07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (3361)

59. mál, lýsishersluverksmiðja

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. ásamt 1. og 3. þm. Norðurl. e. og 1. þm. Austf., þess efnis að fela ríkisstj, að láta fara fram athugun á því, hvort ekki væri tiltækilegt og ráðlegt að reisa lýsisherzluverksmiðju hér á landi.

Við erum ósammála um ýmislegt, eins og gerist og gengur. Við deilum um, hvernig eigi að skipta þjóðartekjunum. Það verður vafalaust lengst af þannig, að það verða ekki allir ánægðir með, hvað þeir bera úr býtum fyrir sína vinnu. Það er eitt, sem við getum verið sammála um og erum sennilega, og það er að reyna að afla sem mestra verðmæta fyrir þjóðarheildina. Þjóðin er fámenn, og við erum ekki stórveldi á neinu sviði, en helzt er það þó, að við séum stórir hvað viðvíkur öflun sjávarafurða. Það er talið, að þorskafli heimsins hafi verið ári 1953 um 4 millj. smálesta og síldaraflinn hafi verið það sama ár í heiminum 6.5 millj. smálestar. Nú hefur sjávarafli Íslendinga í ár verið í kringum 630 þús. smálestir, og það mun ekki fjarri lagi, að við öflum um 1/20 hluta af heilda síldarafla heimsins og frá 1/15 —1/20 hluta af öllum þorskafla heimsins. Heildarsjávaraflinn var talinn árið 1953 27.1 millj. smálesta, er meiri nú, ég hef ekki nákvæma skýrslu um það, og það mun ekki fjarri lagi þess vegna, að við öflum í ár um 2% af heildarsjávarafla heimsins. Við sjáum, hversu gífurlega mikið magn þetta er miðað við fólksfjöldann, þegar það er athugað, að það er 1 Íslendingur af hverjum 16 þúsund, sem í heiminum búa.

Það er óhætt að segja það, að þetta eru þær mestu auðlindir, sem við eigum, og það er mikið vafamál, hvort annars staðar í heiminum eru meiri og betri fiskimið en hér, því að það er ekki eingöngu það, að mikill fiskur sé, heldur er það líka góður og verðmætur fiskur. Það gefur því auga leið, að eins og ástatt er nú, þá er það eitt höfuðskilyrði fyrir efnahagslegri afkomu okkar, að við reynum að koma sjávarafurðum okkar í sem bezt verð, förum sem bezt með þær og gerum þær á allan hátt sem verðmætastar. Það hagar þannig til með lýsisframleiðsluna hjá okkur, að hún er nú með mesta móti, og þegar hráefnið er selt óunnið, þá verða verðsveiflur gjarnan miklar. Verðfall hefur orðið á lýsinu, þannig að sem stendur munu ódýrari tegundir lýsis vera í kringum £ 40 tonnið, sem þýðir, að það er nálægt 5 kr. hvert kg af því lýsi, og hefur fallið talsvert á þessu ári. Vera má, að þetta sé á einhvern hátt klaufaskap þeirra að kenna, sem mest framleiða af lýsi. Í Evrópu eru það sérstaklega Norðmenn og Íslendingar, sem selja mikið af lýsi, vegna þess að sjávarafli þeirra er tiltölulega mjög mikill miðað við fólkstölu og notkun í þessum löndum. Perúmenn eru farnir að framleiða miklu meira lýsi en þeir gerðu. Nú framleiða þeir á annað hundrað þús. tonn. Norðmenn munu flytja út eitthvað talsvert á annað hundrað þús. tonn, og það er líklegt, að við Íslendingar þurfum að flytja út á þessu ári milli 50 og 60 þús. tonn. Þorskalýsið er nálægt 10 þús. tonnum. Síldarlýsið er sennilega nú á milli 30 og 40 þús. tonn. Svo kemur karfalýsið, sem er lítið raunar í ár, og hvallýsi. Norðmenn hafa tiltölulega verðmeira lýsi en við. Þeir hafa meira af hvallýsi, sennilega 20-30 sinnum meira en við, en við höfum aftur hlutfallslega meira af síldarlýsi.

Ég hef athugað dálítið hagskýrslur hjá Norðmönnum og Íslendingum viðvíkjandi þessu, og mér virðist, að Norðmenn fái meira verðmæti fyrir sitt lýsi heldur en við. Það liggur ef til vill að einhverju leyti í því, að þeir hafa betra lýsi, þar sem hvallýsið er, og það liggur einnig í því, að þeir munu vinna sitt lýsi meira. Hér er starfandi lýsisherzluverksmiðja, en í smáum stíl. Það mun vera hert lýsi til notkunar fyrir okkur hér innanlands sem svarar 700 lestum á ári. Ég hef átt tal við forstöðumann þessarar verksmiðju, og hann er einna kunnugastur sölu á unnu lýsi og lýsisvinnslu, eftir því sem kostur er hér á landi. Þessi verksmiðja eða þessir menn sjá einnig um kaldhreinsun á lýsi og selja það til margra landa. Við athugun, sem ég gerði á hagskýrslum Noregs og Íslands, sá ég, að Íslendingar selja kaldhreinsað lýsi til allt að því helmingi fleiri landa en Norðmenn, þannig að það er engin ástæða til að gera lítið úr starfi þessara manna. Ég hygg, að þeir hafi unnið að þessu af dugnaði og áhuga. En aðstaða þeirra hefur ekki verið betri en það, að þeim hefur ekki tekizt að herða og framleiða meira en þetta. En mér virðist Norðmenn samkvæmt hagskýrslum hafa fengið meira fyrir sitt lýsi. Það kemur ekki nákvæmlega fram í hagskýrslum Norðmanna, hvað er selt af hertu lýsi. Þeir dreifa því til um það bil 10 landa, þannig að það bendir til, að þar muni vera um hert lýsi að tala. Mér virðist á þessum skýrslum, að kaldhreinsað lýsi, sem Norðmenn selja, hefði á árinu 1960 selzt fyrir nálega 13 kr. hvert kg, en hjá okkur á rúmar 9 kr. Hvallýsið virðist mér Norðmenn hafa selt á kr. 7—7.50 þetta sama ár, en við á um kr. 5.70. Svo er lýsi, sem Norðmenn telja til skepnufóðurs, sem sennilega er úrgangur úr lýsi, og eru ódýrari tegundir, og það virðist mér Norðmenn fá fyrir um 8 kr., en við frá 5.50 til 6.20. Norðmenn virðast því eftir þessum hagskýrslum, og það er það eina, sem ég hef fyrir mér viðvíkjandi þessu verði, þá virðast þeir geta komið sínu lýsi í betra verð þetta ár. Þetta getur verið misjafnt, það getur verið betri sala hjá einu landi í ár og lakari að ári.

Norðmenn hafa herzlustöð og herða fyrir sig og talsvert fyrir aðra. Svíar hafa einnig herzlustöð fyrir sig, en flytja sennilega sama og ekkert út af hertu lýsi, enda hafa þeir miklu minni framleiðslu en við og Norðmenn, þannig að ég er ekki viss um, að þeir þurfi að flytja út lýsi í stórum stíl. Ég held, að það, sem við eigum að gera, það væri að nota þá þekkingu og þá aðstöðu, sem þeir menn hafa, sem hafa fengizt við lýsisvinnslu í einni eða annarri mynd, því að þekking þeirra og aðstaða er engan veginn lítils virði. Forstjóri þessarar lýsisherzluverksmiðju sagði mér, að hann gæti með litlum tilkostnaði aukið herzluna í 2500 lestir. Aðstaðan hér er tiltölulega góð við lýsisherzlu, vegna þess að áburðarverksmiðjan framleiðir vetnið. Ef mikið efnismagn þarf, þá gæti verið, að þurfi að stækka verksmiðjuna, en þetta skapar a.m.k. bætta aðstöðu viðvíkjandi lýsisherzlu hér.

Forstjórinn sagði mér einnig, að hann mundi geta stækkað sína verksmiðju með tiltölulega litlum kostnaði, þannig að hún gæti hert um 20 þús. lestir á ári. Hér er því fyrst og fremst um það að ræða að afla markaða fyrir hert lýsi, ef það reynist hagkvæmara en að selja það óunnið, og sennilega yrði helzt um markaði að tala í Austur-Evrópulöndunum, því að Unilever-hringurinn ræður að mestu yfir markaðnum í VesturEvrópu, og hann er sjálfsagt í samstarfi við hringa, sem sjá um sölu í Ameríku, þannig að þetta verður eitt hringakerfi. Ég býst við, að ef ætti að leita nýrra markaða fyrir hert lýsi, þá yrði það í Austur-Evrópu. Vitanlega yrði að þreifa sig áfram með þetta allt saman, en það er vitað, að eigi að selja slíkt hráefni til AusturEvrópu, þá verður ríkisstj. að vinna að því, að slíkir samningar séu gerðir, það er óframkvæmanlegt fyrir einstaklinga. Forstjórinn sagði mér, að hann hefði skrifað til Austur-Evrópu, en ekki fengið nein svör, og áleit tilgangslaust að reyna slíkt, nema ríkisstj. hlutaðist til um það eða sölumenn af hennar hendi. Vitanlega er ekkert hægt að fullyrða um, hvort það tekst, en reynandi er það.

Það, sem ég álít að eigi að gera viðvíkjandi þessum lýsismálum okkar, er að leita fyrir sér, hvort nokkrir möguleikar væru á að afla markaða, og styrkja þá menn, sem þegar eru farnir að fást við þetta, til þess að framleiða meira og nota þá tækniþekkingu, sem þeir hafa, til þess að framleiða sem bezta vöru. Það er vitað, að Unileverhringurinn ræður yfir meiri tæknilegri reynslu en aðrir í þessu efni, en það er engan veginn vitað, nema við gætum fengið að kynna okkur lýsisherzlu hjá Norðmönnum og Svíum, sem hafa talsverða tæknilega þekkingu viðvíkjandi lýsisherzlu og meðferð á lýsi, að svo miklu leyti sem þess gerist þörf. Það er t.d. talið mikils virði, að bræðslumarkið sé sem lægst. Forstjóri herzlustöðvarinnar hér sagði mér, að hann teldi ekki mikil vandkvæði á því, hann taldi bræðslumarkið vera uxu 42 gráður á Celsíus, en áleit, að það mundi fært að lækka bræðslumarkið ofan í 34–36 gráður.

Ég álít því, að frumskilyrðið sé að kynna sér, hvort ekki væri hægt að afla markaða fyrir hert lýsi og meira af hreinsuðu lýsi en þegar hefur verið gert.

1960 mun hafa verið selt lýsi fyrir yfir 300 millj. Þetta lýsismagn tilheyrði ekki algerlega því ári, vegna þess að það eru dálitlar sveiflur milli ára, það er geymt á milli ára, en með svipuðu verði yrði útflutningurinn sennilega engu minni nú en þá, þó að gert væri ráð fyrir, að talsvert af lýsi hefði verið frá því 1959, sem selt hefði verið á árinu 1960. Það, sem ríkisstj. gæti enn fremur gert, væri að lækka útflutningsgjöld á kaldhreinsuðu lýsi og saltsíld, því að þarna er um meira en hráefni að ræða. Viðvíkjandi saltsíldinni er hægt að benda á, að útflutningsgjöldin af hverri tunnu eru um 80 kr. eða jafnvei meira, ef um verðmæta síld er að ræða. Sama er að segja um hreinsaða lýsið, útflutningsgjöld eru greidd af umbúðum og vinnulaunum og það er ekki ósanngjarnt, að tekið sé tillit til þess viðvíkjandi útflutningsgjöldunum, þannig að heim aðilum, sem eru að reyna að gera þessar vörur verðmætari, sé gert léttara fyrir með því að leggja lægri útflutningsprósentur á vöruna.

Í þriðja lagi álít ég að ríkisstj. ætti að hlutast til um það, að reynt væri að gera samkomulag við þær þjóðir, sem framleiða mest af lýsinu, þannig að þær undirbyðu ekki hver aðra takmarkalaust. Mér hefur verið sagt af kunnugum, að það hafi náðst samkomulag við Perúbúa um að þeir undirbyðu okkur ekki jafngífurlega með fiskimjölstegund þá, sem þeir hafa til sölu, eins og þeir gerðu í byrjun. Það gefur auga leið, að þessar þjóðir hafa ekki nema skaðann af því að undirbjóða takmarkalaust. Perúmenn eru búnir að bæta lýsisframleiðslu sina og eru farnir að selja á annað hundrað þúsund smálestir. Við þá þarf að gera samning sem allra fyrst um að ekki sé undirboðið látlaust á heimsmarkaðinum. Sömuleiðis þyrfti að tala við Norðmenn um þessa hluti og aðra þá aðila, sem hafa mesta lýsisframleiðslu. Þetta ætti að gilda jafnt um lýsi og um mjöl. Það er ástæðulaust fyrir þá, sem framleiða hráefnið, að reyna ekki að hafa samtök sin á milli til þess að stilla í hóf verðsveiflum á því hráefni, sem þessar þjóðir afla og hinir aðilarnir kaupa. Ég er sannfærður um, að með því að vinna skynsamlega að þessum málum er hægt að meira eða minna leyti að koma í veg fyrir þær verðsveiflur, sem eru á þessari hráefnisframleiðslu, ef það er athugað í tíma og rétt að því farið. Og vitanlega mundu Norðmenn t.d. ekkert vinna við það að undirbjóða okkur með þessar vörur, og væri vafalaust hægt að komast að samkomulagi við þá.

Þetta eru aðeins nokkur atriði, sem ég hef drepið hér á sem ábendingar. Ég geri ráð fyrir, að þessari þáltill. verði vísað til n., og þá mundi ég óska þess, að henni yrði vísað til allshn., þar yrði þetta til athugunar. Væri eðlilegt, að orðalagi tillögunnar væri breytt, hún væri gerð víðtækari en hún er. Ég hygg, að ef við höfum getu og vilja til að vinna skynsamlega að því að vernda okkar fiskimið og koma þeim verðmætum, sem við höfum möguleika á að afla úr skauti sjávarins, í sem mest verðmæti, þá þurfi enginn að líða skort hér á landi.