29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (3351)

57. mál, heyverkunarmál

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Mér heyrðist á hæstv. landbrh., sem var að tala hér, eins og honum væri heldur verr við það, að þessi till. næði hér samþykki, því að hann óttaðist, að bændasamtökin móðguðust eitthvað af þessu. Ég er alveg óhræddur um það. Ég held, að bændasamtökin muni fagna því, ef þessi till. yrði samþ. hér, því að með henni er verið að reyna að vinna í þá átt að bjarga miklum verðmætum fyrir bændastéttina og þjóðarbúið í heild, og auk þess er með þessari till. verið að leiða saman til athugunar á þessu stóra, þýðingarmikla máli einmitt þá aðila, sem helzt ættu að hafa aðstöðu til þess að geta fjallað um málið vegna þekkingar og reynslu, en það eru, eins og upp er talið í till., Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda, tilraunastöð háskólans í meinafræði á Keldum, tilraunaráð búfjárræktar, verkfaranefnd ríkisins og raforkumálaskrifstofan. Þessar stóru og merku stofnanir, sem flestar eru í þjónustu landbúnaðarins, það er farið fram á það með till., að þær tilnefni menn, sem geri athugun í þessu máli, og ég get ekki ímyndað mér, að bændasamtökin eða þær stofnanir, sem starfa á vegum landbúnaðarins, geti á nokkurn hátt móðgazt af þessari tili., heldur muni þær taka fegins hendi að fá þetta verkefni og gera till. um lausn á því. Þess vegna vil ég eindregið vænta þess, að þessi till. mæti velvilja þingsins og nái fram að ganga.