15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (3332)

38. mál, kaup Seðlabankans á víxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. iðnmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur hér gefið um það, að þessi mál séu til athugunar hjá ríkisstj., og eins láta í ljós ánægju mína yfir því, að ríkisstj. hefur þessi mál til athugunar. En hins vegar er það að sjálfsögðu ekki nóg, að þessi mál séu í athugun, þegar hún virðist dragast jafnt von úr viti eins og hér hefur átt sér stað. Það þurfa líka að koma til framkvæmdir, og ég vænti þess þess vegna, að þessi athugun hjá hæstv. ríkisstj. leiði til þess mjög fljótlega, að einhverjar framkvæmdir geti átt sér stað í þessum efnum, og ég hygg, að með því að Alþingi endurnýi þessa ályktun, þá ætti það að geta orðið til þess að örva ríkisstj. í þeim efnum og hraða því, að hér verði eitthvað raunhæft gert.

Hæstv. ráðh. talar um, að það gæti komið til mála að haga endurkaupum á rekstrarvíxlum frá atvinnuvegunum með einhverjum öðrum hætti en nú á sér stað. Það getur vafalaust verið rétt. En ég vil aðeins í sambandi við þessa till. segja það, að ég skil hana ekki þannig, að hún sé endilega miðuð við það, að endurkaupin á iðnaðarvíxlum verði bundin þeim reglum, sem nú gilda um endurkaup á framleiðsluvíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar, heldur þeim reglum, sem gilda um það á hverjum tíma, þannig að ef þeim reglum, sem nú gilda varðandi landbúnað og sjávarútveg, yrði breytt, þá mundi að sjálfsögðu, ef þessi till. yrði samþykkt og framkvæmd, verða hliðstæð breyting á þeim reglum, sem giltu um iðnaðinn. En aðtalatriðið er það að tryggja iðnaðinum sambærileg kjör við aðra aðalatvinnuvegi í þessum efnum. En þar sem hæstv. iðnmrh. hafði nú góð orð um það og taldi sig fylgjandi því, að iðnaðurinn ætti að njóta samstöðu við aðra aðalatvinnuvegi í þessum efnum, þá vænti ég, að það þýði þá jafnframt, að þessi till. muni njóta stuðnings hans og fylgismanna hans og að Alþingi endurnýi þess vegna þann vilja, sem það hefur áður látið í ljós um þessi mál.