15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3330)

38. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Efni þessarar till. er, að Alþingi feli ríkisstj. að hlutast til um, að Seðlabankinn endurkaupi framleiðslu- og hráefnavíxla iðnaðarfyrirtækja eftir ákveðnum reglum, er settar verða með svipuðu sniði og reglur þær, er gilda um endurkaup framleiðsluvíxla sjávarútvegs og landbúnaðar.

Till. mjög svipuð þessari var samþ. hér á hv. Alþingi fyrir þremur árum, en hefur þó enn ekki komið til framkvæmda af ástæðum, sem mér er ekki kunnugt um, hverjar eru. En svo virðist sem þær ríkisstjórnir, sem hafa farið með völd á þessum tíma, eða þeir ráðherrar, sem um þau mál hafa fjallað, hafi haft takmarkaðan áhuga fyrir því að framkvæma hana. Það er þó hins vegar ljóst, að það er miklu meiri þörf fyrir það nú en fyrir þremur árum, að slíkar reglur séu upp teknar, vegna þess að þær efnahagsráðstafanir hafa verið gerðar, sem auka mjög framleiðslukostnað iðnaðarfyrirtækja, og þar af leiðandi hafa þau þörf fyrir miklu meira lánsfjármagn en áður. Þess vegna er eðlilegt, að þessi till. sé endurnýjuð hér á hv. Alþingi, þar sem stjórnirnar, sem með völd hafa farið á þessum tíma, hafa ekkert gert til þess að framkvæma hana, og Alþingi láti enn vilja sinn í ljós um, að þetta verði gert.

Ég held, að það viðurkenni nú allir, að iðnaðurinn hefur orðið þá stöðu í þjóðfélaginu, að hann á að hafa sama rétt ag sjávarútvegur og landbúnaður, en mjög skortir á það í þessum efnum, að hann sé látinn búa við sama borð og þessir tveir aðrir aðalatvinnuvegir þjóðarinnar, og því er nauðsynlegt, að hér séu gerðar lagfæringar á.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn., en hún hefur fjallað um hliðstæðar tillögur á undanförnum þingum.