýðuflokksforingjarnir munu ekki komast hjá því að svara, fyrr eða síðar.

Þáltill. hv. 9. landsk. er um það að fela Hagstofu Íslands að reikna út tjón af völdum vinnustöðvana á árinu 1961. Nú verður manni að spyrja: Hverjar voru aðalorsakirnar fyrir því, að verkalýðsfélögin fóru út í vinnudeilurnar á s.l. vori? Það hljóta að hafa legið til þess alveg sérstakar ástæður. Og hverjir voru það, sem þá báru og bera ábyrgðina á því, að verkalýðsfélögin töldu sig nauðbeygð til að hefja vinnustöðvunina? Þegar vinstri stjórnin fór frá og Alþfl. myndaði stjórn með hlutleysi Sjálfstfl., var það eitt af fyrstu verkum þeirrar stjórnar að stórlækka allt kaupgjald í landinu. Er núv. ríkisstj. tók við völdum, var stigið stærra skref í þá átt að lækka kaupgjaldið, m.a. með stórfelldri gengislækkun, sem orsakaði svo óðaverðbólgu. Ekki þótti nægilegt að lækka gengið og setja á geysiháa söluskatta og nýjar tollahækkanir. heldur var afnumin með lögum vísitöluuppbót á kaup og bannað, að hún skyldi greidd eða eftir henni farið. Með þessum ráðstöfunum var gengið lengra og ósvífnari aðferðum beitt til þess að rýra kjör vinnandi stéttanna en áður hafði þekkzt. Ef reikna ætti út hugsanlegt tjón af vinnustöðvununum í vor, verður ekki hjá því komizt að reikna þá jafnhliða út tap launastéttanna vegna gengisfellingarlaganna og vegna afnáms vísitölunnar.

Ekkert sýnir betur hlutdrægni hv. 9, landsk. til þessara mála en það, að hann vill aðeins láta rannsaka og reikna út einn þátt þessara mála, en hann vill ekki láta rannsaka orsakirnar fyrir því, að verkalýðshreyfingin taldi sig til neydda til þess að fara út í vinnudeilurnar í vor. Þetta sýnir mjög greinilega hug þessa hv. þm. til verkalýðshreyfingarinnar. Þáltill. er flutt í þeim eina tilgangi að hitta verkalýðshreyfinguna og þá fyrst og fremst kannske þá menn, sem valdir hafa verið til þess að hafa á hendi forustu þessara mála. Hverjir voru það og eru það, sem stóðu að hinum ósvífnu árásum, sem gerðar hafa verið á lífskjör hins vinnandi fólks í landinu að undanförnu? Það er flokkur þessa hv. þm. m.a., og það er Sjálfstfl. Þessir flokkar fara með stjórn landsins, og það er í krafti þess þingmeirihluta, sem þessir flokkar hafa á Alþingi, að þeim tókst hér á Alþingi að koma í framkvæmd meiri og stórfelldari kjaraskerðingu en áður hefur þekkzt. Ef einhver rannsókn ætti að fara fram, ætti fyrst og fremst að rannsaka, hvað hæstv. ríkisstj. hefur skert lífskjör alþýðustéttanna mikið, — og í öðru lagi, til hvers hafa runnið þeir fjármunir, sem rænt hefur verið af vinnandi fólki á Íslandi í tíð fyrrv. og núv. ríkisstjórna í lækkuðum launum, með auknum sköttum og tollum og með afnámi vísitöluuppbótarinnar.

Hv. 9. landsk. hélt því fram, að verkföllin hefðu staðið lengur en þörf hefði verið á, og vitanlega skellti hann allri skuldinni á forustumenn verkalýðssamtakanna. Hinn aðilinn og ríkisstj. báru þar enga sök á að hans dómi. Í þessu sem öðru fer þessi hv. þm. með staðlausa stafi. Í fyrsta lagi gerðu verkalýðsfélögin allt, sem þau gátu, til þess að reyna að ná samningum, án þess að til verkfalla þyrfti að koma. Nægir að benda á, að í sex mánuði eða meir stóðu yfir samningatilraunir milli samninganefadar verkalýðsfélaganna hér og atvinnurekenda, en án nokkurs árangurs. Rætt var við ríkisstj. og eftir því leitað, hvort hún væri til viðtals um einhverjar lækkanir á sköttum, bankavöxtum eða öðru því, sem bætt gæti upp þá kjaraskerðingu, sem óumdeilanlega hafði orðið. Hæstv. ríkisstj. var lengi vel ekki til viðræðu um þessi mál. Þá loksins hún veitti nefnd frá verkalýðsfélögunum viðtöl, voru svör hennar algerlega neikvæð. Því var marglýst yfir af hendi verkalýðssamtakanna og þeirrar nefndar, sem með þessi mál fór, að ef ríkisstj. vildi koma eitthvað til móts við launasamtökin um einhverjar kjarabætur, yrði fullt tillit tekið til þeirra í væntanlegum samningum við atvinnurekendur. En hæstv. ríkisstj. hafði ekkert til — málanna að leggja. Hennar afstaða var algerlega neikvæð, og það sem verra var, hún beinlínis bannaði atvinnurekendum að semja nm nokkrar hækkanir eða nokkrar kjarabætur til handa launastéttunum.

Þessi neikvæða og fjandsamlega afstaða hæstv. ríkisstj. kom mjög berlega fram í sambandi við samninga verkamannafélagsins Þróttar á Siglufirði við ríkisverksmiðjurnar þar á staðnum, svo að eitt dæmi sé nefnt. Eftir að samninganefnd verkamannafélagsins Þróttar á Siglufirði hafði árangurslaust reynt allt, sem hugsanlegt var, til þess að nú samningum, án þess að til vinnustöðvunar þyrfti að koma, boðaði hún til vinnustöðvunar með tilskildum fyrirvara. Eftir tiltölulega stutt verkfall náðist samkomulag við Vinnuveitendafélag Siglufjarðar, enda hafði þá náðst samkomulag á Akureyri og Húsavík milli verkalýðsfélaganna þar, Sambands ísl. samvinnufélaga, Kaupfélags Eyfirðinga og nokkurra annarra smærri atvinnurekenda. Lengi vel neitaði Vinnuveitendasamband Íslands Vinnuveitendafélagi Siglufjarðar um leyfi til samninga, en lét þó undan að lokum og samningar voru undirritaðir, sem báðir aðilar gátu, eins og á stóð, sæmilega vel við unað. Nú skyldu menn ætla, að ekki hefði staðið á síldarverksmiðjum ríkisins að gera samninga. En það var bara annað upp á teningnum. Margir samninganefndafundir voru haldnir, en án nokkurs árangurs. Og á hverju halda menn svo að hafi staðið? Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna í verksmiðjustjórn lýstu því yfir hvað eftir annað, að þeir mættu ekki semja. Ríkisstj. og þá fyrst og fremst hæstv. sjútvmrh. vildi ekki leyfa verksmiðjustjórninni að ganga til samninga við verkamannafélagið Þrótt um kaup og kjör fyrir verkamenn verksmiðjanna. í þessu þófi stóð í marga daga. Að lokum var þó samþykkt á stjórnarfundi í verksmiðjustjórn að taka upp samninga við verkamannafélagið. Einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna í verksmiðjustjórninni sá sér ekki fært að standa lengur á móti því, að gengið yrði til samninga. Þrátt fyrir það að nú væri fenginn meiri hluti í verksmiðjustjórn fyrir því, að samningar yrðu gerðir, stóð hæstv. sjútvmrh. enn fastur fyrir og bannaði verksmiðjustjórninni að semja. Það var þá fyrst, eftir að formaður verksmiðjustjórnar, Sveinn Benediktsson, hafði farið suður og krafizt þess, að samið yrði við Þrótt upp á sömu kjör og áður hafði verið samið við aðra atvinnurekendur á staðnum, að samningar tókust. Þessi óskiljanlega afstaða hæstv. sjútvmrh. varð því til þess, að verkamenn í síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði þurftu að vera á aðra viku í lengra verkfalli en aðrir verkamenn á Siglufirði.

Ef hv. 9. landsk. vill láta rannsaka tjón af völdum vinnustöðvana almenat, er vitanlega sjálfsagt að reikna þá út um leið það tap, sem verkamennirnir, sem vinna hjá SR á Siglufirði og Raufarhöfn, urðu fyrir vegna banns hæstv. sjútvmrh, s.l. vor við því að semja við viðkomandi verkamannafélög og það eftir að allir atvinnurekendur á báðum stöðunum höfðu þegar samið. Það er svo önnur hlið á þessu máli, í hvers umboði og eftir hvaða lögum eða reglugerð þessi hæstv. ráðh. hefur tekið sér þetta vald. Ég fullyrði, að frá því fyrsta að síldarverksmiðjurnar voru stofnaðar og þar til í vor hafi enginn ráðh., sem farið hefur með málefni verksmiðjanna, leyft sér slíka framkomu. Verksmiðjustjórnin er kosin til þess að fara með stjórn fyrirtækisins, þ. á m. að semja um kaup og kjör við viðkomandi stéttarfélög. í 4. gr. laga um síldarverksmiðjur ríkisins frá 1938 stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Til að skuldbinda verksmiðjurnar þarf undirykrift þriggja stjórnarnefndarmanna: Samkvæmt lögum hefur verksmiðjustjórnin alveg ótvírætt vald til þess, ef meiri hluti er til staðar, að gera samninga, bæði við verkalýðsfélögin og aðra, án þess að þurfa að sækja um nokkurt leyfi til viðkomandi ráðherra.

Hv. 9. landsk. leyfði sér að halda því fram hér á Alþingi, þegar þessi þáltill. var til umr. hér um daginn, að t.d. verkamannafélagið Dagsbrún hefði haldið áfram verkfallinu í þrjár vikur, eftir að félaginu höfðu staðið til boða sömu samningar og gerðir höfðu verið á Akureyri. Annaðhvort er, að þessi hv. þm. veit ekki, hvað hann er að segja og tala um, eða hann fer viljandi með vísvitandi ósannindi. Það er ekki nema tvennt til. Sannleikur í þessu máli er sá, að verkamannafélaginu Dagsbrún stóðu aldrei til boða sömu samningar og samið var um á Akureyri og Siglufirði, og einu veigamiklu atriði náði Dagsbrún ekki fram, því sama og um hafði verið samið á báðum þessum stöðum. Á ég þar við stjórnina á væntanlegum styrktarsjóði félagsins. Á Akureyri og Siglufirði hafði verið samið um, að atvinnurekendur greiddu 1% í væntanlega styrktarsjóði viðkomandi verkalýðsfélaga. Stjórn þessara sjóða skyldi kosin af viðkomandi verkalýðsfélagi án nokkurra afskipta atvinnurekenda. Þetta var sama fyrirkomulag og er hjá fleiri fagfélögum, sem hafa fengið slík ákvæði inn í sína samninga fyrir löngu, enda sjálfsagt og í alla staði eðlilegt, að slíkir sjóðir séu undir stjórn félaganna sjálfra og þau kjósi slíka stjórn ein. Þetta 1% var hluti þeirra kjarabóta, sem um hafði verið samið, svo að það hlýtur að vera mál verkalýðshreyfingarinnar einnar, hvort hún telji heppilegt, að hluti þeirra kjarabóta, í þessu tilfelli 1%, skuli renna í sérstakan styrktarsjóð, sem varið verði til aðstoðar þeim félagsmönnum, sem verða fyrir slysum eða langvarandi veikindum. Þetta er eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun, sem hefði átt að vera komin til framkvæmda löngu fyrr. Margir atvinnurekendur töldu þessa ráðstöfun sjálfsagða og settu engin skilyrði í sambandi við þessa ráðstöfun, enda til fyrir þessu mjög mörg fordæmi hjá hinum sterkari fagfélögum, aðallega hér í Reykjavík. En hvað skeður? Þegar verkamannafélagið Dagsbrún fer fram á, að atvinnurekendur greiði 1% af daglaunum verkamanna í styrktarsjóð félagsins, neita atvinnurekendur hér í Reykjavík lengi vel að ræða málið, beinlínis neita því að ræða það. Þegar svo önnur félög höfðu náð um þetta samkomulagi án nokkurra sérstakra skilyrða, neyddust atvinnurekendur til þess að fallast á að greiða í styrktarsjóð Dagsbrúnar 1% af daglannum verkamanna, en það ófrávíkjanlega skilyrði fylgdi boðinu, að atvinnurekendur fengju jafnmarga menn í sjóðsstjórn og Dagsbrún og oddamaður skyldi tilnefndur annaðhvort af ráðh. eða hæstarétti. Frá því að samningar höfðu tekizt á Akureyri, leið hvorki meira né minna en 11/2 vika, þar sem ekkert var ræðzt við og atvinnurekendur voru alls ekki til viðræðna. Atvinnurekendur neituðu að ræða við Dagsbrún, svo mikið affors og frekja var sýnd í þessum málum. Svo leyfir hv. 9. landsk. sér að skella allri skuldinni á verkamannafélagið Dagsbrún fyrir það, hvað lausn verkfalls dróst á langinn. Slíkur málflutningur er alveg stórfurðulegur. En hann sýnir þó alveg sérstaklega ótvírætt, hvers málstað þessi hv. þm. er að túlka. Þessi ósvífna krafa atvinnurekenda lengdi verkfallið vitanlega um alllangan tíma. Með þessari framkomu atvinnurekendanna var verkamannafélaginu Dagsbrún og stjórn þess og samninganefnd sýnd alveg sérstök ósvífni og hlaut að verða til þess að draga lausn verkfallsins á langinn. Flest önnur verkalýðsfélög, sem staðið höfðu í deilum og samningum við atvinnurekendur, höfðu þegar samið um, að þau skyldu fá 1% af daglaunum meðlima sinna í styrktarsjóð félaganna og það án nokkurra skilyrða um, að atvinnurekendur skyldu fá helming þeirra manna, sem kjósa skyldi í stjórn viðkomandi sjóða. Verkamannafélagið Þróttur á Siglufirði bauð það fram til samkomulags við stjórn SR, að verksmiðjustjórn skyldi fá annan endurskoðandann. Á þetta var fallizt. Verkamannafélagið Dagsbrún bauð upp á sama og til viðbótar, að endurskoðendur skyldu hafa daglegt eftirlit með sjóðnum. Þessu neituðu atvinnurekendur algerlega. Með þessari framkomu voru atvinnurekendur og ríkisstj., sem alveg tvímælalaust stóð á bak við, þessa ósvífnu kröfu atvinnurekendanna hér, að gera freklega tilraun til að lítillækka verkamannafélagið Dagabrún og stjórn þess og samninganefnd og reyna að ná sér niðri á félaginu vegna ágætrar forustu þessa félags í hagsmunabaráttu launastéttanna mörg undanfarin ár. Þetta var fyrsta hefndarráðstöfunin, sem beitt var, og gátu menn þá þegar getið sér til, að fleiri mundu á eftir fara, enda varð sú raunin á. Þetta eina dæmi sýnir mjög vel, hvernig hv. 9. landsk. hagræðir sannleikanum.

Ég vil svo benda þessum hv. þm. á það, að oft áður hefur verið náðizt að verkalýðshreyfingunni, en hún hefur við hverja árás harðnað og eflzt. Þannig mun enn verða. Því er nú þannig háttað, að stór hluti af verkalýðshreyfingunni á Íslandi er mjög stéttvíst fólk, sem ekki lætur einstaka menn skipa sér fyrir verkum. Stéttaþroski þess er mikill. Það veit og skilur mætavel, að verkalýðshreyfingin er þess skjól og skjöldur. Því sterkari og öflugri sem verkalýðshreyfingin er, því betri kjör. Þetta skilja allir og þó máske fáir betur en atvinnurekendur. Því er það, að það er hinn mesti hvalreki fyrir andstæðinga verkalýðshreyfingarinnar, er menn, sem telja sig vera úr röðum hennar og skreyta sig með nafni alþýðunnar, vega aftan að samtökum fólksins. Slíkir menn eru hinir þörfustu þjónar afturhaldsins, en munn fyrr eða síðar hljóta verðskuldaða fyrirlitningu allra heiðvirðra manna í verkalýðshreyfingunni.

Ég vil svo að síðustu benda á, að ég álít, að ef á annað borð á að flytja þáltill. um þessi mál, ætti hún að vera eitthvað á þessa leið: Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd, sem rannsaki það tjón, sem launastéttirnar hafa orðið fyrir, m.a. vegna gengislækkananna, afnáms vísitölunnar, hækkunar skatta, beinna kauplækkana og annarra aðgerða ríkisstj. í efnahagsmálum. — Allar þessar ráðstafanir eru orsakir að þeim vinnustöðvunum, sem háðar voru á s.l. vori, og ber því að draga þá aðila, sem áðurnefndum aðgerðum stóðu fyrir, til ábyrgðar. Öll önnur rannsókn er algerlega gagnslaus, og ef ekki eru rannsakaðar orsakir að deilunum í vor, er öll rannsókn slíkra mála aðeins út í loftið og gagnslaus, gerð í áróðursskyni, gerð í einum og sama tilgangi, pólitískum tilgangi til þess að ná sér niðri á verkalýðshreyfingunni og forustumönnum hennar.