22.11.1961
Sameinað þing: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3386)

76. mál, bankaútibú á Húsavík

Flm. (Páll Kristjánsson):

Herra forseti. Með þáltill. þeirri á þskj. 98, sem við hér flytjum, ég og hv. 5. þm. Norðurl. e., er lagt til, að stofnað verði bankaútibú í Húsavík og þar með orðið við óskum Húsvíkinga í þessu efni. Fyrir þessu máli hefur verið mikill áhugi meðal þeirra, sem þar stunda atvinnurekstur og verzlun og nokkuð munu þeir hafa reynt fyrir sér um það að fá þessu framgengt, en án árangurs enn sem komið er.

Til viðbótar því, sem fram er tekið í grg., vil ég benda á það, að aðalatvinnuvegur Húsvíkinga er útgerð og í því sambandi fiskiðnaður og önnur vinnsla sjávarafla, þ. á m. síldarsöltun. Útgerð í Húsavík er í örum vexti, og enn fremur fer það nú vaxandi, að bátar frá öðrum stöðum sæki sjó frá Húsavík yfir sumarið og leggi upp afla sinn í Húsavík. Helzti fiskmóttakandi í Húsavík er Fiskveiðisamlag Húsavíkur. Hefur það fyrirtæki alloft á þessu ári legið með s,jávarafurðir upp á allt að 14 millj. kr. í einu, á milli þess sem afskipað hefur verið. Fjármagnsþörf útgerðarinnar er því orðin mikil og mun fara vaxandi, því að skilyrði til aukinnar útgerðar og aukins iðnaðar í því sambandi eru þarna fyrir hendi, Verða að sjálfsögðu þarna teknar upp veiðar, sem hafa ekki áður verið stundaðar, því að nú lítur t.d. út fyrir, að í Axarfjarðarflóa og kannski víðar séu rækjumið, en rækjuveiðar hafa ekki verið stundaðar, enda ekki um það vitað, að slík mið væru þarna í námunda.

Að Húsavík liggur allstórt viðskiptasvæði, er tekur yfir nærfellt sjö hreppa eða sveitarfélög. Er því Húsavík orðin allmikill verzlunarstaður. Mundi allt það viðskiptasvæði sækja bankaviðskipti til Húsavíkur, ef þar væri bankaútibú, auk þess sem ætla má, að Norður-Þingeyjarsýsla mundi að meira eða minna leyti sækja slík viðskipti til Húsavíkur. Á þessu viðskiptasvæði virðast vera skilyrði til nýsköpunar í iðnaði og öðrum atvinnurekstri meiri en viða annars staðar. Má þar til nefna hugmyndina um kísilgúrvinnslu við Mývatn. Og enn má minna á það, að óvíða munu meiri skilyrði til fóðuröflunar með þeim nýju aðferðum, sem nú virðast vera að ryðja sér til rúms, en einmitt á þessu svæði. Þar eru víðlend heiðalönd, sem bíða þess að verða brotin til ræktunar og hagnýtt til fóðuröflunar. Þörf þess svæðis, sem hér um ræðir, fyrir slíka þjónustu sem bankaútibú mundi veita, er nú þegar orðin mikil, og til hagnýtingar þeirra skilyrða, sem þar eru fyrir hendi til aukins atvinnurekstrar og beinnar nýsköpunar í þeim efnum, mundi bankaútibú, sem veitti alhliða þjónustu fyrir atvinnulífið, verða mikil lyftistöng. Ég vona því, að hv, þingmenn geti á það fallizt, að rétt sé að verða við óskum Húsvíkinga um stofnun bankaútibús þar.

Herra forseti. Ég legg til, að umræðunni verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.