08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í D-deild Alþingistíðinda. (3323)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Guðlaugur Gíslason:

Hv. 3. þm. Reykv. mistúlkar orð mín, þegar hann vill það við hafa, að ég hafi haldið því fram, að hér væri of stutt á milli verkfalla. Ég sagði, að það væri ekki reynt nægjanlega að koma á sáttum, áður en verkföll væru tilkynnt. Ég veit þess dæmi, að forsvarsmenn stéttarfélags, sem fengið höfðu löglegt umboð frá trúnaðarmannaráði til þess að hefja samninga og boða til vinnustöðvunar, mættu á samningafundi kl. 5. Sá fundur stóð til kl. 7. Milli 7 og 8 barst atvinnurekendafélaginu tilkynning um verkfallið innan 7 daga, og með fréttum í útvarpinu kl. 8 kom tilkynning frá félaginu um verkfallsboðanir frá þessum tiltekna tíma. Ég tel, að þetta sé allt of mikið ábyrgðarleysi, ef þannig er staðið að málum, og það sé einmitt það, sem sé okkar ógæfa, að það virðist vera meiri áhugi fyrir að koma á verkföllum heldur en að leysa deilurnar. Þetta stafar af því, að vinnulöggjöfin er það rúm, að hún heimilar slíka afgreiðslu málsins. Þess vegna er það, að þessi mál eru komin á þetta stig. Ég held, að það geri sér það hver einasti maður með þjóðinni ljóst, að þetta er komið á það stig, að það verður að breyta vinnulöggjöfinni, eins og ég sagði áðan, ekki til þess að skerða rétt launamanna, heldur til að tryggja það, að hann sé ekki misnotaður eins og gert hefur verið.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist á aðstöðu sáttasemjara í sambandi við vinnudeilur. Þetta er alveg rétt. Mér er það mjög vel kunnugt, að sáttasemjari hefur þessa aðstöðu, að setja fram tillögu. En það vita allir, sem til þessara mála þekkja, að þegar málin eru komin á það stig, að forsvarsmenn stéttarfélaga eru búnir að setja fram kröfur, hafa staðið löglega að því, — kröfur, sem þá eru oft mjög háar, — þó að sáttasemjari komi með till., eins og venjulega er þá einhvers staðar á millí þess, sem atvinnurekendur hafa boðið og stéttarfélögin gert kröfur um, þá er ávallt túlkað þannig innan stéttarfélaganna, að það sé verið að ómerkja þá aðila, sem umboð hafa til þess að leysa deiluna frá þeirra hendi, og það sé verið að ganga á rétt þeirra með þessum tillögum. Þannig eru tillögurnar venjulega drepnar, jafnvel þó að menn hefðu viljað sættast á það og vinna eftir þeim. Þetta er staðreynd, sem við vitum, sem nokkuð þekkjum inn í þessi mál, að þannig ganga málin fyrir sig.

Ég vildi láta þetta koma hér fram vegna þessara aths. hv. 3. þm. Reykv.