15.11.1961
Sameinað þing: 15. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (3341)

47. mál, innlend kornframleiðsla

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins fáein orð til að segja mönnum fréttir af Austurlandi til stuðnings þessari þáltill. Auðvitað er það eitt stærsta mál landbúnaðarins, að hægt verði að framleiða fóðurbætinn í landinu sjálfu. Þetta hefur mönnum lengi verið ljóst og tilraunir miklar verið gerðar í þá stefnu að framleiða hér fóðurkorn. Þessar tilraunir hafa farið fram nokkuð lengi og gefið allgóða raun. En nú alveg upp á síðkastið hefur komið skriður á kornræktina, m.a. hefur kornrækt núna á örskömmum tíma orðið allútbreidd á Austurlandi, og var framleitt þar þó nokkuð af korni á s.l. sumri. Það er dæmi til þess nú í haust, að hændur á Austurlandi, á Fljótsdalshéraði hafa lagt inn í verzlanir talsvert af korni. Mun það í fyrsta skipti í sögu landsins, að þetta hefur gerzt. Þetta er stór atburður í þjóðarsögunni, að þessi framleiðslugrein er að færast á þetta stig, miklu stærri atburður en við flest gerum okkur grein fyrir.

Nú er það líka að segja, að kornið á Austurlandi þroskaðist sæmilega í sumar, enda þótt sumarið væri með lélegra móti. Það eflir kornræktaráhugann mjög og eykur líkurnar fyrir því, að hér sé um að ræða allörugga búgrein, sem ekki verði stopulli en aðrar búgreinar, ef rétt er að farið. Ég tel víst, að kornrækt fari hraðvaxandi í landinu á næstu árum. Sérstaklega hefur aukizt bjartsýni manna við það, að kornið óx sæmilega og sums staðar allvel þrátt fyrir jafnlélegt sumar og var í ár á Austurlandi.

En það er einn hængur á þessu, og hann er sá, að innlenda kornið nýtur ekki sömu aðstöðu og erlenda kornið. Þetta má auðvitað ekki standa stundinni lengur. Það er alveg óhugsandi, að hægt sé að sætta sig við þetta. Menn sætta sig alls ekki við, að erlend kornrækt sé styrkt, en sú innlenda ekki. Þess vegna vil ég mjög eindregið taka undir þessa þáltill. og vænti þess, að hv. Alþingi afgreiði þetta mál skörulega og hæstv. ríkisstj. taki upp þann hátt að greiða niður íslenzkt korn til samræmis við það útlenda.