07.02.1962
Sameinað þing: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3362)

59. mál, lýsishersluverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um þessa þáltill., áður en hún fer til nefndar. — Það er mjög ánægjulegt, að það skuli vera fram komin till. hér um að taka upp aftur baráttuna fyrir því, að Íslendingar reyni að koma sér upp sinni eigin lýsisherzluverksmiðju. Og það er rétt, þegar menn fara að undirbúa sig undir það átak, að menn hafi í hyggju þá reynslu, sem við höfum þegar í þessu efni.

Eins og getið er í grg., var með lögum frá 1942 ríkisstj. heimilað að reisa verksmiðju til herzlu síldarlýsis, og í tíð nýsköpunarstjórnarinnar var hafinn undirbúningur að því að gera þetta. Þáv. hæstv. sjútvmrh., Áki Jakobsson, lét þá kaupa til landsins aðaltækin, sem þarf til slíkrar lýsisherzluverksmiðju, þ.e. rafmagnssellur, katalýsatora og annað slíkt, sem þarf til þess að kljúfa vatnið og framleiða vatnsefnið. Það mun þá hafa kostað hátt á aðra millj. ísl. kr. eða sem nú mundi samsvara um 12 millj. kr., og byrjunin var gerð, og undirbúningur að því að reyna að afla sérfræðinga, sem er kannske eins erfitt og að afla tækjanna, var hafinn. Og það var búið að fá lóð hjá Siglufjarðarbæ til þess að reisa þessa lýsisherzluverksmiðju á. Og það var miðað við það, að slík lýsisherzluverksmiðja ætti að geta unnið úr 15 þús. smálestum af síldarlýsi, m.ö.o. að verulegur hluti að þáv. framleiðslu Íslendinga af síldarlýsi yrði unninn hér heima, þannig að við gætum selt lýsið ekki sem fljótandi vöru, heldur — ja, ég veit ekki, hvað ég á að kalla það — eins konar tólgarskildi næstum því, til hvaða smjörlíkis- og sápuverksmiðju í Evrópu sem væri. Þetta var allmikið, sem Ísland réðst í, enda var mikill stórhugur yfirleitt ríkjandi á þeim tíma, og það var vitanlegt, að einmitt þetta svið mundi verða eitt af þeim erfiðustu, þar sem við gátum reynt að gerast iðnaðarþjóð og hætt að vera bara hráefnaþjóð, vegna þess að á þessu sviði, hvað snertir að breyta feiti í fast efni, hafði Unilever-hringurinn, sem síðasti ræðumaður gat um, einokað allar lýsisherzluverksmiðjur í Vestur-, Norður- og Mið-Evrópu, eins og þær leggja sig. Ég man alveg sérstaklega eftir því, vegna þess að við lentum þá m.a. í þeim átökum, að í einu landi, sem mikil þjóðfélagsleg breyting varð í á þessum tíma, Tékkóslóvakíu, þar hafði fyrirtæki, sem var angi af Unilever, átt þær lýsisherzluverksmiðjur, sem voru þar í landi, og þær höfðu verið þjóðnýttar 1945 af ríkisstj. Tékkóslóvakíu. Það hafði orðið til þess, að Unilever-hringurinn setti bann á Tékkóslóvakíu að selja þangað lýsi. Það bann var brotið af nýsköpunarstjórninni 1945 með verzlunarsamningum, sem gerðir voru milli Íslands og Tékkóslóvakíu, og íslenzka ríkisstj. seldi þá til Tékkóslóvakíu lýsi fyrir eitthvað í kringum 100 sterlingspund tonnið. Tékkar höfðu hvergi getað fengið keypt lýsi vegna þess, hve járngreipar einokunarhringsins voru sterkar. Unilever hafði þá allt stríðið út í gegn ráðið verðinu á síldarlýsi frá Íslandi, og það var, ef ég man rétt, 38 sterlingspund tonnið. Þetta er smádæmi. Náttúrlega stendur sérstaklega á þar, en yfirleitt er það engum efa hundið, að einmitt þessi einkaeign Unilever-hringsins á lýsisherzluverksmiðjum í Norður-, Vestur- og Mið-Evrópu hefur gert þessum hring mögulegt að ráða mikið til verðinu á hráefninu, á lýsinu. Og þetta, sem Íslendingar réðust í á nýsköpunarstjórnartímanum, var að reyna að búa okkur undir að berjast á þessu sviði. 15 þús. tonn af lýsi hefðu verið mjög verulegur hluti.

Það er rétt, sem hv. frsm. gat um, við erum þó nokkurt stórveldi á sviði feitiframleiðslunnar. Hins vegar vissum við þá, að þó að Unilever eigi að vísu megnið af öllum smjörlíkis- og sápuverksmiðjum hæði í Englandi, Þýzkalandi og víðar, þá er til þó nokkuð mikið af sjálfstæðum smjörlíkis- og sápuverksmiðjum úti í heimi. Ég held t.d., að Finnland sé nokkurn veginn alveg óháð eða var a.m.k. síðast þegar ég vissi í þessum efnum, en átti hins vegar sjálft enga lýsisherzluverksmiðju. Og ef ég man rétt, þá hafa líka t.d. samvinnufélögin sænsku komið sér upp lýsisherzluverksmiðju, sem er náttúrlega alveg óháð hringnum. Það væri þess vegna ákaflega gott, ef við gætum lagt í það að taka upp baráttu á þessu sviði, gerast þarna sjálfstæðir iðnrekendur með lýsisherzlu og búa okkur undir það að selja okkar feitiskildi beint til sápu- og smjörlíkisverksmiðjanna. Og vafalaust er það svo, þó að þessi tök Unilevers séu svona gífurlega sterk, þá er þetta ekki 100% einokun, það er frá 70 upp í 90% einokunin í hinum ýmsu löndum VesturEvrópu, þannig að líka í Vestur-Evrópu ætti að vera hugsanlegt fyrir okkur að afla okkur markaða, en vafalaust mun þurfa alimikla baráttu til þess. Hvað Noreg snertir, þá er ég ákaflega hræddur um, að þar séu e.t.v. tök Unilevers einna sterkust, ekki aðeins viðvíkjandi lýsisherzlu, heldur líka viðvíkjandi sjálfum síldarverksmiðjunum, því að þeirra samtök voru mikið undir þeirra áhrifum hér áður, og eins og ég hef sagt áður frá, held ég, átti a.m.k. Unilever hér áður upp undir 50% í hvalveiðiflota Norðmanna, þannig að tök þeirra á hvallýsinu og verðmyndun á því voru tíka mjög sterk.

Eftir að búið var nú að kaupa inn þessar vélar og þannig búið að leggja á ýmsan hátt grundvöll að því að reyna að fara af stað með þetta 1946, þá hins vegar varð hér stjórnarbreyting, eins og kunnugt er. Sósfalistaflokkurinn, sem sjútvmrh. hafði tilheyrt, fór út úr ríkisstj. og Framsfl. tók við í ríkisstj., og það urðu allmiklu ríkari áhrif þess erlenda auðvalds í þeirri ríkisstj., sem þá tók við. A.m.k. var það svo með ýmislegt af því sem þá hafði verið undirbúið af hálfu nýsköpunarstjórnarinnar, að það var tafið eða eyðilagt. Á sama tíma og þetta hafði verið ákveðið með lýsisherzluverksmiðjuna, höfðu líka tunnuverksmiðjurnar eða undirbúningurinn undir að stofna þær verið settur undir sérstaka stjórn og enn fremur samkvæmt lögum ákveðið með sérstakri stjórn að koma upp síldarniðurlagningarverksmiðju. Annað var alveg drepið þá og er fyrst verið að lífga það við núna eftir 15 ár, og úr tunnuverksmiðjunum átti þá að draga mjög mikið, en tókst ekki að öllu leyti, svo að nokkuð hafa þær verið starfandi, þó að þær væru þá hins vegar settar undir stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem gafst ekki að öllu leyti vel. En um undirbúninginn að lýsisherzluverksmiðjunni fór svo, að það virtist ekki í þeim stjórnum, sem þá tóku við, vera áhugi fyrir þeim málum. Og það var ekki haldið áfram með þessa baráttu. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvað þar hefur komið til greina. Ég veit, að um það leyti var sett upp þessi litla stöð, sem hv. frsm. minntist á í sambandi við kaldhreinsunina, þar sem úrgangurinn úr lýsi var unninn, þannig að það væru til þar nokkur hundruð tonn af slíku hertu lýsi, sem hægt væri að nota sem iðnaðarfeiti, og sums staðar heyrði maður þá það hljóð, að það væri nóg að hafa gert þetta, víð þyrftum ekki að vera að hugsa um þessa stóru lýsisherzluverksmiðju. Og svo mikið er víst, að ekki var meira að gert í þessum efnum, og þær vélar, sem keyptar höfðu verið inn, lágu hér í nokkur ár og voru síðan seldar áburðarverksmiðjunni, þegar hún var reist. Ég veit ekki, hvort þær eru varavélar þar eða hvort þær eru hluti af áburðarverksmiðjunni núna.

Það er rétt fyrir þá nefnd, sem fær þetta til meðferðar, að hafa hliðsjón af þessari reynslu. Hvort Unilever hefur komið þarna við sögu, það veit ég ekki. Það er sterkur hringur, og það er oft erfitt að rannsaka hans vegi og hans aðferðir. En eitt er a.m.k. bezt að gera sér alveg ljóst, þegar maður leggur út í slíkt, að það sé rétt að vera við því búinn að eiga í nokkurri baráttu. Að vísu skal ég ekki aftaka það, ef ein þjóð, sem hefur eins sterka aðstöðu og Íslendingar í þessum efnum, ef við erum ákveðnir í því að vilja berjast á þessu sviði, að Unilever-hringurinn mundi þá ekki vera til í einhvers konar samstarf. Það er ómögulegt að segja. Og allt slíkt samstarf er náttúrlega alltaf hættulegt, af því að menn geta þá orðið háðir honum. En séu menn nógu ákveðnir í því að vera sjálfstæðir, þá getur vel verið, að sá hringur taki tillit til staðreyndanna, hann hefur oft sýnt sig í því, hann er á margan hátt þannig vafalaust, eða einn af þeim hringum heims, sem einna skynsamlegast er stjórnað. Hans vald hefur ekki minnkað síðan á árunum um 1945. Það hefur vaxið. Og það er e.t.v. engin tilviljun, að hv. frsm. kom hér inn á það, að það mundi vera nauðsynlegt, að við hráefnaframleiðendur í heiminum, Íslendingar, Perúmenn, Norðmenn og aðrir slíkir, reyndum að bindast einhverjum alþjóðlegum samtökum á móti auðhringunum í heiminum. Það mundi vissulega ekki af veita. En það getur þýtt, að það þurfi að svipta slíka auðhringa valdinu yfir því, sem er undirstaðan að þeirra valdi í þessum efnum, og það er eignarrétturinn á þeim verksmiðjum, lýsisherzluverksmiðjum og slíkum, sem þeir eiga. Og þá er maður farinn að nálgast ákaflega mikið það, sem kveinað er um af auðvaldsblöðum heimsins á nokkuð mörgum stöðum nú, að hinar svokölluðu fornu nýlenduþjóðir, eins og við eða aðrar slíkar, séu að svipta auðhringana eignum þeirra í löndunum. Það er vissulega sú þróun, sem er að ganga fyrir sig í heiminum, en hún mun vafalaust vera talin nálgast ískyggilega mikið það, sem almennt er kallað sósialismi. Það er náttúrlega líka alveg rétt, að það er eina leiðin, sem hægt er að hafa til slíkra samtaka þeirra vinnandi stétta og þjóða í heiminum á móti þessum voldugu auðhringum. Og vissulega mun það ekki hvað sízt eiga við um þær þjóðir í Afríku, sem nú eru að rísa upp, þar sem Unilever-hringurinn er þó margfalt sterkari en nokkurn tíma í Evrópu, með sínu United African Company, þar sem hann á eða ræður yfir megninu af allri þeirra framleiðslu á pálmaviðarolíu og öllu því feitmeti, sem þar er framleitt.

En eitt vildi ég að lokum benda þeirri hv. nefnd á, sem fær þetta til meðferðar, og það er, vegna þess að þegar við Íslendingar förum inn á þetta svið eða hugsum til þess að fara inn á þetta svið, að gerast iðnaðarþjóð, þá megum við, auk þess að vara okkur á auðhringunum, vara okkur ákaflega mikið á tækninni. Tækniþróun nútímans er svo hröð í þessum efnum, að við getum staðið uppi, fyrr en við vitum af, með úrelt tæki. Og við vitum það allir, eins og hefur verið minnzt á áður hjá okkur, að við höfum átt dálítið erfitt með ýmislegt af því, sem við höfum byrjað með í þessum efnum. Það er ekki nema eðlilegt, og yfir því er engin ástæða til þess að fjargviðrast eða því síður gefast upp. Aðalatriðið er, þegar maður verður fyrir þessum óhöppum, að reyna að læra af þeim. Ég býst við t.d. með áburðarverksmiðju nú, að það muni vera lagt niður í heiminum að framleiða áburð með rafmagni, þannig að það séu aðrar aðferðir, sem nú eru notaðar til þess, miklu ódýrari. Og hvað snertir þá aðferð, sem við gengum út frá að nota 1945 til hess að kljúfa vatnið með og framleiða vatnsefnið og annað slíkt, þá býst ég við, að þar séu að verða mjög miklar tæknilegar, efnafræðilegar breytingar á, sem þörf er á að fylgjast með í. Og það, sem er oft erfiðleikinn í þessum efnum, er, að þessir stóru auðhringar heimsins hafa í sinni þjónustu framúrskarandi góð laboratorium, sem sé efnarannsókna- og tilraunastöðvar. Ég man alltaf eftir því, hvað ég varð hissa á því, sem ég heyrði, að bara hringur, sem er einn af þeim smáu í þessum efnum, eins og Kodakhringurinn ameríski, skyldi nota álíka mikið bara til sinna tilraunastöðva eins og öll þjóðarframleiðsla Íslendinga er á ári. Þessir gífurlega stóru hringar hafa í sinni þjónustu marga af beztu vísindamönnum heims, geta eytt ógrynni fjár í sífelldar nýjar tilraunir, framkvæmdar af mönnum, sem standa á toppi þekkingarinnar hvað snertir efnafræði og alla tækni, og erfiðleikinn þess vegna oft fyrir þjóð eins og okkar að gerast iðnaðarþjóð í þessum efnum er að ráða yfir þessari þekkingu. Það mun venjulega útheimta, sérstaklega þegar menn eru eins smáir í þessu og við, nána samvinnu við aðra, sem hafa svipaðra hagsmuna að gæta, til þess að við kannske ekki allt í einu séum búnir að byggja einhverja verksmiðju, sem við svo uppgötvuðum eftir á, þegar við værum búnir að setja í hana mörg hundruð milljónir króna, að hafi raunverulega verið kannske orðin úrelt fyrir 5 eða 10 árum. Tækninni fleygir svo fram í heiminum, að á þessu sviði þarf maður að vera vel á verði. Ég skal ekkert fullyrða um það, að með því aðhaldi, sem smám saman er að skapast gagnvart hringunum í heiminum, líka t.d. á vegum Sameinuðu þjóðanna, og með þeirri tækniþekkingu, sem þær láta í té, þá væri ekki hægt að afla sér þeirrar vitneskju í þessum efnum, þannig að maður örugglega fylgdist með tímanum. Og ég vil taka ákaflega mikið undir það, að við tökum þessa till. alvarlega, það sé reynt að undirbúa það vel að ráðast í þessa hluti. Ég efast ekki um, að við þurfum langan og góðan undirbúning til þess. En ég álít, að það væri mjög heppilegt af þeirri nefnd, sem fær þessa tillögu til meðferðar, að samþykkja það að fela hæstv. ríkisstj, að vinna að slíku.