15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

38. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í framsögu, er þetta mál ekki nýtt af nálinni, og Alþingi hefur áður samþykkt samhljóða tillögu, eins og gerð er grein fyrir líka í grg. Málið var flutt á síðasta þingi í alveg sama formi.

Ég vil á þessu stigi málsins aðeins láta í ljós þá skoðun mína, að ég tel eðlilegt, að unnið sé að því, að iðnaðurinn hafi sambærilega aðstöðu í þjóðfélaginu til lánsfjáröflunar eins og aðrir höfuðatvinnuvegir, bæði landbúnaður og sjávarútvegur, og það verður að viðurkennast, að á því hafa verið nokkrir misbrestur á undanförnum árum.

Eftir að þessi till. á sínum tíma var samþykkt hér, eins og fram kemur í grg., flutt af Sveini Guðmundssyni, sem þá sat á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Sjálfstfl., þá mun það hafa verið skömmu síðar eða á árinu 1959, að þáv. iðnmrh. skipaði nefnd manna til þess að taka þetta mál til meðferðar og rannsóknar og gera um það tillögur. Þessi nefnd hefur svo starfað að þessum málum. Henni hefur svo á síðara stigi málsins af iðnmrh., næstum á undan mér, verið falið að taka til meðferðar aðrar greinar lánamála iðnaðarins, og þar er átt við sérstaklega stofnlánin eða lánsfjárþörf iðnaðarins til þess að byggja upp sín atvinnufyrirtæki og þá fyrst og fremst og ekki sízt höfð í huga efling iðnlánasjóðsins, sem nú er í Iðnaðarbankanum, en lýtur sérstakri stjórn og hefur á undanförnum árum verið allvanmegnugur til þess að gegna sínu hlutverki.

Meðan n. hefur haft þessi mál til meðferðar, hefur nokkuð skipazt í þessum efnum varðandi eflingu stofnlánanna. Það hafa verið hækkuð framlögin á fjárlögum til iðnlánasjóðs og munu vera nú 2 millj. kr. árlegt framlag, sama upphæð og fiskveiðasjóður fær á fjárlögum árlegt framlag. Á undanförnum árum hefur svo oft komið til mála og verið unnið að því að afla honum nokkurs lánsfjár, en það hefur gengið því miður mjög erfiðlega og treglega þar til nú á yfirstandandi ári, að hann hefur fengið til ráðstöfunar margumtalaðar 15 millj. af erlendu lánsfé, sem ríkisstj, hefur haft forgöngu um að afla, og er það honum í sjálfu sér mjög mikils virði, miðað við aðstöðu hans að öðru leyti, þó að þar sé allt of skammt gengið og það mál þurfi frekari athugunar.

Enn fremur hefur komið til umræðu innan þessarar nefndar, sem ég skýrði frá, fyrir tilhlutan fyrrv. iðnmrh. að athuga möguleikana á því að greiða úr lánsfjárörðugleikum iðnaðarins að einhverju leyti sambærilega við það, sem gert hefur verið fyrir sjávarsítveginn á yfirstandandi ári með löggjöf frá síðasta Alþingi, þar sem opnaðir voru nýir flokkar í stofnlánadeildinni til þess að breyta stuttum bráðabirgðalánum sjávarútvegsins í viðskiptabönkunum í löng stofnlán og með hagkvæmari kjörum. Þetta er samkvæmt löggjöf, eins og kunnugt er, frá síðasta Alþingi, og nú liggja fyrir þessu þingi brbl. frá síðasta sumri varðandi hliðstæða eða sambærilega aðstoð til landbúnaðarins. Þessi mál eru einnig til athugunar innan þessarar nefndar. Þessi nefnd hefur skilað bráðabirgðaáliti um bæði rekstrarlánaþörfina og stofnlánaþörfina, ekki þennan síðasta þátt, en ég hef rætt við Pormann nefndarinnar um, að nefndin reyni að hraða störfum og skila sem fyrst endanlegu áliti, og á von á því, að það berist stjórninni a.m.k. örugglega fyrir áramót.

Um efni þessa máls að öðru leyti vil ég segja það, að þó að ég sé alveg samþykkur því og það sé eðlilegt, að sótt sé eftir sambærilegri aðstöðu við aðrar atvinnugreinar, þá efast ég stórlega um, að þetta verði sú leið, sem eðlilegast þyki að athuguðu máli að fara, að veita iðnaðinum aðstöðu til þess, að viðskiptabankarnir geti endurselt hráefnavíxla og framleiðsluvíxla til Seðlabankans með svipuðum hætti og gert hefur verið á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Og það er m.a. vegna þess að ég tel, að fyrirkomulag þeirra lánveitinga sé á mjög margan hátt gallað, hafi verið misnotað á undanförnum árum og þurfi í sjálfu sér endurskoðunar við. Og það er mikil spurning um það, hvort endurkaup Seðlabankans á svokölluðum afurðavíxlum eigi yfir höfuð eðli sínu samkvæmt að ganga lengra en það, að endurkeyptir séu afurðavíxlar út á útflutningsframleiðslu þjóðarinnar einvörðungu, en þá að sjálfsögðu nákvæmlega með sama hætti, hvort sem útflutningsframleiðslan er frá sjávarútvegi, landbúnaði eða iðnaði. En það má segja, að nú séu þessi endurkaup þríþætt: það er út á útflutningsframleiðsluna, og þar undir falla sjávarútvegur og landbúnaður, og það er út á afurðir landbúnaðarins, sem seldar eru innanlands, og það eru loksins endurkeyptir rekstrarvíxlar landbúnaðarins og hefur verið á undanförnum árum, en t.d. rekstrarvíxlar útvegsins eða hin svokölluðu útgerðarlán, þegar lánað hefur verið útgerðarmönnum út á væntanlegan afla, þeir hafa aldrei verið endurkeyptir.

En eins og hv. þm. kannske minnast, kom mjög til tals hér á árinu 1953, eftir alþingiskosningarnar þá, þegar mynduð var samstjórn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, að veita bændum aðstöðu til þess að fá lán út á rekstrarvörur þeirra, svipað og útgerðarmenn fengju lán út á óveiddan afla í sambandi við rekstur bátaútvegsins, og um þetta var samið á milli þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstfl. og Framsfl., og gefin stefnuyfirlýsing um það af þeirri stjórn, sem þá tók við undir forsæti sjálfstæðismanna. En í framkvæmdinni hefur þessi lánveiting orðið með nokkuð öðrum hætti en a.m.k. ýmsir höfðu gert sér í hugarlund, sem að þessu stóðu, og get ég látið nægja að tala þar bara fyrir mig einan, sem þá var einn af stuðningsmönnum ríkisstj., að það, sem fyrir vakti og maður taldi eðlilegast, var það, að bændurnir sjálfir gætu fengið rekstrarlán í sambandi við erfiðleika í búrekstri þeirra, út á fé á fjalli t.d., svipað og út á óveiddan afla, sem gerði þeim fjárhagsaðstöðuna sjálfstæðari en ella væri og greiddi úr margvíslegum vandræðum þeirra, meðan þeir gætu ekki komið í lóg þeim verðmætum. sem fælust í lessum væntanlegu afurðum, sem síðar yrðu að svo og svo miklu leyti sláturafurðir á haustinu, — meðan þeir gætu ekki komið því í lóg og hagnýtt það í búrekstri sínum til margvíslegra þarfa, baeði vélakaupa og hins almenna kostnaðar af búrekstrinum. Nú hefur þetta að vísu farið í það form í framkvæmdinni, fyrst og fremst fyrir tilstuðlan Landsbankans, að safnað er sláturloforðum frá bændum, og það er náttúrlega í langmestum mæli gegnum kaupfélögin eða samvinnufélögin, sem nærri því ein hafa með höndum slátrunina í landinu, og út á þessi sláturloforð er svo lánað. Og þá er auðvitað hugsunin í því, þó að framkvæmdin sé með þessum hætti, að slík lán ættu að greiðast upp, þegar sláturafurðirnar væru orðnar til, og lána svo aftur út á þau með veði í þeim. En í framkvæmdinni er þetta nú samt sem áður þannig, að þessi lán liggja að meira og minna leyti algerlega föst í bönkunum allan ársins hring og það er byrjað að lána út á væntanleg lömb, þegar þau eru byrjuð að þróast í móðurkviði, og í smástigum er þetta svo aukið og í vissum áföngum. Og það kann að vera, og ég skal ekki fella neinn dóm um það, að þetta sé hagkvæmari aðferð en að lána einstökum bændum, en a.m.k. er alveg óeðlilegt, að þessi rekstrarlán verði endurkeypt af Seðlabankanum.

Eins og ég viðurkenni lánsfjárþörf iðnaðarins og að því fram komnu, að menn teldu endurkaupin ekki það heppilegasta form á þessu sviði, þá er auðvitað ekki hægt að snúast við málinu öðruvísi en finna önnur form á lánveitingunum í þessu sambandi, því að ég held, að það sé ótvírætt, að viðurkenna verði þörfina. Það mundi þá vera með því móti, að viðskiptabönkunum og öðrum peningastofnunum, með einhverri annarri tilstuðlan Seðlabankans en með þessum hætti, væri gert kleift að veita þessum atvinnuvegi slík lán. Ég er ekki að tala fyrir því um þessi lán, sem ég talaði um áðan, þessi upphaflega hugsuðu rekstrarlán til bænda og með veði í væntanlegum landbúnaðarafurðum o.s.frv., að svo miklu leyti sem þau hefðu kannske getað verið í heppilegra formi, að það verði af þeim tekið og ekki komi neitt í staðinn, það er aðeins að breyta lánaforminu, og þess vegna vek ég athygli á þessu hér. Mér er ljóst, að það væri jafnmikill grikkur við landbúnaðinn að gera það eins og að daufheyrast nú við kröfum iðnaðarins um að fá nokkra leiðréttingu sinna mála í sambandi við rekstrarlánaþörfina.

Ég vildi láta þessar athugasemdir koma fram á þessu stigi málsins. Þingnefnd fær nú þetta til meðferðar, og það hlýtur að draga að því, að ákvarðanir verði teknar í þessu máli, hvort sem það er á þennan hátt eða annan. Og eins og ég sagði áðan, þá vænti ég þess, að nefnd sú á sviði iðnaðarins, sem hefur haft þessi lánamál til meðferðar, muni mjög bráðlega skila áliti. Hitt verður að sjálfsögðu stærra og meira vandamál á verksviði Seðlabankans í samvinnu við ríkisstj., ef ætti að taka upp eitthvað annað form endurkaupanna en hefur verið, og skal ég ekki neinu um það spá, þó að ég hafi viljað láta þessar skoðanir mínar koma í ljós á þessum vettvangi. Að þessum málum varðandi iðnaðinn hefur verið unnið, og væntanlega liggja mjög bráðlega fyrir niðurstöður eða nefndarálit þessarar nefndar, sem ég gerði grein fyrir, og tillögur, sem hún kann að leggja fram, þó að ekkert sé vitað um það enn, hvort þær geti úr þessu leyst, og sjálfsagt verða mörg ljón á veginum, áður en búið er að leysa úr þörf iðnaðarins á þessu sviði, eins og annarra atvinnuvega, ef við höfum hliðsjón af því, hversu fjárvana við Íslendingar höfum verið og erum í sambandi við okkar atvinnurekstur.