06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

73. mál, síldariðnaður á Austurlandi

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Það er kunnugt, að síldin hefur lengi verið áhrifamikil í íslenzku þjóðlífi. Hún hefur oft fært mikla fjármuni í þjóðarbúið, en stundum kannske líka litla. En þetta ár, sem nú er að líða, hefur verið gott síldarár, og þá jafnvel enn frekar en ella hugleiða menn, hve enn er um frumstæðar aðferðir að ræða við hagnýtingu síldarinnar. Þessi þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 94, lýtur að þessu atriði síldarmálanna, þ.e.a.s. betri hagnýtingu aflans, og það er hér talað fyrst og fremst um Austurland, þar sem síldin hefur mjög veiðzt þar og í vaxandi mæli nú ár frá ári.

Ég ætla ekki frekar en um hið fyrra mál að fjölyrða um þetta. Ég veit, að hv. alþm. eru allir sammála um, að hér er til mikils að vinna fyrir þjóðfélagið í heild, að nýta betur þetta mikilvæga hráefni, síldina, en að því lýtur þessi þáltill., sem hér liggur fyrir.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessi till. gangi einnig til allshn., þessari umræðu verði nú frestað og till. vísað til hv. allshn.